Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 522. máls.

Þingskjal 883  —  522. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002,
með síðari breytingum (starfsleyfi, áhættustýring,
stórar áhættuskuldbindingar, eignarhlutir, eigið fé o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. a laganna:
     a.      Orðið „rafeyrisfyrirtæki,“ í 10. tölul. fellur brott.
     b.      Við bætast tólf nýir töluliðir, svohljóðandi:
              14.      Fyrirtæki tengt fjármálasviði: Með fyrirtæki tengdu fjármálasviði er átt við fyrirtæki sem ekki er lánastofnun og starfar einkum að öflun eignarhluta eða stundar einhverja þá starfsemi sem um getur í 2.–12. tölul. 1. mgr. 20. gr.
              15.      Móðurfélag: Fyrirtæki telst vera móðurfélag þegar það:
                a.    ræður yfir meiri hluta atkvæða í öðru fyrirtæki,
                b.     á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að tilnefna eða víkja frá meiri hluta stjórnarmanna eða stjórnenda,
                c.    á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að hafa ráðandi áhrif á starfsemi þess á grundvelli samþykkta fyrirtækisins eða samnings við það,
                d.    á eignarhluti í öðru fyrirtæki og ræður, á grundvelli samnings við aðra hluthafa eða eignaraðila, meiri hluta atkvæða í fyrirtækinu, eða
                e.    á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur ráðandi stöðu í því.
                     Við mat á atkvæðisrétti og réttindum til að tilnefna eða víkja frá stjórnarmönnum eða stjórnendum skal leggja saman réttindi sem bæði móður- og dótturfélag ráða yfir.
                     Við mat á atkvæðisrétti í dótturfélagi skal ekki talinn með atkvæðisréttur sem fylgir eigin hlutum dótturfélagsins eða dótturfélögum þess.
              16.      Dótturfélag: Fyrirtæki sem hafa þau tengsl við fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði sem lýst er í 15. tölul. teljast vera dótturfélög. Fyrirtæki sem er dótturfélag dótturfélags telst einnig vera dótturfélag móðurfélags.
              17.      Samstæða: Móðurfélag og dótturfélög þess mynda samstæðu.
              18.      Eignarhaldsfélag á fjármálasviði: Með eignarhaldsfélagi á fjármálasviði er átt við fyrirtæki tengt fjármálasviði, sem ekki er blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, þar sem dótturfélögin eru annaðhvort eingöngu eða aðallega fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki tengd fjármálasviði og að minnsta kosti eitt dótturfélagið er fjármálafyrirtæki.
              19.      Blandað eignarhaldsfélag: Með blönduðu eignarhaldsfélagi er átt við móðurfélag sem ekki er eignarhaldsfélag á fjármálasviði, fjármálafyrirtæki eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi þar sem að minnsta kosti eitt dótturfélag er fjármálafyrirtæki.
              20.      Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi: Með blönduðu eignarhaldsfélagi í fjármálastarfsemi er átt við móðurfélag sem ekki er eftirlitsskylt en það ásamt dótturfélögum sínum, þar sem a.m.k. eitt þeirra er eftirlitsskylt og er með höfuðstöðvar í aðildarríki, og öðrum aðilum myndar fjármálasamsteypu.
              21.      Fjármálagerningur: Með fjármálagerningi samkvæmt lögum þessum er átt fjármálagerning eins og hann er skilgreindur í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.
              22.      Fjármálasamsteypa: Með fjármálasamsteypu samkvæmt lögum þessum er átt við samstæðu félaga, eða félög sem hafa með sér náin tengsl, sbr. 1. tölul. þessarar greinar, þar sem eftirlitsskyldur aðili fer fyrir samstæðunni og a.m.k. einn aðili innan samstæðunnar starfar á fjármálasviði og annar aðili starfar á vátryggingasviði og þar sem umsvif á samstæðugrundvelli og/eða samanlögð umsvif á fjármálasviði annars vegar og hins vegar samsvarandi umsvif á vátryggingasviði eru hvor um sig talin mikilvæg samkvæmt reglum sem Fjármálaeftirlitið setur skv. 3. mgr. 109. gr. Fari enginn eftirlitsskyldur aðili fyrir samstæðunni, en starfsemi samstæðunnar fer aðallega fram á fjármála- eða vátryggingasviði samkvæmt skilgreiningu í reglum sem Fjármálaeftirlitið setur skv. 3. mgr. 109. gr., telst samstæðan vera fjármálasamsteypa. Sérhverja undirsamstæðu sem uppfyllir skilyrði 1. málsl. þessa töluliðar skal líta á sem fjármálasamsteypu.
              23.      Hlutdeildarfélag: Með hlutdeildarfélagi samkvæmt lögum þessum er átt við félag, þó ekki dótturfélag, sem annað félag og dótturfélög þess eiga eignarhluti í og hafa veruleg áhrif á eða beinn og óbeinn eignarhlutur nemur 20% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti.
              24.      Kaupaukakerfi: Með kaupaukakerfi samkvæmt lögum þessum er átt við starfsreglur fjármálafyrirtækis um kaupauka til starfsmanna sinna.
              25.      Kaupauki: Greiðslur og hlunnindi til starfsmanns fjármálafyrirtækis, m.a. reiðufé, sérstakar lífeyrisgreiðslur og kaupréttir, venjulega skilgreint með tilliti til árangurs, sem ekki eru þáttur í föstum starfskjörum starfsmanns, þar sem endanleg fjárhæð eða umfang greiðslu liggur ekki fyrir með nákvæmum hætti fyrir fram.

2. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „42. og 52. gr.“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: 42. og 52. gr. og 52. gr. a.

3. gr.

    Við 6. tölul. 5. gr. laganna bætist: og hlutfallslegt eignarhald hvers þeirra.

4. gr.

    Við 2. mgr. 7. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við mat á umsókn um veitingu starfsleyfis er óheimilt að byggja synjun á sjónarmiðum um þarfir á fjármálamarkaði hér á landi.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      2. tölul. orðast svo: fullnægi fyrirtækið ekki ákvæðum laga þessara um stofnfé, hlutafé, eigið fé, stórar áhættuskuldbindingar og laust fé.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „42. og 52. gr.“ í 4. tölul. kemur: 42. og 52. gr. og 52. gr. a.
     c.      Við bætast tveir nýir töluliðir, 8. og 9. tölul., svohljóðandi:
        8.    uppfylli fjármálafyrirtæki ekki lengur þau lögbundnu skilyrði sem það þurfti að uppfylla til þess að hljóta starfsleyfi,
        9.    leiki verulegur vafi á því að fjármálafyrirtækið geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart lánardrottnum og innlánseigendum.

6. gr.

    Á eftir 2. mgr. 17. gr. laganna koma sex nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Innri ferlar fjármálafyrirtækis skv. 1. mgr. skulu m.a. taka til útlána- og mótaðilaáhættu, samþjöppunaráhættu, markaðsáhættu, fastvaxtaáhættu, rekstraráhættu, lausafjáráhættu og eftirstæðrar áhættu og áhættu vegna óhóflegrar vogunar. Fjármálafyrirtæki skal hafa verkferla sem tryggja upplýsingaskipti á milli áhættustýringar og stjórnar vegna allra helstu áhættuþátta í starfsemi félagsins og breytinga á þeim.
    Áhættustýring fjármálafyrirtækis skal fara fram í einingu sem er óháð öðrum einingum þess. Fjármálafyrirtæki skal tryggja að áhættustýring hafi nægilegt vald, fjárveitingar og heimildir, m.a. til þess að afla upplýsinga sem nauðsynlegar eru í starfsemi áhættustýringar.
    Áhættustýring skal sjá til þess að greining, mæling og skýrslugjöf um áhættu í starfsemi fjármálafyrirtækis fari fram, þ.m.t. skýrslur til stjórnenda og eftirlitsaðila. Áhættustýring skal taka virkan þátt í mótun áhættustefnu fjármálafyrirtækis og hafa aðkomu að viðameiri ákvörðunum um áhættustýringu. Áhættustýring skal hafa heildstæða yfirsýn yfir helstu áhættuþætti í starfsemi fjármálafyrirtækis.
    Yfirmaður áhættustýringar skal búa við sjálfstæði sem stjórnandi og hafa umsjón með og bera ábyrgð á þeirri einingu þar sem áhættustýring fjármálafyrirtækis fer fram. Hann skal eiga sæti í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Yfirmaður áhættustýringar skal hafa beinan og óheftan aðgang að stjórn.
    Stjórn fjármálafyrirtækis getur ein tekið ákvörðun um að yfirmanni áhættustýringar skuli sagt upp starfi.
    Ef starfsemi fjármálafyrirtækis réttlætir ekki sérstakt stöðugildi yfirmanns áhættustýringar getur Fjármálaeftirlitið heimilað að annar starfsmaður hafi umsjón með áhættustýringu fjármálafyrirtækisins, enda sé gætt að hagsmunaárekstrum. Við slíkt mat skal Fjármálaeftirlitið hafa hliðsjón af eðli og umfangi starfsemi fyrirtækisins og því hversu margþætt hún er. Fjármálaeftirlitinu er heimilt, í reglum settum skv. 9. mgr., að kveða á um hvenær starfsemi fjármálafyrirtækis réttlætir ekki sérstakt stöðugildi yfirmanns áhættustýringar.

7. gr.

    3. mgr. 19. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

    Á eftir 19. gr. b laganna kemur ný grein, 19. gr. c, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Kvartanir.

    Fjármálafyrirtæki skal, í samskiptum sínum við viðskiptavini, tryggja að fyrirspurnir, kvartanir og önnur sambærileg erindi fái skjóta, skilvirka og sanngjarna meðferð.

9. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 28. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

    30. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum.

    Áhættuskuldbinding vegna eins viðskiptamanns eða hóps tengdra viðskiptamanna, að teknu tilliti til áhættumildandi þátta samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins, má ekki fara fram úr 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis, sbr. 84. og 85. gr. Áhættuskuldbinding vegna viðskiptamanns sem er fjármálafyrirtæki eða vegna hóps tengdra viðskiptamanna þar sem einn, eða fleiri, er fjármálafyrirtæki má ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis eða sem nemur 5 milljörðum kr., hvort sem er hærra. Þegar hlutfallið 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis nemur lægri fjárhæð en 5 milljörðum kr. mega áhættuskuldbindingar vegna viðskiptamanns skv. 2. málsl. ekki vera hærra en 100% af eiginfjárgrunni. Ákvæði 1.–3. málsl. eiga þó ekki við um verðbréfafyrirtæki sem ekki hafa starfsheimildir skv. c- og f-lið 1. tölul. 1. mgr. 25. gr., verðbréfamiðlanir og rekstrarfélög verðbréfasjóða. Með stórri áhættuskuldbindingu er átt við áhættuskuldbindingu sem nemur 10% eða meira af eiginfjárgrunni.
    Leiki vafi á því hverjir teljast til hóps tengdra viðskiptamanna er fjármálafyrirtæki skylt að tengja aðila saman nema viðkomandi fjármálafyrirtæki geti sýnt fram á hið gagnstæða.
    Með áhættuskuldbindingu skv. 1. mgr. er átt við lánveitingar, verðbréfaeign, eignarhluti og veittar ábyrgðir fjármálafyrirtækis, svo og aðrar skuldbindingar gagnvart fjármálafyrirtækinu.
    Fari áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækis yfir þau mörk sem kveðið er á um í 1. mgr. skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu án tafar. Fjármálaeftirlitið getur veitt fyrirtækinu frest til að koma skuldbindingum sínum í lögmætt horf. Fjármálaeftirlitið getur veitt fjármálafyrirtæki undanþágu frá takmörkunum 1. mgr.
    Fjármálaeftirlitið skal setja nánari reglur um stórar áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækja og fjármálasamsteypa. Í þeim skal m.a. kveðið á um áhættumildandi þætti og heimildir fjármálafyrirtækja til að reikna út eiginfjárkröfu vegna umframáhættu stórra áhættuskuldbindinga.

11. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 37. gr. laganna orðast svo: Í tilkynningu skal koma fram hvaða ríki á í hlut, í hverju fyrirhuguð starfsemi sé fólgin og hvort fjármálafyrirtæki hyggst nota fasta umboðsmenn.

12. gr.

    2. málsl. 40. gr. laganna orðast svo: Hið sama á við hyggist aðili, einn sér eða í samstarfi við aðra, auka svo við eignarhlut sinn að virkur eignarhlutur nái eða fari yfir 20%, 25%, 33% eða 50% eða nemi svo stórum hluta að fjármálafyrirtæki verði talið dótturfélag hans.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Eigi síðar en tveimur starfsdögum eftir móttöku tilkynningar skv. 40. og 41. gr. skal Fjármálaeftirlitið staðfesta móttöku hennar. Í staðfestingu skal koma fram hvenær vænta megi niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins í síðasta lagi. Telji Fjármálaeftirlitið að afla þurfi ítarlegri upplýsinga en þeirra sem upp eru taldar í 1. mgr. 41. gr. frá þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut getur það krafið viðkomandi um þær. Slík krafa skal sett fram eigi síðar en fimmtíu starfsdögum eftir staðfestingu tilkynningar. Fjármálaeftirlitið hefur sextíu starfsdaga frá staðfestingu tilkynningar skv. 1. málsl. til þess að meta hvort að það telur þann sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut hæfan til að fara með eignarhlutinn. Sé óskað eftir viðbótarupplýsingum frá viðkomandi, sbr. 3. málsl., bætist bið eftir upplýsingum við dagafjölda skv. 5. málsl., þó ekki umfram tuttugu virka daga. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að óska aftur eftir frekari upplýsingum. Slík beiðni lengir ekki framangreinda tímafresti. Ef sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut er staðsettur í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, eða hann lýtur ekki opinberu fjármálaeftirliti innan Evrópska efnahagssvæðisins, bætist bið eftir upplýsingum við dagafjölda skv. 5. málsl. en þó ekki umfram þrjátíu virka daga.
     b.      Í stað orðanna „í hópi fyrirtækja“ í 2. málsl. 4. tölul. 2. mgr. kemur: í samstæðu félaga.

14. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 43. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi Fjármálaeftirlitið óskað eftir upplýsingum skv. 42. gr. og þær ekki borist innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í ákvæðinu getur Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.

15. gr.

    Í stað orðsins „dótturfyrirtæki“ í 2. málsl. 47. gr. laganna kemur: dótturfélag.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 49. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „skv. 40. gr. og“ í 1. málsl. kemur: skv. 40. gr. eða.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Teljist einstaklingur eða lögaðili ekki lengur hæfur til þess að fara með virkan eignarhlut er heimilt að veita hæfilegan frest til úrbóta sé það unnt að mati Fjármálaeftirlitsins. Verði úrbótum ekki komið við eða líði frestur sem Fjármálaeftirlitið hefur veitt skv. 1. málsl. skal Fjármálaeftirlitið grípa til þeirra úrræða sem getið er um í 46. gr. Við mat á hæfi samkvæmt ákvæði þessu skal m.a. horft til 2. mgr. 42. gr.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Upplýsingaskylda og viðvarandi mat á hæfi eiganda virkra eignarhluta.

17. gr.

    52. gr. laganna orðast svo:
    Stjórnarmenn skulu vera búsettir í aðildarríki eða ríki sem er aðili að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). Framkvæmdastjóri skal vera búsettur í aðildarríki. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá búsetuskilyrðum.
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða og hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu 10 árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um gjaldeyrismál, svo og sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu vera fjárhagslega sjálfstæðir og hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi. Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá menntunarkröfum skv. 1. málsl. á grundvelli þekkingar, hæfni og reynslu viðkomandi. Jafnframt skulu stjórnarmenn og framkvæmdastjórar búa yfir nægilegri þekkingu, hæfni og reynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt, m.a. hafa þekkingu á þeirri starfsemi sem viðkomandi fjármálafyrirtæki stundar, þ.m.t. áhættuþáttum. Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar mega ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni þeirra til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri eða að þeir muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða félagið.
    Samsetning stjórnar fjármálafyrirtækis skal vera með þeim hætti að stjórnin búi sameiginlega yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að skilja þá starfsemi sem viðkomandi fjármálafyrirtæki stundar, þ.m.t. helstu áhættuþætti.
    Fjármálaeftirlitið setur reglur um fjárhagslegt sjálfstæði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og um hvernig staðið skuli að hæfismati. Starfsmönnum fjármálafyrirtækis er ekki heimilt að sitja í stjórn viðkomandi fjármálafyrirtækis.
    Fjármálafyrirtæki skal verja fullnægjandi fjármunum og mannafla til þess að kynna starfsemi fjármálafyrirtækisins fyrir stjórnarmanni og tryggja að hann hljóti viðeigandi þjálfun til stjórnarsetunnar.
    Fjármálafyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á félagsstjórn og framkvæmdastjóra og skulu tilkynningunni fylgja fullnægjandi upplýsingar til að hægt sé að meta hvort skilyrðum greinar þessarar og 52. gr. a sé fullnægt.

18. gr.

    Á eftir 52. gr. laganna kemur ný grein, 52. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, en 52. gr. a – 52. gr. c laganna verða 52. gr. b – 52. gr. d:

Önnur störf stjórnarmanna.

    Stjórnarmaður skal verja fullnægjandi tíma í störf sín í þágu fjármálafyrirtækis. Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis mega ekki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila eða aðila sem er í nánum tengslum við hann né vera starfsmenn eða endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða aðila í nánum tengslum við hann. Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis mega einungis sinna þeim lögmannsstörfum fyrir annað fjármálafyrirtæki sem ekki geta valdið hættu á hagsmunaárekstrum á milli félaganna tveggja eða á fjármálamarkaði. Hyggist stjórnarmaður taka að sér lögmannsstörf fyrir annað fjármálafyrirtæki skal hann fá skriflegt samþykki stjórnar fjármálafyrirtækisins sem hann er stjórnarmaður í fyrir því að hann megi taka að sér umrætt starf, tilkynna Fjármálaeftirlitinu um starfið sem hann hyggst taka að sér og upplýsa Fjármálaeftirlitið um eðli starfsins og umfang þess. Stjórnarmaður ber sönnunarbyrði um að lögmannsstarf sem hann tekur að sér fyrir annað fjármálafyrirtæki brjóti ekki gegn ákvæði þessu. Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá stjórnarmanni í því skyni að meta hvort brotið hafi verið gegn ákvæðinu.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur stjórnarmaður eða starfsmaður fjármálafyrirtækis tekið sæti í stjórn annars fjármálafyrirtækis, vátryggingafélags eða fjármálasamsteypu ef um er að ræða félag sem er að hluta eða öllu leyti í eigu fjármálafyrirtækisins eða félag sem er að hluta eða öllu leyti í eigu félags með yfirráð í fjármálafyrirtækinu. Sama gildir um lögmann móðurfélags.
    Stjórnarseta skv. 2. mgr. skal háð því að hún skapi ekki, að mati Fjármálaeftirlitsins, hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði. Í þessu sambandi skal m.a. horft til eignarhalds aðila og tengsla félagsins sem um ræðir við aðra aðila á fjármálamarkaði, svo og hvort tengslin geti skaðað heilbrigðan og traustan rekstur fjármálafyrirtækisins.

