Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 325. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 752  —  325. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Haraldi Benediktssyni
um snjómokstur á Vestfjörðum.


     1.      Hver er áætlaður kostnaðarauki við að halda úti snjómokstri alla daga vikunnar annars vegar á þjóðvegi 61 frá Vestfjarðavegi 60 til Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkur og hins vegar á þjóðvegi 60 til Vesturbyggðar og Tálknafjarðar?
    Áætlaður kostnaðarauki við að halda úti snjómokstri alla daga vikunnar á þjóðvegi 61 frá Vestfjarðavegi 60 til Súðavíkur ásamt leiðinni frá Djúpvegi að Drangsnesi er um 10 millj. kr. á ári en frá Súðavík er í dag sjö daga þjónusta til Ísafjarðar og Bolungarvíkur.
    Á þjóðvegi 60 frá Búðardal til Brjánslækjar, ásamt leiðinni frá Vestfjarðavegi að Reykhólum, er áætlaður kostnaðarauki við að halda úti snjómokstri alla daga vikunnar um 8 millj. kr. en frá Brjánslæk til Vesturbyggðar og Tálknafjarðar er í dag sjö daga þjónusta.
    Ekki er gert ráð fyrir hækkuðum þjónustuflokki með hálkuvörnum til jafns við t.d. hringveg frá Hvalfirði til Akureyrar, en meðalvetrarumferð á þessum langleiðum er innan við 50 bílar/sólarhring í Barðastrandarsýslum frá Djúpvegi til Patreksfjarðar og innan við 100 bílar/ sólarhring í Ísafjarðardjúpi frá Vestfjarðavegi að Súðavík.
    Viðmiðunarmörk vetrarumferðar fyrir hækkaðan þjónustuflokk eru 500 bílar/sólarhring. Verði sjö daga þjónusta til allra þéttbýlisstaða á Vestfjarðasvæðinu er áætlaður viðbótarkostnaður við að hækka þjónustustig um einn flokk a.m.k 150 millj. kr.
    Rétt er að taka fram að illmögulegt er að viðhalda tilætluðum hálkuvörnum vegna lítillar umferðar á þessum leiðum þar sem hálkuvarnarefni virka takmarkað til hálkueyðingar nema veruleg umferð sé til staðar.

     2.      Er stefnt að því að hafa snjómokstur alla daga vikunnar á þessum leiðum og hálkuverja þær til jafns við það sem gert er á þjóðvegi 1?
    Mikill halli er á fjárlagalið þjónustu við vegakerfið í heild, fyrst og fremst vegna mun meiri kostnaðar við vetrarþjónustu. Ekki er hægt að bæta þjónustu við einstakar leiðir meðan svo er. Líkt og fram kemur í nýframlagðri samgönguáætlun standa vonir til að fjárveitingar muni aukast frá og með næsta ári og gangi það eftir verða framangreindar leiðir meðal þeirra sem skoðaðar verða með tilliti til sjö daga moksturs.