Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 246. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 947  —  246. mál.
Leiðréttar millivísanir.

2. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um opinber skjalasöfn.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


     1.      Í stað orðanna „tryggja vörslu“ í 1. gr. komi: tryggja myndun, vörslu.
     2.      Við 2. gr.
              a.      Orðin „sem Þjóðskjalasafn Íslands hefur veitt sveitarstjórn eða byggðasamlagi til reksturs þeirra“ í 1. tölul. falli brott.
              b.      Í stað orðsins „vörslu“ í 4. tölul. komi: varðveislu.
     3.      Á eftir 2. gr. komi ný grein ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

        Hlutverk Þjóðskjalasafns Íslands.

                  Þjóðskjalasafn Íslands gegnir hlutverki sem framkvæmdaraðili opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar. Að auki gegnir safnið hlutverki opinbers skjalasafns.
     4.      Orðin „sem er sérstök ríkisstofnun undir yfirstjórn ráðherra“ í síðari málslið 3. gr. falli brott.
     5.      Við 1. mgr. 6. gr.
              a.      Í stað orðsins „fjóra“ í 1. málsl. komi: sex.
              b.      Í stað orðanna „einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga“ í 2. málsl. komi: tveir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og skal annar þeirra vera starfsmaður héraðsskjalasafns.
              c.      Á eftir orðinu „Þjóðskjalasafns“ í 2. málsl. komi: einn af félagsvísindasviði Háskóla Íslands.
     6.      Við 7. gr.
              a.      1. málsl. orðist svo: Hlutverk Þjóðskjalasafns Íslands við framkvæmd opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar er m.a. að.
              b.      Í stað orðsins „starfsleyfi“ í 4. tölul. komi: rekstrarleyfi.
              c.      Fyrirsögn greinarinnar verði: Framkvæmd opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar.
     7.      Í stað 8. og 9. gr. komi fjórar nýjar greinar ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
        a.     (9. gr.)

Héraðsskjalasöfn.

                     Héraðsskjalasafn er sjálfstætt opinbert skjalasafn sem lýtur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Rekstur héraðsskjalasafns er á ábyrgð þess sveitarfélags eða þeirra sveitarfélaga sem að því standa. Héraðsskjalasöfn skulu njóta styrks úr ríkissjóði samkvæmt því sem er ákveðið í fjárlögum hverju sinni.
                     Um útlán skjala til sveitarfélags fer skv. 19. gr.
                     Héraðsskjalasafn skal hafa eftirlit með skjalavörslu þeirra aðila sem eru afhendingarskyldir um skjöl sín og önnur gögn til þess, sbr. 4. tölul. 8. gr., 4. tölul. 13. gr. og 4. tölul. 1. mgr. 14. gr.
                     Ráðherra skal setja nánari ákvæði um héraðsskjalasöfn í reglugerð.
        b.     (10. gr.)

Heimild til reksturs héraðsskjalasafns og afturköllun rekstrarleyfis.

                     Einungis þeim sveitarstjórnum og byggðasamlögum sem hafa fengið leyfi til reksturs héraðsskjalasafns er heimilt að reka slíkt safn.
                     Falli héraðsskjalasafn í vanhirðu eða séu ekki lengur fyrir hendi þau faglegu skilyrði sem voru forsenda fyrir rekstrarleyfi safnsins skal Þjóðskjalasafn Íslands vekja athygli hlutaðeigandi sveitarstjórnar eða byggðasamlags á því sem aflaga er talið fara og óska úrbóta fyrir ákveðinn tíma. Sé ítrekaðri viðvörun ekki sinnt skal Þjóðskjalasafn afturkalla rekstrarleyfi viðkomandi héraðsskjalasafns og láta flytja safngögnin úr því í Þjóðskjalasafn Íslands á kostnað hlutaðeigandi sveitarfélags eða byggðasamlags.
                     Ef starfsemi byggðasamlags um héraðsskjalasafn er hætt skal afhenda Þjóðskjalasafni Íslands safngögnin á kostnað þeirra sveitarfélaga sem stóðu að því í samræmi við síðastgildandi skiptingu kostnaðar við rekstur byggðasamlagsins.
        c.     (11. gr.)

Leyfi til reksturs héraðsskjalasafns.

