Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 390. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 924  —  390. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur
um styrkveitingar til menningarminja.


     1.      Voru í gildi skriflegar verklagsreglur í ráðuneytinu þegar styrkjum til menningarminja var úthlutað, sbr. svar ráðherra í þingskjali 636? Ef svo er, var þeim verklagsreglum fylgt?
    Þar sem spurt er um styrkveitingar til „menningarminja“ skal ítrekað að Minjastofnun Íslands mun að uppfylltum öllum skilyrðum ráðstafa 175 millj. kr. til verkefna af liðnum 01-281 Atvinnuuppbygging og fjölgun vistvænna starfa, sem er ekki í fjárlögum ársins 2014, og 30 millj. kr. af liðnum 01-305 Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. Undirstrika ber að ekki lágu fyrirfram fyrir skuldbindandi fyrirmæli um að báðir framangreindir fjárlagaliðir nýttust til verkefna tengdum menningarminjum. Ráðherranefnd um atvinnumál setti sér reglur um úthlutun fjár af framangreindum fjárlagalið nr. 01-281. Við niðurlagningu ráðherranefndarinnar í kjölfar ríkisstjórnarskipta misstu þær reglur hins vegar gildi sitt og voru styrkir þess í stað veittir á grundvelli almennra málefnalegra viðmiða, sbr. nánar svar við 2. tölul.

     2.      Voru styrkirnir auglýstir og þá hvar? Hvernig var tryggt að jafnræðisreglur væru virtar?
    Við úthlutun styrkja í desember 2013 var á sama hátt og í tíð fyrri ríkisstjórnar byggt á því vinnulagi að ekki var sérstaklega auglýst eftir styrkjum og því var ekki um sérstakt umsóknarferli að ræða, sbr. nánar hér að aftan, heldur voru ákvarðanir teknar á grundvelli fyrirliggjandi gagna og/eða umsókna sem lágu fyrir í forsætisráðuneytinu, hjá Minjastofnun Íslands, húsafriðunarnefnd og í Þjóðminjasafni Íslands, en ráðuneytið óskaði eftir tillögum frá þessum aðilum.
    Ýmis atriði koma til skoðunar þegar metið er hvort jafnræðisreglur hafi verið virtar í opinberri stjórnsýslu. Í því tilviki sem hér er spurt um þarf í fyrsta lagi að hafa í huga að um einskiptisaðgerð var að ræða þar sem verið var að ljúka ráðstöfun fjárheimilda af sérstökum fjárlagalið sem nú hefur verið lagður niður en sem fyrri ríkisstjórn og sá stjórnarmeirihluti sem hana studdi hafði beitt sér fyrir til frjálsrar ráðstöfunar fyrir þáverandi ráðherranefnd um atvinnumál. Í öðru lagi þarf, þegar lagt er mat á málsmeðferð og hvort jafnræðisreglur hafi verið virtar, að hafa í huga að brýn verkefni á sviði húsafriðunar og menningarminjaverndar eru vel þekkt og hafa verið kortlögð í starfi húsafriðunarnefndar um árabil sem og í starfi Þjóðminjasafns Íslands og Minjastofnunar Íslands. Góðan og málefnalegan grundvöll fyrir töku ákvarðana, að teknu tilliti til þeirra almennu og málefnalegu viðmiða sem byggt var á, var því hægt að leggja án þess að auglýst væri eftir umsóknum. Í því sambandi er þó rétt að hafa í huga að ákvarðanir um styrkveitingar til verkefna af þessu tagi eru og verða ávallt í eðli sínu matskenndar og á það að sjálfsögðu jafnt við, óháð því hvort auglýst er eftir umsóknum eða ekki. Í þriðja lagi verður að taka tillit til þess þrönga tímaramma sem ráðherra hafi til töku þessara ákvarðana. Ný ríkisstjórn tók við í lok maí 2013. Í kjölfar ríkisstjórnarskipta hefur farið fram umfangsmikil endurskoðun á stefnu íslenskra stjórnvalda í stórum málum sem smáum. Sú endurskoðunarvinna snertir það mál sem hér um ræðir með þeim hætti í fyrsta lagi að tekin var ákvörðun um að starfrækja ekki áfram sérstaka ráðherranefnd um atvinnumál, sem gerði það verkum að ekki var unnt að haga ráðstöfun fjár af umræddum fjárlagalið með sama hætti og tíðkast hafði hjá fyrrverandi ríkisstjórn. Sú endurskoðunarvinna leiddi jafnframt til þeirrar niðurstöðu að ákveðið var í hagræðingarskyni að fella niður umræddan fjárlagalið í fjárlögum fyrir árið 2014. Þá hefur í tíð nýrrar ríkisstjórnar átt sér stað endurskoðun á verkaskiptingu milli forsætisráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins á sviði menningararfs og menningarminja. Lá endanleg útfærsla þeirrar endurskoðunar ekki fyrir fyrr en undir í lok síðasta árs. Breytingar á verkaskiptingu í þessum málaflokki með flutningi mála frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til forsætisráðuneytisins endurspeglar aukna áherslu stjórnvalda á þennan málaflokk. Í samræmi við það var sú ákvörðun tekin að verja því sem eftir stæði af umræddum fjárlagalið til brýnna verkefna á þessu sviði. Ekki lá þó fyrir hver yrði endanleg fjárhæð til ráðstöfunar fyrr en við samþykkt fjáraukalaga fyrir árið 2013 í desember það ár, sbr. fjáraukalagalið 01-305. Af framangreindu má sjá að einungis skammur tími var til stefnu til að ljúka málsmeðferð til töku ákvarðana um styrkveitingar innan fjárlagaársins og ber að skoða verklag og málsmeðferð með hliðsjón af því.
    Eins og áður segir var við val á verkefnum byggt á almennum málefnalegum viðmiðum sem voru að:
     *      verkefnin væru atvinnuskapandi,
     *      um væri að ræða ný verkefni eða verkefni sem þegar væri unnið að,
     *      hægt væri að hefja vinnu við verkefnin sem fyrst,
     *      verkefnin væru sýnileg og vektu athygli á húsafriðun og viðhaldi húsa um land allt.
    Þar að auki var faglegt mat unnið í samráði við Minjastofnun Íslands, formann húsafriðunarnefndar og Þjóðminjasafn Íslands, þar sem m.a. var fjallað um allar umsóknir á sérstökum verkfundi.

