Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 436. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 928  —  436. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Guðbjarti Hannessyni
um aðlögun að Evrópusambandinu.


     1.      Hvaða breytingar sem orðið hafa á lögum á málefnasviði ráðuneytisins eða á stofnunum þess frá 2009 má rekja til aðlögunar að Evrópusambandinu?
    Vísað er til svars við 3. tölul. fyrirspurnarinnar.

     2.      Hvaða breytingar voru eingöngu vegna aðildarumsóknar og viðræðna við ESB?
    Engar breytingar voru eingöngu vegna aðildarumsóknar og viðræðna við ESB, sjá þó svar við b-lið 3. tölul. fyrirspurnarinnar.

     3.      Hvaða breytingar urðu á sama tíma fyrst og fremst vegna aðildar Íslands að EES?

    Á framangreindu tímabili hefur Alþingi samþykkt lög á málefnasviði mennta- og menningarmálaráðuneytis sem m.a. voru sett til að uppfylla ákvæði laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Um er að ræða eftirtalin lög:
     a.      Lög nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, sem fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007, sem birt var 10. apríl 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 19/2008.
     b.      Lög nr. 38/211, um fjölmiðla, sem m.a. leiddu í lög ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/ 65/EB frá 11. desember 2007 um breytingu á tilskipun ráðsins 89/552/ EBE um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur. Með lögum nr. 54/2013 voru gerðar nokkrar breytingar á lögum nr. 38/2011. Annars vegar leiðréttingar og lagfæringar, m.a. vegna ábendinga frá ESA og frá framkvæmdastjórn ESB og hins vegar nýr kafli um eignarhald á fjölmiðlum. Ábendingar framkvæmdastjórnar ESB stóðu í tengslum við aðildarviðræðurnar en sneru að túlkun og innleiðingu á tilteknum ákvæðum í framangreindum tilskipunum.
     c.      Lög nr. 57/2011, um skil menningarverðmæta til annarra landa. Lögin voru sett til þess að viðhalda í innlendum rétti ákvæðum tilskipunar ráðsins 93/7/EBE frá 15. mars 1993, um skil menningarminja sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis, sem upphaflega var leidd í lög með lögum nr. 60/1996. Með lögum nr. 172/2011 var gildistöku laganna frestað um eitt ár, þ.e. til ársbyrjunar 2013.
     d.      Lög nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Rekja má nokkur ákvæði laganna til ákvæða í tilskipun 2010/13/EB, sem leidd var í lög hér á landi með fjölmiðlalögum, nr. 38/2011, í EES-samningnum, sbr. lög nr. 2/1993, einkum 2. mgr. 59. gr. um undanþágur frá almennum ríkisstyrkjareglum. Þá var tekið mið af leiðbeinandi reglum ESA um ríkisstyrki til útvarpsþjónustu í almannaþágu og um viðskiptaboð. Umrædd ákvæði laganna eru 3. gr., um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, 4. gr., um stofnun dótturfélaga sem lið í fjárhagslegum aðskilnaði í rekstri, sbr. 5. gr., 6. gr., um textun og táknmálstúlkun, 7. gr., um viðskiptaboð, 15. gr., um eftirlit og mat, og 16. gr., um mat á nýrri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.
     e.      Lög nr. 93/2010, um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972. Í lögunum var tekið mið af tilskipun ESB á sviði höfundaréttar, sem ekki fellur undir EES-samninginn, sbr. lög nr. 2/1993, en var að mati stjórnvalda hér á landi og í Noregi þess eðlis að rétt væri að fylgja fordæmi annarra ríkja Norðurlanda um innleiðingu hennar.