Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 403. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1003  —  403. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni
um uppsagnir starfsmanna ráðuneytisins og starfslið ráðherra.


     1.      Hve mörgum starfsmönnum ráðuneytisins hefur verið, eða verður, sagt upp störfum vegna sérstakrar 5% niðurskurðarkröfu sem lögð var á aðalskrifstofur ráðuneyta í fjárlögum? Svarið óskast sundurliðað eftir skrifstofum ráðuneytisins og starfsheitum og að greint sé frá í hve miklum mæli um uppsagnir eða lækkun starfshlutfalls er að ræða.
    Engar beinar uppsagnir voru hjá ráðuneytinu vegna þeirrar 5% niðurskurðarkröfu sem vísað er til í 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Einn starfsmaður mun hætta á árinu vegna heilsubrests auk þess sem viðkomandi er að nálgast eftirlaunaaldur og lækkað verður stöðugildi hjá einum starfsmanni. Annar framangreindra starfsmanna vinnur á skrifstofu yfirstjórnar sem stjórnarráðsfulltrúi og hinn á skrifstofu löggjafarmála sem sérfræðingur.

     2.      Hve marga aðstoðarmenn, ráðgjafa eða starfsmenn í sérverkefni í fullu starfi eða hlutastarfi eða sem verktaka hefur ráðherra ráðið frá stjórnarskiptum?

    Samkvæmt 22. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, hefur hver ráðherra heimild til að ráða til sín tvo aðstoðarmenn án auglýsingar og auk þess er ríkisstjórninni heimilt að taka ákvörðun um ráðningu þriggja aðstoðarmanna til viðbótar. Umsjón með ráðningu og launum aðstoðarmanna er hjá forsætisráðuneytinu. Starfandi aðstoðarmenn í Stjórnarráðinu eru nú 16, þar af 15 á launum. Forsætisráðherra hefur ráðið til sín tvo aðstoðarmenn, þar af einn á launum, umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ráðið til sín einn aðstoðarmann, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ráðið til sín tvo aðstoðarmenn, iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur ráðið til sín einn aðstoðarmann, fjármála- og efnahagsráðherra hefur ráðið til sín tvo aðstoðarmenn en annar þeirra hefur látið af störfum, innanríkisráðherra hefur ráðið til sín tvo aðstoðarmenn, mennta- og menningarmálaráðherra hefur ráðið til sín tvo aðstoðarmenn en annar þeirra hefur látið af störfum, utanríkisráðherra hefur ráðið til sín tvo aðstoðarmenn, félags- og húsnæðismálaráðherra hefur ráðið til sín einn aðstoðarmann og heilbrigðisráðherra hefur ráðið til sín einn aðstoðarmann. Loks hefur ríkisstjórnin tekið ákvörðun um ráðningu tveggja aðstoðarmanna.
    Ráðuneytið hefur keypt ráðgjafarþjónustu af 43 lögaðilum og sjálfstæðum verktökum frá stjórnarskiptum. Með ráðgjafarþjónustu er átt við vinnu lögfræðinga, viðskipta- og hagfræðinga, löggiltra endurskoðenda, rekstrarráðgjafa, landfræðinga, fyrirtækja á sviði auglýsingaþjónustu, upplýsingaöflunar, kynningarstarfsemi og ýmis önnur ráðgjafarstörf. Inn í heildarfjölda ráðgjafa eru einnig þeir aðilar sem setið hafa í eða unnið fyrir tímabundnar verkefnanefndir á vegum ráðuneytisins og þegið laun fyrir sem og aðkeypt ráðgjafarþjónusta vegna vinnu stjórnvalda við undirbúning og framkvæmd áætlunar um losun fjármagnshafta og jafnframt ráðgjafarþjónusta fyrir fastanefndir ráðuneytisins og sjálfstæðar úrskurðarnefndir sem heyra undir ráðuneytið. Engir starfsmenn hafa verið ráðnir í sérverkefni, þ.e. teknir inn á launaskrá, hvorki í fullt starf né hlutastarf á umræddu tímabili.