19. gr.

    54. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Verkaskipting stjórnar og framkvæmdastjóra.
Framkvæmd starfa stjórnar og ábyrgð hennar.

    Stjórn fjármálafyrirtækis ber ábyrgð á starfsemi og stefnumótun félagsins sem og áhættustefnu og að til staðar sé virkt kerfi innra eftirlits sem samræmist lögum þessum og reglum settum með stoð í þeim. Stjórn ber ábyrgð á að fullnægjandi eftirlit sé viðhaft með bókhaldi og að meðferð fjármuna félagsins sé í samræmi við lög og reglur sem um starfsemina gilda. Stjórn ber jafnframt ábyrgð á að stjórnarhættir og innra skipulag stuðli að skilvirkri og skynsamlegri stjórnun fyrirtækisins, aðskilnaði starfa og að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra. Stjórn skal árlega endurmeta stjórnarhætti sína með tilliti til viðurkenndra leiðbeininga um stjórnarhætti og bregðast við með viðeigandi hætti ef þörf er á.
    Stjórnarmaður skal starfa af heiðarleika, heilindum og fagmennsku og vera sjálfstæður í hugsun til þess að geta með skilvirkum hætti metið, gagnrýnt og haft eftirlit með ákvarðanatöku framkvæmdastjórnar fjármálafyrirtækisins.
    Í samþykktum fjármálafyrirtækis skal kveðið á um verkaskiptingu stjórnar og framkvæmdastjóra. Stjórn skal hafa skilvirkt eftirlit með að framkvæmdastjórn félagsins starfi eftir lögum og reglum.
    Stjórn skal setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa stjórnarinnar. Í reglum þessum skal fjallað sérstaklega um heimildir stjórnar til að taka ákvarðanir um einstök viðskipti, framkvæmd reglna um sérstakt hæfi stjórnarmanna, meðferð stjórnar á upplýsingum um einstaka viðskiptamenn, setu stjórnarmanna í stjórnum dótturfélaga og hlutdeildarfélaga og framkvæmd reglna um meðferð viðskiptaerinda stjórnarmanna. Stjórn fjármálafyrirtækis skal senda Fjármálaeftirlitinu afrit af reglunum innan 14 daga frá því að þær eru settar eða þeim er breytt.
    Stjórnarformanni í fjármálafyrirtæki er óheimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem félagsstjórnin felur honum að vinna fyrir sig.
    Stjórn skal fylgjast með því og tryggja eftir bestu getu að tilkynningar og upplýsingar sem félaginu ber að veita samkvæmt lögum þessum séu réttar.
    Fjármálafyrirtæki skal fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Í því skyni skal fjármálafyrirtækið m.a. birta árlega yfirlýsingu um stjórnarhætti fyrirtækisins í sérstökum kafla í ársreikningi eða ársskýrslu og gera grein fyrir stjórnarháttum sínum á vefsíðu fyrirtækisins og birta þar yfirlýsingu um stjórnarhætti sína.

20. gr.

    Á eftir 54. gr. laganna kemur ný grein, 54. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Hlutverk stjórnar vegna áhættustýringar.

    Stjórn fjármálafyrirtækis skal samþykkja stefnu, áhættuvilja og framkvæmd áhættustýringar, sbr. 17. gr., og tryggja að innri ferlar vegna áhættustýringar séu yfirfarnir með reglubundnum hætti. Til slíkra ferla teljast m.a. ferlar er varða áhættutöku og takmörkun á þeirri áhættu sem hefur, eða kann að hafa, áhrif á starfsemi fyrirtækis.
    Stjórn fjármálafyrirtækis skal við störf sín verja hæfilegum tíma í að fjalla um helstu áhættuþætti í starfsemi fyrirtækisins. Stjórn skal tryggja að nægjanlegum fjármunum og tíma sé varið í virka áhættustýringu og áhættumat þannig að innan fyrirtækisins sé yfirsýn yfir helstu áhættuþætti. Einnig skal stjórn, eftir atvikum, hafa eftirlit með mati á eignum félagsins, notkun innri líkana og notkun lánshæfismats frá matsfyrirtækjum.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
     a.      2. málsl. orðast svo: Stjórn fyrirtækis getur veitt heimild til slíks á grundvelli reglna sem fjármálafyrirtæki setur og sendir Fjármálaeftirlitinu afrit af.
     b.      Í stað orðsins „dótturfyrirtæki“ í 4. málsl. kemur: dótturfélag.

22. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 57. gr. laganna orðast svo: Fjármálafyrirtæki skal setja reglur um viðskipti þess við framkvæmdastjóra og lykilstarfsmenn og senda Fjármálaeftirlitinu afrit af reglunum innan 14 daga frá því að þær eru staðfestar af stjórn.

23. gr.

    57. gr. a laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Starfskjarastefna.

    Um starfskjarastefnu fjármálafyrirtækis gilda ákvæði laga um hlutafélög, nema kveðið sé á um annað í lögunum og reglum settum á grundvelli þeirra. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að kveða nánar á um starfskjarastefnu fjármálafyrirtækis í reglum sem gefnar eru út samkvæmt ákvæði þessu.

24. gr.

    Á eftir 57. gr. a laganna koma tvær nýjar greinar, 57. gr. b og 57. gr. c, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, en 57. gr. b laganna verður 57. gr. d:

    a. (57. gr. b.)

Kaupaukakerfi.

    Að teknu tilliti til heildarafkomu fjármálafyrirtækis yfir lengri tíma, undirliggjandi áhættu og fjármagnskostnaðar er fjármálafyrirtæki heimilt að veita starfsmönnum kaupauka á grundvelli kaupaukakerfis í samræmi við lög þessi og reglur sem Fjármálaeftirlitið setur samkvæmt ákvæðinu um fyrirkomulag og innihald kaupaukakerfis. Stjórn fjármálafyrirtækisins ber ábyrgð á því að kaupaukasamningar séu í samræmi við lög þessi og reglur settar samkvæmt þeim.
    Kaupaukakerfi skal miða að því að kaupaukar:
     a.      hvetji ekki til óhóflegrar áhættutöku,
     b.      vinni ekki gegn langtímahagsmunum fyrirtækis og stöðugleika fjármálakerfis,
     c.      samræmist sjónarmiðum um vernd viðskiptavina fyrirtækis, kröfuhafa og hluthafa eða stofnfjáreigenda, og
     d.      samræmist að öðru leyti eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum.
    Í kaupaukakerfi er óheimilt að gera ráð fyrir tryggðum kaupaukum, þ.e. kaupauka sem starfsmaður fær óháð árangri í starfi. Þó er heimilt að veita starfsmanni staka greiðslu á fyrsta ári við ráðningu, svokallaðan ráðningarkaupauka. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að kveða nánar á um innihald ráðningarkaupauka og aðrar greiðslur sem undanskilja má í reglum skv. 1. mgr.
    Kaupaukakerfi skal samþykkt af stjórn fjármálafyrirtækis að fengnu áliti starfskjaranefndar sé slíkri nefnd til að dreifa. Óheimilt er að veita stjórnarmönnum fjármálafyrirtækja kaupauka.
    Áunnin réttindi starfsmanna samkvæmt kaupaukakerfi skulu færð til gjalda á hverju ári eftir því sem reikningsskilareglur heimila og sérstaklega gerð grein fyrir þeim í skýringum við ársreikning.
    Að minnsta kosti helmingur kaupauka skal samanstanda af hlutabréfum eða stofnfjárbréfum í fjármálafyrirtæki sem veitir kaupaukagreiðsluna eða öðrum sambærilegum fjármálagerningum. Fjármálaeftirlitið skal í reglum skv. 1. mgr. kveða nánar á um sambærilega fjármálagerninga sem geta komið í stað hlutabréfa að stofnfjárbréfa samkvæmt ákvæðinu.
    Samtala veitts kaupauka til starfsmanns, að meðtöldum þeim hluta greiðslu sem frestað er, má á ársgrundvelli ekki nema hærri fjárhæð en 25% af árslaunum viðkomandi starfsmanns án kaupauka.
    Fjármálafyrirtæki er heimilt, að uppfylltum skilyrðum 9. og 10. mgr., að veita kaupauka til starfsmanns, að meðtöldum þeim hluta greiðslu sem er frestað samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins, þannig að kaupauki nemi ekki hærri fjárhæð en 100% af árslaunum viðkomandi starfsmanns án kaupauka.
    Hækkun veitts kaupauka skv. 8 mgr. er bundin því skilyrði að hún hljóti samþykki minnst 2/ 3 hluta greiddra atkvæða hluthafa eða stofnfjáreigenda fjármálafyrirtækis á hluthafafundi þar sem atkvæði greiða þeir sem ráða yfir minnst helmingi hlutafjár eða stofnfjár í fyrirtækinu. Ef meiri hluti hluthafa eða stofnfjárhafa mætir ekki á fundinn skal tillagan hljóta samþykki minnst 3/ 4 hluta greiddra atkvæða. Boða skal til hluthafafundar í samræmi við lög um hlutafélög. Í fundarboði skal koma fram að tillaga um hækkun veitts kaupauka verði til umfjöllunar auk útlistunar á áhrifum á fjármálafyrirtækið verði tillagan samþykkt. Starfsmönnum fjármálafyrirtækis sem hagsmuni hafa af tillagðri hækkun er ekki heimilt, hvorki beint né óbeint, að taka þátt í atkvæðagreiðslu um tillöguna. Stjórn fjármálafyrirtækis skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu bæði um fyrirhugaðan hluthafafund þar sem taka á tillögu um hækkun kaupauka til umræðu og atkvæðagreiðslu og um niðurstöðu atkvæðagreiðslu að fundi loknum.
    Frestaða kaupauka til starfsmanna fjármálafyrirtækis er heimilt að lækka, fella niður eða breyta þeim í nýtt hlutafé eða nýtt stofnfé í viðkomandi fjármálafyrirtæki eða öðru nýju félagi ef fjármálafyrirtæki gengst undir endurskipulagningu fjárhags eða slitameðferð skv. 98. eða 101. gr. Slíkt skal ekki gert nema að undangengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins og skulu kröfuhafar félagsins samþykkja lækkun, niðurfellingu eða umbreytingu kaupauka í nýtt hlutafé eða stofnfé við gerð nauðasamnings í tengslum við endurskipulagningar- eða slitameðferðina. Kveðið skal á um þessa heimild í kaupaukasamningi á milli fjármálafyrirtækis og starfsmanns þess. Sé ekki kveðið á um þessa heimild í samningi á milli fjármálafyrirtækis og starfsmanns er samningur um kaupauka ógildur og skal starfsmaður endurgreiða fjármálafyrirtækinu kaupauka sem hann hefur áunnið eða fengið greiddan á grundvelli samningsins ásamt vöxtum. Fjármálaeftirlitið skal í reglum settum skv. 1. mgr. kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins. Við gjaldþrotaskipti fjármálafyrirtækis standa kröfur um frestaða kaupauka í réttindaröð skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Reglur sem Fjármálaeftirlitið setur skv. 1. mgr. skulu m.a. kveða á um:
     a.      innra eftirlit fjármálafyrirtækis með kaupaukakerfi,
     b.      frestun greiðslu á a.m.k. 40% af kaupauka í a.m.k. þrjú ár,
     c.      áhrif kaupauka á fjárhagsstöðu fjármálafyrirtækis og mat á áhættu og árangri í tengslum við veitingu kaupauka,
     d.      upplýsingagjöf fjármálafyrirtækis, og
     e.      hækkun kaupauka skv. 8. mgr.
    Í reglum Fjármálaeftirlitsins skv. 1. mgr. skal kveðið á um sérstök viðmið fyrir veitingu kaupauka til starfsmanna áhættustýringar, endurskoðunardeildar og regluvörslu. Þá er Fjármálaeftirlitinu einnig heimilt að kveða á um í það í reglum skv. 1. mgr. að ákveðnir starfsmenn séu undanþegnir ákvæði 6. mgr. um lágmarkssamsetningu kaupauka eða frestun kaupauka skv. 11. mgr.

    b. (57. gr. c.)

Lækkun, afturköllun og endurgreiðsla kaupauka.

    Kaupaukakerfi skal tryggja að kaupaukar verði ekki veittir eða aðeins veittir að litlu leyti ef ein eða fleiri af eftirtöldum aðstæðum skapast:
     1.      Tilskilin frammistaða viðkomandi starfsmanns næst ekki.
     2.      Tilskilin frammistaða viðkomandi viðskiptaeiningar eða deildar innan fyrirtækisins næst ekki.
     3.      Tilskilin frammistaða fyrirtækisins næst ekki, t.d. þegar fyrirtækið uppfyllir ekki kröfur Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárgrunn á grundvelli 84. gr.
     4.      Starfsmaður fylgir ekki reglum eða innri ferlum fyrirtækisins eða virðir ekki lög eða stjórnvaldsfyrirmæli í störfum sínum.
    Kaupaukakerfi skal tryggja að fyrirtæki sé heimilt að afturkalla þegar ákveðinn kaupauka, sem ekki hefur verið greiddur út, þegar ein eða fleiri af aðstæðum 1.–4. tölul. 1. mgr. skapast.
    Kaupaukakerfi skal tryggja að fyrirtæki sé heimilt að endurkrefja starfsmann um þegar útgreiddan kaupauka ef í ljós kemur að árangur hans hefur að verulegu leyti vikið frá því sem gert var ráð fyrir við töku ákvörðunar um kaupauka. Kaupaukakerfi skal mæla fyrir um að samningar séu þannig útbúnir að endurkröfu megi hafa uppi við starfsmann í vissan tíma jafnvel þótt hann starfi ekki lengur hjá fyrirtækinu. Þá skal kaupaukakerfi mæla fyrir um tilvik og aðstæður sem upp geta komið og leiða til þess að fjármálafyrirtæki geti endurkrafið starfsmann um þegar greiddan kaupauka. Frestur til að setja fram endurkröfu á hendur starfsmanni skal aldrei vera skemmri en fimm ár frá því að ákvörðun um greiðslu kaupauka var tekin.
    Kaupaukakerfi skal tryggja að kaupauki, sem hefur verið ákveðinn en ekki greiddur vegna frestunar, sbr. 57. gr. b, skuli ekki greiddur þegar að fyrirhuguðum greiðsludegi kemur ef staða fyrirtækisins hefur versnað verulega eða útlit er fyrir að staða fyrirtækisins muni versna verulega.
    Hljóti fyrirtæki lán til þrautavara frá Seðlabanka Íslands skal ekki greiða kaupauka fyrr en telja má víst að fyrirtækið hefur á ný öðlast trausta fjárhagsstöðu.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt með reglum settum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. b að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins.

25. gr.

    Orðin „sbr. 4. mgr. 97. gr.“ í 1. mgr. 59. gr. laganna falla brott.

26. gr.

    Fyrirsögn VII. kafla laganna orðast svo: Stjórn, stjórnarhættir og starfsmenn.

27. gr.

    IX. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Meðhöndlun áhættuþátta í starfsemi fjármálafyrirtækis, orðast svo, ásamt greinarfyrirsögn:

78. gr.

Áhættunefnd.

    Fjármálafyrirtæki skal starfrækja áhættunefnd. Nefndin skal að lágmarki skipuð þremur mönnum, þar af tveimur stjórnarmönnum hið minnsta. Starfsmönnum er óheimilt að eiga sæti í nefndinni. Nefndarmenn skulu búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að móta áhættustefnu og áhættuvilja félagsins. Áhættunefnd skal sinna ráðgjafar- og eftirlitshlutverki fyrir stjórn fyrirtækisins, m.a. vegna áhættustefnu og áhættuvilja.
    Áhættunefnd skal hafa aðgang að þeim upplýsingum og gögnum sem nefndin telur sig þurfa til starfa sinna.
    Áhættunefnd skal m.a. kanna hvort hvatar sem falist geta í kaupaukakerfi fjármálafyrirtækis samræmist áhættustefnu fyrirtækisins og yfirfara hvort kjör á eignum og skuldbindingum, þar á meðal á innlánum og útlánum, sem boðin eru viðskiptavinum fjármálafyrirtækis taki að fullu mið af viðskiptalíkani og áhættustefnu fyrirtækisins. Ef kjör endurspegla ekki áhættuna samkvæmt viðskiptalíkani og áhættustefnu fyrirtækisins skal áhættunefnd leggja fram úrbótaáætlun til stjórnar.
    Fjármálafyrirtæki er heimilt að sameina störf áhættunefndar og endurskoðunarnefndar skv. IX. kafla A í lögum um ársreikninga, nr. 3/2006. Nefndarmenn sameinaðrar nefndar skulu búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að sinna verkefnum sem annars hefðu verið falin hvorri nefnd fyrir sig. Fjármálaeftirlitið getur með hliðsjón af stærð, eðli og umfangi rekstrar fjármálafyrirtækis, og því hversu margþætt starfsemi fyrirtækisins er, krafist þess að fjármálafyrirtæki aðskilji störf áhættunefndar og endurskoðunarnefndar.
    Fjármálaeftirlitið getur, með hliðsjón af stærð, eðli og umfangi rekstrar fjármálafyrirtækis, og því hversu margþætt starfsemi fyrirtækisins er, veitt undanþágu frá starfrækslu áhættunefndar eða frá einstökum þáttum í starfsemi áhættunefndar. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að skilyrða undanþágu til fjármálafyrirtækja. Starfsskyldur áhættunefndar skv. 2. og 3. mgr. skulu þá að breyttu breytanda hvíla á stjórn fjármálafyrirtækis.

28. gr.

    Á eftir 84. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 84. gr. a og 84. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (84. gr. a.)

Eiginfjáraukar.

    Til viðbótar við lágmark eiginfjárgrunns skv. 1. mgr. 84. gr. skal fjármálafyrirtæki hafa sérstaka eiginfjárauka í samræmi við ákvæði þessarar greinar. Til eiginfjárauka er einungis heimilt að telja eiginfjárliði sem teljast til eiginfjárþáttar A skv. 5. mgr. 84. gr.
    Fjármálafyrirtæki skal viðhalda sérstökum eiginfjárauka sem nefnist verndunarauki. Verndunaraukinn skal nema 2,5% af áhættugrunni, sbr. 2. mgr. 84. gr.
    Óheimilt er að tvítelja eiginfjárliði með þeim hætti að nýta eigið fé samkvæmt þessu ákvæði til að mæta eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins á grundvelli a-liðar 1. mgr. 84. gr.
    Fjármálafyrirtæki sem þegar uppfyllir eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins á grundvelli a- liðar 1. mgr. 84. gr. en uppfyllir ekki kröfu um verndunarauka á grundvelli 2. mgr. þessarar greinar er óheimilt að greiða út arð, kaupauka til starfsmanna eða aðrar þær greiðslur sem hafa áhrif til lækkunar á eiginfjárgrunni, nema reglur sem Fjármálaeftirlitið setur skv. 6. mgr. heimili slíkt.
    Fjármálafyrirtæki sem þegar uppfyllir eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins á grundvelli a- liðar 1. mgr. 84. gr. ásamt verndunarauka á grundvelli 2. mgr. þessarar greinar er óheimilt að greiða arð og kaupauka ef þær greiðslur verða til þess að fyrirtækið uppfyllir ekki lengur lágmarkskröfu um hlutfall eiginfjárliða undir eiginfjárþætti A.
    Fjármálaeftirlitið skal setja reglur um takmarkanir á útgreiðslum fjármálafyrirtækja þar sem kveðið er á um hámarksfjárhæð útgreiðslna.

    b. (84. gr. b.)

