Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 458. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 804  —  458. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um fríverslunarsamning við Japan.


Flm.: Össur Skarphéðinsson, Katrín Júlíusdóttir, Helgi Hjörvar, Kristján L. Möller, Valgerður Bjarnadóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja þegar í stað undirbúning að gerð fríverslunarsamnings við Japan og notfæra sér þannig nýlega opnun Japana á gerð slíkra samninga.
    Leitast verði við að gera samkomulag í tengslum við samninginn um reglulega samráðsfundi milli ríkjanna þar sem aðilar vinnumarkaðarins eigi m.a. fulltrúa. Á þeim verði tekin til samráðs mál er samningsaðilar óska og geta m.a. varðað hvaðeina sem lýtur að því að vernda rétt launamanna og umhverfi og stuðlar að sjálfbærri þróun í framleiðslu og viðskiptum.


Greinargerð.

    Japanir hafa á síðustu árum, líkt og margar þjóðir, brugðist við töfum á Doha-ferlinu með því að ráðast í röð fríverslunarsamninga (e. economic partnerships). Það er liður í einbeittri viðleitni Japana til að styrkja samkeppnishæfni sína. Nú þegar hefur japanska ríkið lokið þrettán slíkum samningum við ríki og ríkjabandalög. Viðræður standa yfir um gerð sjö samninga.
    Nánar tiltekið þá lauk Japan við gerð fyrsta tvíhliða fríverslunarsamnings síns við Singapúr árið 2000. Í mars 2004 lauk viðræðum um fríverslunarsamning við Mexíkó. Síðan hefur hver samningur rekið annan. Skrifað var undir samninga við Malasíu (2004), Filippseyjar (2006), Indónesíu (2007), Chile (2007), Tæland (2007), Brunei (2007), ASEAN sem heild (2008), Víetnam (2008), Sviss (2009), Indland (2011) og Perú (2011).
    Athygli vekur að eitt EFTA-ríkjanna, Sviss, lauk gerð tvíhliða samnings við Japan fyrst evrópskra ríkja, og tók samningurinn gildi árið 2008. Af honum er góð reynsla að mati Svisslendinga.
    Í hópi þeirra ríkja og ríkjabandalaga sem Japan vinnur nú að tvíhliða samningum við eru efnahagsleg stórveldi á borð við Evrópusambandið, auk einstakra ríkja, svo sem Kóreu, Kanada og Ástralíu. Þá eru hafnar undirbúningsviðræður m.a. við Alþýðulýðveldið Kína.
    Einu gildir að mati flutningsmanna hvort utanríkisráðherra beiti sér fyrir að fríverslun við Japan verði tryggð fyrir atbeina EFTA í hefðbundnum samningum eða ráðist verði í gerð tvíhliða samnings milli ríkjanna.
    Á vefsíðu japanska utanríkisráðuneytisins er hinni nýju stefnu lýst með þeim orðum að ríkisstjórn Japans hafi einsett sér að opna landið og ryðja brautina til nýrrar framtíðar. Stjórnvöld muni taka stór skref fram á við og stuðla að gerð fríverslunarsamninga við stór verslunarveldi sem muni standast samanburð við það hvernig önnur slík viðskiptasambönd hafa þróast. Á sama tíma muni Japan vinna að grundvallarumbótum heima fyrir í því skyni að styrkja samkeppnishæfni sína svo hægt verði að ráðast í efnahagslegt samstarf af þessum toga.
    Í pólitískri stefnu, sem birt er á heimasíðunni „Basic Policy on Comprehensive Economic Partnerships“ (nóvember 2010), er tekið fram að Japan sækist sérstaklega eftir samningum við þjóðir sem hafa miklar auðlindir innan vébanda sinna. Ísland, sökum fiskimiða og orkuauðlinda, fellur í þann flokk. Á báðum sviðum hafa löndin átt farsælt viðskiptasamband. Japan hefur verið mikilvægur innflytjandi íslensks fiskfangs og þar hafa þróast markaðir fyrir nýja framleiðslu frá Íslandi, svo sem loðnuhrogn. Japan hefur sömuleiðis tekið mikilvægan þátt í uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Íslandi í 30 ár með því að útvega Íslendingum alla hverfla sem nú eru starfræktir í íslenskum orkuverum, og í mörgum tilvikum útvegað hagstætt fjármagn til kaupa á þeim. Þá er ógetið, að í kjölfar kjarnorkuslyssins í Fukushima er vaxandi áhugi í Japan á að nýta þá tækni sem Íslendingar hafa þróað á allra síðustu árum til að virkja betur jarðhita sem víða er þar að finna.
    Í tíð síðustu ríkisstjórnar var lögð sérstök rækt við gerð ívilnandi viðskiptasamninga við Asíulönd. Þannig var Ísland fyrsta Evrópulandið sem lauk tvíhliða fríverslunarsamningi við Alþýðulýðveldið Kína, en hann var undirritaður árið 2013. Tveimur árum fyrr, 2011, undirritaði Ísland ásamt EFTA-löndunum samning um fríverslun við Hong Kong. Sama ár hóf Ísland í gegnum EFTA fríverslunarviðræður við Indónesíu, ári síðar við Víetnam og samstarfsyfirlýsing við Pakistan um efnahagsleg samskipti var undirrituð sama ár. Á síðasta kjörtímabili voru einnig á vettvangi EFTA lögð drög að viðræðum við Myanmar og Malasíu, en viðræður við síðara ríkið eru nýhafnar. Viðræður um fríverslun við Japan eru í sama anda og þjóna þeim tilgangi að stækka Asíugáttina.
    Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands nam verðmæti útflutnings Íslands til Japans árið 2012 tæpum 13 milljörðum kr. Á sama tímabili nam verðmæti innflutnings frá Japan til Íslands tæpum 9 milljörðum kr. Þessar tölur sýna svo ekki verður um villst að mikill ávinningur yrði af því að gera fríverslunarsamning við Japan á svipuðum nótum og aðra samninga sem gerðir hafa verið. Tollfrelsi hefði í för með sér bætt skilyrði fyrir innflutningi íslenskra afurða til Japan og yrði íslenskum neytendum til hagsbóta við kaup á útflutningsafurðum Japana hér á landi. Það sama á að sjálfsögðu við um Japani með öfugum formerkjum. Fríverslunarsamningur milli landanna tveggja mundi því gegna mikilvægu hlutverki við að bæta lífskjör þjóðanna beggja með aukinni framleiðslu og lægra vöruverði, sem og veltu í viðskiptum.
    Vestræn samvinna, með góðum tengslum við Evrópu og ríki utan álfunnar sem fylgja svipuðum lýðræðisgildum í stjórnarfari, hefur verið aðall íslenskrar utanríkisstefnu. Aukin tengsl við Japan eru rökrétt í því ljósi.