Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 287. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 911  —  287. mál.
Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur
um ferðaþjónustu fatlaðra.


     1.      Með hvaða hætti fylgist ráðuneytið með því hvort og hvernig ákvæðum 35. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum, er framfylgt af hálfu sveitarfélaganna?
    Í 4. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, kemur fram að sveitarfélög bera ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þ.m.t. gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögunum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum. Jafnframt er sú skylda lögð á sveitarfélög að hafa innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar.
    Í 35. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög skuli gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu. Markmið ferðaþjónustu fatlaðs fólks samkvæmt lögunum er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Jafnframt segir þar að fatlað fólk skuli eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir.
    Í byrjun árs 2012 kynnti velferðarráðuneytið leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um ferðaþjónustu samkvæmt nefndri 35. gr. Þeim er ætlað að stuðla að samræmi milli sveitarfélaga og þjónustusvæða. Jafnframt er þess getið að við setningu og framkvæmd reglna skuli sveitarfélög taka mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Sveitarfélög hafa almennt ákveðið svigrúm og forræði til að meta sjálf út frá aðstæðum hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar sem varðar stjórn sveitarfélaga á málefnum sínum er mat á nauðsyn að mestu leyti lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er framkvæmir aðgerðir eða veitir þjónustu, þ.e. atriði sem byggjast á frjálsu mati sveitarstjórnar á viðkomandi málefni. Við því mati verður ekki hróflað ef það byggist á lögmætum sjónarmiðum og er í samræmi við stjórnsýslulög, nr. 37/1993, og önnur lög sem varða málið.
    Í 1. gr. laga nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, er kveðið á um aðstoð við einstaklinga við að leita réttar síns, hvort sem er gagnvart opinberum þjónustuaðilum, öðrum stjórnvöldum eða einkaaðilum.

     2.      Hvaða úrræðum geta fatlaðir einstaklingar beitt ef brotið er á rétti þeirra til ferðaþjónustu af hálfu sveitarfélags?
    Hægt er að bera ákvarðanir sveitarfélags um ferðaþjónustu fatlaðs fólks undir úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála skv. 5. gr. a. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/ 1992.
    Þá getur viðkomandi óskað eftir liðsinni réttindagæslumanns á því svæði þar sem hann býr í samræmi við lög nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Skv. 2.–3. mgr. 6. gr. þeirra getur réttindagæslumaður, telji hann málið þess eðlis og að fengnu samþykki hins fatlaða einstaklings, komið ábendingum um úrbætur á framfæri við hlutaðeigandi aðila og gefið honum frest til að verða við ábendingunum. Verði ekki orðið við ábendingum réttindagæslumanns og hann telur að málið sé kæranlegt til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks, skal hann aðstoða hinn fatlaða við að kæra málið og vera honum innan handar varðandi rekstur málsins sé þess óskað.
    Réttindagæslumaður skal meta í hverju tilviki fyrir sig, í samráði við hinn fatlaða einstakling, hvort rétt sé að tilkynna mál til ráðuneytisins.

     3.      Hvaða úrræðum getur ráðuneytið beitt ef uppvíst verður um brot sveitarfélags gegn rétti fatlaðs einstaklings til ferðaþjónustu?
    Sé niðurstaða úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála á þann veg að brotið hafi verið á rétti viðkomandi er sveitarfélagið bundið af þeirri niðurstöðu og því ber að fylgja henni. Verði sveitarfélagið ekki við því getur ráðuneytið tekið málið upp á grundvelli eftirlitsheimilda sinna. Ráðuneytið býr þó ekki yfir neinum þvingunarúrræðum sem hægt er að beita komi sú staða upp að sveitarfélag verði ekki við tilmælum ráðuneytisins um úrbætur.

     4.      Telur ráðherra þörf á lagabreytingu til að unnt verði að taka á brotum á rétti fatlaðra einstaklinga til ferðaþjónustu? Ef sú er raunin, mun ráðherra þá beita sér fyrir slíkri lagabreytingu?
    Nú fer fram heildarendurskoðun á lögum um málefni fatlaðs fólks og þá verður einnig tekið til endurskoðunar hvernig þær eftirlits- og endurskoðunarheimildir sem lögin gera ráð fyrir hafa nýst og hvort tilefni er til breytinga. Enn sem komið er hefur ekki verið tekin afstaða til þess innan ráðuneytisins hvort þörf er á breytingum á því kerfi sem nú er við lýði.