Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 378. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1014  —  378. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012
(starfsheiti, aldursmörk, gjaldtaka).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Jensdóttur og Margréti Björnsdóttur frá velferðarráðuneyti, Þorbjörn Jónsson og Dögg Pálsdóttur frá Læknafélagi Íslands, Geir Gunnlaugsson landlækni og Önnu Björgu Aradóttur frá embætti landlæknis, Ólaf Ólafsson og Finnboga Rút Hálfdánarson frá Lyfjafræðingafélagi Íslands og Pál Geir Bjarnason frá Félagi áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, landlæknisembættinu, Landssambandi eldri borgara, Læknafélagi Íslands, Öldrunarráði Íslands og Öldungadeild Læknafélags Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að heiti einnar heilbrigðisstéttar verði breytt í áfengis- og vímuefnaráðgjafa, í öðru lagi er lagt til að heilbrigðisstarfsmönnum verði heimilt að fengnu leyfi landlæknis að starfa og veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir 75 ára aldur og í þriðja lagi að heimilt verði að innheimta gjald fyrir afgreiðslu og meðhöndlun á umsóknum um starfsleyfi og sérfræðileyfi samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn frá borgurum innan EES-svæðisins til jafns við borgara utan þess.

Aldursmörk.
    Í 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 26. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn. Skv. 26. gr. laganna er heilbrigðisstarfsmanni óheimilt að reka eigin starfsstofu eftir 70 ára aldur en landlækni er þó heimilt að framlengja leyfi viðkomandi til tveggja ára í senn en þó aldrei oftar en þrisvar. Heilbrigðisstarfsmanni er því með öllu óheimilt að reka eigin starfsstofu eftir að hann hefur náð 76 ára aldri. Samkvæmt þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu mun aldursmarkið hækka í 75 ára aldur og þá mun landlæknir geta veitt undanþágu frá aldursmarkinu í fyrsta sinn til þriggja ára í senn og til eins árs í senn eftir það svo lengi sem heilbrigðisstarfsmaður hefur heilsu til. Til að landlæknir veiti slíka undanþágu þarf heilbrigðisstarfsmaður að uppfylla skilyrði reglugerðar skv. 2. mgr. ákvæðisins þar sem kveðið skal á um þau gögn og upplýsingar sem leggja þarf fram þannig að hægt sé að meta starfshæfni viðkomandi heilbrigðisstarfsmanns.
    Líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið hefur orðalag 26. gr. laganna verið nokkuð villandi og má túlka það sem svo að heilbrigðisstarfsmanni sé óheimilt að eiga eigin starfsstofu eða hlut í starfsstofu og sinna þar rekstrarlegum atriðum. Af frumvarpinu má ráða að það hafi ekki verið tilgangur ákvæðisins heldur hafi tilgangurinn verið sá sem nú kemur fram í frumvarpinu að setja ákveðnar skorður við því hversu lengi heilbrigðisstarfsmenn geta veitt heilbrigðisþjónustu og að við ákveðinn aldur skuli fara fram mat á starfshæfni viðkomandi. Skv. 2. mgr. 43. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, skal að jafnaði segja ríkisstarfsmanni upp störfum þegar hann hefur náð 70 ára aldri. Á ákvæðið reynir því ekki varðandi heilbrigðisstarfsmenn sem starfa hjá ríkinu en þó er vert að taka fram að heilbrigðisstarfsmenn geta starfað hjá ríkinu sem verktakar eða í tímabundnum verkefnum eftir að þeir hafa náð 70 ára aldri og í einhverjum tilvikum hafa verið gerðir slíkir samningar við lækna sem hafa náð 70 ára aldri. Ljóst er að heilsa manna er misjöfn við 70 eða 75 ára aldur og margir þannig á sig komnir líkamlega og andlega að þeir geta vel unnið lengur. Mikilvægt er þó að fram fari mat á heilsu og starfshæfni viðkomandi og að fyrir liggi hlutlæg skilyrði sem heilbrigðisstarfsmaður þarf að uppfylla svo að landlæknir veiti honum leyfi til áframhaldandi starfa. Jafnframt er mikilvægt að hugað verði að kröfum um endurmenntun heilbrigðisstarfsmanna svo að þeir geti viðhaldið faglegri þekkingu sinni með virkum hætti.
    Þar sem reglugerð skv. 2. mgr. ákvæðisins er forsenda þess að landlækni sé heimilt að veita undanþágu skv. 1. mgr. leggur nefndin til breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins þannig að lögin taki gildi 1. júlí nk.

Gjaldtaka.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 31. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn þannig að ákvæðið taki bæði til ríkisborgara sem hlotið hafa menntun í EES-ríki eða í ríki sem íslenska ríkið hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun. Núgildandi ákvæði tekur aðeins til ríkja utan EES en ákvæði 3. mgr. 8. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til að starfa hér á landi, nr. 26/2010, tekur til ríkja innan EES. Eðlilegt er að ákvæðið taki jafnt til heilbrigðisstarfsmanna innan sem utan EES en menntun heilbrigðisstarfsmanna getur verið mismunandi þó svo að um ríki innan EES-svæðisins sé að ræða. Samkvæmt ákvæðinu er landlækni heimilt að innheimta sérstakt gjald þegar leita þarf umsagnar fagaðila á umsókn heilbrigðisstarfsmanns um starfsleyfi. Vinna við mat á umsóknum getur verið mismunandi og mismikil. Eðlilegt er að umsagnaraðilar fái greitt fyrir þá vinnu sem þeir leggja þannig af mörkum. Gjaldskrá hefur þegar verið sett af ráðherra, sbr. gjaldskrá nr. 257/2014, fyrir mat umsóknar um heimild heilbrigðisstarfsmanns til að gegna starfi hér á landi. Samkvæmt gjaldskránni skal greiða 50 þús. kr. fyrir mat á umsókn um starfsleyfi eða sérfræðileyfi á grundvelli menntunar á háskólastigi og 25 þús. kr. fyrir mat umsóknar um starfsleyfi á grundvelli menntunar á framhaldsstigi. Umsækjendur um starfsleyfi greiða framangreindan kostnað með umsókn sinni.

Áfengis- og vímuefnaráðgjafar.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á starfsheiti áfengis- og vímuefnaráðgjafa í samræmi við óskir stéttarinnar. Heitinu var breytt með lögum um heilbrigðisstarfsmenn en í frumvarpinu felst að því verði breytt til baka og verði eins og fyrir gildistöku þeirra laga. Nefndin leggur jafnframt til breytingu á 19. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, þar sem vísað er til áfengis- og vímuvarnaráðgjafa, í samræmi við þá breytingu sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      4. gr. orðist svo:
                 Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2014.
     2.      Á eftir 4. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum: Í stað orðanna „áfengis- og vímuvarnaráðgjafa“ í 19. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: áfengis- og vímuefnaráðgjafa.

    Ásmundur Friðriksson ritar undir álit þetta með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 30. apríl 2014.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Þórunn Egilsdóttir.


Björt Ólafsdóttir.



Ásmundur Friðriksson.


Elín Hirst.


Guðbjartur Hannesson.



Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Páll Jóhann Pálsson.


Unnur Brá Konráðsdóttir.