Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 549. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 980  —  549. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn
frá Össuri Skarphéðinssyni um vernd vöruheita.


     1.      Hefur starfshópur, sem settur var á laggir í nóvember 2012, um vernd vöruheita með uppruna- eða staðarvísun skilað tillögum til ráðherra? Ef svo er, hverjar eru meginhugmyndir hópsins?
    Starfshópur um vernd vöruheita með uppruna- og staðarvísun skilaði tillögum til ráðherra í nóvember 2013.
    Starfshópurinn taldi að lögfesting reglna um uppruna- og staðarvísun fæli í sér tækifæri fyrir framleiðendur til að öðlast formlega viðurkenningu á sérstöðu íslenskra afurða. Með því yrði samkeppnisstaða innlendra afurða sterkari gagnvart innfluttum vörum og einnig mundi slík löggjöf skapa ný tækifæri á erlendum mörkuðum. Þá taldi starfshópurinn að neytendur hérlendis og erlendis hefðu á síðustu árum gert auknar kröfur um frekari upplýsingar um uppruna afurða og með tilkomu slíkrar löggjafar um vernd vöruheita yrði skapaður ákveðinn rammi til að koma opinberum viðurkenndum upplýsingum á framfæri við neytendur.
    Starfshópurinn samdi drög að frumvarpi til laga um vernd heita afurða sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. Tillögur starfshópsins voru byggðar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1151/2012 frá 21. nóvember 2012 um gæðakerfi fyrir landbúnaðarafurðir og matvæli. Þá tók starfshópurinn einnig mið af sams konar reglum í Noregi og Danmörku. Drögin voru birt til umsagnar sumarið 2013 og einnig send helstu hagsmunaaðilum til umsagnar.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að sett verði löggjöf um vernd slíkra vöruheita? Ef svo er, hvenær má gera ráð fyrir að frumvarp til slíkra laga verði lagt fram?

    Ráðherra hefur beitt sér fyrir því að löggjöf um vernd vöruheita með uppruna- eða staðarvísun verði sett. Í ráðuneytinu hefur verið unnið úr tillögum starfshópsins og þeim umsögnum sem bárust um frumvarpið, m.a. í samstarfi við Matvælastofnun og Einkaleyfastofu, en frumvarpið kemur einnig inn á svið vörumerkjaréttar að hluta. Þá er um að ræða nýja heildarlöggjöf um þetta efni.
    Fyrirhugað er að leggja frumvarp til laga um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu fram á Alþingi á næstu dögum.