Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 417. máls.

Þingskjal 756  —  417. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar,
nr. 78/1997, með síðari breytingum (aukin verkefni kirkjuþings).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Kirkjuþing setur nánari ákvæði í starfsreglur skv. 59. gr. um kirkjuaga innan þjóðkirkjunnar, lausn ágreiningsmála sem rísa kunna á kirkjulegum vettvangi og um agabrot, sbr. 1. mgr.

2. gr.

    12. og 13. gr. laganna, ásamt fyrirsögnum á undan greinunum, falla brott.

3. gr.

    Síðari málsliður 19. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
    Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þ.m.t. stjórn fjármála, nema lög mæli á annan veg. Nánari ákvæði um tilhögun á stjórn fjármála þjóðkirkjunnar skal kirkjuþing setja í starfsreglur skv. 59. gr.

5. gr.

    Orðin „ákvarðanir úrskurðar- og áfrýjunarnefnda skv. 12. og 13. gr., svo og“ í 2. málsl. 2. mgr. 26. gr. laganna falla brott.

6. gr.

    2. og 3. mgr. 27. gr. laganna falla brott.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
            Almenn skilyrði til skipunar eða setningar í prestsembætti eru þessi:
              1.      Meistara- eða kandídatspróf í guðfræði frá Háskóla Íslands eða háskólapróf í guðfræði sem metið verður því jafngilt.
              2.      Áður en kandídat hlýtur vígslu skal hann hafa hlotið starfsþjálfun samkvæmt nánari ákvæðum í starfsreglum, sbr. 59. gr.
              3.      Kandídat sé við upphaf starfa síns sóknarmaður í þjóðkirkjunni nema samkirkjulegar samþykktir heimili annað.
              4.      Kandídat sé lögráða og hafi til að bera nauðsynlegt heilbrigði, andlegt og líkamlegt, til að gegna starfanum.
              5.      Kandídat hafi ekki gerst sekur um athæfi sem ætla má að rýri álit hans og sé ósamboðið manni í prestsstarfi.
     b.      2. mgr. fellur brott.

8. gr.

    Í stað 3. og 4. málsl. 2. mgr. 40. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hljóti tillagan meiri hluta gildra atkvæða skal hún send biskupi Íslands.

9. gr.

    Orðin „sbr. þó 12. og 13. gr.“ í 1. mgr. 61. gr. laganna falla brott.

10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2015.