Verndunaráætlun.
    

    Þegar fjármálafyrirtæki viðheldur ekki nægjanlegu eigin fé í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 84. gr. og 2. mgr. 84. gr. a skal stjórn fjármálafyrirtækis útbúa sérstaka verndunaráætlun í samræmi við fyrirmæli þessa ákvæðis.
    Verndunaráætlun skal m.a. innihalda:
     1.      Áætlun um tekjur og gjöld fyrirtækisins og áhrif þeirra á efnahagsreikning félagsins.
     2.      Upplýsingar um til hvaða úrræða fyrirtækið mun grípa til þess að auka eiginfjárhlutfall sitt.
     3.      Áætlun og tímaramma um það hvernig fyrirtækið ráðgerir að hækka eiginfjárhlutfall sitt þannig að það uppfylli aftur skilyrði 84. gr. a um að viðhalda sérstökum verndunarauka,
     4.      Aðrar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegar til þess að leggja mat á verndunaráætlun.
    Þegar eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækis fer niður fyrir þau mörk sem tilgreind eru í 2. mgr. 84. gr. a skal stjórn fyrirtækisins afhenda Fjármálaeftirlitinu verndunaráætlun. Áætlunin skal afhent innan fimm virkra daga frá þeim degi sem ljóst varð að eiginfjárhlutfallið fór niður fyrir umrædd mörk. Fjármálaeftirlitið getur veitt fjármálafyrirtæki fimm daga viðbótarfrest til að afhenda verndunaráætlunina.
    Fjármálaeftirlitið skal leggja mat á áætlunina í samræmi við fyrirmæli þessa ákvæðis. Verndunaráætlunin skal samþykkt ef talið er líklegt að hún komi því til leiðar að fjármálafyrirtæki nái að uppfylla eiginfjárkröfu skv. 2. mgr. 84. gr. a innan viðeigandi tímamarka.
    Samþykki Fjármálaeftirlitið ekki verndunaráætlunina á grundvelli 4. mgr. getur það gripið til eftirtalinna heimilda:
     1.      Að mæla fyrir um að fjármálafyrirtækið auki eiginfjárgrunn sinn um tilskilin mörk innan tímafrests sem Fjármálaeftirlitið ákveður.
     2.      Að setja frekari takmarkanir á útgreiðslur en kveðið er á um í reglum sem Fjármálaeftirlitið setur skv. 6. mgr. 84. gr. a.

29. gr.

    Við 3. mgr. 87. gr. laganna bætast þrír nýir stafliðir, svohljóðandi:
       d.      nöfn dótturfélaga, starfsemi þeirra og hvar starfsemi fer fram; einnig skal birta yfirlit yfir staðsetningu útibúa og hvar félagið veitir þjónustustarfsemi án stofnunar útibús í öðrum ríkjum,
       e.      yfirlit yfir hvers konar greiðslur, styrki eða niðurgreiðslur, og fjárhæð þeirra, sem félagið hefur þegið frá stjórnvöldum,
       f.          arðsemi eigna í lykiltölum ársreikningsins; með arðsemi eigna er átt við hagnað félagsins eftir skatta sem hlutfall af meðalstöðu eigna á tímabilinu samkvæmt efnahagsreikningi.

30. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 93. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „dótturfyrirtæki“ tvívegis kemur: dótturfélög.
     b.      Orðin „skv. 97. gr.“ falla brott.

31. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 94. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „dótturfyrirtæki“ tvívegis kemur: dótturfélög.
     b.      Orðin „skv. 97. gr.“ falla brott.

32. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 97. gr. laganna:
     a.      1.–8. mgr. falla á brott.
     b.      Í stað orðsins „móðurfyrirtæki“ í 9. mgr. og orðsins „móðurfyrirtækið“ í 10. og 11. mgr. kemur: móðurfélag, og: móðurfélagið.

33. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „2. mgr., 4. málsl. 3. mgr. og 4.–6. mgr. 52. gr.“ í lokamálslið 4. mgr. 101. gr. laganna kemur: 2. mgr. og 4. málsl. 3. mgr. 52. gr. og 52. gr. a.

34. gr.

    Í stað orðsins „dótturfyrirtækjum“ í 2. málsl. 1. mgr. og 3. mgr. 107. gr. laganna kemur: dótturfélögum.

35. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 109. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „móðurfyrirtækið“ í 1. og 2. málsl. 1. mgr. kemur: móðurfélagið.
     b.      3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ákvæði 52. gr. og 52. gr. a um hæfisskilyrði stjórnar og framkvæmdastjóra og önnur störf stjórnarmanna, ákvæði 57. gr. a – 57. gr. c um starfskjarastefnu og kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja og 84. og 85. gr. um eigið fé gilda einnig um eingarhaldsfélög á fjármálasviði.
     c.      Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að félag skuli teljist hluti af samstæðu fjármálafyrirtækis þegar fjármálafyrirtækið hefur veruleg áhrif á félagið.
     d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Fjármálaeftirlitið setur reglur um eftirlit með fjármálafyrirtækjum á samstæðugrunni.

36. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 110. gr. laganna:
     a.      Í stað „áhættum“ í 15. tölul. kemur: áhættuskuldbindingum.
     b.      Í stað orðanna „um upplýsingaskyldu,“ í 22. tölul. kemur: um upplýsingaskyldu og viðvarandi mat á hæfi eiganda virkra eignarhluta.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „2., 3., 4. og 7. mgr. 52. gr.“ í 23. tölul. kemur: 2., 3. og 5. mgr. 52. gr. og 52. gr. a.
     d.      Í stað tilvísunarinnar „52. gr. b“ í 24. tölul. kemur: 52. gr. c.
     e.      Í stað tilvísunarinnar „52. gr. c“ í 25. tölul. kemur: 52. gr. d.
     f.      Í stað tilvísunarinnar „2. og 3. mgr.“ í 27. tölul. kemur: 4. og 5. mgr.
     g.      31. tölul. orðast svo: 57. gr. a um starfskjarastefnu, 57. gr. b um kaupaukakerfi eða 57. gr. c um lækkun, afturköllun og endurgreiðslu kaupauka.
     h.      Í stað tilvísunarinnar „57. gr. b“ í 32. tölul. kemur: 57. gr. d.

37. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 112. gr. b laganna:
     a.      Í stað „áhættum“ í 11. tölul. kemur: áhættuskuldbindingum.
     b.      Í stað orðanna „um upplýsingaskyldu“ í 15. tölul. kemur: um upplýsingaskyldu og viðvarandi mat á hæfi eiganda virkra eignarhluta.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „2. og 3. mgr.“ í 16. tölul. kemur: 4. og 5. mgr.
     d.      20. tölul. orðast svo: 57. gr. a um starfskjarastefnu, 57. gr. b um kaupaukakerfi eða 57. gr. c um lækkun, afturköllun og endurgreiðslu kaupauka.
     e.      Í stað tilvísunarinnar „57. gr. b“ í 21. tölul. kemur: 57. gr. d.

38. gr.

    Á eftir 116. gr. laganna kemur ný grein, 116. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Upplýsingaskylda vegna könnunar- og matsferlis.

    Fjármálaeftirlitið skal birta opinberlega þá aðferðafræði og þau almennu viðmið sem stofnunin styðst við vegna könnunar- og matsferlis.

39. gr.

    Lokamálsliður 118. gr. laganna fellur brott.

40. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „2. mgr., 4. málsl. 3. mgr. og 4. mgr. 52. gr.“ í 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða V kemur: 2. mgr. og 4. málsl. 3. mgr. 52. gr. og 52. gr. a.

41. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 24. gr. (57. gr. b og 57. gr. c) taka til samninga um kaupauka sem stofnað er til eftir gildistöku laga þessara.
    Ákvæði 28. gr. (84. gr. a og 84. gr. b) koma ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2015.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    
Nýjar alþjóðlegar reglur um eigið fé fjármálafyrirtækja voru kynntar síðla árs 2010. Reglurnar byggjast á svonefndum Basel III staðli (e. Basel III: A global regulatory framework for more resilient banks and banking systems) sem kynntur var af Basel-nefndinni um bankaeftirlit (e. Basel Committee on Banking Supervision) í desember 2010. Basel-nefndin hefur áður sett Basel I og Basel II staðla árin 1988 og 2004 og er Basel III staðallinn endurskoðun á fyrrgreindum stöðlum ásamt nýjum og bættum reglum. Nýjar reglur sem finna má í Basel III staðlinum eiga ásamt því að bæta eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækja m.a. að styrkja bæði innra og ytra eftirlit með fjármálafyrirtækjum og bæta áhættustýringu þeirra. Meginmarkmið nýrra reglna er að gera fjármálafyrirtæki betur í stakk búin til þess að mæta rekstrartapi og tryggja fjármálastöðugleika.
    Evrópusambandið samþykkti í júní 2013 nýtt regluverk sem byggist á Basel III staðlinum, annars vegar tilskipun 2013/36/ESB (e. Directive 2013/36/EU of the European Parliament and of the Council of 26 June 2013 on access to the activity of credit institutions and the prudential supervision of credit institutions and investment firms, amending Directive 2002/ 87/EC and repealing Directives 2006/48/EC and 2006/49/EC) sem almennt er kölluð CRD IV og hins vegar reglugerð (ESB) nr. 575/2013 (e. Regulation (EU) No 575/2013 of the European Parliament and of the Council of 26 June 2013 on prudential requirements for credit institutions and investment firms and amending Regulation (EU) No 648/2012) sem almennt er kölluð CRR. Þessar nýju gerðir fela í sér heildarendurskoðun Evrópusambandsins á regluverki á sviði fjármálamarkaðar, þ.e. umgjörð og starfsemi fjármálafyrirtækja og eftirlits með fjármálafyrirtækjum, og innleiðingu á Basel III staðli í Evrópulöggjöf.
    Með frumvarpi þessu er stefnt að því að stíga fyrsta skrefið í því að aðlaga íslenska löggjöf á sviði fjármálamarkaða að Basel III staðlinum og nýju regluverki Evrópusambandsins.
    Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samræmi við tillögur nefndar sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra skipaði 17. september 2012, en málefni fjármálamarkaðar heyrðu undir málefnasvið þess ráðuneytis fram að ríkisstjórnarskiptum á vordögum 2013. Samkvæmt skipunarbréfi var nefndinni ætlað að huga að innleiðingu á nýjum reglum Evrópusambandsins um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og eftirlitskröfur gagnvart fjármálafyrirtækjum o.fl. í íslenskan rétt. Nefndinni var einnig ætlað að fara yfir gildandi regluverk á svið fjármálamarkaðar og athuga hvort úrbóta væri þörf. Í nefndinni sitja Leifur Arnkell Skarphéðinsson, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, formaður nefndarinnar, Elvar Guðmundsson, sérfræðingur í áhættugreiningu, og Hjálmar Stefán Brynjólfsson lögfræðingur, tilnefndir af Fjármálaeftirlitinu, Gísli Sigurbjörn Óttarsson, framkvæmdastjóri hjá Arion banka, og Thomas Sko Jensen, forstöðumaður áhættustýringar hjá MP banka, tilnefndir af Samtökum fjármálafyrirtækja, og Harpa Jónsdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri og Ragnar Árni Sigurðarson lögfræðingur, tilnefnd af Seðlabanka Íslands. Í nefndinni sátu áður María Rúriksdóttir, Oddgeir Á. Ottesen, Perla Ösp Ásgeirsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Þórdís Sveinsdóttir.

II. Um CRD IV/CRR og innleiðingu í íslenskan rétt.
    Nýtt regluverk Evrópusambandsins um breytingar á löggjöf á sviði fjármálamarkaðar var birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins 27. júní 2013 og tók gildi í ríkjum Evrópusambandsins 17. júlí 2013. Samkvæmt tilskipun 2013/36/ESB áttu öll aðildarríki Evrópusambandsins að innleiða regluverkið í landsrétt fyrir 1. janúar 2014 og fjármálafyrirtæki á innri markaðinum áttu að hlíta reglunum frá sama tímamarki en ákveðnar reglur taka gildi í skrefum fram til ársins 2019.
    Regluverkið felur annars vegar í sér tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB frá 26. júní 2013, um stofnun og starfsemi lánastofnana og varfærniseftirlits með lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum, til breytinga á tilskipun 2002/87/EB, sem felldi brott tilskipanir 2006/48/EB og 2006/49/EB, og hins vegar reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 frá 26. júní 2013 um varfærniskröfur gagnvart lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum og til breytinga á reglugerð (ESB) nr. 648/2012. Koma gerðir þessar í stað tilskipana Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB og 2006/49/EB ásamt seinni breytingum (eldri bankatilskipana ESB) sem innleiddar hafa verið í íslenskan rétt. Helsta ástæða heildarendurskoðunar Evrópusambandsins á regluverki sínu á sviði fjármálamarkaðar eru fjármálaerfiðleikar aðildarríkja sambandsins síðustu ár.
    Óvíst er hvort regluverk Evrópusambandsins verði tekið upp í EES-samninginn á næstunni sem rekja má til krafna Evrópusambandsins um framsal valds til eftirlitsstofnana Evrópusambandsins á fjármálamarkaði. Fjármála- og efnahagsráðuneytið, forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið vinna að lausn málsins í samvinnu við stjórnvöld í Noregi og Liechtenstein og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Það er aftur á móti vilji íslenskra stjórnvalda að íslensk lög og reglur á þessu málefnasviði endurspegli þær reglur sem gilda í nágrannalöndum Íslands hverju sinni. Norðurlandaþjóðirnar hafa þegar innleitt flestar reglur sem finna má í nýju regluverki Evrópusambandsins vegna aðildar sinnar að Evrópusambandinu. Jafnframt er það vilji íslenskra stjórnvalda að löggjöf á sviði fjármálamarkaða sé á öllum tímum í samræmi við þær lágmarkskröfur sem Evrópusambandið setur fjármálafyrirtækjum á innri markaði. Í ljósi fjármálahrunsins er mjög brýnt að Ísland sýni staðfestu í þessum málum. Með því er stefnt að auknu trausti á íslenskum fjármálamarkaði bæði hér á landi og erlendis. Íslensk stjórnvöld hafa því tekið þá ákvörðun að leggja til breytingar á lögum og reglum í samræmi við regluverk Evrópusambandsins þrátt fyrir að það hafi ekki enn orðið hluti af EES-samningnum. Sambærileg leið er nú farin í öðrum EFTA-ríkjum.

III. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarp þetta er fyrsta skrefið í þá átt að aðlaga íslenskan rétt nýju regluverki Evrópusambandsins á sviði fjármálamarkaðar og með því nýjum Basel III staðli. Regluverkið er viðamikið og fjölmargar breytingar hafa verið gerðar á eldri tilskipunum á sama sviði. Með tilliti til umfangs ákvað starfshópur sem skipaður var til þess að innleiða nýtt regluverk Evrópusambandsins að skipta efninu upp í þrjá meginhluta. Í þessum fyrsta hluta frumvarpsins er að finna breytingar sem byggðar eru á efni tilskipunarinnar varðandi starfsleyfi, stofnun og starfsemi (áhættustýringu), starfsheimildir (stórar áhættuskuldbindingar), eignarhluti og meðferð þeirra, stjórn og starfsmenn, starfskjarastefnu og kaupaukakerfi, meðhöndlun áhættu í starfsemi fjármálafyrirtækis, laust fé og eigið fé (verndunarauka). Stefnt er að því að leggja fram annað frumvarp á þessu ári sem mun innihalda breytingar á ákvæðum er varða eigið fé, útibú og þjónustustarfsemi, aðra eiginfjárauka, könnunar- og matsferli Fjármálaeftirlitsins, samstæðueftirlit, valdheimildir eftirlitsaðila o.fl. Í þriðju atrennu er stefnt að því að lögfesta ákvæði tilskipunar 2013/36/ESB og reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 sem eftir standa.
    Samhliða endurskoðun á lögum og reglum á fjármálamarkaði á grundvelli Basel III staðalsins og CRD IV er unnið að fleiri breytingum á löggjöf á þessu sviði í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Á vegum ráðuneytisins starfar nefnd sem var falið að semja ný heildarlög um skilameðferð fjármálafyrirtækja. Þá er stefnt að því að leggja fram ný heildarlög um fjármálastöðugleikaráð á yfirstandandi þingi. Loks er verið að leggja lokahönd á frumvarp til laga um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta í samræmi við tilskipunardrög Evrópusambandsins um sama efni.
    Nokkrar breytingar sem finn má í frumvarpinu eru tilkomnar vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA við innleiðingu tilskipunar 2002/87/EB (fjármálasamsteypur) og tilskipun 2004/39/EB (MiFID) í íslenskan rétt. Með frumvarpi þessu er stefnt að því að gera breytingar á lögum sem innleiða viðkomandi ákvæði tilskipananna að fullu í íslenskan rétt og uppfylla þannig skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum.

IV. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, hvað varðar starfsleyfi, eftirlitskerfi með áhættu, virka eignarhluti, stjórn og starfsmenn fjármálafyrirtækja, innri stjórnhætti, starfskjör og kaupaukastefnu fjármálafyrirtækis, stórar áhættuskuldbindingar og breytingar á viðurlagakafla laganna til samræmis við framangreindar breytingar. Flest ákvæði frumvarpsins eru tilkomin vegna breytinga á lögum í samræmi við nýtt CRD IV regluverk Evrópusambandsins.

