Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 491. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 986  —  491. mál.
Leiðréttur texti.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Björt Ólafsdóttur
um aðgang að sjúkraskrám.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu oft á síðustu fimm árum hefur beiðni um aðgang að sjúkraskrá verið synjað af umsjónaraðila sjúkraskrár?
     2.      Hversu oft hafa ákvarðanir umsjónaraðila um aðgang að sjúkraskrá verið kærðar til landlæknis og hver var niðurstaða þeirra mála?
     3.      Hversu oft hafa ákvarðanir landlæknis um aðgang að sjúkraskrá verið kærðar til ráðuneytisins og hver var niðurstaða þeirra mála?
    Svör óskast sundurliðuð eftir því hvort beðið var um aðgang að eigin sjúkraskrá eða sjúkraskrá náins aðstandanda.


Svar við 1. tölul.
    Til að svara spurningunni var upplýsingabeiðni send frá embætti landlæknis til gæðastjóra heilbrigðisstofnana og heilsugæslustöðva. Ekki bárust svör frá öllum aðilum en Landspítali og fleiri heilbrigðisstofnanir skiluðu upplýsingum. Upplýsinga frá hjúkrunarheimilum og sjálfstætt starfandi sérfræðingum var ekki aflað vegna þess tímafrests sem gefinn er fyrir svörun fyrirspurna.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem bárust hefur beiðni um aðgang að sjúkraskrá verið synjað af umsjónaraðila sjúkraskrár í fimm tilfellum. Í tveimur tilvikum var um að ræða synjun um aðgang að eigin sjúkraskrá. Í einu tilfelli var um að ræða synjun um aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings. Í tveimur tilfellum var aðstandanda synjað um aðgang að sjúkraskrá barns.

Svar við 2. tölul.
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis hafa engin mál borist sem kæra til embættisins vegna synjunar umsjónaraðila sjúkraskráa, þ.e. ekki hefur enn reynt á ákvæði 4. gr. laga nr. 6/2014, um breytingu á lögum um sjúkraskrár. Með 4. gr. laga nr. 6/2014 var nýrri grein bætt við lög um sjúkraskrár, 15. gr. a, um rétt til að bera synjun um aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá og aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings undir embætti landlæknis. Lagaákvæðið tekur af allan vafa um að heimilt sé að bera synjun umsjónaraðila sjúkraskrár um aðgang að eigin sjúkraskrá eða látins aðstandanda undir embætti landlæknis en ekki einungis þær ákvarðanir sem tilteknar voru skv. 2. og 3. mgr. 14. gr. og 2. málsl. 15. gr. laga nr. 55/2009.
    Þau mál sem landlæknir hefur efnislega tekið afstöðu til byggðust á þeim ákvæðum sem voru í IV. kafla laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár, og giltu áður en heimild til að kæra niðurstöður umsjónaraðila sjúkraskráa til embættis landlæknis var samþykkt á þessu ári. Í eftirfarandi töflu má sjá hvernig embætti landlæknis afgreiddi innkomin erindi skv. IV. kafla laga um sjúkraskrár um aðgang að sjúkraskrárupplýsingum (samantektin er fyrir árin 2011, 2012 og 2013).

Afgreiðsla embættis landlæknis Fjöldi
Afhenda skal upplýsingar í heild 6
Ekki skal afhenda upplýsingar 3
Ekki skal veita aðgang að upplýsingum látins 6
Veita skal aðgang að upplýsingum látins 2
Erindi beint til umsjónaraðila sjúkraskráa 7
Erindi beint til yfirstjórnar stofnunar/sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanns 2
Leiðbeint um málefni heilbrigðisþjónustunnar 21
Fjöldi alls 47

Svar við 3. tölul.
    Samkvæmt málaskrá velferðarráðuneytisins, þar áður heilbrigðisráðuneytisins, er um að ræða þrjú mál sem öll varða synjun um aðgang að sjúkraskrá látins aðstandanda. Einu máli er ólokið, í öðru var aðgangur að sjúkraskrá heimilaður og í því þriðja var ákvörðun landlæknis um synjun aðgangs felld úr gildi og lagt fyrir embættið að taka málið upp á nýju.