11. gr.
Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um Kristnisjóð o.fl., nr. 35/1970, með síðari breytingum: 23. gr. laganna orðast svo:
                  Þjóðkirkjan hefur á hendi umsjá og stjórn kristnisjóðs. Kirkjuþing setur nánari reglur um framkvæmdina í starfsreglur, sbr. 59. gr. laga nr. 78/1997.
                  Reikningsleg endurskoðun skal framkvæmd af Ríkisendurskoðun.
     2.      Lög um kirkjumálasjóð, nr. 138/1993, með síðari breytingum:
              a.      Í stað „11,3%“ í 2. gr. laganna kemur: 14,3%.
              b.      3. og 4. gr. laganna falla brott.
              c.      5. gr. laganna orðast svo:
                     Þjóðkirkjan hefur á hendi umsjá og stjórn kirkjumálasjóðs. Kirkjuþing setur nánari reglur um framkvæmdina í starfsreglur, sbr. 59. gr. laga nr. 78/1997.
                     Reikningsleg endurskoðun skal framkvæmd af Ríkisendurskoðun.
     3.      Lög um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, með síðari breytingum: 7. gr. laganna orðast svo:
                  Þjóðkirkjan hefur á hendi umsjá og stjórn Jöfnunarsjóðs sókna. Kirkjuþing setur nánari reglur um framkvæmdina í starfsreglur, sbr. 59. gr. laga nr. 78/1997.
                  Reikningsleg endurskoðun skal framkvæmd af Ríkisendurskoðun.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Endurskoðun laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, hefur staðið yfir frá árinu 2007, en þá kaus kirkjuþing nefnd til þess verks. Á kirkjuþingi 2012 var síðan kosin milliþinganefnd, skipuð fimm fulltrúum á kirkjuþingi, sem lagði fram frumvarp að nýjum þjóðkirkjulögum á kirkjuþingi 2013. Það frumvarp hefur ekki hlotið afgreiðslu enda málið umfangsmikið og mörg sjónarmið uppi um ýmsa þætti þess. Það er því óvíst hvort og þá hvenær Alþingi samþykki ný þjóðkirkjulög. Fram hefur komið á kirkjuþingi að brýna nauðsyn beri til að breyta tilteknum atriðum í núgildandi lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, til einföldunar og hagræðingar í rekstri þjóðkirkjunnar, auk fleiri þátta. Telur kirkjuþing að slíkar breytingar þyrftu að ná fram að ganga hið fyrsta. Í því skyni flutti kirkjuráð á kirkjuþingi 2013 tillögu að þeim lagabreytingum sem í þessu frumvarpi felast. Er það mat kirkjuráðs að auðveldara og fljótlegra sé að tryggja framgang slíks máls heldur en heildarfrumvarps til nýrra þjóðkirkjulaga. Kirkjuþing samþykkti frumvarpið með nokkrum breytingum og beindi kirkjuráð þeim tilmælum í kjölfarið til innanríkisráðherra, með vísun til 3. mgr. 23. gr. laganna, að hann legði fyrir Alþingi hið fyrsta frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, í samræmi við tillögu sem samþykkt var á kirkjuþingi.
    Í samræmi við tilmæli kirkjuþings hefur frumvarp þetta verið unnið í innanríkisráðuneytinu, en ráðuneytið lagði til nokkrar orðalagsbreytingar og breytingar á uppsetningu þess frumvarps sem kirkjuráð flutti. Frumvarpið felur í sér nokkrar breytingar á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, með síðari breytingum. Breytingarnar snúa m.a. að því að styrkja kirkjuþing og skýra stöðu þess betur og að færa stjórn fjármála þjóðkirkjunnar til kirkjuþings. Einnig eru lagðar til nokkrar aðrar breytingar.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Endurskoðun laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, hefur staðið yfir um nokkurn tíma en ekki hlotið afgreiðslu á kirkjuþingi enda málið umfangsmikið. Með setningu núgildandi laga var sjálfstæði kirkjunnar aukið verulega. Talið er brýnt að halda því starfi áfram og veita kirkjuþingi auknar heimildir til að setja starfsreglur um ýmis atriði í stjórnskipan kirkjunnar, sem áður hafa verið bundin í lög. Í þeim tilgangi að styrkja stöðu kirkjuþings, skýra stöðu þess betur og færa m.a. stjórn fjármála til þingsins telur kirkjuþing að tilteknar breytingar þurfi að ná fram að ganga hið fyrsta.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi er lagt til að kirkjuþing setji ákvæði í starfsreglur um kirkjuaga innan þjóðkirkjunnar, lausn ágreiningsmála sem rísa kunna á kirkjulegum vettvangi og um agabrot, en þetta eru málefni sem biskup Íslands hefur yfirumsjón með skv. 11. gr.
    Í öðru lagi er í tengslum við setningu starfsreglna skv. 11. gr. lagt til að felld verði brott ákvæði 12. og 13. gr. um úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar.
    Í þriðja lagi er lagt til að ákvæði um tiltekin verkefni biskupafunda verði felld brott úr lögum en það tengist tilgangi laganna um að styrkja stöðu kirkjuþings.
    Í fjórða lagi er lagt til að ákvæði um stöðu kirkjuþings verði gert skýrara þannig að ekki fari á milli mála að þingið fari með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar nema lög mæli sérstaklega annan veg. Einnig er lagt til að það skref verði stigið að stjórn fjármála færist til kirkjuþings, enda talið eðlilegt að handhafi æðsta valds innan kirkjunnar stýri þeim fjármunum sem ætlaðir eru til rekstrar kirkjunnar.
    Í fimmta lagi eru lagðar til lítils háttar breytingar á skilyrðum til skipunar eða setningar í prestsembætti.
    Aðrar breytingar sem lagðar eru til eru nauðsynlegar vegna samhengis við helstu tillögur frumvarpsins.
    Um meginatriði frumvarpsins vísast nánar til skýringa í athugasemdum við einstakar greinar.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Að mati ráðuneytisins eru breytingar þessar ekki í andstöðu við ákvæði í stjórnarskrá er lúta að þjóðkirkju eða trúfrelsi í landinu. Þar sem frumvarpið lýtur að breytingu á löggjöf þjóðkirkjunnar kallar hún ekki á sérstaka skoðun vegna alþjóðlegra skuldbindinga.

