Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 536. máls.

Þingskjal 900  —  536. mál.Frumvarp til laga

um frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)
1. gr.

    Verkfallsaðgerðum þeim sem Sjómannafélag Íslands hóf á Herjólfi VE hinn 5. mars sl. er frestað til og með 15. september 2014.
    Með verkfallsaðgerðum er átt við vinnustöðvanir, verkbönn, verkföll og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða.

2. gr.

    Á meðan frestun verkfallsaðgerða skv. 1. gr. stendur yfir skulu allir síðastgildandi kjarasamningar þeirra aðila sem lög þessi taka til gilda þeirra í milli, nema þeir semji um annað.

3. gr.

    Verkfallsaðgerðir þær sem lög þessi taka til eru óheimilar.

4. gr.

    Með brot gegn lögum þessum skal farið að lögum um meðferð sakamála og varða þau sektum ef ekki liggja við þyngri refsingar samkvæmt öðrum lögum.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og falla úr gildi 16. september 2014.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið vegna verkfallsaðgerða Sjómannafélags Íslands á Herjólfi VE sem hófust frá og með 5. mars sl. Aðgerðirnar fela í sér að vinna er stöðvuð frá klukkan 17:00 síðdegis og til klukkan 08:00 árdegis virka daga og alfarið um helgar. Frá og með 21. mars sl. hefur verkfall einnig verið á föstudögum og er því aðeins siglt fjóra daga vikunnar. Kjaradeilu Sjómannafélags Íslands við Samtök atvinnulífsins, sem fara með samningsumboð f.h. Eimskips, var vísað til ríkissáttasemjara 27. janúar sl. en ekkert hefur þokast í viðræðunum og liggja fundir niðri. Sátt er því ekki í sjónmáli.
    Sérstaða Vestmannaeyja í samgöngumálum er augljós og ótvíræð en Herjólfur tengir saman almenningssamgöngukerfi lands og Eyja. Vöruflutningar fara að mestu sjóleiðina milli lands og Eyja og hefur verkfallið því neikvæð áhrif á atvinnustarfsemi í Eyjum að ógleymdum áhrifum á íbúa sem reiða sig á Herjólf til að sækja nauðsynlega þjónustu til lands. Þá hafa aðgerðirnar leitt til þess að floti Eyjamanna er í auknum mæli byrjaður að landa ferskfiski í Þorlákshöfn vegna verkfallsins þar sem ein ferð Herjólfs á dag er ekki nóg til að geta skilað fiski nógu fljótt af sér. Þetta leiðir til lægra verðs auk þess sem störf kunna að tapast í Vestmannaeyjum.
    Hinn 11. mars var eftirfarandi bókað á fundi í bæjarráði Vestmannaeyja:
    „Bæjarráð lýsir þungum áhyggjum af þeirri þjónustuskerðingu sem bæjarbúar, fyrirtæki og gestir verða fyrir vegna yfirvinnubanns undirmanna á Herjólfi. Þetta hefur þær afleiðingar að eingöngu er siglt eina ferð á dag á virkum dögum og ekkert um helgar. Utan þess tíma er þjóðvegurinn til Eyja lokaður. Nú þegar er skaðinn orðinn verulegur og óþægindin mikil. Því er mikilvægt að samningar dragist ekki frekar. Eins og gefur að skilja mun bæjarráð ekki taka efnislega afstöðu til deilunnar enda hefur það engar forsendur til slíks. Um leið og full virðing er borin fyrir mikilvægi þessara samninga fyrir áhöfn og rekstraraðila Herjólfs er það skýr krafa bæjarráðs að samningar verði ekki dregnir umfram það sem nú þegar er orðið. Krafan er sú að samgöngur við Vestmannaeyjar séu öruggar og ásættanlegar.“
    Þá var eftirfarandi bókað í bæjarráði Vestmannaeyja 19. mars:
    „Bæjarráð Vestmannaeyja lýsir þungum áhyggjum af stöðu mála hvað varðar verkfall undirmanna á Herjólfi og hvetur enn og aftur samningsaðila til að setjast niður með sátt í huga og standa ekki upp frá borði fyrr en búið er að ná fram samkomulagi um þann ágreining sem er í kjaradeilunni.
