Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 315. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 992  —  315. mál.
Viðbót.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um gjaldskrárlækkanir o.fl.


Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu Guðrún Þorleifsdóttir og Ingibjörg Helga Helgadóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Ólafur Darri Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Drífa Snædal frá Starfsgreinasambandi Íslands, Runólfur Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins og Almar Guðmundsson frá Félagi atvinnurekenda. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Félagi atvinnurekenda, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Neytendasamtökunum og Starfsgreinasambandi Íslands.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fjárhæðum ýmissa skatta og gjalda sem voru hækkuð með lögum nr. 140/2013, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 (verðlagsbreytingar o.fl.). Þá eru lagðar til lagfæringar á lögum um stimpilgjald. Frumvarpið er lagt fram í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 21. desember sl. um endurskoðun breytinga sem urðu á gjöldum við afgreiðslu fjárlaga 2014.
    Fyrir nefndinni var lýst stuðningi við markmið frumvarpsins um að lækka gjöld til samræmis við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Menn greindi hins vegar á um það hvort rétt leið hefði verið valin við lækkunina og hvort hún væri nægileg þegar litið væri til tiltekinna hagsmuna. Þá var dráttur á málsmeðferð gagnrýndur.
    Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 13. febrúar sl. Mælt var fyrir frumvarpinu 18. mars sl. en þann dag var því vísað til efnahags- og viðskiptanefndar. Á næsta reglulega fundi sínum, 26. mars sl., óskaði nefndin skriflegra umsagna um málið. Umsagnarfresti lauk átta dögum síðar, 4. apríl sl., og á reglulegum fundi sínum 9. apríl tók nefndin á móti gestum.
    Að mati meiri hlutans kemur frumvarpið í rökréttu framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningsgerð skömmu fyrir síðustu áramót. Þá er efni frumvarpsins í samræmi við þá stefnumörkun sem kom fram við gerð fjárlaga 2014.
    Samkvæmt 12. gr. frumvarpsins átti það að öðlast lagagildi 1. mars sl. Meiri hlutinn leggur til þá breytingu að ákvæði frumvarpsins öðlist gildi 1. júní 2014. Jafnframt eru lagðar til breytingar á dagsetningum í 3. gr. frumvarpsins.
    Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Við 3. gr.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                      Ef ekki er komið með ökutæki til álestrar á fyrsta álestrartímabili ársins 2014, sem stendur frá 1. til 15. júní 2014, sbr. 1. mgr. 14. gr., skal reikna út meðaltal ekinna kílómetra á dag á tímabilinu milli álestra. Þá skal hið nýja gjald innheimt eftir meðaltalsakstri eftir 1. júní 2014.
                  b.      Í stað orðsins „mars“ tvívegis í 2. mgr. komi: júní.
     2.      Í stað dagsetningarinnar „1. mars 2014“ í 12. gr. komi: 1. júní 2014.

Alþingi, 28. apríl 2014.


Frosti Sigurjónsson,


form.


Pétur H. Blöndal,


frsm.


Willum Þór Þórsson.Líneik Anna Sævarsdóttir.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Vilhjálmur Bjarnason.