Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 536. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 907  —  536. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Óumdeilt er að staða samfélagsins í Vestmannaeyjum er erfið og verkfallið á Herjólfi VE hefur haft slæm áhrif á atvinnulíf og mannlíf þar eins og ágætlega er rakið í tilvitnunum í ályktanir bæjaryfirvalda í athugasemdum við frumvarpið.
    Minni hlutinn leggur ríka áherslu á að samningsréttur launamanna er varinn í 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og telur óvírætt að mjög þung rök þurfi til að grípa inn í hann með lagasetningu. Það er á ábyrgð samningsaðila að ná samningum. Ef þeir bregðast því hlutverki hefur ríkissáttasemjari samkvæmt lögum ýmsar leiðir til að knýja á um niðurstöðu. Allar slíkar leiðir þarf að fullnýta áður en inngrip löggjafans geta komið til álita. Fram hefur komið að þótt bil sé milli aðila séu samningar ekki fullreyndir.
    Dómstólar hafa ekki hafnað því að löggjafinn grípi inn í kjaradeilu, svo fremi sem ríkir almannahagsmunir séu í húfi eða efnahagsleg vá vofi yfir. Í því sambandi er rétt að vísa til dóms Hæstaréttar í máli ASÍ gegn ríkinu nr. 167/2002 þar sem fram kemur að dómstólar gera ríkar kröfur um skilgreiningu almannahagsmuna og afgerandi rökstuðning til að slík inngrip geti talist réttlætanleg og m.a. er þar ítarlega vísað til lögskýringargagna. Ekki eru sambærilegar aðstæður nú. Fram kom fyrir nefndinni að sérfræðingar telja vafasamt að skilgreining almannahagsmuna sé fullnægjandi til að inngripið geti staðist stjórnarskrá. Af hálfu Alþýðusambandsins hefur komið fram að jafnvel megi taka svo djúpt í árinni að ef þessi skilgreining standist sé verkfallsrétturinn afnuminn á Íslandi. Víðtæk neikvæð áhrif á mannlíf og atvinnulíf eru óhjákvæmileg afleiðing verkfalla og verkföllum er beinlínis ætlað að hafa áhrif á samfélagið í því skyni. Slík áhrif þurfa því að vera mjög alvarleg og ógna ótvíræðum almannahagsmunum til að unnt sé að réttlæta lagasetningu. Rökstuðningur í greinargerð með frumvarpinu getur ekki talist nægur að því leyti.

Alþingi, 1. apríl 2014.



Árni Páll Árnason,


frsm.


Katrín Jakobsdóttir.


Brynhildur S. Björnsdóttir.



Jón Þór Ólafsson.