Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 410. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 984  —  410. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni
um uppsagnir starfsmanna ráðuneytisins og starfslið ráðherra.


     1.      Hve mörgum starfsmönnum ráðuneytisins hefur verið, eða verður, sagt upp störfum vegna sérstakrar 5% niðurskurðarkröfu sem lögð var á aðalskrifstofur ráðuneyta í fjárlögum? Svarið óskast sundurliðað eftir skrifstofum ráðuneytisins og starfsheitum og að greint sé frá í hve miklum mæli um uppsagnir eða lækkun starfshlutfalls er að ræða.
    Vegna sérstakrar niðurskurðarkröfu ríkisstjórnarinnar um 5% niðurskurð á aðalskrifstofu ráðuneytisins var gripið til eftirtalinna aðgerða:
    Einn ritari fer úr 80% starfi í 50% starf. Stefnt er að því að gera samkomulag við einn starfsmann um að hefja töku lífeyris frá og með 1. febrúar 2015.
    Á skrifstofu menntamála var einum sérfræðingi sagt upp störfum. Tveir starfsmenn flytjast yfir til nýrrar stofnunar sem verður til vegna samruna Námsgagnastofnunar og Námsmatsstofnunar á árinu 2014, einn ritari og einn sérfræðingur. Auk þessa verða ekki framlengdir tímabundnir ráðningarsamningar tveggja sérfræðinga í hálfu starfi eins og til stóð.
    Á upplýsinga- og fjármálasviði var einum sérfræðingi sagt upp störfum.
    Í heild snertir þetta störf níu starfsmanna og nemur niðurskurðurinn samtals 5,3 stöðugildum.

     2.      Hve marga aðstoðarmenn, ráðgjafa eða starfsmenn í sérverkefni í fullu starfi eða hlutastarfi eða sem verktaka hefur ráðherra ráðið frá stjórnarskiptum?
    Frá stjórnarskiptum hefur verið ráðið í eftirtaldar stöður í ráðuneytinu: Í tvær stöður aðstoðarmanna ráðherra. Fjórir verkefnaráðnir starfsmenn hafa verið ráðnir í tímabundin verkefni og einn starfsmaður til sumarafleysinga í móttöku. Auk þess hefur verið ráðið í eina stöðu ritara á skrifstofu yfirstjórnar.