Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 517. máls.

Þingskjal 878  —  517. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, nr. 116/2012 (forstöðumaður Fjölmenningarseturs).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I í lögunum orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að setja tímabundið forstöðumann Fjölmenningarseturs til 31. desember 2015.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í velferðarráðuneytinu er unnið að frumvarpi til laga um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála þar sem gert er ráð fyrir sameiningu Fjölmenningarseturs, Jafnréttisstofu og réttindagæslu fatlaðs fólks og niðurlagningu embættis forstöðumanns Fjölmenningarseturs. Núverandi forstöðumaður Fjölmenningarsetursins mun láta af störfum 1. júní næstkomandi en í ljósi þess að fyrirhugað er að sameina fyrrgreindar stofnanir er lagt til að ráðherra verði heimilað að setja forstöðumann Fjölmenningarseturs til skamms tíma. Í ljósi þess að ekki er heimild í 24. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til að setja embættismann tímabundið í þeim aðstæðum sem eru hér er þörf á sérstakri lagaheimild svo að hægt sé að setja tímabundið forstöðumann Fjölmenningarseturs.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, nr. 116/2012 (forstöðumaður Fjölmenningarseturs).

    Með frumvarpinu er lagt til að félags- og húsnæðismálaráðherra verði heimilt að setja tímabundið forstöðumann Fjölmenningarseturs til 31. desember 2015.
    Tilefnið er að núverandi forstöðumaður stofnunarinnar mun láta af störfum 1. júní nk. Fyrirhugað er að sameina Fjölmenningarsetur, Jafnréttisstofu og réttindagæslu fatlaðs fólks í eina stofnun sem taka á til starfa 1. janúar 2015, sbr. frumvarp til laga um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála. Með þessu frumvarpi er verið að veita heimild til að setja forstöðumann yfir Fjölmenningarsetrið þangað til að sameiningu kemur.
    Verði frumvarpið lögfest í núverandi mynd er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs frá því sem gert er ráð fyrir í núgildandi fjárlögum.