Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 347. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 912  —  347. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um stuðning við mæður og börn í Afríku.


     1.      Hversu hátt hlutfall verkefna sem Ísland styður með framlögum í þróunarsamvinnuríkjum okkar, Malaví, Úganda og Mósambík, tengist velferð mæðra og barna?
    Jafnrétti er annað tveggja þverlægra málefna í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands og verkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í þremur samstarfsríkjum Íslands í Afríku, Malaví, Mósambík og Úganda, tengjast mörg hver velferð mæðra og barna á einn eða annan hátt. Flest þeirra hafa beina skírskotun í velferð þessara þjóðfélagshópa, eins og verkefni á sviði mennta-, heilbrigðis- og vatnsmála.
    Regluleg þverlæg greining er gerð á framlögum til þróunarsamvinnu út frá ætluðum áhrifum þeirra á jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna. Notast er við kynjajafnréttisstiku Þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC). Tvíhliða framlög til þróunarsamvinnu 1 eru árlega greind með tilliti til þess hvort þeim er ætlað að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna. Greining á framlögum Íslands til verkefna í Malaví, Mósambík og Úganda árið 2012 2 leiðir í ljós að öllum verkefnanna er ætlað að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna á marktækan hátt.
    Vísað er til svars við 2. tölul. fyrirspurnarinnar varðandi frekari upplýsingar.

     2.      Hversu mörg eru þau verkefni og hvers eðlis eru þau?
    Langflest verkefni sem Ísland styður í Malaví, Mósambík og Úganda, samtals 12 talsins, snerta með beinum eða óbeinum hætti afkomu mæðra og barna. Verkefni sem styðja við öflun á hreinu drykkjarvatni, menntun og grunnheilbrigðisþjónustu snerta mæður og börn mjög beint og mikið en verkefni á sviði fiskimála með óbeinni hætti.
    Verkefni ÞSSÍ í Malaví og Úganda snúa m.a. að bættu aðgengi að hreinu drykkjarvatni sem mikilvægt er fyrir heilsu fólks, einkum barna. Mengað drykkjarvatn veldur oft iðrasjúkdómum af ýmsu tagi og dregur úr heilsu barna og getu til náms. Það er gróðrarstía fyrir alvarlega og jafnvel banvæna sjúkdóma á borð við kóleru og iðrakreppu (dysentery). Þá verja konur og börn oft löngum tíma með miklu erfiði í vatnsburð þegar vatnsból eru fjarri heimilinu. Fjárfestingar í vatnsbólum sem tryggja hreint vatn nærri heimilum fólks eru því mikilvæg framfaraskref.
    Í Malaví styðja íslensk stjórnvöld við uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, bæði í gegnum verkefni ÞSSÍ og verkefni á vegum RKÍ. Í samstarfslöndum Íslands er mæðra- og barnadauði margfaldur á við það sem við þekkjum. Ein meginástæðan er lélegt aðgengi að þokkalegri heilbrigðisþjónustu. Ein milljón barna deyr árlega í fæðingu eða fyrsta sólarhringinn, bæði vegna skorts á grundvallaraðstöðu og skorts á menntuðu heilbrigðisstarfólki, 40 milljónir kvenna fæða aleinar á ári hverju. Þá er rúmlega milljón barna fædd andvana. 3 Meðal mikilvægra fjárfestinga sem bæta hag mæðra og barna eru bygging heilsugæslustöðva í grennd við heimili þeirra kvenna sem þær eiga að þjóna, þjálfun heilbrigðisstarfsfólks, allt frá aðstoðarfólki í þorpum til hjúkrunarfræðinga og lækna, bygging sérstakra fæðingardeilda til að fást við erfið tilfelli auk tryggingar á grundvallarframboði á lyfjum og læknisbúnaði.
    Í öllum löndunum þremur styður Ísland við menntamál, bæði í gegnum verkefni ÞSSÍ og verkefni félagasamtaka. Grunnmenntun skiptir miklu máli fyrir framtíð mæðra og barna. Stúlkur sem hafa hlotið menntun öðlast betri afkomumöguleika, eignast færri börn og giftast síðar en ella. Því eru fjárfestingar í skólum, kennarabústöðum, bókum og kennslugögnum, þjálfun kennara og þvíumlíkt mikilvæg framfaraskref fyrir börn og fyrir mæður framtíðarinnar. Þá er fullorðinsfræðsla einnig mikilvæg aðferð til að ná til kvenna og karla sem ekki náðu að ljúka skóla.
    Í Mósambík og Úganda styður Ísland við fiskimál, þ.á.m. bætta afkomu fátækra fiskimannafjölskyldna. Auknar tekjur og fæðuöryggi eru oft forsendur þess að börn nái líkamlegum og andlegum þroska og geti stundað nám með árangri.

     3.      Telur ráðherra að þeim fjármunum sé vel varið? Óskað er almenns rökstuðnings.
    Svarið er einfalt. Já, fjármununum er svo sannarlega vel varið.
    Stuðningur við konur og börn er án efa sá stuðningur sem hvað mestu margfeldisáhrifin hefur. Það segir sig sjálft að börn sem ekki þjást af vannæringu, búa við heilbrigði (grunnheilbrigðisþjónustu og aðgang að hreinu vatni) og eiga þess kost að mennta sig verða virkari samfélagsþegnar þegar þau eldast. Þá er lykilatriði að styðja við stúlkur, enda er vitað að menntaðar stúlkur eru líklegri til að ganga seinna í hjónaband og eiga færri börn, sem aftur eru líklegri til að lifa af, búa við betra heilsufar og ganga menntaveginn.
    Stuðningur við konur (jafnrétti kynjanna) er ekki aðeins mikilvægt þróunarmarkmið í sjálfu sér heldur styður það við efnahagsþróun og þar með má færa rök fyrir því að í því sé fólgin skynsamleg hagstjórnarstefna. Rannsóknir sýna að valdefling kvenna og kynjajafnrétti stuðla að aukinni framleiðni í samfélaginu, efla stofnanir þess og bæta forsendur næstu kynslóðar. Þótt hagvöxtur og auknar tekjur dragi ekki sjálfkrafa úr kynjamisrétti á öllum sviðum, þá dregur gjarnan úr ójöfnuði milli kvenna og karla á grundvelli þess að hagkerfið og stofnanir samfélagsins, bæði formlegar og óformlegar, dafna og eflast.


Neðanmálsgrein: 1
1     Tvíhliða framlög eru öll framlög sem hægt er að rekja til verkefna, málaflokka eða landa, þar með talin verkefni ÞSSÍ og eyrnamerkt framlög utanríkisráðuneytisins til alþjóðastofnana og félagasamtaka.
Neðanmálsgrein: 2
2     Greining á framlögum ársins 2013 er ekki tilbúin .
Neðanmálsgrein: 3
3     Ending Newborn Death (2014). Save the Children.