     3.      Hvað er átt við þegar ráðherra vísar í framangreindu svari til fyrirliggjandi gagna og umsókna? Byggðust styrkveitingar í einhverjum tilfellum á gömlum umsóknum? Var styrkur í einhverjum tilfellum veittur á grundvelli gagna sem ráðuneytið óskaði eftir að eigin frumkvæði þar sem umsókn lá ekki fyrir?
    Eins og áður segir voru ákvarðanir teknar á grundvelli fyrirliggjandi gagna og/eða umsókna sem lágu fyrir í forsætisráðuneytinu, Minjastofnun Íslands, húsafriðunarnefnd og í Þjóðminjasafni Íslands, en ráðuneytið óskaði eftir tillögum frá þessum aðilum.

     4.      Hvernig fór fram faglegt mat á umsóknum í ráðuneytinu í samráði við stofnanir þess?
    Sjá svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.

     5.      Með hvaða hætti hefur ráðuneytið brugðist við þeim ábendingum sem vísað er til í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 4351/2005?
    Tekið skal fram að ábendingar umboðsmanns Alþingis til stjórnvalda eru stöðugt hafðar til hliðsjónar við meðferð mála í ráðuneytinu. Var það jafnframt gert við úthlutun þeirra styrkja sem hér eru til umfjöllunar, sbr. svar við 2. tölul. að framan. Þá hafa fulltrúar ráðuneyta innan Stjórnarráðs Íslands á sameiginlegum vettvangi, m.a. í kjölfar tilgreinds álits umboðsmanns Alþingis, yfirfarið framkvæmd við styrkveitingar og úthlutunarferli varðandi ýmsa fjárlagaliði, svo sem ráðstöfunarfé ráðherra og ýmsa safnliði sem eru í ráðuneytum sem bera t.d. heitið „ýmis verkefni“ eða „verkefna- og rekstrarstyrkir“ eða eru nánar tilgreindir samkvæmt efni, í þeim tilgangi að skoða hvort samræma megi verklag ráðuneyta.
    Þá hefur forsætisráðuneytið jafnframt til skoðunar hvort og þá hvernig megi bæta eftirfylgni eftir að styrkir hafa verið greiddir m.a. af ráðstöfunarfé ráðherra og ríkisstjórnar en slík eftirfylgni hefur ekki tíðkast með samræmdum hætti að því er varðar þá fjárlagaliði hingað til. Verður þá m.a. lagt mat á það hvort hafa megi eftirfylgni Minjastofnunar Íslands með framangreindum styrkveitingum til hliðsjónar við innleiðingu slíkra nýrra vinnubragða sem hugsanlega gæti einnig nýst við eftirfylgni með styrkveitingum af öðrum hliðstæðum fjárlagaliðum í öðrum ráðuneytum innan Stjórnarráðs Íslands.