Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 438. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1040  —  438. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni
um friðhelgi einkalífs í stafrænum heimi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ráðherra gripið til einhverra eftirfarandi aðgerða í kjölfar ályktunar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um að réttur til friðhelgi einkalífs í stafrænum heimi sé alþjóðlega skilgreind mannréttindi sem ríki heims þurfi að virða og tryggja, eða hefur hann það í hyggju:
     a.      gert sérstakar ráðstafanir til að tryggja friðhelgi einkalífs á netinu,
     b.      metið hvort íslensk löggjöf um friðhelgi einkalífs sé í samræmi við alþjóðlega mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að,
     c.      endurskoðað lög og reglur um leyfilega söfnun persónuupplýsinga, m.a. fjarskiptaupplýsinga,
     d.      metið hvort styrkja þurfi eftirlitsstofnanir á sviði fjarskipta og persónuverndar með tilliti til lögbundins hlutverks þeirra og skuldbindinga ríkisins samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum?


    Líkt og ráðherra hefur þegar greint frá á Alþingi stendur til að efna til sérstakrar vinnu, með aðkomu allra þingflokka, til að greina og meta hvort breytinga sé þörf á íslenskri löggjöf vegna þeirra þátta sem hér er spurt um. Gert er ráð fyrir að sú vinna hefjist á haustmánuðum.
    Rétt er þó að taka fram að unnið er að stefnumótun um net- og upplýsingaöryggismál innan ráðuneytisins þar sem litið er til erlendra fyrirmynda, alþjóðlegra skuldbindinga og stefnumarkandi yfirlýsinga. Þá lagði ráðherra til verulega auknar fjárheimildir til Persónuverndar vegna þeirrar þröngu fjárhagsstöðu sem stofnunin var í og þeirra áhrifa sem hún hafði á starfsemi stofnunarinnar.
    Loks liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga sem felur í sér að netöryggissveit, sem nú er vistuð hjá Póst- og fjarskiptastofnun, verði vistuð hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Frumvarpið er lagt fram í framhaldi af sérstakri úttekt á net- og upplýsingaöryggi fjarskipta sem ráðherra kallaði eftir í kjölfar þess alvarlega öryggisbrests sem varð vegna tölvuinnbrots hjá fjarskiptafyrirtækinu Vodafone aðfaranótt 30. nóvember 2013. Tilgangur úttektarinnar var að greina heildstætt stöðu framangreindra öryggismála, þ.m.t. ábyrgð fjarskiptafyrirtækja, ábyrgð og eftirlit opinberra stofnana og koma með ábendingar um hvernig tryggja megi net- og upplýsingaöryggi sem best.
    Ekki hefur verið gripið til sérstakra aðgerða vegna ályktunar Sameinuðu þjóðanna sem slíkrar. Við undirbúning svarsins var upplýsinga aflað frá utanríkisþjónustunni, en Ísland var einn meðflutningsaðili umræddrar tillögu. Utanríkisráðuneytið hefur upplýst um að meðflutningsaðild hafi verið ákveðin á þeim grundvelli að íslenskar stofnanir sinni verkefnum sem fjallað er um í ályktuninni og að íslensk löggjöf væri fullnægjandi hvað varðar efni ályktunarinnar. Fyrir liggur mat á því að framkvæmd og löggjöf hér á landi sé í samræmi við kröfur ályktunarinnar.
    Varðandi mat á stöðu löggjafar með hliðsjón af alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum fer eftirlit með framkvæmd þeirra m.a. fram í gegnum reglulegar fyrirtökur og útgáfu tilmæla eftirlitsnefnda sem starfa á grundvelli mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að.
    Hvað varðar álitaefni um mannréttindavernd á netinu hafa ábendingar og tilmæli eftirlitsnefnda undanfarin ár ekki lotið að vernd einkalífs heldur fyrst og fremst að mikilvægi þess að stjórnvöld tryggi virka réttarvernd þegar kemur að tjáningu sem telja má hatursfulla eða hlaðna kynþáttafordómum. Til þess að bregðast við þessum áhyggjum alþjóðasamfélagsins hefur ráðuneytið m.a. staðið fyrir opnum fundi um hatursfulla tjáningu á netinu með aðkomu ólíkra aðila, styrkt gerð og útgáfu rits á vegum Mannréttindaskrifstofu Íslands um hatursorðræðu og lagt fram frumvarp til laga um breytingu á hegningarlögum sem samþykkt var frá Alþingi sem lög nr. 13/2014 þann 10. febrúar sl. Íslensk stjórnvöld munu áfram taka ábendingar alþjóðlegra eftirlitsaðila með mannréttindaskuldbindingum alvarlega. Vernd mannréttinda er langtímaverkefni stjórnvalda, en ekki einskiptisaðgerð, sem helgast af stöðugum framförum í mannlegu samfélagi.
    Varðandi laga- og stofnanaramma á sviði persónuverndar og fjarskipta hefur ráðuneytið, sem fyrr segir, ráðist í ýmsar aðgerðir á liðnum missirum.
    Ljóst má vera að íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum aðhafst ýmislegt til þess að tryggja með sem bestum hætti friðhelgi einkalífs í stafrænum heimi. Hraðar breytingar í umhverfi þessa málaflokks kalla hins vegar, að mati ráðherra, á stöðuga endurskoðun hans og þeirrar löggjafar sem varðar hann.