V. Samráð.
    Ákvæði frumvarpsins snerta fyrst og fremst starfsemi þjóðkirkjunnar og er það lagt fram skv. 3. mgr. 23. gr. laganna að tilmælum kirkjuþings. Í samráði við kirkjuyfirvöld lagði ráðuneytið til nokkrar orðalagsbreytingar og breytingar á uppsetningu frumvarpsins og á grundvelli þeirrar vinnu hefur frumvarp þetta verið samið í ráðuneytinu.

VI. Mat á áhrifum.
    Með fyrirhuguðum breytingum um að kirkjuþing setji starfsreglur um tiltekin málefni fremur en að þau séu bundin í lög er unnið að auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar. Þá hefur kirkjan bent á að gera megi ráð fyrir að niðurlagning úrskurðarnefndar og áfrýjunarnefndar leiði til sparnaðar en nefndirnar hafa kostað töluverða fjármuni auk þess sem verksvið þeirra sé ekki alls kostar skýrt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 11. gr. laga nr. 78/1997 er ákvæði um að biskup Íslands hafi yfirumsjón með kirkjuaga innan þjóðkirkjunnar og beiti sér fyrir lausn ágreiningsefna sem rísa kunna á kirkjulegum vettvangi auk þess að geta gripið til þeirra úrræða vegna agabrota sem lög og kirkjuhefð leyfa. Lagt er til að við 11. gr. bætist ný málsgrein þar sem skýrt er tekið fram að kirkjuþing skuli setja nánari ákvæði um þessi málefni í starfsreglur skv. 59. gr. laganna. Er þetta m.a. lagt til í tengslum við tillögu þá sem fram kemur í 2. gr. frumvarpsins um að úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd skuli lagðar niður. Þó svo að þær verði lagðar niður er ávallt unnt að bera þau mál sem heyra undir nefndirnar undir biskup Íslands og er það í anda laganna og sjálfstæði kirkjunnar að kirkjuþing ákveði reglur um hvernig með þessi mál skuli fara. Vísast nánar til þess er fram kemur í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Hér eru lagðar til þær breytingar að ákvæði um úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd, sbr. 12. og 13. gr. laganna, verði felld brott. Undir úrskurðarnefndina er unnt að bera ágreining sem rís á kirkjulegum vettvangi eða ef starfsmaður þjóðkirkjunnar er borinn sökum um siðferðis- eða agabrot. Í þeim tilvikum getur hver sá sem hagsmuna á að gæta borið málið undir úrskurðarnefndina, og skjóta má niðurstöðum hennar til áfrýjunarnefndar. Er talin þörf á að gera breytingar á reglum um það hvernig taka skuli á agamálum er heyra undir úrskurðarnefndina og áfrýjunarnefndina þar sem m.a. hefur ekki verið alls kostar ljóst hvaða mál heyri undir úrskurðarnefnd skv. 12. gr. og hvaða mál heyri undir agavald biskups Íslands skv. 11. gr. Einnig hefur komið upp ágreiningur milli úrskurðarnefndar og áfrýjunarnefndar um það hvort mál heyri undir nefndina eða ekki. Með því að leggja nefndir þessar af og setja í staðinn starfsreglur um úrræði vegna aga- og siðferðisbrota telja kirkjuyfirvöld að unnt verði að skerpa á því í hvaða farveg kvörtunar- og kærumál eigi að fara. Einnig er talið að niðurlagning nefndanna muni leiða til hagræðingar í rekstri þjóðkirkjunnar. Er þá gert ráð fyrir að starfsreglur um agamál og lausn ágreiningsmála innan kirkjunnar verði samdar á þessu ári svo unnt verði að beita þeim við gildistöku laganna. Eldri starfsreglur, nr. 730/1998, með síðari breytingum, verði á sama tíma felldar niður.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að felld verði úr 19. gr. ákvæði um að biskupafundur búi m.a. þau mál er varða kenninguna, helgisiði og helgihald í hendur prestastefnu og geri tillögur um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma, sbr. 50. gr. Tillögur um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma geta einnig komið frá sóknarmönnum eða á kirkjuþingi og er það talið í samræmi við þann tilgang frumvarpsins að styrkja stöðu kirkjuþings, að fella út það ákvæði að biskupafundur leggi fram þessar tillögur.

