Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 166. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 931  —  166. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt,
nr. 50/1988, með síðari breytingum (varmadælur).


Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Frumvarpið hefur áður verið lagt fram á Alþingi en á 139. og 141. löggjafarþingi var því vísað til efnahags- og viðskiptanefndar sem óskaði skriflegra umsagna um það. Almennt er óhætt að fullyrða að umsagnaraðilar hafi verið mjög jákvæðir um efni frumvarpsins. Við þessi tilefni voru gerðar nokkrar lagatæknilegar athugasemdir við skilgreiningar húsnæðis og búnaðar sem átti að falla undir gildissvið 1. gr. Meiri hlutinn fær ekki betur séð en að brugðist hafi verið við athugasemdunum og gerðar hafi verið breytingar á greininni í því skyni að skýra efni hennar og bæta.
    Efnahags- og viðskiptanefnd afgreiddi frumvarpið til 2. umræðu á 141. löggjafarþingi. Í nefndaráliti hennar þá segir m.a.: „[Fyrir nefndinni kom fram] að varmadælur standi jafnfætis ódýrustu hitaveitum í landinu og því [sé] hagur allra að örva útbreiðslu og notkun þeirra á svokölluðum köldum svæðum. […] Afkastageta raforkukerfisins skerðist ekkert með uppsetningu varmadælu sem þýðir að þær kílóvattstundir sem sparast má nota í aðra uppbyggingu.“ Þá er vísað beinum orðum til umsagnar Orkuseturs um frumvarpið þar sem segir að „með varmadælu er í raun verið að skila verðmætri raforku til baka inn í kerfið og því má segja að varmadælur séu okkar smæstu virkjanir“. Í nefndarálitinu er bent á að endurgreiðsla virðisaukaskatts muni bæði auka hagkvæmni varmadæluuppsetningar og flýta fyrir sparnaði á raforkunotkun til hitunar sem aftur dragi úr niðurgreiðsluþörf ríkissjóðs samkvæmt lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar. Að auki var bent á að endurgreiðsla virðisaukaskatts af varmadælum væri mikilvæg mótvægisaðgerð vegna síhækkandi húshitunarkostnaðar á köldum svæðum.
    Að mati meiri hlutans verða áhrif undanþáguheimildar frumvarpsins jákvæð. Fyrir nefndinni var efasemdum þó lýst þar sem kaup á varmadælum frá útlöndum fyrir erlendan gjaldeyri væru ankannaleg í ljósi öflugrar raforkuframleiðslu innan lands. Álit meiri hlutans er að raforkusparnaður, sem aukin notkun varmadæla hefur í för með sér, muni vega upp ókostina.
    Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ragnheiður Ríkharðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. apríl 2014.



Árni Páll Árnason,


frsm.


Pétur H. Blöndal.


Willum Þór Þórsson.



Guðmundur Steingrímsson.


Líneik Anna Sævarsdóttir.


Edward H. Huijbens.



Vilhjálmur Bjarnason.