                     Sveitarstjórn getur sótt um leyfi til Þjóðskjalasafns Íslands til reksturs héraðsskjalasafns til að varðveita skjöl sveitarfélagsins og sinna því hlutverki sem fram kemur í 13. gr. um hlutverk opinberra skjalasafna. Sveitarfélög geta myndað byggðasamlag um rekstur héraðsskjalasafns í samræmi við IX. kafla sveitarstjórnarlaga. Með umsókn um slíkt leyfi skal, auk umsóknar skv. 2. mgr., fylgja samþykkt fyrir byggðasamlagið.
                     Í umsókn um leyfi til reksturs héraðsskjalasafns skal gera grein fyrir áætluðum rekstrarkostnaði, húsnæði, búnaði og fjölda starfa sem safninu er ætlað. Þjóðskjalasafn Íslands veitir leyfi til reksturs héraðsskjalasafns, að fengnu samþykki ráðherra, ef umsókn ber með sér að fjárhagsleg og fagleg skilyrði séu fyrir hendi til rekstursins. Í leyfi skal tiltaka þær faglegu forsendur sem eru fyrir útgáfu þess.
                     Ráðherra skal setja nánari ákvæði um leyfi til reksturs héraðsskjalasafns í reglugerð.
        d.     (12. gr.)

Eftirlit Þjóðskjalasafns með rekstri héraðsskjalasafna.

                     Þjóðskjalasafn Íslands hefur eftirlit með því að héraðsskjalasöfn starfi í samræmi við lög og skilyrði rekstrarleyfis.
                     Rekstraraðilar héraðsskjalasafns skulu árlega skila Þjóðskjalasafni skýrslu um starfsemina og láta því í té aðrar þær upplýsingar og skriflegar skýringar sem óskað er eftir og þörf er á vegna eftirlits með því að skilyrði rekstrarleyfis séu uppfyllt. Lögbundin þagnarskylda stendur ekki í vegi slíkrar upplýsingagjafar.
                     Héraðsskjalasöfn skulu veita aðgang að starfsstöðvum sínum vegna eftirlits Þjóðskjalasafns Íslands. Skulu starfsmenn héraðsskjalasafna láta safninu í té nauðsynlega aðstoð af því tilefni ef óskað er.
     8.      Síðari málsliður 4. tölul. 10. gr. orðist svo: Afhendingarskyldir aðilar skulu veita aðgang að starfsstöðvum sínum vegna athugana í þágu eftirlits opinberra skjalasafna.
     9.      Við 11. gr.
              a.      Við 6. tölul. 1. mgr. bætist: að því er varðar skjöl sem hafa orðið til hjá þeim eða komist í þeirra vörslu vegna mála er tengjast slíkum ákvörðunum.
              b.      Í stað orðanna „á grundvelli sambærilegra lagaheimilda“ í 7. tölul. 1. mgr. komi: skv. 100. og 101. gr. sveitarstjórnarlaga.
              c.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Komi upp ágreiningur um afhendingarskyldu lögaðila tekur Þjóðskjalasafn Íslands ákvörðun um afhendingarskylduna.
              d.      3. mgr. orðist svo:
                     Lög þessi gilda ekki um Alþingi eða umboðsmann Alþingis.
     10.      Í stað orðsins „áramótum“ í 4. málsl. 1. mgr. 12. gr. komi: lokum.
     11.      Í stað orðsins „héraðsskjalasafni“ í síðari málslið 3. mgr. 13. gr. komi: öðru safni.
     12.      Á eftir 17. gr. komi ný grein ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Þagnarskylda starfsmanna.