Um 4. gr.

    Lagt er til að í stað orðanna „innan lögmæltra marka“ í 1. mgr. 20. gr. komi orðin „nema lög mæli á annan veg“. Hér er fyrst og fremst um orðalagsbreytingu að ræða en ekki breytingu á merkingu þeirra. Talið er að orðalagið sem nú er lagt til sé skýrara og að ekki fari þá á milli mála að kirkjuþing fari með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, nema annað sé sérstaklega tekið fram með skýrum hætti í lögum.
    Að fara með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar felur í raun í sér að stjórn fjármála sé einnig eitt af ábyrgðarsviðum þingsins, en hér er lagt til að það verði lögfest til að taka af allan vafa að það vald sé hjá kirkjuþingi. Þingið getur þannig ákveðið skiptingu þess fjár sem til ráðstöfunar er á hverjum tíma. Í dag eru ákvarðanir um ráðstöfun fjár til einstakra verkefna á hendi kirkjuráðs. Rétt þykir að skerpa að þessu leyti skil milli kirkjuþings og kirkjuráðs. Til samræmis er lagt til að breytt verði ákvæðum laga um Kristnisjóð o.fl., nr. 35/1970, laga um kirkjumálasjóð, nr. 138/1993, og II. kafla laga um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, að því er varðar jöfnunarsjóð sókna, sbr. athugasemdir við 11. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að kirkjuþingi verði falið að setja reglur um þau mál.
    Í samræmi við löggjöfina er lagt til að kirkjuþing setji starfsreglur um tilhögun á stjórn fjármála, sbr. 59. gr.

Um 5. gr.

    Í samræmi við tillögu sem fram kemur í 2. gr. frumvarpsins um að úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd verði felldar niður er hér lagt til að fellt verði úr 2. málsl. 2. mgr. 26. gr. ákvæði um að ákvarðanir þeirra séu undanskildar málskoti til kirkjuráðs, þar sem það á ekki við verði nefndirnar lagðar niður.

Um 6. gr.

    Í samræmi við tillögu þá er fram kemur í 3. gr. frumvarpsins um að kirkjuþing setji starfsreglur um tilhögun á stjórn fjármála er lagt til að 2. og 3. mgr. 27. gr. falli brott til að tryggja að stjórn fjármála færist að öllu leyti til kirkjuþings. Núgildandi ákvæði kveða á um að kirkjuráð undirbúi af hálfu þjóðkirkjunnar tillögur til fjárveitinga til hennar af fjárlögum og að kirkjuráð hafi yfirumsjón með ráðstöfun fjár sem veitt er af opinberri hálfu til kirkjulegrar starfsemi.

Um 7. gr.

    Lagt er til að efni 1. og 2. mgr. 38. gr. verði sameinað í eina málsgrein sem verði 1. mgr. Efnisbreytingar sem lagðar eru til á 1. mgr. 38. gr. eru fáeinar. Lagt er til að fellt verði brott ákvæði núgildandi 1. tölul. 38. gr. um aldursskilyrði kandídats í prestsembætti, sem er 25 ár. Er talið óraunhæft að hafa þetta skilyrði fyrir umsókn auk þess sem biskup hefur getað veitt undanþágu frá ákvæðinu.
    Í 1. tölul. a-liðar er í samræmi við lög um háskóla, nr. 63/2006, lagt til að skilyrði um prófgráðu kandídata um prestsembætti verði „meistara- eða kandídatspróf“ í guðfræði frá Háskóla Íslands eða háskólapróf í guðfræði sem metið verður því jafngilt. Ekki er lengur talað um embættispróf í lögum um háskóla og í samræmi við það er lögð til þessi breyting á orðalagi, sem felur ekki í sér efnisbreytingu. Þó að það sé góð vinnuregla að biskup Íslands leiti álits Háskóla Íslands um önnur próf en tilgreind eru í ákvæðinu eru ekki talin efni til að lögbinda það, sbr. 6. tölul. 2. mgr. 4. gr. og 6. tölul. 2. mgr. 12. gr. laga um dómstóla, nr. 15/1998, er varðar menntunarkröfur til embættis hæstaréttar- og héraðsdómara.
    Í 3. tölul. er lagt til að komi nýtt ákvæði þar sem segir að kandídat í prestsembætti sé við upphaf starfa síns sóknarmaður í þjóðkirkjunni, nema samkirkjulegar heimildir heimili annað. Rétt þykir að áskilja að sá sem er skipaður eða settur í prestsembætti í þjóðkirkjunni sé skráður í þjóðkirkjuna eigi síðar en við upphaf starfa síns. Þó gætu samkirkjulegar samþykktir sem þjóðkirkjan hefur undirgengist veitt undanþágu frá þessu, svo sem samkomulag milli íslensku þjóðkirkjunnar annars vegar og lútersku þjóðkirknanna á Norðurlöndum, í Eystrasaltslöndunum og anglikanskra kirkna á Bretlandseyjum (Porvoo-samkomulagið) sem felur í sér gagnkvæma viðurkenningu á embættum presta og biskupa.
    Í 4. tölul. er lagt til að komi nýtt ákvæði um að kandídat sé lögráða og hafi til að bera nauðsynlegt heilbrigði, andlegt og líkamlegt, til að gegna starfanum. Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.
    2. og 5. tölul. eru óbreyttir að efni til.