1. Breytingar á VII. kafla laganna vegna stjórnarhátta fjármálafyrirtækja.
    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á VII. kafla laganna. Í fyrstu má nefna breytingu á heiti kaflans en með frumvarpi þessu er lagt til að heiti VII. kafla verði „Stjórn, stjórnarhættir og starfsmenn“. Forsenda þess að kaflaheitinu er breytt er sú að með frumvarpinu er stefnt að því að treysta betur ábyrgð stjórnar fjármálafyrirtækis á stjórnarháttum þess. Þá er með breytingum á kaflanum stefnt að því að tryggja að stjórnarmenn hafi öflugra eftirlit með heildarstarfsemi fyrirtækisins, þar á meðal áhættusækni fyrirtækis og ákvarðanatöku framkvæmdarstjóra og lykilstarfsmanna.
    Í inngangsliðum að tilskipun 2013/36/ESB kemur fram að stjórnarhættir innan fjármálafyrirtækja séu að mati Evrópusambandsins taldir ein ástæða þeirra erfiðleika sem upp hafa komið á fjármálamarkaði í aðildarríkjum sambandsins seinustu árin. Sérfræðingar Evrópusambandsins telja að veikleikar í umræddum reglum og jafnframt skortur á reglum varðandi stjórnarhætti hafi haft áhrif á bæði óhóflega og vanhugsaða áhættutöku sem hafi átt sinn þátt í falli fjármálafyrirtækja og skapað kerfisleg vandamál í Evrópu og víða annars staðar. Leiðbeinandi viðmið um stjórnarhætti fjármálafyrirtækja hafa ekki haft þau áhrif sem vænst var. Skortur á reglum um bæði innra og ytra eftirlit með framfylgni við reglur um stjórnarhætti er talinn hafa leitt til aukinnar áhættuhegðunar starfsmanna og hvata til innan fjármálafyrirtækja til skammtímaávöxtunar á kostnað langtímaávöxtunar.
    Í frumvarpinu er lagt til að skýrt verði kveðið á um að stjórn fjármálafyrirtækis skuli bera heildarábyrgð á starfsemi fjármálafyrirtækis. Það verður því á ábyrgð stjórnar að settar séu nákvæmar reglur um stjórnarhætti fyrirtækis og mun stjórn þess hafa eftirlit með því að reglunum sé fylgt og starfsmenn sæti viðurlögum ef þeir brjóta gegn reglunum. Þá skal stjórn hafa með höndum stefnumótun félagsins og yfirsýn yfir áhættustefnu og áhættuvilja innan fyrirtækisins. Árlega skal stjórn fjármálafyrirtækis yfirfara reglur um innri stjórnarhætti og bregðast við með viðeigandi hætti ef þörf er á úrbótum.

2. Breytingar á II. kafla laganna um starfsleyfi fjármálafyrirtækis.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á II. kafla laganna um starfsleyfi fjármálafyrirtækja. Helstu breytingarnar varða 9. gr. laganna um afturköllun starfsleyfis. Í fyrsta lagi er lagt til að brot á ákvæðum laganna er varða laust fé og stórar áhættuskuldbindingar geti leitt til afturköllunar starfsleyfis. Í öðru lagi bætast tveir nýir töluliðir við 9. gr. laganna. Annars vegar er um að ræða nýjan 8. tölul. þar sem Fjármálaeftirlitinu er veitt heimild til þess að afturkalla starfsleyfi fjármálafyrirtækis ef það uppfyllir ekki lengur einhver af þeim lögbundnu skilyrðum sem það þurfti að uppfylla lögum samkvæmt til þess að hljóta starfsleyfið. Hins vegar er um að ræða nýjan 9. tölul. sem veitir Fjármálaeftirlitinu heimild til þess að afturkalla starfsleyfi fjármálafyrirtækis ef verulegur vafi leikur á því að fyrirtækið geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart lánveitendum og innlánseigendum. Ákvæðið er nátengt ákvæði núgildandi 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna og verður Fjármálaeftirlitið að hafa mjög ríkar ástæður til þess að beita heimildinni og þá einungis í neyðartilfellum. Hér skal líta til þess skilyrðis að tryggja skuli hagsmuni kröfuhafa og innstæðueigenda viðkomandi fjármálafyrirtækis.

3. Breytingar á VI. kafla laganna um eignarhluti og meðferð þeirra.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á VI. kafla laganna sem fjallar um eignarhluti og meðferð þeirra. Breytingarnar felast m.a. í því að tilkynna skal um breytingu á virkum eignarhlut þegar hann nær eða fer yfir 20%, 25%, 33% eða 50% mörkin. Samkvæmt núgildandi lögum er einungis kveðið á um að eignarhlutur þurfi að fara yfir fyrrgreind mörk. Þá eru gerðar breytingar á reglum um móttöku tilkynninga um breytingu á virkum eignarhlut og tímafresti. Í frumvarpinu er einnig stefnt að því að styrkja reglur sem heimila Fjármálaeftirlitinu að hafa viðvarandi eftirlit með hæfi eigenda virkra eignarhluta og bregðast við því þegar eigandi virks eignarhlutar er ekki lengur talinn hæfur til þess að fara með hlutinn.

4. Eftirlitskerfi með áhættu og áhættunefnd.
    
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar er varða eftirlit með áhættu í starfsemi fjármálafyrirtækja, þar á meðal það nýmæli að fjármálafyrirtæki skuli setja á stofn sérstaka áhættunefnd. Áhættunefnd ber að afla upplýsinga sem snúa að áhættu í starfsemi fjármálafyrirtækis og yfirfara þær og vera stjórn fyrirtækisins til ráðgjafar. Einnig eru lagðar til breytingar á 17. gr. laganna sem fjalla um störf áhættustýringar. Markmið breytinga á 17. gr. laganna er að styrkja heimildir, óhæði og störf áhættustýringar.

5. Starfskjarastefna og kaupaukakerfi.
    Núgildandi ákvæði 57. gr. a laganna kom nýtt inn í lögin með lögum nr. 75/2010 í kjölfar fjármálahrunsins. Mikil umræða varð bæði hér á landi og í Evrópu í kjölfar bankahrunsins um launa- og hvatakerfi fjármálafyrirtækja. Á grundvelli ákvæðisins setti Fjármálaeftirlitið reglur nr. 700/2011, um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja. Reglurnar tóku mið af breytingum sem urðu á vettvangi Evrópusambandsins. Ný ákvæði um kaupaukakerfi í frumvarpi þessu taka mið af 92.–94. gr. tilskipunar 2013/36/ESB en þar er að finna nýjar samevrópskar reglur um starfskjör og kaupauka til starfsmanna fjármálafyrirtækja.
    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að hlutfall kaupauka af föstum árslaunum verði 25% og hluthafafundur hafi heimild til þess að hækka hlutfallið upp í 100%. Jafnframt verði heimilt að veita starfsmönnum áhættustýringar, endurskoðunardeildar og regluvörslu kaupaukagreiðslur. Þá er kveðið á um frestun á að a.m.k. 40% af kaupaukagreiðslum í a.m.k. þrjú ár og við skilameðferð fjármálafyrirtækis verði heimilt að fella niður, lækka eða umbreyta kaupaukum í nýtt hlutafé í fjármálafyrirtækinu eða nýju félagi (e. Bail-In).

6. Breyting á X. kafla laganna um laust fé og eigið fé – nýir eiginfjáraukar.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um einn af eiginfjáraukunum svonefndu (e. Capital Buffers) sem felast í alþjóðlega Basel III staðlinum. Meginhugmyndin er að lögfesta einn eiginfjárauka, verndunarauka (e. Capital Conservation Buffer).
    Tilskipun 2013/36/ESB innleiðir hugmyndafræði Basel III staðalsins um sérstaka eiginfjárauka í Evrópurétt og er útfærslan eftirfarandi: Skilgreindir eru fimm eiginfjáraukar, verndunarauki (e. Capital Conservation Buffer), hagsveiflujöfnunarauki á einstakar stofnanir (e. Institution-Specific Countercyclical Buffer), kerfisáhættuauki (e. Systemic Risk Buffer), eiginfjárauki á kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki á alþjóðavísu (e. Global Systemically Important Institutions) og eiginfjárauki á önnur kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki (e. Other Systemically Important Institutions). Umræddir eiginfjáraukar verða lögfestir hér á landi á komandi missirum. Með umræddum eiginfjáraukum verður fjármálafyrirtækjum gert að styrkja eigið fé sitt til að mæta áhættum í starfsemi sinni, en nokkur munur er á þessum eiginfjáraukum. Fjármálafyrirtækjum er skylt að byggja upp eigið fé til að mæta eiginfjárkröfu vegna verndunarauka, en hagsveiflujöfnunaraukinn á að vera breytilegur og taka tillit til hagsveiflu eða kerfisáhættu í þeim hagkerfum þar sem fjármálafyrirtæki er með starfssemi. Hagsveiflujöfnunaraukinn getur því verið breytilegur og gildi hans þarf ekki að vera fast, líkt og með verndunaraukann sem er fastur sem 2,5%.

V. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Flestar breytingar sem lagðar eru til á lögunum byggjast á efni tilskipunar 2013/36/ESB. Tilskipunin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn en tilskipunin tekur til alls EES- svæðisins. Þrátt fyrir að tilskipunin hafi ekki verið tekin upp í EES-samninginn telja stjórnvöld að mikilvægt sé að breyta löggjöf á sviði fjármálamarkaða með hliðsjón af efni hennar enda er um að ræða heildarendurskoðun Evrópusambandsins á löggjöf sinni um starfsemi fjármálafyrirtækja og eftirlit með fjármálafyrirtækjum í kjölfar fjármálaerfiðleikanna í Evrópu seinustu árin. Öll ríki Evrópusambandsins vinna að innleiðingu regluverksins í landsrétt sinn. Önnur EFTA-ríki sem aðilar eru að EES-samningnum hafa einnig ákveðið að aðlaga landsrétt sinn með hliðsjón af regluverkinu þrátt fyrir að það sé ekki orðið hluti af EES- samningnum.
    Fjármála- og efnahagsráðuneytinu hafa borist ábendingar frá Eftirlitsstofnun EFTA varðandi innleiðingu á tilskipunum 2004/39/EB (MiFID-tilskipunin) og 2002/87/EB (fjármálasamsteypur). Báðar tilskipanirnar hafa verið teknar upp í íslenskan rétt með lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Með breytingu á 37. og 109. gr. laganna með frumvarpi þessu er brugðist við ábendingum frá Eftirlitsstofnun EFTA.

VI. Samráð.
    Frumvarpið er að stærstum hluta samið af nefnd sem fer yfir löggjöf á sviði fjármálamarkaðar með tilliti til nýrrar heildarlöggjafar Evrópusambandsins á sviði fjármálamarkaðar. Í nefndinni sitja fulltrúar frá Fjármálaeftirlitinu, Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands. Við vinnslu frumvarpsins gafst umræddum stofnunum og Samtökum fjármálafyrirtækja færi á að skila sérstökum umsögnum um ákvæði þess. Ákvæði sem finna má í 5., 21.–24., 28. og 38. gr. frumvarpsins voru að stærstum hluta unnin í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Nokkur ákvæði eru tilkomin vegna ábendinga frá Eftirlitsstofnun EFTA og hefur útfærsla á þeim verið unnin í samráði við stofnunina. Þá hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið einnig verið í samskiptum við fjármálaráðuneyti Noregs og Liechtenstein við útfærslu á ákvæðum er varða CRD IV regluverkið. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur einnig átt í samskiptum við sérfræðinga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vegna útfærslu annarra Evrópuríkja á nokkrum ákvæðum sem er að finna í frumvarpinu.

VII. Mat á áhrifum og efnahagsleg áhrif.
    
Með frumvarpinu eru stigin fyrstu skref í aðlögun íslenska fjármálakerfisins að Basel III staðli en meginmarkmið staðalsins er að skapa traustari umgjörð um rekstur og starfsemi fjármálafyrirtækja í þeim tilgangi að draga úr kerfislægri áhættu. Með því er unnt að draga úr líkum á fjármálaáföllum á borð við fall íslenska fjármálakerfisins og alþjóðlegu skuldakreppuna sem öll heimsbyggðin hefur glímt við frá 2008. Hert regluverk mun ekki aðeins draga úr tíðni fjármálaáfalla heldur einnig stuðla að því að dregið sé úr neikvæðum áhrifum þeirra á efnahagslífið þegar þau skella á. Ljóst er að fjármálakreppur geta haft varanleg neikvæð áhrif á hagvöxt og vísbendingar eru um að óhóflegar hagsveiflur geti dregið úr hagvexti til lengri tíma. Traust og stöðugt fjármálakerfi er betur í stakk búið til þess að styðja við aðrar greinar atvinnulífsins og þar með undirbyggja stöðugan hagvöxt til frambúðar.
    Þær breytingar í frumvarpinu sem lúta að breyttum stjórnarháttum fjármálafyrirtækja og starfskjarastefnu þeirra eru til þess fallnar að efla áhættuvitund stjórnarmanna og annarra starfsmanna fjármálafyritækja. Breytingarnar, sem festa í sessi reglur um frestun kaupauka, munu jafnframt aðlaga hvata einstakra starfsmanna að hagsmunum fyrirtækja. Markmið breytinganna er að auka líkur á að langtímahagsmunir fyrirtækisins ráði för þegar ákvarðanir eru teknar í stað skammtímahagsmuna einstaklinga. Heimildir til greiðslu kaupauka eru þó auknar þannig að heimilt verður að veita tilteknum einingum fjármálafyrirtækis kaupauka sem áður voru undanskildar þeirri heimild. Þessar breytingar taka mið af reglum um greiðslur kaupauka á Norðurlöndum og tilskipun 2013/36/ESB. Þessar breytingar eiga einnig að tryggja að íslensk fjármálafyrirtæki verði ekki undir í samkeppni um hæft starfsfólk. Þegar stigin verða stærri skref í afléttingu fjármagnshafta hér á landi verður sérstaklega mikilvægt að standa vörð um samkeppnishæfni íslenskra fjármálafyrirtækja, þó með fjármálastöðugleika í forgrunni.
    Líkt og fram kemur í IV. kafla kveður Basel III staðallinn á um innleiðingu nokkurra nýrra eiginfjárauka. Í frumvarpinu er lagt til að einn þessara eiginfjárauka verði innleiddur í íslenskan rétt að þessu sinni. Um er að ræða verndunarauka sem nemur 2,5% af hlutfalli eiginfjárliða undir eiginfjárþætti A á móti áhættugrunni. Markmiðið með þessari ráðstöfun er byggja upp aukið svigrúm innan fjármálafyrirtækja til þess að mæta hvers konar áföllum. Aðgerðin er til þess fallin að draga úr líkum á fjármálaáföllum og gerir fyrirtæki að öðru óbreyttu betur í stakk búin til þess að bregðast við áföllum og draga úr neikvæðum afleiðingum þeirra.
    Til skamms tíma er ekki útilokað að auknar eiginfjárkvaðir hækki fjármagnskostnað fyrirtækja, einkum smærri fyrirtækja sem uppfylla ekki þegar þær auknu kröfur sem verndunaraukinn felur í sér. Slíkt gæti leitt til lakari lánskjara til einstaklinga og annarra fyrirtækja sem þó ræðst af getu fjármálafyritækja til þess að velta auknum fjármagnskostnaði út í verðlag þjónustunnar. Ef vextir á almennum lánum til einstaklinga og fyrirtækja hækka til skamms tíma getur það bitnað á hagvexti, einkum í formi lægri fjárfestingar en ella. Til lengri tíma, þegar Basel III staðallinn hefur verið innleiddur í heild sinni, er þó líklegt að áhrifin á fjármagnskostnað fjármálafyrirtækja verði lítill, enda er heildarmarkmiðið stöðugra og áhættuminna fjármálakerfi sem verður betur í stakk búið til að þess að miðla fjármagni á skilvirkan hátt, hagkerfinu öllu til hagsbóta.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.
    

    Með frumvarpinu er lögð til ein breyting á 1. gr. a laganna ásamt því að lagt er til að við ákvæðið bætist við tólf nýir töluliðir.
    Breyting í a-lið er tilkomin vegna nýrra laga um útgáfu og meðferð rafeyris, nr. 17/2013, en þau gilda um starfsemi rafeyrisfyrirtækja. Við setningu laganna síðastliðið vor fyrirfórst að fella tilvísun úr orðskýringu í 10. tölul. ákvæðisins. Með frumvarpinu er lagt til að orðið falli brott.
    Í b-lið er lagt til að við 1. gr. a laganna bætist tólf nýjar orðskýringar. Orðskýringarnar sem við bætast sem nýir 14.–23. tölul. ákvæðisins er nú þegar að finna í lögunum en til hagræðingar og einföldunar þykir æskilegt að hafa orðskýringarnar í sérstökum orðskýringarákvæðum laganna. Eðlilegt er að ljúka við þá þróun sem orðið hefur á lögum um fjármálafyrirtæki seinustu ár og færa orðskýringar sem finna mátti í ýmsum ákvæðum laganna fremst í orðskýringarákvæði laganna. Orðskýringar sem lagt er til að bætist við sem nýir 24. og 25. tölul. er ekki að finna í núgildandi lögum.
    Orðskýringin sem lagt er til að bætist við sem 14. tölul. ákvæðisins er nú í gildandi 2. málsl. 1. mgr. 28. gr. laganna.
    Þær orðskýringar sem lagt er til að bætast við lögin sem 15.–20. tölul. ákvæðisins eru nú 1.–8. mgr. 97. gr. laganna. Sú breyting er gerð á orðskýringunum að í stað orðanna „móðurfyrirtæki“ og „dótturfyrirtæki“ koma orðin „móðurfélag“ og „dótturfélag“. Enginn eðlismunur hefur verið á notkun orðanna í lögunum og hending ein ráðið því hvort orðið hefur verið notað. Orðin „móðurfélag“ og „dótturfélag“ hafa skapað sér mun meiri festu, bæði í almennri og fræðilegri orðnotkun, og þykir því rétt að nota þau.
    Í 118. gr. núgildandi laga er að finna skilgreiningu á orðinu „fjármálagerningur“ samkvæmt lögunum og er sagt að með orðinu „fjármálagerningur“ sé átt við verðbréf samkvæmt skilgreiningu laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti. Lög nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, hafa verið felld úr gildi og gilda nú lög nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Skv. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, er verðbréf ein tegund fjármálagernings. Ný orðskýring verður því að efninu til rýmri en núgildandi skilgreining í 118. gr. laganna. Í framkvæmd hefur þó hugtakið fjármálagerningur fylgt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti. Því er ný skilgreining sem lagt er til að verði 21. tölul. ákvæðisins í samræmi við framkvæmd laganna og því ekki um eiginlega efnisbreytingu að ræða.
    Orðskýringar sem lagt er til að verði 22. og 23. tölul. ákvæðisins má finna í 2. og 3. mgr. 109. gr. laganna. Ekki er stefnt að því að breyta efnislegu inntaki skilgreininganna. Samkvæmt orðanna hljóðan náði skilgreining á orðinu „hlutdeildarfélag“ einungis til skýringar á hlutdeildarfélagi skv. 2. mgr. 109. gr. Í lagaframkvæmd hefur skilgreiningin hins vegar verið látin ná til skilgreiningar á „hlutdeildarfélagi“ samkvæmt lögunum í heild. Í samræmi við það er skilgreiningin nú látin ná til allra þeirra tilvika þegar talað er um hlutdeildarfélög samkvæmt lögunum.
    Nýja töluliði sem lagt er til að bætist við sem 24. og 25. tölul. ákvæðisins er ekki að finna í núgildandi lögum. Umræddar orðskýringar má þó finna í núgildandi reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 700/2011, um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja. Með tilliti til þeirra breytinga sem gerðar eru í 23. og 24. gr. frumvarpsins þykir rétt að skilgreina í lögunum orðin „kaupauki“ og „kaupaukakerfi“.

