Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 561. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 972  —  561. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda
við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008,
með síðari breytingum (skip- og vélstjórnarréttindi).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


1. gr.

    3. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: meistararéttindum í iðngrein eða öðru fagnámi sem ráðherra viðurkennir og nýtist til kennslu á framhaldsskólastigi í skilgreindri námsgrein eða á skilgreindu námssviði, auk 60 eininga náms í kennslu- og uppeldisfræði; eða.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Tilefni frumvarpsins er að matsnefnd leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla hefur fengið til mats og umsagnar umsóknir frá aðilum sem lokið hafa fullum réttindum í skipstjórn og vélstjórn, auk 60 eininga viðbótardiplómu í uppeldis- og kennslufræði, um að fá að nota starfsheitið framhaldsskólakennari. Matsnefnd hefur hafnað þeim umsóknum þar sem í gildandi lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008, er ekki heimild til að veita leyfisbréf á grundvelli þeirra menntunar sem krafist er til réttinda í skip- og vélstjórn. Í 5. gr. laganna er tæmandi upptalning á þeim menntunarskilyrðum sem uppfylla verður til kennsluréttinda. Leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari má samkvæmt þeirri upptalningu aðeins veita þeim sem lokið hefur:
     1.      meistaraprófi frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga um háskóla, nr. 63/2006, á fræðasviði sem ráðherra viðurkennir til kennslu á framhaldsskólastigi; eða
     2.      öðru námi sem jafngildir meistaraprófi skv. 1. tölul. og ráðherra viðurkennir til kennslu á framhaldsskólastigi; eða
     3.      3. meistararéttindum í iðngrein sem nýtist til kennslu á framhaldsskólastigi í skilgreindri námsgrein eða á skilgreindu námssviði, auk 60 eininga náms í kennslu- og uppeldisfræði; eða
     4.      fullgildu lokaprófi í listgrein, tæknigrein eða verkgrein sem nýtist til kennslu á framhaldsskólastigi í skilgreindri námsgrein eða á skilgreindu námssviði, enda komi slík sérhæfing fram í leyfisbréfi. Skal menntun a.m.k. vera 270–300 námseiningar, þar af að lágmarki 60 námseiningar í kennslu- og uppeldisfræði.
    Ákvæði eldri laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, nr. 86/1998, voru sveigjanlegri hvað varðar mat á námi til kennsluréttinda í framhaldsskólum. Menntunarskilyrðin voru tilgreind í 12. gr. þágildandi laga. Þar sagði að leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari mætti aðeins veita þeim sem lokið hefur:
     1.      námi á háskólastigi sem veitir undirbúning til kennslu í faggrein eða á fagsviði framhaldsskóla og jafngildir a.m.k. 90 námseiningum ásamt fullgildum lokaprófum; þar af skulu eigi færri en 60 einingar vera í aðalgrein og 30 einingar í aukagrein; til viðbótar þessu námi komi 30 eininga nám í kennslufræði til kennsluréttinda;
     2.      námi á háskólastigi sem veitir undirbúning til kennslu í faggrein eða á fagsviði framhaldsskóla og jafngildir a.m.k. 120 námseiningum ásamt fullgildum lokaprófum; þar af skulu 60-90 einingar vera í aðalgrein og 30-60 einingar í aukagrein; til viðbótar þessu námi komi 15 eininga nám í kennslufræði til kennsluréttinda;
     3.      námi í tæknifræði eða meistaranámi í iðngrein; til viðbótar þessu námi komi 15 eininga nám í kennslufræði til kennsluréttinda, enda hafi viðkomandi starfsreynslu og hafi haft nema í samningsbundnu námi, annars komi 30 eininga nám í kennslufræði;
     4.      öðru fagnámi sem menntamálaráðuneytið viðurkennir og miðast við kennslu í framhaldsskóla ásamt 30 eininga námi í kennslufræði til kennsluréttinda;
     5.      öðru jafngildu námi sem hefur að markmiði að veita undirbúning til kennslu á framhaldsskólastigi.
    Samkvæmt 4. tölul. 12. gr. þágildandi laga var því unnt að meta annað fagnám en nám í tæknifræði og meistaranám í iðngrein til kennsluréttinda að viðbættri tilskilinni menntun í uppeldis- og kennslufræði. Hliðstætt ákvæði er hins vegar ekki að finna í núgildandi lögum. Námi í skip- og vélstjórn lýkur ekki með meistararéttindum og afmarkað nám á þeim sviðum er ekki í boði á háskólastigi. Þar með er hvorki unnt að samþykkja nám í skip- og vélstjórn sem faglegan grunn til kennsluréttinda né benda á ásættanlega leið að því marki með frekara námi.
    Þar sem skipstjórn og vélstjórn eru veigamiklar námsgreinar í framhaldsskóla er talið óviðunandi að ekki sé unnt að afla kennsluréttinda er miða sérstaklega að kennslu þeirra. Því er lagt til í frumvarpi þessu að bætt verði inn í 3. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna ákvæði um að samþykkja megi annað fagnám en löggiltar iðngreinar sem grunn til kennsluréttinda.
    Með framangreindri breytingu væri unnt að veita kennsluréttindi þeim sem lokið hafa námi til fullra réttinda í skipstjórn og vélstjórn auk 60 eininga náms í uppeldis- og kennslufræði fyrir framhaldsskóla.