Um 8. gr.

    Ákvæði 40. gr. er óbreytt að öðru leyti en því að lagt er til að tveir síðustu málsliðir verði felldir brott, en í þeim koma fram reglur sem gilda ef tillaga kemur fram í söfnuði um að embætti prests skuli auglýst laust til umsóknar. Í næstsíðasta málslið segir að þá skuli leita álits úrskurðarnefndar skv. 12. gr. með atbeina biskups Íslands áður en kjörmenn eða aðrir sambærilegir aðilar afgreiða tillögu þar að lútandi. Í síðasta málslið segir að kjósi meiri hluti kjörmanna að embættið verði auglýst skuli sú samþykkt send biskupi Íslands til samþykktar. Í samræmi við 2. gr. þessa frumvarps um að úrskurðarnefnd verði felld niður er hér lagt til að ákvæði um hana falli brott úr 40. gr. Í stað þessara tveggja málsliða er nú lagt til að hljóti tillagan meiri hluta gildra atkvæða á safnaðarfundi skuli hún send biskupi Íslands. Talið er nauðsynlegt að taka skýrt fram að meiri hluti gildra atkvæða þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni þurfi að vera fylgjandi tillögunni þar sem annars er unnt að líta svo á að auðir seðlar og aðrir ógildir geti verið túlkaðir sem andvígir tillögunni að þessu leyti.

Um 9. gr.
    Tillaga um að tilvísun í 61. gr. til 12. og 13. gr. verði felld brott er í samræmi við tillögu 2. gr. frumvarpsins um að úrskurðar- og áfrýjunarnefndir verði lagðar niður. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 10. gr.

    Þar sem í frumvarpinu felst að kirkjuþing skuli setja starfsreglur í tengslum við nokkrar af þeim breytingum sem fram koma í frumvarpinu er lagt til að verði frumvarpið að lögum skuli þau öðlast gildi 1. janúar 2015 svo að unnt verði að setja nýjar starfsreglur vegna næsta kirkjuþings 2014.

Um 11. gr.

    Til að stjórn fjármála færist til kirkjuþings er nauðsynlegt að breyta löggjöf um Kristnisjóð o.fl., kirkjumálasjóð og II. kafla um Jöfnunarsjóð sókna í lögum um sóknargjöld o.fl. á þann veg að brott falli ákvæði um stjórn kirkjuráðs yfir þeim sjóðum. Í staðinn er lagt til að þjóðkirkjan hafi umsjón og stjórn þessara sjóða og að kirkjuþing setji nánari reglur um framkvæmdina í starfsreglur.
    1. og 3. tölul. þarfnast ekki skýringa en breytinguna leiðir af brottfalli á ákvæði um stjórn kirkjuráðs yfir þeim sjóðum.
    Í 2. tölul. er í a-lið lagt til að lögboðið hlutfall þess gjalds sem ríkissjóður greiðir í kirkjumálasjóð, samkvæmt lögum um kirkjumálasjóð, verði samræmt því samkomulagi sem gert var milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um prestssetur og afhendingu þeirra þann 20. október 2006, sbr. 4. gr. samkomulagsins. Þar kemur m.a. fram að íslenska ríkið hækki árlegt framlag sitt til kirkjumálasjóðs og að það verði 14,3% frá 1. janúar 2007. Láðst hefur að breyta þessu ákvæði í lögum um kirkjumálasjóð í samræmi við samkomulagið. Í b- og c-lið er lagt til að 3. og 4. gr. laga um kirkjumálasjóð verði felldar brott þar sem einnig láðist að fella þær niður í framhaldi af framangreindu samkomulagi þegar prestssetrasjóður var lagður niður með lögum nr. 82/2007 og kirkjumálasjóður tók við verkefnum sjóðsins.



Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn
og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997 (aukin verkefni kirkjuþings).

    Meginmarkmið frumvarpsins er að auka sjálfstæði þjóðkirkjunnar, færa fjárstjórnarvald þjóðkirkjunnar til kirkjuþings, styrkja ákvörðunarvald kirkjuþings um skipan mála kirkjunnar og skýra stöðu þess betur.
    Þær breytingar sem varða kirkjuþing miða að því að færa ákvörðunarvald og verkefni til kirkjuþings. Ákvæði um að kirkjuþing sé æðsta vald þjóðkirkjunnar eru gerð skýrari og stjórn fjármála þjóðkirkjunnar eru færð til kirkjuþings. Þá er lagt til að í stað úrskurðarnefndar og áfrýjunarnefndar sem fjalla um kærumál samkvæmt gildandi lögum setji kirkjuþing starfsreglur um kirkjuaga vegna mála sem koma fram á kirkjulegum vettvangi. Þá eru tiltekin verkefni biskupafunda færð til kirkjuþings. Einnig eru í frumvarpinu lagðar til breytingar sem varða skilyrði vegna skipunar eða setningar í prestsembætti. Að lokum eru lagðar til breytingar á öðrum lögum sem talið er að séu nauðsynlegar vegna samhengis við helstu tillögur frumvarpsins.
    Þjóðkirkjan er sjálfseignarstofnun en fær fjárveitingar samkvæmt fjárlögum. Fjárheimildirnar byggjast annars vegar á samkomulagi milli ríkisins og kirkjunnar frá árinu 1997 um afhendingu jarða og ýmissa eigna kirkjunnar á móti framlögum til hennar. Fjárheimildir á grundvelli samkomulagsins eru ætlaðar til að greiða rekstrarkostnað Biskupsstofu, laun presta, vígslubiskupa og biskups auk fleiri verkefna. Hins vegar eru framlög til kirkjunnar í formi sóknargjalda sem eru þrískipt. Í fyrsta lagi eru það almenn sóknargjöld sem greidd eru fyrir hvern einstakling sem er 16 ára og eldri í lok næstliðins árs. Í öðru lagi er um að ræða 18,5% viðbótarálag á sóknargjöld þjóðkirkjusafnaða sem rennur í Jöfnunarsjóð sókna og í þriðja lagi fær þjóðkirkjan 14,3% viðbótarálag á sóknargjöld sem renna í Kirkjumálasjóð. Í lögum um Kirkjumálasjóð eru ákvæði um ráðstöfun á honum til sex tilgreindra verkefna kirkjunnar. Við ráðstöfun framlaga í fjárlögum er þjóðkirkjan þannig bundin fyrir fram af talsvert mikilli afmörkun á fjármögnun einstakra rekstrarþátta. Þetta fyrirkomulag hefur á sinn hátt takmarkað möguleika kirkjunnar á að hagræða og endurskipuleggja í rekstri sínum og að gæta hagkvæmni við ráðstöfun fjárframlaga sinna. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að ákvæði um verkefnabundin útgjöld Kirkjumálasjóðs falli niður og að þar með fái þjóðkirkjan aukið svigrúm við ráðstöfun fjárheimildanna. Auk þess munu fjármunir sparast með niðurlagningu nefnda vegna kærumála. Þetta tvennt ætti að veita þjóðkirkjunni meira svigrúm en hún hefur samkvæmt gildandi lögum til að aðlaga starfsemi og rekstrarumfang með tilliti til aðhaldsmarkmiða í fjárlögum undanfarinna ára.
    Lögfesting frumvarpsins ætti því að hafa jákvæð áhrif á fjármálastjórn þjóðkirkjunnar en hefur þó ekki áhrif á framlög til hennar úr ríkissjóði.