Um 2. gr.

    Breytingin er lögð til í samræmi við breytingar sem lagðar eru til í 17. og 18. gr. frumvarpsins og er vísað í athugasemdir við umrædd ákvæði.

Um 3. gr.

    Með breytingu í 3. gr. frumvarpsins er það áréttað að meðal þeirra upplýsinga um hluthafa og stofnfjáreigendur sem skulu fylgja umsókn um starfsleyfi skv. 5. gr. laganna eru upplýsingar um hlutfallslegt eignarhald allra hluthafa eða stofnfjárhafa þegar umsókn er lögð fram. Sambærilegt ákvæði er að finna í 20. gr. tilskipunar 2013/36/ESB.

Um 4. gr.

    Með breytingunni er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði óheimilt að synja um starfsleyfi á þeim grundvelli að ekki sé þörf á fleiri aðilum á markaðinn til þess að veita tiltekna fjármálaþjónustu. Sambærilegt ákvæði er í 11. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Ákvæðið byggist á sjónarmiðum um frjálsa för þjónustu innan EES-svæðisins en lög og reglur í einstökum EES-ríkjum eiga ekki að hindra aðila annarra ríkja á EES-svæðinu í að veita þjónustu í viðkomandi ríki ef EES-reglur heimila slíkt. Með nýju ákvæði er áréttað að mat fyrir veitingu starfsleyfis sem og synjun á veitingu starfsleyfis verður að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum.

Um 5. gr.

    Lagðar eru til þrjár breytingar á 9. gr. laganna um afturköllun starfsleyfis fjármálafyrirtækis. Sambærileg ákvæði eru í 18. gr. tilskipunar 2013/36/ESB.
    Í a-lið er lagt til að við 2. tölul. 1. mgr. bætist tilvísun til þess að fjármálafyrirtæki þurfa að uppfylla kröfur laganna um laust fé og stórar áhættuskuldbindingar (e. Large Exposures) en geri þau það ekki geti það leitt til afturköllunar starfsleyfis. Breytingarnar byggjast á d-lið 18. gr. tilskipunar 2013/36/ESB en ákvæði tilskipunarinnar vísar einnig til þeirra atriði sem finna má í 1. mgr. 67. gr. sömu tilskipunarinnar.
    Með tillagðri breytingu fellur einnig út tilvísun til fjölda stofnfjáreigenda en með breytingu sem gerð var á lögunum með 6. gr. laga nr. 77/2012, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, var fallið frá kröfu um lágmarksfjölda stofnfjáreigenda í sparisjóðum. Rétt þykir því að fella tilvísun til fjölda stofnfjáreigenda brott úr ákvæðinu í samræmi við þá breytingu.
    Í b-lið er lagt til að tilvísun til lagaákvæða verði færð til samræmis við breytingar sem lagðar eru til í 17. og 18. gr. frumvarpsins.
    Í c-lið er lagt til að tveir nýir töluliðir bætist við 1. mgr. Í 8. tölul. er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til þess að afturkalla starfsleyfi fjármálafyrirtækis ef það uppfyllir ekki lengur einhver hinna lögbundnu skilyrða sem það þurfti að uppfylla upphaflega lögum samkvæmt til þess að hljóta starfsleyfið. Með þessu er átt við einhver skilyrði sem áttu sér stoð í lögum til þess að hljóta starfsleyfi á þeim tíma sem fjármálafyrirtækið fékk starfsleyfið. Ákvæðið byggist á c-lið 18. gr. tilskipunar 2013/36/ESB.
    Í 9. tölul. er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til að afturkalla starfsleyfi fjármálafyrirtæki ef verulegur vafi leikur á því að fjármálafyrirtækið geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart lánardrottnum og innlánseigendum. Hér ber að líta til þess skilyrðis að tryggja skuli hagsmuni kröfuhafa og innstæðueigenda í hvívetna. Ákvæðið er nátengt heimild sem finna má í ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum, og verður að telja að Fjármálaeftirlitið verði að hafa mjög ríkar ástæður til þess að beita heimildinni og henni sé þá einungis beitt í neyðartilfellum. Fyrir Alþingi er nú frumvarp sem framlengja á ákvæði til bráðabirgða VI fram til 31. desember 2015. Það sem hér getur fallið undir er t.d. ef eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækis lækkar hratt sem kann að auka líkurnar á því að brotið verði gegn reglum um lágmark eiginfjárgrunns í náinni framtíð. Að auki kann að falla hér undir þegar hratt gengur á laust fé fjármálafyrirtækisins þannig að líklegt sé að það geti ekki í náinni framtíð uppfyllt skuldbindingar sínar gagnvart innstæðueigendum og öðrum kröfuhöfum. Mælikvarðinn á verulegum vafa samkvæmt ákvæðinu skal eftir fremsta megni vera hlutlægur. Nýr 9. tölul. byggist á d-lið 18. gr. tilskipunar 2013/36/ESB en ákvæðið vísar einnig til 1. mgr. 104. og 105. gr. sömu tilskipunar.

Um 6. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 17. gr. laganna sem fjallar um áhættustýringu fjármálafyrirtækja. Lagt er til að fjármálafyrirtæki skuli á grundvelli 1. mgr. 17. gr. setja innri ferla til að meta nauðsynlega stærð, samsetningu og innri dreifingu eiginfjárgrunns með hliðsjón af áhættum sem starfsemi þeirra felur í sér. Með breytingunum er lagt til að í 17. gr. laganna verði kveðið á um að innri ferlar skuli ná til meðhöndlunar þeirra áhættuþátta sem tilteknir eru í ákvæðinu og að fjármálafyrirtækjum beri að setja ferla sem samræmast kröfum og skilyrðum hvers áhættuþáttar fyrir sig. Með eftirstæðri áhættu (e. Residual Risk) í ákvæðinu er átt við áhættu sem verður til þegar viðurkenndar aðferðir fjármálafyrirtækis við mildun á útlánaáhættu reynast ekki jafnárangursríkar og áætlað var. Með áhættu vegna óhóflegrar vogunar (e. Risk of Excessive Leverage) er átt við áhættu sem myndast vegna misræmis á milli eigna og skuldbindinga fjármálafyrirtækisins.
    Í ákvæðinu er kveðið á um óhæði og helstu verkefni áhættustýringar, þ.m.t. upplýsingaöflun. Samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að yfirmaður áhættustýringar sé sjálfstæður stjórnandi. Með þessu á að tryggja óhæði hans sem stjórnanda og er mikilvægt að störf hans í þágu fjármálafyrirtækis leiði ekki af sér hagsmunaárekstra. Yfirmaður áhættustýringar skal ekki sinna tekjuöflun fjármálafyrirtækis af hefðbundinni bankastarfsemi. Sé yfirmaður áhættustýringar ekki í sérstöku stöðugildi er mikilvægt að viðkomandi starfsmaður sinni ekki öðrum störfum sem kunna að fela í sér hagsmunaárekstra. Ákvæðið gerir ráð fyrir að yfirmaður áhættustýringar sitji í framkvæmdastjórn fyrirtækisins eða á sambærilegum vettvangi þar sem mikilvægar ákvarðanir um daglegan rekstur eru teknar.
    Meginverkefni áhættustýringar eru aðkoma að öllum viðameiri ákvörðunum sem snúa að áhættustýringu, auk þess sem áhættustýring skal sjá til þess að allar skýrslur sem snúa að áhættu í starfsemi fjármálafyrirtækis séu unnar og þeim skilað til stjórnenda og eftirlitsaðila. Áhættustýring skal hafa yfirsýn yfir áhættuþætti í starfsemi fjármálafyrirtækis.
    Til að tryggja óhæði áhættustýringar er lagt til að ekki verði unnt að segja yfirmanni áhættustýringar upp störfum nema stjórn fjármálafyrirtækis komi að þeirri ákvörðun og veiti samþykki sitt á stjórnarfundi. Það telst því ekki nægjanlegt að stjórn fjármálafyrirtækis veiti samþykki sitt fyrir uppsögn eða brottrekstri eftir á.
    Gert er ráð fyrir að fjármálafyrirtæki tryggi aðgang áhættustýringar að öllum upplýsingum sem nauðsynlegar eru við störf hennar. Ekki er afmarkað í ákvæðinu hvaðan upplýsingar eiga að koma eða á hvaða formi þær eiga að vera. Fjármálafyrirtæki skal hins vegar tryggja að áhættustýring hafi allar upplýsingar sem einingin telur nauðsynlegar til að sinna skyldum sínum. Í sumum tilvikum skulu starfsmenn sem sinna áhættustýringu sjálfir meta hvaðan slíkar upplýsingar eiga að koma og form þeirra.
    Sambærileg ákvæði eru að finna í 76. gr. tilskipunar 2013/36/ESB.

Um 7. gr.

    Ef frumvarp þetta verður að lögum verður núgildandi 3. mgr. 19. gr. að 7. mgr. 54. gr. laganna. Vísað er í skýringar varðandi breytingar í 19. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er lögð sú skylda á fjármálafyrirtæki, komi upp ágreiningur við viðskiptavini þess, að tryggja að komið sé á málsmeðferð sem gerir viðskiptavinum og öðrum hagsmunaaðilum kleift að leggja fram kvartanir gegn þeim. Þá er einnig gerð sú krafa að öllum kvörtunum skuli svarað.

Um 9. gr.

    Um er að ræða skilgreiningu á hugtakinu „fyrirtæki tengt fjármálasviði“. Vísað er til skýringar með 1. gr. frumvarpsins en samkvæmt breytingunni er lagt til að öll hugtök og orðskýringar laganna séu færð í sér ákvæði um orðskýringar fremst í lögunum. Því fellur skilgreiningin brott úr ákvæði 1. mgr. 28. gr. laganna.

Um 10. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 30. gr. laganna sem fjallar um takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum. Breytingarnar eru m.a. tilkomnar vegna endurskoðaðra reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 625/2013, um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum. Í 1. mgr. 30. gr. er lagt til að sérstakt fjárhæðarmark verði lögfest vegna áhættuskuldbindinga hjá fjármálafyrirtækjum þar sem mótaðilinn er annað fjármálafyrirtæki. Mælt er fyrir slíku fjárhæðarmarki í 1. mgr. 111. gr. núgildandi bankatilskipunar, 2006/48/EB, með áorðnum breytingum, samkvæmt tilskipun 2009/111/EB, sem innleidd hefur verið í íslenskan rétt. Aðildarríkjum EES er heimilt að binda slík fjárhæðarmörk í lög sín eða stjórnvaldsfyrirmæli nemi þau ekki hærri fjárhæð en 150 milljónum evra. Í frumvarpi þessu er lagt til að lögfest verði fjárhæðarmark, 5 milljarðar kr., sem er talsvert innan þeirrar heimildar sem kveðið er á um í tilskipuninni.
    Engar efnislegar breytingar eru gerðar á 2. mgr. og 3. mgr. ákvæðisins en í 4. mgr. ákvæðisins eru lagðar til tvær breytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti veitt fjármálafyrirtæki undanþágu frá takmörkunum 1. mgr. og að stofnuninni verði veitt heimild til að lögfesta ákvæði 4. mgr. 111. gr. tilskipunar 2006/48/EB, með áorðnum breytingum samkvæmt tilskipun 2009/111/EB. Undanþágan beinist ekki sérstaklega að tilvikum þar sem fjármálafyrirtæki hefur þegar farið yfir þau mörk sem kveðið er á um í 1. mgr. 30. gr. laganna, heldur er hún almenn. Líklegt má þó telja að fyrst og fremst reyni á slíka undanþágu komi til þess að fjármálafyrirtæki fari yfir þau mörk sem kveðið er á um í 1. mgr., þ.e. eftir að slíkt tilfelli hefur komið upp. Breytingin helst í hendur við breytingar sem þegar hafa verið gerðar á frádráttarliðum 9. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 625/2013 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum. Jafnframt er í ákvæðinu kveðið á um að í reglum um stórar áhættuskuldbindingar skuli kveðið á um eiginfjárkröfur vegna umframáhættu stórra áhættuskuldbindinga. Er þetta gert til að skjóta styrkari lagastoð undir ákvæði er varða meðhöndlun umframáhættu stórra áhættuskuldbindinga sem hafa verið innleidd í reglur sem Fjármálaeftirlitið setur.
    Þá er lagt til að fellt verði brott úr gildandi ákvæði 30. gr. að samtala stórra áhættuskuldbindinga megi ekki fara yfir 400% af eiginfjárgrunni, og er það til samræmis við reglur Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum. Sú breyting er einnig í samræmi við gildandi tilskipanir 2006/48/EB og 2006/49/EB, sem og áðurnefnda reglugerð (ESB) nr. 575/2013. Við endurskoðun gildandi bankatilskipana með breytingatilskipun 2009/111/EB var umrætt 400% hámark samtölu stórra áhættuskuldbindinga fellt úr gildi, enda var með endurskoðuninni gert ráð fyrir að áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækja vegna annarra fjármálafyrirtækja geti stundum verið á bilinu 25–100% og í einstökum tilvikum hærri en 100%. Vegna þessara breytinga gæti það orðið verulega íþyngjandi að lögfesta áfram 400% hámark á samtölu stórra áhættuskuldbindinga og þekkist það hvergi á Norðurlöndum, enda er hvorki kveðið á um slíkt hámark í gildandi bankatilskipunum né reglugerð (ESB) nr. 575/2013.
    Loks eru gerðar orðalagsbreytingar innan ákvæðisins og í stað hugtaksins „stór áhætta“ kemur hugtakið „stór áhættuskuldbinding“. Er það gert til að samræma hugtök innan ákvæðisins en í núgildandi ákvæði eru bæði hugtökin notuð sem verður að teljast óheppilegt. Að sama skapi felst í þessari breytingu mikilvæg samræming á því hvernig hugtakið er meðhöndlað í reglum Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar, en skörun var milli hugtakanotkunar í texta ákvæðisins og nefndra reglna.

Um 11. gr.

    Til viðbótar við núgildandi ákvæði er lagt til að í tilkynningu fjármálafyrirtækis til Fjármálaeftirlitsins um starfsemi án útibús í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum skuli tilkynnt um hvort fyrirtækið hyggst nota fasta umboðsmenn. Sambærilegt ákvæði er í 2. mgr. 31. gr. b hluta tilskipunar 2004/39/EB (MiFID) sem innleidd var í íslenskan rétt með lögum nr. 111/2007, um breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki o.fl.

Um 12. gr.

    Samkvæmt núgildandi 2. málsl. 40. gr. er einungis skylt að tilkynna aukningu á eignarhlut í fjármálafyrirtæki ef eignarhluturinn fer yfir þau mörk sem tilgreind eru í ákvæðinu. Slíkt er í ósamræmi við reglur Evrópuréttar en skv. 22. gr. tilskipunar 2013/36/ESB skal tilkynna um slíka breytingu ef hún nær umræddum mörkum eða fer yfir umrædd mörk (e. Reach or Exceed). Sama ákvæði er að finna í 19. gr. tilskipunar 2006/48/EB sem áður hefur verið innleidd í íslenskan rétt. Með breytingunni er því lagt til að íslensk lög séu samræmd reglum Evrópuréttar.

Um 13. gr.

    Með breytingunni eru lagðar til fimm breytingar á núgildandi ákvæði 1. mgr. 42. gr. laganna. Í fyrsta lagi bætist við tilvísun til 41. gr. laganna í 1. málsl. ákvæðisins og í öðru lagi bætist nýr 2. málsl. við ákvæðið. Í þriðja og fjórða lagi eru gerðar breytingar á viðmiðunardagsetningum í 4. og 5. málsl. ákvæðisins en í stað þess að miða við móttöku tilkynningar er miðað við þann tíma þegar Fjármálaeftirlitið staðfestir móttöku tilkynningar. Breytingarnar á 1. og 5. málsl. eiga m.a. að leiða til þess að þegar meta á hæfi þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut þurfi allar upplýsingar sem tilgreindar eru í 41. gr. laganna að berast Fjármálaeftirlitinu. Breytingarnar byggjast á 2. mgr. 22. gr. tilskipunar 2013/36/ ESB. Tekið skal fram að breyttu orðalagi er ekki ætlað að lengja þann frest sem kveðið er á um í 42. gr. Í fimmta lagi bætist nýr málsliður við ákvæðið. Ákvæðið veitir Fjármálaeftirlitinu heimild til þess að lengja bið eftir upplýsingum ef óskað er eftir viðbótarupplýsingum frá aðilum sem hyggjast eignast eða auka við virkan eignarhlut og þeir eru staðsettir utan Evrópska efnahagssvæðisins eða lúta ekki opinberu fjármálaeftirliti innan svæðisins. Ákvæðið er að finna í 4. mgr. 19. gr. tilskipunar 2006/48/EB og í 4. mgr. 22. gr. tilskipunar 2013/36/ ESB sem fjallar um mat á hæfi virkra eigenda.
    Ákvæði 42. gr. laganna var lögfest í núverandi mynd með lögum nr. 75/2010, um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum. Ákvæðið byggist á tilskipun 2007/44/EB sem innleidd hefur verið í íslenskan rétt. Ákvæðið er að finna í d-lið 1. mgr. 23. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Í núgildandi ákvæði 2. málsl. 4. tölul. 2. mgr. 42. gr. laganna er vísað til „hóps fyrirtækja“ en hér er lagt til að talað verði um samstæðu félaga. Til þess að fyrirbyggja óþarfa misskilning þykir rétt að orðanotkun sé breytt svo ákvæðið sé skýrara og í samræmi við hugtakanotkun laganna.

Um 14. gr.

    Lagt er til að áréttuð verði sú heimild Fjármálaeftirlitsins til að taka ákvörðun um hæfi aðila til þess að verða eigandi virks eignarhlutar í fjármálafyrirtæki á grundvelli fyrirliggjandi gagna áður en tímafrestur skv. 42. gr. laganna líður. Sambærilegt ákvæði er að finna í 2. mgr. 23. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Samkvæmt ákvæðinu er eftirlitsaðila heimilt að synja því að aðili eignist eða auki við virkan eignarhlut sinn, sbr. 40. gr. laganna, ef eftirlitsaðilinn hefur óskað eftir viðbótarupplýsingum og þeim hefur ekki verið skilað eða ef þær eru ófullnægjandi.

Um 15. gr.

    Vísað er í athugasemdir við 1. gr. frumvarpsins.

Um 16. gr.

