Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 429. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1004  —  429. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Guðbjarti Hannessyni
um aðlögun að Evrópusambandinu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða breytingar sem orðið hafa á lögum á málefnasviði ráðuneytisins eða á stofnunum þess frá 2009 má rekja til aðlögunar að Evrópusambandinu?
     2.      Hvaða breytingar voru eingöngu vegna aðildarumsóknar og viðræðna við ESB?
     3.      Hvaða breytingar urðu á sama tíma fyrst og fremst vegna aðildar Íslands að EES?


    Það eru einkum þrenn lög á málefnasviði ráðuneytisins sem snerta samstarf við Evrópusambandið.
    Í fyrsta lagi er þar um að ræða lög nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð. Þau lög fela í sjálfu sér ekki í sér innleiðingu á gerðum Evrópusambandsins en eigi að síður er snar þáttur í starfi Hagstofu Íslands að sinna hagskýrslugerð á grundvelli EES-samningsins. Í athugun er í ráðuneytinu að innleiða viðkomandi EES-gerðir, sem varða hagskýrslugerð, með formlegum hætti á grundvelli heimildar í lögum nr. 163/2007.
    Í öðru lagi er um að ræða lög um skil menningarverðmæta til annarra landa, nr. 57/2011. Eins og fram kemur í frumvarpi til þeirra laga var ein helsta kveikjan að þeirri lagasetningu að greina betur á milli skuldbindinga á grundvelli EES-samningsins og reglna sem eiga sér innlenda rót um hömlur á útflutningi menningarverðmæta (en þær eru nú í lögum um menningarminjar, nr. 80/2012). Lög nr. 57/2011 eru því fyrst og fremst sett til innleiðingar á tilskipun ráðsins 93/7/EBE sem hafði verið upphaflega innleidd með lögum nr. 60/1996, sem fólu í sér breytingu á þjóðminjalögum, nr. 88/1989, og síðar lögum nr. 105/2001. Ekki voru gerðar veigamiklar efnisbreytingar á þessu málefnasviði með setningu laga nr. 57/2011.
    Í þriðja lagi er um að ræða upplýsingalög, nr. 140/2012, eða nánar tiltekið VII. kafla laganna, um endurnot opinberra upplýsinga. Sá kafli felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/98/EB. Ekki voru gerðar neinar efnisbreytingar á kaflanum við setningu laga nr. 140/2012 miðað við eldri upplýsingalög, nr. 50/1996.
    Ekki liggur fyrir formlegt mat á því hvort meðferð fyrrgreindra mála hefði verið önnur án aðildarumsóknarinnar.