Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 536. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 906  —  536. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Björn Frey Björnsson og Sigurberg Björnsson frá innanríkisráðuneytinu, Berg Þorkelsson og Jónas Garðarsson frá Sjómannafélagi Íslands, Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Björgu Thorarensen, Ástráð Haraldsson, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands og Magnús Pétursson ríkissáttasemjara.
    Markmið frumvarpsins er að fresta verkfallsaðgerðum Sjómannafélags Íslands á Herjólfi VE sem hófust 5. mars sl. og leggja bann við þeim til 16. september 2014. Jafnframt eru aðrar aðgerðir sem jafna má til verkfalla og ætlað er að knýja fram breytta skipan kjaramála milli aðila óheimilar. Meiri hlutinn vekur þó athygli á því að nýr kjarasamningur sem gerður er með samkomulagi milli aðila gæti breytt þessum tímamörkum, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn ítrekar að með frumvarpinu er ekki verið að afnema samningsrétt sjómanna heldur er því einungis ætlað að fresta verkfallsaðgerðum og framlengja síðastgildandi kjarasamninga til og með 15. september. Engu síður er aðilum heimilt að semja um breytingar á kjarasamningi eða gera nýjan, eins og fram kemur í 2. gr. frumvarpsins.
    Meiri hlutinn tekur fram að það er grundvallarregla að aðilar kjarasamninga ljúki samningum sín í milli, en þegar brýna nauðsyn ber til getur komið til þess að íhlutun ríkisvaldsins sé réttlætanleg. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að sérstaða Vestmannaeyja í samgöngumálum sé augljós og ótvíræð en Herjólfur tengi saman almenningssamgöngukerfi lands og Eyja. Vöruflutningar fari að mestu sjóleiðina milli lands og Eyja og hafi verkfallið/yfirvinnubannið því neikvæð áhrif á atvinnustarfsemi í Eyjum að ógleymdum áhrifum á íbúa sem reiði sig á Herjólf til að sækja nauðsynlega þjónustu til lands. Meiri hlutinn bendir einnig á verulegt ójafnvægi er á milli hagsmuna þar sem aðgerðir fárra einstaklinga hafa áhrif á velferð og lífsafkomu þúsunda manna. Þá bendir meiri hlutinn á að það er lögbundið verkefni hins opinbera að gæta að því að lögbundnum verkefnum hins opinbera verði ekki stefnt í hættu. Meiri hlutinn telur að sú röskun sem orðið hefur á samgöngum á milli lands og eyja hafi gríðarleg áhrif á samfélagið allt og með tilliti til almannahagsmuna sé réttlætanlegt að grípa til lagasetningar.
    Svo virðist sem engin lausn finnist á vinnudeilunni í bráð. Kjaradeilu Sjómannafélags Íslands við Samtök atvinnulífsins, sem fara með samningsumboð fyrir hönd Eimskips, var vísað til ríkissáttasemjara 27. janúar sl. en ekkert hefur þokast í viðræðunum og liggja fundir niðri. Á fundi nefndarinnar hefur þessi staða málsins verið staðfest enn frekar. Allar sáttatilraunir hafa mistekist og lausn er ekki í sjónmáli.
    Meiri hlutinn brýnir báða samningsaðila til að halda áfram viðræðum á vettvangi ríkissáttasemjara og ná samkomulagi sem fyrst.
    Í ljósi framangreindra sjónarmiða leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 1. apríl 2014.



Höskuldur Þórhallsson,


form.


Unnur Brá Konráðsdóttir,


frsm.

Haraldur Einarsson.



Brynjar Níelsson.


Vilhjálmur Árnason.