    Samkvæmt 49. gr. laganna getur Fjármálaeftirlitið krafist hvers konar gagna og upplýsinga til þess að meta hvort eigandi hafi eignast virkan eignarhlut án tilkynningar skv. 40. gr. eða hvort að aðili teljist hæfur til þess að fara með virkan eignarhlut skv. VI. kafla laganna. Ákvæðið hefur verið túlkað þannig að það feli í sér heimild fyrir viðvarandi eftirliti Fjármálaeftirlitsins með hæfi eiganda virks eignarhlutar og að Fjármálaeftirlitið hafi allar heimildir til að bregðast við því þegar aðili verður af einhverjum ástæðum óhæfur til þess að fara með eignarhlutinn.
    Fyrir breytingu á lögunum með lögum nr. 75/2010 var að finna skýra heimild fyrir Fjármálaeftirlitið til þess að fara með viðvarandi mat á hæfi eigenda virkra eignarhluta og grípa til ráðstafana til þess að takmarka heimildir eiganda virks eignarhlutar til hlutarins. Með breytingu á 49. gr. laganna með lögum nr. 75/2010 féll ákvæðið út. Breytingar á lögunum með lögum nr. 75/2010 komu m.a. til vegna innleiðingar á tilskipun 2007/44/EB í íslenskan rétt. Á það skal bent að tilgangur tilskipunar 2007/44/EB var ekki að takmarka viðvarandi mat eftirlitsaðila á hæfi eigenda virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Með breytingu á 49. gr. laganna er stefnt að því að styrkja heimild Fjármálaeftirlitsins til þess að fara með viðvarandi mat á hæfi eigenda virkra eignarhluta og bregðast við því þegar þeir eru af einhverjum ástæðum ekki lengur taldir hæfir til þess að fara með eignarhlutinn.
    Eins og fram kemur í 1. málsl. 49. gr. laganna getur Fjármálaeftirlitið krafist hvers konar gagna eða upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða fara með eignarhlut í fjármálafyrirtæki til þess að meta hvort að þeir teljist hæfir til að fara með virkan eignarhlut skv. VI. kafla laganna. Ef upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið hefur fengið leiða í ljós að aðili telst af einhverjum ástæðum óhæfur til þess að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki getur Fjármálaeftirlitið nú veitt aðila hæfilegan frest til þess að gera úrbætur sé unnt að koma þeim við. Með þessu er það ítrekað að Fjármálaeftirlitið skuli gæta meðalhófs þegar það grípur til heimilda sem því eru fengnar með ákvæðinu en eins og fram kemur í nýrri 2. mgr. skal Fjármálaeftirlitið grípa til þeirra heimilda sem getið er um í 46. gr. laganna ef úrbótum verður ekki komið við eða frestur sem Fjármálaeftirlitið veitir aðila til þess að koma hlutum í lag líður án þess að gripið verði til úrbóta.
    Með hliðsjón af þeim áhrifum sem eigendur virkra eignarhluta hafa með eignarhaldi sínu í fjármálafyrirtækjum og á fjármálamarkaði og með tilliti til þess hversu mikil áhrif fjármálafyrirtæki hafa á líf almennings og á efnahagslíf landsins verður að telja eðlilegt að hægt sé að koma í veg fyrir óeðlileg áhrif þeirra eigenda sem ekki teljast hæfir til þess að fara með slík réttindi. Ef ekki er gripið til aðgerða gegn óhæfum eigendum virkra eignarhluta getur slíkt leitt til vantrausts almennings og fjárfesta á viðkomandi fjármálafyrirtæki eða á fjármálamarkaði hér á landi í heild sem ógnað getur fjármálastöðugleika. Því eru ríkar ástæður fyrir því að reynt sé að koma í veg fyrir áhrif óhæfra eigenda virkra eignarhluta á fjármálamarkaði.
    Breytingin sem fram kemur í a-lið tengist nýrri málsgrein ákvæðisins en breyting í c-lið þarfnast ekki skýringa.

Um 17. gr.

    Með breytingum sem lagðar eru til í 17. og 18. gr. frumvarpsins er núgildandi 52. gr. laganna skipt upp í tvö sérstök ákvæði, 52. gr. og 52. gr. a, þannig að ákvæði sem taka beint á hæfi stjórnarmanna verða í 52. gr. laganna en ákvæði sem fjalla um önnur störf stjórnarmanna verða að nýrri 52. gr. a laganna. Ásamt athugasemdum við 17. gr. frumvarpsins vísast því einnig til athugasemda við 18. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði 1. mgr. er efnislega samhljóða núgildandi 1. mgr. 52. gr. laganna og 5. mgr. var áður að finna í lokamálsliðum 3. og 4. mgr. 52. gr. laganna. Í 2. mgr. er lagt til að við ákvæðið bætist tilvísun til þess að stjórnarmenn mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu 10 árum fyrir refsiverðan verknað gegn lögum um gjaldeyrismál.
    Núgildandi 3. mgr. 52. gr. laganna kveður á um að stjórnarmenn skuli hafa nægjanlega þekkingu og reynslu til stjórnarsetu en með frumvarpinu er lagt til að stjórnarmenn skuli að auki hafa nægjanlega hæfni til þess að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt. Þá er einnig lögð til orðalagsbreyting með nýjum 4. málsl. 3. mgr. frá því hvernig ákvæðið er nú orðað í 3. málsl. 3. mgr. 52. gr. gildandi laga. Breytingar á 3. mgr. ákvæðisins byggjast m.a. á 1. mgr. 91. gr. tilskipunar 2013/36/ESB.
    Í 4. mgr. er lagt til að samsetning stjórnar skuli vera þannig að stjórn í heild búi sameiginlega yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að skilja þá starfsemi sem fjármálafyrirtæki stundar og áhættuþætti þess. Markmið ákvæðisins er að sporna við svonefndri hóphugsun eða hjarðhugsun (e. Groupthink). Hjarðhugsun á það til að myndast þar sem einsleitur hópur manna kemur saman t.d. í stjórnum fyrirtækja þar sem stjórn félagsins samanstendur af hópi einstaklinga þar sem einstaklingarnir eru allir t.d. af sama kyni og með sömu menntunina. Fjölbreytileiki í vali á fólki í stjórn fyrirtækja er talin sporna við hjarðhugsun, t.d. með því að í stjórnina veljist fólk sem er mismunandi að kyni, aldri og menntun eða hefur á einhvern annan hátt mismunandi bakgrunn. Ákvæðið byggist á 1. og 7. mgr. 91. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Í inngangsliðum tilskipunar 2013/36/ESB er því m.a. haldið fram að því fjölbreyttari sem stjórn er því betur eigi hún að vera bær til þess að sinna eftirlitsskyldum sínum í fjármálafyrirtækinu. Með áhættuþáttum samkvæmt ákvæðinu er t.d. átt við þá áhættuþætti sem tilgreindir eru í 17. gr. laganna eins og hún breytist með samkvæmt frumvarpi þessu.
    Í 6. mgr. er lagt til að við ákvæðið bætist ný málsgrein sem kveður á um það að fjármálafyrirtæki skuli verja nægjanlegum fjármunum og mannafla til þess að kynna starfsemi fjármálafyrirtækisins fyrir stjórnarmanni og með því tryggja það að stjórnarmaður fái viðeigandi þjálfun til stjórnarsetunnar. Með frumvarpi þessu eru lagðar til auknar kröfur til þekkingar stjórnarmanna á starfsemi fjármálafyrirtækja ásamt því að ábyrgðarkröfur til þeirra eru auknar. Auk þess eru gerðar frekari kröfur til hæfni stjórnarmanna. Ákvæðið sem lagt er til að bætist við sem ný 6. mgr. ákvæðisins byggist á 9. mgr. 91. gr. tilskipunar 2013/36/ESB.
    Efnislega er ákvæði 7. mgr. það sama og finna má í núgildandi 7. mgr. 52. gr. laganna en lögð er til sú breyting á ákvæðinu að við bætist tilvísun til nýrrar 52. gr. a laganna. Þar sem ákvæðin tvö tengjast náið er eðlilegt að sama skylda sé lögð á fjármálafyrirtæki til að upplýsa Fjármálaeftirlitið um breytingar skv. 52. gr. a laganna á sama hátt og tilkynna þarf um breytingar skv. 52. gr. laganna sem geta haft áhrif á hæfi stjórnarmanns.

Um 18. gr.

    Ásamt athugasemdum við greinina er vísað í athugasemdir við 17. gr. frumvarpsins. 1. mgr. ákvæðisins er að megninu til samhljóða 4. mgr. 52. gr. núgildandi laga og 2. og 3. mgr. ákvæðisins eru samhljóða núgildandi 5. og 6. mgr. 52. gr. laganna. Með frumvarpi þessu eru gerðar þónokkrar breytingar á VII. kafla laganna en breytingarnar byggjast flestar á tilskipun 2013/36/ESB.
    Helsta ástæða þess að núgildandi ákvæðum 52. gr. laganna er í frumvarpi þessu skipt upp í tvö ákvæði er að 91. gr. tilskipunar 2013/36/ESB setur kröfu um takmörkun á hvað stjórnarmenn megi að jafnaði sinna mörgum stjórnarsetum ásamt stjórnarsetu í fjármálafyrirtæki. Tvö meginsjónarmið liggja að baki þeim breytingum sem gerðar eru á samevrópskum reglum um störf stjórnarmanna fjármálafyrirtækja í tilskipun 2013/36/ESB, þ.e. að stjórnarmenn skuli hafa næganlega þekkingu, hæfni og reynslu af starfsemi fjármálafyrirtækja og að þeir skulu hafa nægan tíma til þess að sinna störfum sínum sem stjórnarmenn fjármálafyrirtækja. Upphaflega var stefnt að því að taka upp slíka takmörkun með frumvarpi þessu en horfið var frá því í bili þar sem ástæða þótti til að bíða eftir því hvernig nágrannaþjóðir Íslands haga innleiðingu umrædds ákvæðis í löggjöf sína. Þá var jafnframt horft til þess hvort binda eigi slíka takmörkun einungis við kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki. Líklegt er að ákvæði sem kveður á um takmarkanir á fjölda stjórnarseta hjá stjórnarmönnum fjármálafyrirtækja bætist við lögin á næstu missirum.
    Eina breytingin sem gerð er frá gildandi lögum í ákvæðinu er nýr 1. málsl. 1. mgr. ákvæðisins en með honum er áréttað að stjórnarmenn fjármálafyrirtækis skuli verja fullnægjandi tíma í vinnu sína í þágu fjármálafyrirtækisins. Samkvæmt þessu er ætlast til þess að stjórnarmenn séu að jafnaði ekki að vinna önnur tímafrek störf samhliða stjórnarsetunni en slíkt fer þó eftir eðli og umfangi starfsemi viðkomandi fjármálafyrirtækis.

Um 19. gr.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem leggja frekari skyldur á herðar stjórnarmönnum fjármálafyrirtækja. Lagt er til að nokkrar breytingar verði gerðar á 54. gr. laganna. Þá er lagt til að fyrirsögn ákvæðisins verði breytt í samræmi við breytingarnar. Ákvæði sem verða að 1., 2. og 6. mgr. eru öll ný en 3. mgr. er að hluta til samhljóða núgildandi 1. mgr. ákvæðisins. Ákvæði 4., 5. og 7. mgr. er að finna í gildandi lögum en 4. mgr. er samhljóða 2. mgr. 54. gr. gildandi laga. Lokamálslið málsgreinarinnar er breytt. 5. mgr. er samhljóða 3. mgr. 54. gr. laganna og 7. mgr. ákvæðisins er að finna í gildandi 3. mgr. 19. gr. laganna. Breytingar á ákvæðinu byggjast m.a. á 88. gr. tilskipunar 2013/36/ESB.
    Með breytingu á 1. mgr. ákvæðisins kemur nú skýrt fram í lögunum að stjórn fjármálafyrirtækis ber heildarábyrgð á starfsemi og stefnumótun fjármálafyrirtækis ásamt áhættustefnu þess (e. Risk Strategy). Ásamt þessu ber stjórn einnig ábyrgð á því að til staðar sé virkt kerfi innra eftirlits með starfseminni. Með virku innra eftirliti er átt við að haft sé virkt eftirlit með innri starfsemi sem lögin og reglur settar með stoð í lögunum áskilja hverju sinni. Í 2. málsl. 1. mgr. er kveðið á um ábyrgð stjórnar á því að fullnægjandi eftirlit sé viðhaft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Breytingin byggist á 3. mgr. 68. gr. hlutafélagalaga, nr. 2/1995. Í samræmi við þær breytingar sem gerðar eru á VII. kafla laganna í heild með frumvarpi þessu þykir rétt að kveða sérstaklega á um ábyrgð stjórnar að þessu leyti. Í 1. mgr. er einnig kveðið á um ábyrgð stjórnar á stjórnarháttum og að innra skipulag félagsins stuðli að skynsamlegri og skilvirkri stjórnun þess, aðskilnaði starfa og að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra innan félagsins. Einnig er kveðið á um það að stjórn skuli endurmeta stjórnarhætti sína og bregðast við þegar þörf er á.
    Í 2. mgr. er kveðið á um það að stjórnarmenn skuli starfa af heiðarleika, heilindum og fagmennsku og vera sjálfstæðir í hugsun til þess að geta með skilvirkum hætti metið og gagnrýnt ákvarðanatöku framkvæmdastjórnar og haft eftirlit með henni.
    Lagt er til að í 3. mgr. ákvæðisins verði kveðið á um að stjórn fjármálafyrirtækis skuli hafa skilvirkt eftirlit með framkvæmdastjórn félagsins. 1. málsl. 3. mgr. er núgildandi 1. mgr. ákvæðisins.
    Ákvæði 4. mgr. er í grunninn núgildandi 2. mgr. 54. gr. laganna. Sú breyting er gerð á ákvæðinu að í stað orðsins „dótturfyrirtækja“ í 2. málsl. ákvæðisins kemur orðið „dótturfélaga“. Samkvæmt núgildandi 2. mgr. skal stjórn setja sér sérstakar reglur um framkvæmd starfa stjórnar o.fl. Samkvæmt núgildandi lokamálslið ákvæðisins skulu reglur þessar hljóta staðfestingu Fjármálaeftirlitsins. Sú breyting er gerð á ákvæðinu að í stað þess að Fjármálaeftirlitið þurfi að staðfesta umræddar reglur til að þær öðlist gildi skal stjórn fjármálafyrirtækis senda Fjármálaeftirlitinu afrit af umræddum reglum innan 14 daga frá því að þær eða breytingar á þeim eru samþykktar af stjórn. Umrætt ákvæði bættist við lögin með lögum nr. 75/2010 en ástæða umræddrar breytingar var sú að með henni gæfist Fjármálaeftirlitinu betra tækifæri til þess að fylgjast með að farið væri eftir reglunum ef þær þyrftu að hljóta staðfestingu þess. Með breytingunni er ekki lengur áskilið að Fjármálaeftirlitið staðfesti reglur sem fjármálafyrirtækin setja sér heldur skal fjármálafyrirtæki senda Fjármálaeftirlitinu afrit af þeim innan 14 daga frá því að þær eru settar eða þeim breytt. Breytingin er í samræmi við markmið ákvæðisins. Ástæða breytingarinnar er sú að ekki þekkist í löggjöf nágrannalanda Íslands að eftirlitsaðili staðfesti reglur sem fjármálafyrirtæki setur sér enda er það hlutverk eftirlitsaðila að hafa eftirlit með því að starfsemi fjármálafyrirtækis sé í samræmi við lög.
    Í 6. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að stjórn skuli leitast við að tryggja að tilkynningar og upplýsingar sem félaginu ber að veita samkvæmt lögunum séu réttar. Með upplýsingum og tilkynningum samkvæmt ákvæðinu er átt við upplýsingar og tilkynningar sem fjármálafyrirtækinu ber að veita Fjármálaeftirlitinu og eftir atvikum Seðlabankanum samkvæmt lögunum þegar við á.
    Ákvæðið sem lagt er til að verði að 7. mgr. er að finna í gildandi 3. mgr. 19. gr. laganna. Ákvæðið þykir eiga betur heima í 54. gr. laganna með tilliti til þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpi þessu.

Um 20. gr.

    Ákvæðið fjallar um skyldur stjórnar vegna áhættustýringar og felur í sér samspil við þær breytingar sem lagðar eru til í 6. gr. frumvarpsins. Ef frumvarp þetta er samþykkt í óbreyttri mynd mun 17. gr. laganna kveða á um að til staðar skuli vera skjalfestir ferlar um upplýsingaskipti milli áhættustýringar og stjórnar, auk þess sem yfirmaður áhættustýringar á að geta haft beinan og óheftan aðgang að stjórn fjármálafyrirtækis.
    Lagt er til að sú skylda verði lögð á stjórn fjármálafyrirtækis að hún samþykki þá stefnu sem fjármálafyrirtæki mótar vegna áhættustýringar, auk þess að samþykkja hvernig sú stefna er útfærð og framkvæmd. Stjórn fjármálafyrirtækis á einnig að tryggja að reglulega sé farið yfir innri verkferla vegna áhættustýringar og þeir endurnýjaðir. Telja má eðlilegt að stjórn fjalli a.m.k. árlega um þá vinnu sem fram hefur farið við að yfirfara og endurnýja ferlana. Meðal þessara ferla teljist ferlar sem varða áhættutöku og takmörkun á áhættu sem hefur áhrif á fjármálafyrirtækið, enda afar mikilvægt að skráðar verklagsreglur séu til staðar varðandi þá þætti.
    Í ákvæðinu koma fyrir skyldur vegna áhættuþátta sem stjórnir fjármálafyrirtækja ættu að vera meðvitaðar um vegna áhættustýringar. Ekki er hægt að afmarka með lagaákvæði hvað telst hæfilegur tími fyrir stjórn til að fjalla um áhættu í starfsemi fjármálafyrirtækis eða hvað teljast nægjanlegir fjármunir til að sinna áhættustýringu. Hins vegar er mikilvægt að skilgreindur og afmarkaður hluti tíma stjórnar fari í að sinna og fjalla um áhættu í starfsemi fjármálafyrirtækis sem stjórnin stýrir. Að sama skapi er mikilvægt að stjórn fjalli um og afmarki hversu miklum fjármunum skuli ráðstafað til að sinna virkri áhættustýringu.

Um 21. gr.

    Breyting sem lögð er til í a-lið er tilkomin vegna breytingar sem gerð er á 54. gr. laganna með frumvarpi þessu. Vísað er í skýringu við 19. gr. frumvarpsins.
    Vísað er í athugasemdir við 1. gr. frumvarpsins vegna breytingar sem lögð er til í b-lið.
    

Um 22. gr.

    Breytingin er tilkomin vegna breytingar sem gerð er á 54. gr. laganna með frumvarpi þessu. Vísað er í skýringu við 19. gr. frumvarpsins.

Um 23. gr.

    Í ákvæðinu kemur fram sú almenna meginregla sem gildir um starfskjarastefnu samkvæmt lögunum. Ef ekki er sérstaklega í lögunum kveðið á um sérreglur um starfskjarastefnu eða í reglum settum af Fjármálaeftirlitinu gilda ákvæði laga um hlutafélög.

Um 24. gr.

