Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 526. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 887  —  526. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um skipan ferðamála, nr. 73/2005, með síðari breytingum.


Flm.: Össur Skarphéðinsson, Katrín Júlíusdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Kristján L. Möller, Valgerður Bjarnadóttir, Helgi Hjörvar.


1. gr.

    Á eftir 28. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Ferðaþjónustureikningar skulu unnir árlega sem hluti þjóðhagsreikninga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2015.

Greinargerð.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að ferðaþjónustureikningar (e. tourism satellite accounts) verði unnir árlega sem hluti þjóðhagsreikninga. Ferðaþjónustureikningar hafa það hlutverk að meta efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu fyrir þjóðarbúskapinn. Helstu hagtölur í ferðaþjónustu byggjast á niðurstöðum um útgjöld eða kaup erlendra ferðamanna á Íslandi, útgjöldum Íslendinga á ferð um eigið land og útgjöldum Íslendinga á leið til annarra landa og á ferðalagi erlendis.
    Byrjað var að birta ferðaþjónustureikninga í tíð fyrsta flutningsmanns sem iðnaðarráðherra en ferðamálin voru á þeim tíma flutt til iðnaðarráðuneytisins. Þá voru sérstakar fjárveitingar til verksins og Hagstofan annaðist vinnuna og fékk greitt fyrir hana, skv. 14. gr. laga um Hagstofu Íslands. Lagagreinin heimilar stofnuninni að afla sértekna og taka gjald fyrir sérþjónustu í hagskýrslugerð eða aðra tiltekna þjónustu.
    Regluleg birting ferðaþjónustureikninga var langvinnt baráttumál ferðaþjónustunnar. Hún, og stjórnvöld í ferðamálum, töldu á þeim tíma mikilvægt fyrir greinina jafnt sem landsstjórnina að fá reglulega þá greiningu á umfangi og þróun ferðaþjónustunnar sem reikningarnir spegla. Vinnsla þeirra svaraði því brýnni þörf. Eigi að síður hafa ferðaþjónustureikningar ekki verið unnir hin síðari ár, væntanlega vegna niðurskurðar.
    Með hliðsjón af sívaxandi mikilvægi ferðaþjónustu fyrir Íslendinga verður hins vegar að telja að í dag sé ekki síður brýnt en áður að birta slíka reikninga árlega. Í þeim felast mikilvægar hagrænar upplýsingar sem nýtast í stefnumótun hjá bæði stjórnvöldum og greininni sjálfri. Full ástæða er því til að festa þá í sessi.
    Hér er lagt til að ákvæði þess efnis verði bætt við lög um skipan ferðamála, enda nátengt efni þeirra. Jafnframt þarf ríkisstjórnin að tryggja fastar fjárveitingar til verksins af fjárlögum og semja við Hagstofuna um vinnslu reikninganna.