             Starfsmenn opinberra skjalasafna skulu gæta fyllstu þagmælsku um upplýsingar sem varða fjárhags- og einkamálefni einstaklinga, atvinnu-, framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmál einstaklinga og lögaðila og mikilvæga almannahagsmuni sem óheimilt er að veita almenningi aðgang að og upplýsingar sem synjað er um aðgang að skv. 29. gr. Sé veittur aðgangur að skjölum sem undanþegin eru upplýsingarétti skv. V. kafla nær þagnarskylda skv. 33. gr. til starfsmanna opinberra skjalasafna. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
     13.      1. mgr. 19. gr. orðist svo:
             Þjóðskjalasafn Íslands skal setja reglur skv. 1. tölul. 8. gr. um það hvernig skjalastjórn og skjalavörslu í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og afhendingarskyldra aðila skuli hagað, svo og skráningu, flokkun og frágangi skjala til afhendingar til opinberra skjalasafna, þ.m.t. skilmála um staðla fyrir skjalavistunarkerfi og samþykkt á skjalavistunarkerfum.
     14.      Á eftir orðinu „reglur“ í 2. mgr. 20. gr. komi: skv. 3. tölul. 8. gr.
     15.      4. mgr. 26. gr. orðist svo:
             Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. fer um rétt sjúklings til aðgangs að sjúkraskrá sinni samkvæmt ákvæðum 14. gr. laga um sjúkraskrár. Opinbert skjalasafn veitir aðgang að sjúkraskrám sem eru í vörslu þess.
     16.      Við 1. mgr. 27. gr. bætist: sem nauðsynlegur er í þágu vísindarannsóknar, réttindagæslu eða af öðrum sambærilegum ástæðum.
     17.      Í stað 28. og 29. gr. komi ný grein sem orðist svo ásamt fyrirsögn:

Aðgangur að skjali háður samþykki eða skilyrði.