     Um a-lið (57. gr. b).
    Núgildandi ákvæði 57. gr. a laganna um kaupaukakerfi kom inn í lögin með breytingalögum nr. 75/2010, m.a. vegna umræðu bæði hérlendis og í Evrópu í kjölfar bankahrunsins um launa- og hvatakerfi fjármálafyrirtækja. Á grundvelli nýs ákvæðis setti Fjármálaeftirlitið reglur nr. 700/2011, um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja. Við samningu reglnanna tók Fjármálaeftirlitið mið af tilskipun 2010/76/ESB (CRD III) sem þá var í smíðum á vettvangi Evrópusambandsins. Kveðið er nú nánar á um starfskjara- og kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja í nýrri tilskipun Evrópusambandsins nr. 2013/36/ESB. Í kjölfar setningar reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 700/2011, um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja, hafa stofnuninni borist ýmsar athugasemdir og ábendingar frá fjármálafyrirtækjum um það sem betur mætti fara í reglunum. Þessar athugasemdir eru m.a. þær að 25% viðmiðið þykir of lágt og einnig hefur komið fram gagnrýni á að reglurnar útiloki ákveðnar einingar innan fjármálafyrirtækis.
    Markmið með setningu ákvæðisins er að styrkja stoðir reglna um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja ásamt því að samræma íslenskan rétt við nýjar reglur um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja sem koma fram í tilskipun 2013/36/ESB. Með ákvæðinu er því lagt til að hámarksviðmið kaupauka verði 25% af föstum árslaunum starfsmanns og að heimilt verði að veita starfsmönnum sem sinna áhættustýringu, innri endurskoðun og regluvörslu fjármálafyrirtækis kaupauka. Veiting kaupauka til stjórnarmanna fjármálafyrirtækis er áfram óheimil. Í ákvæðinu er jafnframt lagt til að aðalfundi fjármálafyrirtækis verði heimilað að hækka hámark kaupauka til starfsmanna fjármálafyrirtækis. Þá er lagt til að heimilt verði að lækka, fella niður eða breyta kaupauka í nýtt hlutafé í fjármálafyrirtækinu eða í nýju félagi ef fjármálafyrirtæki fer í endurskipulagningar- eða slitameðferð skv. 98. eða 101. gr. laganna. Ákvæðið tekur mið af nýrri tilskipun Evrópusambandsins nr. 2013/36/ESB en með ákvæðum 92.–94. gr. tilskipunarinnar er að finna nýjar starfskjara- og kaupaukareglur sem taka til starfsmanna fjármálafyrirtækja.
    Í 1. og 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um markmið kaupaukakerfis. Í 1. mgr. ákvæðisins er einnig kveðið á um það að Fjármálaeftirlitið skuli setja nánari reglur um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja.
    Í 3. mgr. ákvæðisins er lagt til að óheimilt sé að gera ráð fyrir tryggðum kaupaukum, þ.e. kaupaukum sem starfsmenn fá óháð árangri í starfi. Undantekning er gerð frá þessari reglu í ákvæðinu um ráðningarkaupauka. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að kveða nánar á um útfærslu og framkvæmd 3. mgr. í reglum sem settar eru með stoð í 1. mgr. ákvæðisins.
    Í 4. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að stjórn fjármálafyrirtækis skuli samþykkja kaupaukakerfi að fengnu áliti starfskjaranefndar ef slíkri nefnd er til að dreifa. Samkvæmt sama ákvæði verður óheimilt að veita stjórnarmönnum fjármálafyrirtækja kaupaukagreiðslur.
    5. mgr. ákvæðisins er að finna í núgildandi 2. málsl. 57. gr. a laganna.
    Í 6. mgr. er lagt til að a.m.k. helmingur kaupauka skuli samanstanda af hlutabréfum eða stofnfjárbréfum í fjármálafyrirtækinu sem veitir kaupauka eða öðrum sambærilegum fjármálagerningum. Sambærilegt ákvæði er í l-lið 1. mgr. 94. gr. tilskipunar 2013/36/ESB þar sem kveðið er á um að a.m.k. 50% af kaupaukagreiðslu skuli vera samsett af annaðhvort hlutabréfum, stofnfjárbréfum eða sams konar fjármálagerningum í viðkomandi fjármálafyrirtæki, öðrum fjármálagerningum sem falla undir 52. gr. eða 63. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 eða öðrum gerningum eins og ákvæðin tilgreina. Í reglum sem Fjármálaeftirlitið verður heimilt að setja með stoð í ákvæðinu skal skilgreina hvað fellur undir aðra sambærilega fjármálagerninga sem komið geta í stað hlutabréfa eða stofnbréfa samkvæmt ákvæðinu. Reglurnar skulu byggðar á tilskipun 2013/36/ESB og reglugerð (ESB) 575/2013 að þessu leyti.
    Í 7. mgr. er kveðið á um að hámark kaupauka. Samkvæmt ákvæðinu skal hámarkskaupauki í mesta lagi vera 25% af árslaunum starfsmanns án kaupauka. Með árslaunum samkvæmt ákvæðinu er átt við grunnlaun og yfirvinnulaun samkvæmt ráðningarsamningi og aðrar tengdar greiðslur eins og greiðslur í lífeyrissjóði og til stéttarfélaga.
    Í 8. og 9. mgr. er að finna heimild fyrir hluthafafund fjármálafyrirtækis til þess að hækka kaupauka á hluthafafundi upp í 100% miðað við heildarárslaun starfsmanns. Skal slíkur fundur fara eftir því sem í ákvæðinu segir og reglum Fjármálaeftirlitsins. Sérstaklega skal bent á að starfsmönnum fjármálafyrirtækis sem jafnframt eru hluthafar eða stofnfjárhafar er óheimilt að taka þátt í slíkri atkvæðagreiðslu, bæði beint og óbeint.
    Í 10. mgr. er að finna heimild fyrir bráðabirgðastjórn, skilanefnd eða slitastjórn fjármálafyrirtækis til þess að lækka eða fella niður frestaða kaupauka eða umbreyta þeim í nýtt hlutafé í fjármálafyrirtækinu eða nýju félagi, sem sett er upp á grunni þess eldra, ef fjármálafyrirtæki gengst undir endurskipulagningar- eða slitaferli sem endar með nauðasamningi. Þetta ákvæði byggist á hugmynd sem er að finna í tillögum Evrópusambandsins að nýrri tilskipun sem kveður á um samræmdar reglur um skilameðferðir fjármálafyrirtækja (e. Resolution and Recovery). Ein tillaga sem finna má í drögum að nýju regluverki Evrópusambandsins kveður á um heimild fyrir afskrift, lækkun eða umbreytingu (e. bail-in) á skuldbindingum fjármálafyrirtækis við skilameðferð þess. Orðið „skilameðferð“ í ákvæðinu er hugtak sem nær yfir það tímabil og aðstæður þegar fjármálafyrirtæki lendir í atvikum sem kveðið er á um í ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum til þess tímamarks að fjármálafyrirtæki er tekið til gjaldþrotameðferðar samkvæmt lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt þessu nær hugtakið skilameðferð bæði yfir endurskipulagningu fjárhags og slitameðferð fjármálafyrirtækis. Tilgangur reglunnar er fyrst og fremst sá að draga úr áhættusækni starfsmanna fjármálafyrirtækja. Áhættusækni starfsmanna kann að minnka til muna ef þeir eru meðvitaðir um að áunnir kaupaukar, sem hefur verið frestað samkvæmt ákvæðinu, geti sætt lækkun eða niðurfellingu við skilameðferð fjármálafyrirtækis. Við val á þeim aðferðum sem í ákvæðinu er að finna skal hugað að meðalhófi og skal frekar leitast við að umbreyta kröfu um frestaðan kaupauka í nýtt hlutafé í fyrirtækinu við endurskipulagningarferli eða í nýju félagi (e. Bridge Institution) sem brúað er á grunni félags sem er í skilameðferð, heldur en að lækka eða fella algjörlega niður frestaða kaupauka til starfsmanns. Áður en Fjármálaeftirlitið samþykkir þær ráðstafanir sem getið er um í ákvæðinu skal það leggja mat á það hvort meðalhófs hafi verið gætt við töku ákvörðunarinnar. Kveða skal á um heimild til þess að fella niður, lækka eða umbreyta kaupaukum í samningi á milli starfsmanns og fjármálafyrirtækis um kaupauka þegar fjármálafyrirtæki sætir skilameðferð. Þá er í frumvarpinu lagt til að fjármálafyrirtæki eða stjórn þess skuli sæta sektum eða fangelsi skv. 110. eða 112. gr. b fyrir að brjóta gegn fyrirmælum ákvæðisins. Við gjaldþrotaskipti fjármálafyrirtækisins skal krafa um frestaðan kaupauka gagnvart fjármálafyrirtækinu sæta réttindaröð skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Í 11. mgr. ákvæðisins er að finna frekari upptalningu nokkurra þeirra atriða sem kaupaukareglur Fjármálaeftirlitsins skulu jafnframt kveða á um. Í fyrsta lagi er í a-lið lagt til að í reglunum verði kveðið á um innra eftirlit fjármálafyrirtækis með kaupaukakerfi sínu. Í b-lið er kveðið á um þá meginreglu fresta skuli a.m.k. 40% af kaupauka í a.m.k. þrjú ár. Undir regluna falla starfsmenn fjármálafyrirtækisins sem vinna störf fyrir félagið sem teljast ekki til áhættusamrar eða áhættusækinnar starfsemi. Mælst er til þess að fresta skuli kaupaukum til annara starfsmanna í a.m.k. fjögur til fimm ár en undir regluna falla lykilstarfsmenn og aðrir starfsmenn sem vinna störf innan fyrirtækisins sem hvetja til áhættusækni. Ákvæðið byggist m.a. á m-lið 1. mgr. 94. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Við útfærslu á b-lið 11. mgr. kom til skoðunar hvort rétt væri að binda frestun á 40–60% af kaupauka við 3–5 ár. Þar sem slíkt ákvæði mundi binda hendur fjármálafyrirtækja um of við útfærslu á frestunarreglum sínum var fallið frá því og því kveður ákvæðið einungis á um lágmarksfrestun. Fjármálafyrirtækin sjálf geta því ákveðið hærra hlutfall en 40–60% í reglum sínum og frestað kaupaukum í lengri tíma en 3–5 ár. Einnig er heimilt að horfa til stærðar fjármálafyrirtækis og til þess hvers konar starfsemi fjármálafyrirtæki stundar. Ef ekki er um stórt fjármálafyrirtæki að ræða og fjármálafyrirtækið stundar ekki áhættusækna starfsemi er heimilt að láta skemmri tímamörkin gilda um frestunina. C-, d- og e-liðir þarfnast ekki skýringa.
    Í 12. mgr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli setja í reglum sérstök viðmið um greiðslur kaupauka til starfsmanna sem vinna við áhættustýringu, endurskoðunardeild og regluvörslu fjármálafyrirtækisins. Skal Fjármálaeftirlitið horfa til Evrópureglna og reglna á Norðurlöndum við útfærslu á slíkum viðmiðum. Þá er einnig að finna í ákvæðinu heimild til Fjármálaeftirlitsins til þess að undanþiggja ákveðna starfsmenn fjármálafyrirtækja skilyrðum um frestun kaupauka og lágmarkssamsetningu hans. Þessi undanþáguheimild er fyrst og fremst hugsuð fyrir starfsmenn fjármálafyrirtækja sem sinna störfum sem telja mætti til almennra starfa hjá fyrirtækinu, t.d. gjaldkerastörf, störf þjónustufulltrúa eða önnur sambærileg störf. Um er að ræða störf sem falla illa að tilgangi og markmiðum ákvæðisins, þ.e. að draga úr áhættusækni starfsmanna. Við gerð viðmiða um þá sem heimilt er að undanskilja reglunni um lágmarkssamsetningu kaupauka og frestun er Fjármálaeftirlitinu t.d. heimilt að kveða á um að starfsmenn sem ekki nái ákveðinni fjárhæð í heildarárslaun í föstu starfi skuli undanþegnir frestun og lágmarkssamsetningu kaupauka. Viðmiðin skulu taka mið af markmiðum ákvæðisins.
     Um b-lið (57. gr. c).
    Með nýju ákvæði sem lagt er til að verði 57. gr. c laganna lagt til að kaupaukakerfi skuli tryggja að kaupaukar verði ekki veittir eða aðeins veittir að litlu leyti eða að fjármálafyrirtæki sé heimilt að afturkalla þegar ákveðinn kaupauka sem ekki hefur verið greiddur út. Á sama hátt skal kaupaukakerfi tryggja að fjármálafyrirtæki geti einnig endurkrafið starfsmann um þegar útgreiddan kaupauka ef í ljós kemur að árangur hans hefur að verulegu leyti vikið frá því sem gert var ráð fyrir við töku ákvörðunar um kaupauka. Í kaupaukakerfi skal tryggja að fjármálafyrirtæki hafi heimild til þess að falla frá greiðslu á frestuðum kaupauka ef staða fjármálafyrirtækisins hefur versnað verulega eða útlit er fyrir að staða félagsins muni versna verulega. Sambærilegt ákvæði er m.a. að finna í n-lið 1. mgr. 94. gr. tilskipunar 2013/36/ESB en þar er kveðið á um heimild til að fella niður kaupaukagreiðslu til starfsmanns undir ákveðnum kringumstæðum. Greiðslurnar er þannig heimilt að fella niður t.d. ef starfsmaður ber ábyrgð á því eða átti þátt í því að fjármálafyrirtæki tapaði umtalsverðum fjármunum, m.a. með áhættutöku í fjárfestingu eða á annan hátt. Á sama hátt er heimilt að fella greiðslurnar niður ef starfsmaður hefur ekki fylgt reglum eða innri ferlum fyrirtækisins eða virti að vettugi lög eða stjórnvaldsfyrirmæli í störfum sínum.

Um 25. gr.

    Um skýringu vísast til athugasemdar við 32. gr. frumvarpsins.

Um 26. gr.

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem m.a. skýra betur hlutverk, ábyrgð og skyldur stjórnarmanna fjármálafyrirtækja auk nýrra ákvæða er varða ábyrgð og eftirlit með áhættustýringu. Vegna þessa er sumum ákvæðum kaflans breytt og nýjum ákvæðum bætt við. Fyrirsögn kaflans er að sama skapi breytt til að hún samræmist betur þeim breytingum sem gerðar eru.

Um 27. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um störf áhættunefndar, en með frumvarpinu er lagt til að fjármálafyrirtæki verði gert skylt að starfrækja áhættunefnd. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um hlutverk áhættunefndar og þau skilyrði sem uppfylla þarf svo hægt sé að sameina störf áhættunefndar og endurskoðunarnefndar. Meðal þess sem áhættunefnd er gert að sinna er að yfirfara hvort kjör á eignum og skuldbindingum fjármálafyrirtækisins (e. Prices of Assets and Liabilities), þar á meðal á innlánum og útlánum til viðskiptavina fjármálafyrirtækisins, taki að fullu mið af viðskiptalíkani og áhættustefnu þess.
    Til að sinna störfum sínum skal áhættunefnd afla þeirra upplýsinga sem nefndin telur sig þurfa. Slíkra upplýsinga getur nefndin aflað m.a. frá áhættustýringu fjármálafyrirtækis, eða eftir atvikum ytri ráðgjöfum. Gert er ráð fyrir að áhættunefndin ákvarði sjálf tíðni, magn og framsetningu upplýsingagjafar sem hún telur sig þurfa.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir því að fjármálafyrirtæki geti sameinað störf áhættunefndar og endurskoðunarnefndar. Fjármálaeftirlitið hefur heimild samkvæmt sama ákvæði til þess að krefjast þess að fjármálafyrirtæki aðskilji störf sameinaðar nefndar. Við slíkt mat skal Fjármálaeftirlitið kanna hvort fjármálafyrirtæki teljist stórt innan lands og, eftir atvikum, í alþjóðlegum samanburði.

Um 28. gr.