    Bæjarráð ítrekar mikilvægi þess fyrir Vestmannaeyinga að þessari deilu ljúki sem fyrst enda skipið helsta samgöngutæki Eyjanna og hefur það nú verið úr hefðbundnum rekstri 14 daga og ekki er útlit fyrir að lausn finnist í deilunni. Frá því að verkfall undirmanna á Herjólfi hófst 5. mars hefur skipið einungis siglt eina ferð á virkum dögum með nauðsynjavörur og ekkert um helgar. Nú hefur verið boðuð aukin harka í deilunni og mun skipið því ekkert sigla á föstudögum hér eftir fyrr en deilan verður leyst. Eins og gefur að skilja hefur verkfallið áhrif á allt mann- og viðskiptalíf í Vestmannaeyjum. Fiski er síður landað hér enda nánast vonlaust að koma afurðum á markað, ferðaþjónusta er stopp, framleiðsla fyrirtækja á ferskvörumarkaði stendur tæpt, íþróttalið verða fyrir miklum kostnaði og verða jafnvel að draga lið sín úr keppni, almennir bæjarbúar líða hvern dag. Ljóst er að verkfallið hefur þegar haft áhrif á atvinnuöryggi og ferðafrelsi Eyjamanna almennt. Á Herjólfi eru sex stöður undirmanna. Sáttatilraunir, bæði hjá ríkissáttasemjara og milli deiluaðila sjálfra, hafa verið árangurslausar og því miður er lausn deilunnar ekki í sjónmáli.
    Bæjarráð bendir á að samgöngur milli lands og Eyja eru ekki munaðarvara heldur sjálfsögð grunnþjónusta þessa næst stærsta byggðakjarna utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar. Rekstur Herjólfs er á ábyrgð ríkisins. Ríkisstjórn og Alþingi getur því ekki leyft sér að skila auðu þegar ástandið er eins og það er nú. Bæjarráð krefst þess að samgönguyfirvöld og eftir atvikum Alþingi tryggi að samgöngum við Vestmannaeyjar verði sem fyrst komið í eðlilegt horf.
    Bæjarráð lýsir enn fremur áhyggjum af því hversu mikið ber á milli deiluaðila og viðræður ekki í gangi. Ekki hefur verið boðað til fundar á næstu dögum. Slíkt ástand er óþolandi. Bæjarráð býður því fram húsakynni Vestmannaeyjabæjar undir samningafundi deiluaðila og telur víst að með því að funda í Vestmannaeyjum sjái deiluaðilar betur mikilvægi þess að samið verði sem fyrst.“
    Báðar bókanir bæjarráðs voru samþykktar einróma af bæjarstjórn Vestmannaeyja.
    Því miður er forsagan sú að Alþingi hefur áður þurft að grípa inn í kjaradeilur útgerða og sjómanna. Hefur það gerst árin 1993, 1994, 1998 og 2001. Nú er svo komið að Alþingi þarf að grípa aftur inn í. Árið 1993 samþykkti Alþingi lög nr. 15/1993, um bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi. Í þeim var lagt til að ef ekki næðist samkomulag milli aðila skyldi Hæstiréttur tilnefna þrjá menn í gerðardóm sem skyldi ákveða kaup og kjör skipverja.
    Það er sameiginlegt inngripum Alþingis í kjaradeilur að forða hefur þurft efnahagslegu tjóni eða lögbundnum verkefnum hins opinbera hefur verið stefnt í hættu. Í þessari deilu er um að ræða kjaramál sex undirmanna á Herjólfi sem stefnir efnahagslegri velmegun og stöðugleika Vestmannaeyja í hættu. Almenningssamgöngur milli lands og Eyja eru settar í uppnám en með aðgerðum þeirra hefur tenging Vestmannaeyja við þjóðveginn verið klippt í sundur. Um 300 þúsund farþegar fara með Herjólfi árlega.
    Stjórnvöld standa því miður frammi fyrir þeim erfiða kosti að grípa inn í kjaramál deiluaðila en ekki verður undan þeirri ákvörðun vikist. Hins vegar er ljóst að þeir hagsmunir sem hér vegast á eru kjaramál sex einstaklinga gagnvart velferð og lífskjörum um 4.300 íbúa Vestmannaeyja. Þá er það mat deiluaðila að ekki séu forsendur fyrir samningum eins og málin standa nú.
    Í þessu frumvarpi er ekki farin sú leið að senda kjaradeiluna í gerðardóm eins og gert var með lögunum frá 1993, heldur er verkfallsaðgerðum frestað og aðilum falið að nýta þann tíma til að ná samkomulagi á farsælan hátt.