Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 405. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 930  —  405. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni um uppsagnir
starfsmanna ráðuneytisins og starfslið ráðherra.


     1.      Hve mörgum starfsmönnum ráðuneytisins hefur verið eða verður sagt upp störfum vegna sérstakrar 5% niðurskurðarkröfu sem lögð var á aðalskrifstofur ráðuneyta í fjárlögum? Svarið óskast sundurliðað eftir skrifstofum ráðuneytisins og starfsheitum og greint skal frá því í hve miklum mæli er um uppsagnir eða lækkun starfshlutfalls að ræða.
    Umfang niðurskurðar í utanríkisráðuneytinu er að sumu leyti annað en í öðrum ráðuneytum þar sem viðbótarniðurskurðarkrafan sem gerð var til aðalskrifstofa ráðuneyta undir lok fjárlagagerðar sl. haust rennur saman við samdrátt í utanríkisráðuneytinu vegna breyttra áherslna eftir að ný ríkisstjórn tók við á fyrri hluta ársins 2013. Þá hófst ráðuneytið þegar handa við að fækka störfum og er alls gert ráð fyrir að störfum í ráðuneytinu fækki um 35–37 frá fyrri hluta árs 2013 og út árið 2014. Rekstrarkostnaður þýðingamiðstöðvar var skorinn niður um helming á árinu 2013 og var 11 þýðendum hennar sagt upp störfum í ágúst sl. auk þess sem tímabundnir samningar 5 starfsmanna þar voru látnir renna sitt skeið. Yfirvinna og útvistun verkefna var einnig takmörkuð. Þá ber að nefna að 12 starfsnemar og starfsmenn sem ráðnir voru tímabundið luku störfum í ráðuneytinu á miðju ári 2013 og nýir starfsmenn voru ekki ráðnir í þeirra stað. Til loka þessa árs munu alls 7 starfsmenn hafa látið af störfum fyrir aldurs sakir eða af öðrum ástæðum.
    Í utanríkisráðuneytinu háttar svo til að nokkuð margir starfsmenn eru í launalausu leyfi hverju sinni, oft við störf á alþjóðavettvangi sem tengjast starfseminni. Nokkur óvissa ríkir um hve margir þeirra snúa til baka á næstu mánuðum og hve margir muni óska leyfis.
    Flutningar milli starfseininga utanríkisþjónustunnar eru ekki meðtaldir í framangreindri upptalningu, en þeir leiða af sér breytilegan fjölda starfa frá einu tímabili til annars í hverri starfseiningu.

     2.      Hve marga aðstoðarmenn, ráðgjafa eða starfsmenn í sérverkefni í fullu starfi eða hlutastarfi eða sem verktaka hefur ráðherra ráðið frá stjórnarskiptum?

    Hagfræðideild Háskóla Íslands var ráðin sem verktaki til að gera úttekt á stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Þeirri vinnu lauk í febrúar sl. Annar ráðgjafi var ráðinn sem verktaki sl. haust til að aðstoða við skipulagsbreytingar og bregðast við tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. Verki hans er ekki lokið. Frá síðustu áramótum hefur starfað fyrir ráðuneytið einn ráðgjafi sem verktaki við gerð úttektar á skipulagi og fyrirkomulagi þróunarsamvinnu, friðargæslu og neyðarhjálpar. Hann lýkur störfum á miðju þessu ári. Aðstoðarmenn ráðherra eru í ráðningarsambandi við forsætisráðuneytið og mun það ráðuneyti veita upplýsingar um fjölda þeirra í svari við fyrirspurn á þskj. 734, 403. mál.