    Lagt er til að við lögin bætist tvö ný ákvæði sem varða svonefnda eignfjárauka.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að ákvæðin taki gildi strax en komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2015. Með því gefst fjármálafyrirtækjum tími til þess að byggja upp eigið fé sitt áður en ákvæðin koma til framkvæmda.
     Um a-lið (84. gr. a).
    Með frumvarpinu er lagt til að svonefndur verndunarauki (e. Capital Conservation Buffer) verði lögfestur í íslenskan rétt með nýju ákvæði, 84. gr. a. Verndunaraukinn felur í sér að fjármálafyrirtæki þurfa að halda eftir meira eigin fé en áður svo að viðnámsþróttur þess verði meiri. Verndunaraukinn er útfærður í 129. gr. tilskipunar 2013/36/ESB ásamt því sem kveðið er á um takmarkanir á útgreiðslum í 141. gr. sömu tilskipunar ef fjármálafyrirtæki uppfyllir ekki skilyrði sem sett eru í 129. gr. tilskipunarinnar. Verndunaraukinn nemur 2,5% af áhættugrunni fjármálafyrirtækis og þarf að samanstanda af eiginfjárliðum sem teljast til eiginfjárþáttar A, en óheimilt verður að tvítelja eignarliði þannig að sömu eignarliðir eru nýttir til að uppfylla kröfur samkvæmt niðurstöðum könnunar- og matsferlis Fjármálaeftirlitsins (e. Supervisory Review and Evaluation Process (SREP)) og kröfur vegna eiginfjáraukans. Gert er ráð fyrir að verndunaraukinn komi sem viðbót við það lágmark eiginfjárgrunns sem leiðir af lögunum skv. 1. mgr. 84. gr.
    Stjórn og framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis skulu reglulega leggja mat á eiginfjárþörf fyrirtækisins með hliðsjón af áhættustigi þess (e. Internal Capital Adequacy Assessment Process (ICAAP)), sbr. 1. mgr. 84. gr. laganna. Í könnunar- og matsferli leggur Fjármálaeftirlitið mat á niðurstöðu fyrrnefnds innramatsferlis stjórnar og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis. Niðurstaða könnunar- og matsferlis Fjármálaeftirlitsins getur falið í sér aukna eiginfjárbindingu, sbr. a-lið 1. mgr. 84. gr., ef það er rökstutt mat stofnunarinnar að niðurstöðu innramatsferlis stjórnar og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis sé ábótavant. Með orðalaginu að verndunaraukinn komi „[t]il viðbótar við lágmark eiginfjárgrunns“ skv. 1. mgr. 84. gr. laganna er því átt við að verndunaraukinn bætist við það lágmark eiginfjárgrunns sem leiðir af innramatsferli fjármálafyrirtækja og könnunar- og matsferli Fjármálaeftirlitsins. Þessu má betur lýsa þannig að ef það er niðurstaða innramatsferlis fjármálafyrirtækisins eða könnunar- og matsferlis Fjármálaeftirlitsins að fjármálafyrirtæki þurfi að viðhalda hærri eiginfjárgrunni en áskilið er í 1. málsl. 1. mgr. 84. gr. laganna skal horfa til þess markmiðs verndunaraukans að hann eigi að viðhalda viðnámsþrótti fjármálafyrirtækisins gegn áföllum. Ef ekki er ástæða til þess að mæla fyrir um hærri eiginfjárgrunn hjá tilteknu fjármálafyrirtæki en kveðið er á um í 1. málsl. 1. mgr. 84. gr. laganna leggst því verndunaraukinn ofan á 8% lágmarkið samkvæmt ákvæðinu og eiginfjárgrunnur fyrirtækisins verður því 10,5%, þ.e. lágmarkseiginfjárgrunnur samtals 8% auk verndunarauka 2,5%. Ef niðurstaða innramatsferlis fjármálafyrirtækis eða könnunar- og matsferlis Fjármálaeftirlitsins er sú að tiltekið fjármálafyrirtæki þurfi að viðhalda hærri eiginfjárgrunni en kveðið á um í 1. málsl. 1. mgr. 84. gr. laganna, t.d. 1% aukalega, þannig að eiginfjárgrunnur verður 9% með stoð í a-lið 1. mgr. 84. gr. laganna, leggst verndunaraukinn ofan á þá niðurstöðu. Í því tilfelli væri eiginfjárgrunnur fyrirtækisins ásamt verndunarauka 11,5% af áhættugrunni. Verndunaraukinn er því viðbót við eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins samkvæmt niðurstöðu könnunar- og matsferlis stofnunarinnar og leggst ofan á hana, en eiginfjárkrafa eftirlitsins tekur mið af tilvist verndunaraukans.
    Eins og nafn verndunaraukans gefur til kynna er hlutverk eiginfjáraukans að auka viðnámsþrótt fjármálafyrirtækisins gegn áföllum. Af þeim sökum ætti innramatsferli fjármálafyrirtækis og könnunar- og matsferli Fjármálaeftirlitsins að taka tillit til þess að verndunaraukinn er til staðar. Gert er ráð fyrir að ef fjármálafyrirtæki fullnægir ekki kröfum um eiginfjáraukann muni það hafa í för með sér takmarkanir á því að fjármálafyrirtæki greiði út arð, kaupauka til starfsmanna eða aðrar þær greiðslur sem hafa áhrif til lækkunar á eiginfjárgrunni. Slíkar takmarkanir eru settar til þess að koma í veg fyrir að eigið fé fjármálafyrirtækis lækki um of vegna slíkra arð- og kaupaukagreiðslna.
    Ákvæðið leggur þá skyldu á Fjármálaeftirlitið að setja reglur um takmarkanir á útgreiðslum fjármálafyrirtækja. Gert er ráð fyrir að reglurnar byggist á ákvæðum 141. gr. tilskipunar 2013/36/ESB og að með þeim sé skýrt hvernig reikna skuli út hámarksfjárhæð útgreiðslna í þeim tilvikum þar sem fjármálafyrirtæki ná ekki að uppfylla eiginfjárkröfu vegna verndunaraukans.
     Um b-lið (84. gr. b).
    Í b-lið 28. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði á um skyldu fjármálafyrirtækis til þess að útbúa sérstaka verndunaráætlun (e. Capital Conservation Plan) ef fyrirtækið uppfyllir ekki skilyrði laganna um að viðhalda sérstökum verndunarauka. Ef fjármálafyrirtæki uppfyllir ekki kröfu um sérstakan verndunarauka skal það útbúa verndunaráætlun í samræmi við fyrirmæli þessa ákvæðis. Tilgangur takmörkunar á útgreiðslum úr félaginu er að félagið geti ekki greitt út úr sjóðum sínum til hluthafa eða starfsmanna á sama tíma og það uppfyllir ekki fyrirmæli laganna um eiginfjárauka enda á félagið á þessu tímamarki að vinna kerfisbundið að því að auka eiginfjárgrunn sinn. Verndunaráætlun er því viðbragðsáætlun fjármálafyrirtækis um að taka á því að eiginfjárgrunnur fyrirtækisins hafi lækkað undir það viðbótarmark sem kveðið er á um í nýrri 84. gr. a laganna verði frumvarp þetta að lögum. Í verndunaráætlun skal kveða á um það hvernig fyrirtækið ætlar að viðhalda eiginfjárgrunni og auka hann í samræmi við fyrirmæli laganna og hvernig fyrirtækið ætlar að takmarka útgreiðslur úr sjóðum félagsins á meðan félagið uppfyllir ekki ákvæði um verndunarauka. Ákvæðið byggist á 142. gr. tilskipunar 2013/36/ESB.

Um 29. gr.

    Lagt er til að þrír nýir stafliðir, d–f-liður, bætist við 3. mgr. 87. gr. laganna.
    Í fyrsta lagi er í nýjum d-lið lögð sú skylda á fjármálafyrirtæki að birta í ársreikningi sínum tilteknar upplýsingar um starfsemi dótturfélaga sinna, þ.e. heiti þeirra og staðsetningu starfseminnar. Sama gildir að breyttu breytanda um útibú félagsins og þjónustustarfsemi án stofnunar útibús.
    Í öðru lagi er í nýjum e-lið laganna lögð sú skylda á fjármálafyrirtæki að birta upplýsingar um hvers konar styrki eða niðurgreiðslur sem félagið hefur fengið frá stjórnvöldum, þ.e. ríkisstofnunum og sveitarfélögum. Sambærilegt ákvæði er að finna í 89. gr. tilskipunar 2013/ 36/ESB.
    Að lokum er með nýjum f-lið lagt til að fjármálafyrirtæki tilgreini arðsemi eigna sinna í lykiltölum í ársreikningi sínum. Með arðsemi eigna er átt við hagnað félagsins eftir skatta sem hlutfall af meðalstöðu eigna félagsins á því tímabili sem ársreikningurinn nær yfir. Sambærilegt ákvæði er í 90. gr. tilskipunar 2013/36/ESB.

Um 30. og 31. gr.

    Vísað er í skýringar í 1. gr. frumvarpsins um nýjar orðskýringar sem lagt er til að bætist við 1. gr. a laganna.

Um 32. gr.

    Í greininni er lagt til að 1.–8. mgr. 97. gr. laganna falli brott þar sem skilgreiningar sem þar er að finna verða að 15.–20. tölul. 1. gr. a laganna ef frumvarp þetta verður samþykkt. Vísað er í athugasemdir við 1. gr. frumvarpsins að öðru leyti.

Um 33. gr.

    Lagt er til að tilvísun verði breytt í samræmi við breytingar sem lagðar eru til í 17. og 18. gr. frumvarpsins. Ásamt breyttri tilvísun er lagt til að ný ákvæði 52. gr. a laganna verði frumvarpið samþykkt gildi einnig um slitastjórn og bráðabirgðastjórn.

Um 34. gr.

    Vísað er til athugasemdar við 1. gr. frumvarpsins.

Um 35. gr.

    Breytingar í c- og d-lið ákvæðisins eru m.a. tilkomnar vegna ábendinga frá Eftirlitsstofnun EFTA vegna innleiðingar á tilskipun 2002/87/EB um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum og endurskoðaðra reglna Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum. Ákvæði 109. gr. laganna varða hvernig skuli viðhafa eftirlit með fjármálafyrirtækjum á samstæðugrundvelli. Við slíkt eftirlit er eðlilegt að Fjármálaeftirlitið hafi heimildir til að kveða á um að einstök félög skuli teljast hluti af samstæðum fjármálafyrirtækja, enda hefur stofnunin nú þegar sambærilegar heimildir vegna samstæðna vátryggingafélaga og fjármálasamsteypa. Með breytingunni er því stuðlað að samræmingu á milli löggjafar sem gildir um fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög, enda liggja sömu meginreglur til grundvallar því hvernig eftirlit skal viðhaft með samstæðum þessara fyrirtækja. Sú orðalagsbreyting sem tiltekin er í ákvæðinu felur enn fremur í sér innleiðingu á orðskýringu 12. tölul. 4. gr. tilskipunar 2006/48/EB.
    Í c-lið ákvæðisins er um það fjallað að Fjármálaeftirlitið geti ákveðið að félag skuli teljast hluti af samstæðu sem fjármálafyrirtækið er hluti af þegar fjármálafyrirtækið hefur veruleg áhrif á félagið. Er með breytingunni lagt til að Fjármálaeftirlitið hafi sambærilegar valdheimildir vegna fjármálafyrirtækja og vátryggingafélaga, þ.e. að stofnunin geti ákvarðað að félag sé hluti af samstæðu fjármálafyrirtækis og viðkomandi fjármálafyrirtæki hefur veruleg áhrif á starfsemi félagsins. Byggist hugtakið „veruleg áhrif“ á orðalagi tilskipunar 2006/48/ EB, þ.e. orðunum „dominant influence“, sbr. orðskýringu 12. tölul. 4. gr. sömu tilskipunar. Við mat á því hvort veruleg áhrif séu til staðar mun Fjármálaeftirlitið til að mynda geta stuðst við það hvernig hugtakið yfirráð er afmarkað í alþjóðlegum reikningsskilastöðlum auk leiðbeinandi tilmæla stofnunarinnar um tengsl aðila vegna stórra áhættuskuldbindinga. Efni ákvæðisins er skylt því hvernig fjármálafyrirtæki ber skv. gildandi 5. tölul. 1. mgr. 97. gr. laganna (sem verður e-liður 15. tölul. 1. gr. a), um samstæðureikningsskil, að gera samstæðureikning sem nær til félags sem fjármálafyrirtækið á eignarhluti í og hefur ráðandi stöðu í félaginu. Munurinn er hins vegar sá að með breytingum á ákvæðinu með frumvarpi þessu verður það skýrt að Fjármálaeftirlitið hefur einnig vald til að ákveða að tiltekin félög skuli teljast hluti af samstæðu hafi fjármálafyrirtæki af einhverjum ástæðum ekki tekið slík félög með í samstæðuuppgjör sitt á grundvelli fyrrnefnds 5. tölul. 1. mgr. 97. gr. laganna.
    Í frumvarpinu er einnig kveðið á um að Fjármálaeftirlitið setji reglur um eftirlit á samstæðugrundvelli. Í slíkum reglum yrði að finna ítarlegri ákvæði en koma fram í lögum um fjármálafyrirtæki um það hvernig skyldur samkvæmt sérreglum stofnunarinnar ná til samstæðna fjármálafyrirtækja. Reglurnar munu taka mið af norskum reglum um sama efni, auk ákvæða 108.–110. gr. og 119.–127. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Við gerð reglnanna verður einnig höfð hliðsjón af því hvernig háttað var innleiðingu ákvæða sem varða gildissvið tilskipana 2006/48/EB og 2006/49/EB með tilliti til samstæðna og eftirlits með fjármálafyrirtækjum á samstæðugrunni. Enn fremur er fyrirsjáanlegt að reglurnar verði sniðnar að því hvernig innleiðingu reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 verður háttað, enda nær gildissviðskafli reglugerðarinnar til samstæðna og eftirlits með samstæðum og tengist þannig því efni sem tekið yrði á í reglunum. Við innleiðingu reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 má vænta þess að frekari breytingar þurfi að gera á ákvæðum 109. gr. laganna.
    Breyting sem lögð er til í b-lið tengist breytingum sem lagðar eru til í 17. og 18. gr. frumvarpsins og nýjum ákvæðum um starfskjarastefnu og kaupaukakerfi í 23. og 24. gr., en vísað er til athugasemdar við 1. gr. frumvarpsins um breytingu sem lögð er til í a-lið.

Um 36. gr.

    Breytingar á 110. gr. laganna eru gerðar til samræmis við breytingar sem lagðar eru til á lögunum í frumvarpinu.

Um 37. gr.

    Breytingin sem lögð er til í b-lið er tilkomin vegna breytingar sem lögð er til í 16. gr. frumvarpsins, en aðrar breytingar eru gerðar til samræmis við breytingar sem lagðar eru til á lögunum í frumvarpinu.

Um 38. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 84. gr. skal stjórn og framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis reglulega leggja mat á eiginfjárþörf fyrirtækisins með hliðsjón af áhættustigi þess (e. Internal Capital Adequacy Assessment Process (ICAAP)). Í könnunar- og matsferli Fjármálaeftirlitsins er lagt mat á niðurstöðu fyrrnefnds matsferlis stjórnar og framkvæmdarstjóra fjármálafyrirtækisins. Niðurstaða könnunar- og matsferlis Fjármálaeftirlitsins getur falið í sér aukna eiginfjárbindingu, sbr. a-lið 1. mgr. 84. gr. laganna, ef það er rökstutt mat Fjármálaeftirlitsins að niðurstöðu innramatsferlis stjórnar og framkvæmdarstjóra fjármálafyrirtækisins sé ábótavant. Með nýrri grein, 116. gr. a, er lagt til að lögð verði sú skylda á Fjármálaeftirlitið að stofnunin birti opinberlega þá aðferðafræði sem eftirlitið styðst við sem og þau viðmið sem liggja til grundvallar könnunar- og matsferli. Sambærilegt ákvæði er í c-lið 1. mgr. 143. gr. tilskipunar 2013/36/ESB.

Um 39. gr.

    Vísað er í athugasemdir við 1. gr. frumvarpsins varðandi orðskýringu á fjármálagerningi.

Um 40. gr.

    Lagt er til að tilvísuninni verði breytt til samræmis við breytingar sem lagðar eru til í 17. og 18. gr. frumvarpsins. Rétt þykir að ákvæði nýrrar 52. gr. a gildi einnig um störf þeirra sem sitja í skilanefnd.

Um 41. gr.

    Í 2. mgr. er áréttað að ákvæði 24. gr. (57. gr. b og 57. gr. c) mun ekki gilda um kaupauka sem stofnað er til fyrir gildistöku laganna. Fjármálafyrirtæki verður því að gera nýjan samning um kaupauka við starfsmann ef veita á starfsmanni kaupauka í samræmi við nýja 57. gr. b. Því skal fjármálafyrirtæki sérstaklega huga að ákvæði 10. mgr. 57. gr. b, enda getur það varðað sektum eða fangelsi samkvæmt lögunum að geta ekki um heimild um lækkun, niðurfellingu eða umbreytingu á kaupauka í samningi við starfsmann um kaupaukagreiðslu.
    Lagt er til að ný ákvæði um sérstakan verndunarauka komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2015. Með því gefst fjármálafyrirtækjum tími til að byggja upp eigið fé sitt og uppfylla með því skilyrði nýs ákvæðis þegar það kemur til framkvæmda.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (starfsleyfi, áhættustýring, stórar áhættuskuldbindingar, eignarhlutir, eigið fé o.fl.).

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til fjölmargar breytingar á ákvæðum núgildandi laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með það að leiðarljósi að stíga fyrsta skrefið til að aðlaga íslenskan rétt að nýju regluverki Evrópusambandsins á sviði fjármálamarkaðar. Hið nýja regluverk felur í sér heildarendurskoðun sambandsins á þessu sviði, þ.e. umgjörð og starfsemi fjármálafyrirtækja og eftirlits með fjármálafyrirtækjum, og innleiðingu á Basel III staðli í Evrópulöggjöf. Tilgangur þessara nýju reglna er að bæta eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækja, styrkja innra og ytra eftirlit með fjármálafyrirtækjum og bæta áhættustýringu þeirra með það að markmiði að gera fjármálafyrirtæki betur í stakk búin til þess að mæta rekstrartapi ásamt því að tryggja fjármálastöðugleika. Breytingarnar sem í frumvarpinu felast snúa að þeim ákvæðum núgildandi laga sem fjalla um starfsleyfi, eftirlitskerfi með áhættu, virka eignarhluti, stjórn og starfsmenn fjármálafyrirtækja, innri stjórnarhætti, starfskjör og kaupaukastefnu fjármálafyrirtækis, stórar áhættuskuldbindingar, eigið fé o.fl. Í frumvarpinu er m.a. lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til þess að afturkalla starfsleyfi fjármálafyrirtækis ef það uppfyllir ekki lengur einhver af lögbundnum skilyrðum fyrir veitingu starfsleyfis. Þá verður Fjármálaeftirlitinu heimilt að afturkalla starfsleyfi fjármálafyrirtækis ef verulegur vafi leikur á því að fyrirtækið geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart lánveitendum og innlánseigendum. Einnig er gert ráð fyrir að reglur sem heimila Fjármálaeftirlitinu að hafa eftirlit með hæfi eigenda virkra eignarhluta verði styrktar. Auk þess er lagt til að hvert fjármálafyrirtæki skuli starfrækja sérstaka áhættunefnd sem hafi það hlutverk að sinna ráðgjafar- og eftirlitshlutverki fyrir stjórn fyrirtækisins, m.a. vegna áhættustefnu og áhættuvilja, en ekki er gert er ráð fyrir að einstökum starfsmönnum fjármálafyrirtækis verði heimilt að sitja í nefndinni. Þá er í frumvarpinu lagt til að sérstakur eiginfjárauki (e. Capital Buffer) verði innleiddur í íslenskan rétt, þ.e. sérstakur verndunarauki, en hann felur í sér að fjármálafyrirtæki þurfa að halda eftir meira eigin fé en áður eða sem nemur 2,5% af áhættugrunni.
    Ákvæði frumvarpsins varða fyrst og fremst starfsemi fjármálafyrirtækja og verðbréfafyrirtækja og eftirlit með starfsemi þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu er gert ráð fyrir að frumvarpið muni leiða til aukins kostnaðar við eftirlitsstarfsemi hjá stofnuninni sem nemur um 1–2 stöðugildum en rekstur Fjármálaeftirlitsins er alfarið fjármagnaður með eftirlitsgjaldi sem lagt er á eftirlitsskylda aðila og færist á tekjuhlið ríkissjóðs. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að auknar eiginfjárkvaðir geti leitt til hærri fjármagnskostnaðar fjármálafyrirtækja, þó einkum hjá þeim smærri, sem uppfylla ekki nú þegar þær auknu kröfur sem verndunaraukinn felur í sér. Í þeim tilfellum kann slíkt að leiða til lakari lánskjara til einstaklinga og fyrirtækja sem gæti til skamms tíma haft óveruleg áhrif á hagvöxt vegna minni fjárfestingar eða veltu en ella. Til lengri tíma, þegar Basel III staðallinn hefur verið innleiddur í heild sinni, er þó gert ráð fyrir að áhrifin á fjármagnskostnað fjármálafyrirtækja verði lítil þar sem fyrirtækin verði betur í stakk búin til að miðla fjármagni á skilvirkari og áhættuminni hátt en áður. Þess bera þó að geta að stóru viðskiptabankarnir þrír eru um þessar mundir allir vel yfir lögbundnum lágmörkum um eigið fé og er gert ráð fyrir að svo verði áfram eftir að 2,5% verndunaraukinn verður lögfestur. Ekki er gert ráð fyrir að þessar breytingar sem í frumvarpinu felast muni hafa teljandi áhrif á skatttekjur ríkissjóðs af fjármálafyrirtækjum frá því sem nú er. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður því ekki séð að það muni hafa umtalsverð áhrif á afkomu ríkissjóðs.