Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 249. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
2. uppprentun.

Þingskjal 822  —  249. mál.
Millivísanir.

2. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/2002, um útlendinga,
með síðari breytingum (EES-reglur, innleiðing, kærunefnd, hælismál).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar (UBK, PVB, LínS, JMS, VilÁ).


     1.      Við 1. gr.
              a.      Í stað 3. og 4. mgr. a-liðar (3. gr. a) komi fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                     Ráðherra skipar kærunefnd útlendingamála til fimm ára í senn. Nefndin skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Nefndarmenn skulu vera sérfróðir um mál er lög þessi ná til.        
                     Til þess að hljóta skipun í kærunefnd útlendingamála skulu nefndarmenn fullnægja almennum skilyrðum 6. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins auk þess að fullnægja sérstökum skilyrðum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er að framlengja skipun nefndarmanna að fengnu samþykki tilnefningaraðila.
                     Ráðherra skipar formann nefndarinnar til fimm ára í senn að undangenginni auglýsingu í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Skal formaður nefndarinnar hafa starfið að aðalstarfi. Hann skal uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Kjararáð ákveður laun og önnur starfskjör formanns nefndarinnar. Ráðherra ákveður þóknun annarra nefndarmanna. Við val á formanni nefndarinnar skal ráðherra skipa þriggja manna nefnd til að meta hæfi umsækjenda. Nefndin skal láta ráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um starfið. Í umsögn nefndarinnar skal tekin afstaða til þess hvaða umsækjandi sé hæfastur til að hljóta starfið. Óheimilt er að skipa umsækjanda sem nefndin hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda. Aðrir nefndarmenn eru skipaðir af ráðherra til fimm ára í senn. Annar skal tilnefndur af Mannréttindaskrifstofu Íslands og hafa sérþekkingu á sviði útlendingamála, einkum hvað varðar dvöl og búsetu útlendinga hér á landi. Hinn skal tilnefndur af Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og hafa sérþekkingu á sviði útlendingamála, einkum hvað varðar málefni flóttamanna og rétt til alþjóðlegrar verndar. Varamenn þeirra skulu skipaðir með sama hætti og uppfylla sömu hæfisskilyrði og aðalmenn. Ráðherra ákveður hvor nefndarmanna skuli vera varamaður formanns.
                     Formaður kærunefndar útlendingamála hefur yfirstjórn hennar með höndum. Hann fer með fyrirsvar nefndarinnar út á við og ber ábyrgð á fjárhag hennar og daglegum rekstri. Formaður úthlutar málum til meðferðar. Formaður ræður starfsfólk í samræmi við samþykktar fjárheimildir og ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Varaformaður er staðgengill formanns og gegnir störfum hans þegar formaður er forfallaður eða fjarstaddur.
                     Kærunefndin skal að jafnaði birta úrskurði sína, eða eftir atvikum útdrætti úr þeim, sem fela í sér efnislega niðurstöðu með aðgengilegum og skipulegum hætti. Úrskurðirnir skulu birtir án nafna, kennitalna eða annarra persónugreinanlegra auðkenna aðila að viðkomandi málum. Kærunefnd útlendingamála skal árlega gefa út skýrslu um starfsemi sína. Kostnaður vegna kærunefndar útlendingamála greiðist úr ríkissjóði.
              b.      B-liður (3. gr. b) orðist svo:

Málsmeðferð fyrir kærunefnd útlendingamála.