             Áður en veittur er aðgangur að skjali skv. 31. gr. skal afla samþykkis Persónuverndar ef skjalið hefur verið afhent af afhendingarskyldum aðila og það hefur að geyma persónugreinanlegar upplýsingar og vinnsla með upplýsingarnar hefur fallið undir lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
             Persónuvernd getur bundið samþykki sitt skilyrðum. Opinbert skjalasafn getur einnig sett skilyrði fyrir aðgangi að skjölum og gögnum samkvæmt þessari grein. Skilyrðin skulu byggð á sjónarmiðum um:
              1.      eðli þeirra upplýsinga sem veittur er aðgangur að,
              2.      þann tilgang sem umsókn skv. 31. gr. byggist á.
             Sem skilyrði geta afhendingarskyldir aðilar eða Persónuvernd sett að:
              1.      upplýsingum um einkamálefni, þ.m.t. fjárhagsmálefni, sé ekki miðlað áfram,
              2.      ekki sé haft samband við einstaklinga sem eru nefndir í skjalinu sem veittur er aðgangur að eða skyld- og venslamenn þeirra,
              3.      skjalið verði ekki birt í heild sinni,
              4.      ekki verði tekið afrit af skjalinu,
              5.      þær upplýsingar sem veittur er aðgangur að verði ekki birtar í rannsóknaniðurstöðum á persónugreinanlegan hátt.
             Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að setja önnur skilyrði en fram koma í 3. mgr.
             Persónuvernd skal að jafnaði hafa 30 daga til þess að svara opinberum skjalasöfnum um hvort hún veiti samþykki sitt fyrir því að veittur verði aðgangur að tilteknu skjali. Hafi erindi opinbers skjalasafns ekki verið svarað innan 30 daga skal skýra safninu frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.
             Ráðherra getur, að fengnum tillögum Persónuverndar, sett reglur um skilyrði fyrir notkun ákveðinna tegunda skjala sem undir þennan kafla heyra og hafa að geyma persónuupplýsingar sem falla undir lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þarf þá ekki að leita samþykkis Persónuverndar um skjöl sem undir slíkar reglur falla.
     18.      3. mgr. 37. gr. falli brott.
     19.      Við 41. gr.
              a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við veitingu aðgangsins skal beita viðeigandi öryggisráðstöfunum sem taka mið af eðli gagnanna.
              b.      Í stað 4. mgr. komi þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                     Þjóðskjalasafni Íslands er heimilt að innheimta gjald fyrir ljósritun og afritun gagna sem safnið afhendir samkvæmt lögum þessum. Gjaldtakan skal ákveðin í gjaldskrá, staðfestri af ráðherra, og skal hún birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldskráin skal einnig birt notendum þjónustu safnsins á aðgengilegan hátt.
                     Héraðsskjalasöfnum er heimilt að innheimta gjald fyrir ljósritun og afritun gagna sem afhent eru samkvæmt lögum þessum. Gjaldtakan skal ákveðin af stjórn safns með gjaldskrá sem skal birt notendum á aðgengilegan hátt. Sé safninu ekki skipuð stjórn ákveður sveitarstjórn gjaldtökuna.
                     Umrædd gjöld skulu ekki vera hærri en raunkostnaður viðkomandi safns vegna þjónustunnar og er þeim ætlað að standa straum af eftirfarandi kostnaðarþáttum við hana:
                      a.      launum starfsfólks sem sinnir þjónustunni,
                      b.      sérstökum efniskostnaði vegna þjónustunnar,
                      c.      eðlilegum afskriftum af þeim búnaði sem notaður er við afritun gagna.
     20.      Við 43. gr.
              a.      Í stað orðanna „skv. 9. gr.“ í 3. mgr. komi: skv. 2. og 3. mgr. 10. gr.
              b.      Á eftir orðinu „afhendingarskyldu“ í 4. mgr. komi: lögaðila.
     21.      44. gr. orðist svo:
             Það varðar mann sektum eða fangelsi allt að þremur árum ef:
              a.      hann vanrækir afhendingarskyldu skv. 4. mgr. 14. gr.,
              b.      hann ber ábyrgð á skjalastjórn og skjalavörslu skv. 22. gr. og hagar skráningu mála eða flokkun eða frágangi skjala í andstöðu við ákvæði reglna skv. 23. gr.,
              c.      hann grípur ekki til ráðstafana skv. 4. mgr. 22. gr.,
              d.      hann brýtur ákvæði 24. gr.,
              e.      hann brýtur gegn þagnarskyldu skv. 33. gr.,
              f.      hann brýtur gegn ákvæði 3., 4. eða 7. mgr. 37. gr.
             Það varðar mann sektum ef hann vanrækir afhendingarskyldu samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 14. gr. eða 3. mgr. 16. gr.
             Brot skv. 1. mgr. varða mann refsiábyrgð ef þau eru framin af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Brot skv. 2. mgr. varða mann refsiábyrgð ef þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
             Gera má lögaðila sekt vegna brots skv. 1. eða 2. mgr. óháð sök fyrirsvarsmanns lögaðilans, starfsmanns hans eða annars á hans vegum í starfsemi lögaðilans. Lögaðila verður gerð refsing þó að ekki verði staðreynt hver þessara aðila hafi átt í hlut. Refsiábyrgð stjórnvalda er bundin sömu skilyrðum, enda hafi verið framið brot skv. 1. eða 2. mgr. í starfsemi sem telst vera sambærileg starfsemi einkaaðila.
             Tilraun til brota og hlutdeild í brotum skv. 1. og 2. mgr. eru manni refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
             Nú brýtur maður eitt eða fleiri af þeim ákvæðum sem talin eru upp í e- og f-lið. 1. mgr. af ásetningi eða gáleysi og má þá dæma hann til að greiða þeim sem upplýsingarnar varða bætur fyrir fjártjón og miska.
     22.      Við 47. gr.
              a.      3. tölul. orðist svo : Lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, nr. 163/ 2007: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                     Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 12. gr. er Hagstofu Íslands heimilt að afhenda Þjóðskjalasafni Íslands trúnaðargögn sem safnað var vegna manntals sem fór fram á grundvelli laga nr. 76/1980, um manntal 31. janúar 1981. Um aðgang að gögnunum fer samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 26. gr. laga um opinber skjalasöfn.
              b.      Á eftir 3. tölul. komi nýr töluliður, svohljóðandi: Lög um sjúkraskrár, nr. 55/2009: 2. málsl. 11. gr. laganna orðast svo: Um skyldu til að afhenda sjúkraskrár til opinberra skjalasafna, varðveislu þeirra og aðgang að þeim þar gilda ákvæði laga um opinber skjalasöfn.
     23.      Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 10. gr. er sveitarfélögum og byggðasamlögum sem reka héraðsskjalasafn við gildistöku laga þessara heimilt að reka slíkt safn án þess að hafa fengið útgefið rekstrarleyfi í þrjú ár frá því að reglugerð ráðherra um leyfi til reksturs héraðsskjalasafns tekur gildi.
                  Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. 10. gr. er sveitarfélögum og byggðasamlögum ekki skylt að flytja safngögn til Þjóðskjalasafns eða afhenda þau því fyrr en þremur árum eftir gildistöku reglugerðar ráðherra um leyfi til reksturs héraðsskjalasafns.