                     Að jafnaði skulu allir nefndarmenn sitja fundi kærunefndar til að fjalla um hvert mál sem nefndinni berst.
                     Nefndinni er heimilt að fela formanni, eða varamanni hans, að úrskurða í málum sem nefndin hefur til meðferðar er varða vegabréfsáritanir, ákvarðanir er varða málsmeðferð hjá Útlendingastofnun og beiðnir um frestun réttaráhrifa ákvarðana Útlendingastofnunar.
                     Nefndinni er heimilt að kveðja sérfróða aðila sér til ráðgjafar og aðstoðar við úrskurð í einstökum málum. Skulu þeir starfa með nefndinni við undirbúning og meðferð máls eftir ákvörðun formanns.
                     Nefndin skal meta að nýju alla þætti málsins. Hún getur ýmist staðfest ákvörðun að niðurstöðu til, breytt henni eða hrundið að nokkru eða öllu leyti. Þá getur nefndin einnig vísað málinu til meðferðar að nýju til þeirrar stofnunar sem tók þá ákvörðun er kærð var.
                     Málsmeðferð skal að jafnaði vera skrifleg en í málum skv. 44. gr., 44. gr. a og 45. gr. og í öðrum málum, þar sem kærunefnd telur ástæðu til, skal umsækjandi eiga þess kost að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni máls eða einstök atriði þess eftir atvikum. Þá getur nefndin, telji hún ástæðu til, kallað til aðra en umsækjanda í öðrum málum.
                     Formaður eða varamaður hans stýrir störfum nefndarinnar við umfjöllun máls. Þegar nefndarmenn eru ekki sammála ræður meiri hluti niðurstöðu máls.
                     Ákvæði stjórnsýslulaga gilda um meðferð mála fyrir nefndinni ef ekki er öðruvísi mælt fyrir í lögum þessum.
                     Ráðherra er heimilt að kveða nánar um starfshætti og störf kærunefndar útlendingamála í reglugerð.
     2.      Á eftir 3. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Við 4. mgr. 12. gr. f laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um útlending sem uppfyllir skilyrði a–e-liðar 1. mgr. 12. gr. g þó að hann hafi ekki leyfi á þeim grundvelli ef hann hefur dvalið hér á landi í tvö ár hið minnsta vegna málsmeðferðar stjórnvalda um umsókn um hæli.
     3.      Á eftir 7. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Á eftir 1. mgr. 23. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ákvarðanir sem varða barn skulu teknar með það sem því er fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur að tjá skoðanir sínar í málum sem það varðar og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.
     4.      Í stað orðsins „sex“ í 2. efnismálsl. b-liðar 11. gr. komi: 24.
     5.      Við 15. gr.
              a.      Í stað orðsins „hann“ í 1. mgr. d-liðar (36. gr.) komi: vera hans.
              b.      Orðin „svo lengi sem hann verður ekki ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar hér á landi“ í fyrri málslið 2. mgr. d-liðar (36. gr.) falli brott.
              c.      Síðari málsliður 5. mgr. k-liðar (39. gr. a) falli brott.
              d.      Síðari málsliður 3. mgr. l-liðar (39. gr. b) falli brott.
     6.      Efnismálsgrein 20. gr. orðist svo:
                  Í málum þeim sem greinir í b-lið 1. mgr. er Útlendingastofnun heimilt að styðjast við lista yfir ríki sem almennt eru álitin örugg upprunaríki. Með öruggu upprunaríki er átt við ríki þar sem einstaklingar eiga almennt ekki á hættu að vera ofsóttir eða verða fyrir alvarlegum mannréttindabrotum. Útlendingastofnun er skylt að halda með skipulegum hætti utan um slíkan lista. Skal hann uppfærður reglulega og birtur á vef Útlendingastofnunar.
     7.      Við 21. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað tilvísananna „1. eða 2. mgr.“ í 3. mgr., „2. mgr.“ í 4. mgr. og „2. og 4. mgr.“ í 5. mgr. kemur: 1. eða 3. mgr.; 3. mgr.; og: 3. og 5. mgr.
     8.      Á eftir 22. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum, sbr. 5. gr. laga nr. 26/2014, orðast svo:
                 Ákvæði a-liðar 1. mgr. 36. gr. a tekur ekki gildi fyrir ríkisborgara Króatíu fyrr en 1. júlí 2015. Þá taka ákvæði 2. mgr. 36. gr. um heimild EES- eða EFTA-útlendings til dvalar án sérstaks leyfis í sex mánuði ef hann er í atvinnuleit ekki gildi fyrir ríkisborgara Króatíu fyrr en 1. júlí 2015.
     9.      23. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó öðlast a- og b-liður 1. gr. (3. gr. a og 3. gr. b) og lokamálsliður 10. gr. gildi 1. janúar 2015.