Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 414. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1054  —  414. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna framlengingar
á gildistíma samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu
tónlistarnáms (gildistími bráðabirgðaákvæða o.fl.).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Viggó Viggósson og Kristin Örn Kristinsson frá Samtökum tónlistarskóla í Reykjavík, Sigríði Björnsdóttur og Freyju Gunnlaugsdóttur frá Reykjavíkurborg og Sigrúnu Grendal, Elínu Önnu Ísaksdóttur og Jón Hrólf Sigurjónsson frá Félagi tónlistarskólakennara. Umsagnir bárust frá Fljótsdalshéraði, Kennarasambandi Íslands og Félagi tónlistarskólakennara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum tónlistarskóla í Reykjavík og Reykjavíkurborg, skóla- og frístundasviði.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum vegna framlengingar á gildistíma samkomulags ríkis og sveitarfélaga um tímabundna breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í kjölfar samkomulags um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms sem var undirritað 13. maí 2011. Með frumvarpinu er gildistími tímabundinna bráðabirgðaákvæða í ýmsum lögum sem lögfest voru með lögum nr. 180/ 2011 framlengdur til 31. desember 2014. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fjármögnun þeirra verkefna sem þar er um getið verði áfram á ábyrgð sveitarfélaga og er fjármögnun þeirra tryggð með því að framlög sveitarfélaga verði innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.
    Nefndin lítur svo á að þegar samkomulagið var gert árið 2011 hafi það verið skýrt af hálfu ríkisvaldsins að um viðbótarfjármagn var að ræða sem átti að efla tónlistarnám á framhalds- og miðstigi. Samkomulagið felur í sér að framlag ríkissjóðs til tónlistarfræðslu verði 520 millj. kr. á árinu 2014 í samræmi við gildandi framlög en sveitarfélög skuldbinda sig á móti áfram til að standa tímabundið straum af verkefnum sem voru áður en samkomulagið var gert árið 2011 fjármögnuð af ríkinu og nema framlög vegna þeirra 230 millj. kr. á ársgrundvelli. Á fundum nefndarinnar kom fram nokkur gagnrýni á túlkun sveitarfélaga á samkomulaginu og töldu nokkrir umsagnaraðilar að við það hefðu sveitarfélög dregið úr fjárveitingum til tónlistarnáms. Nefndin tekur undir þá gagnrýni og ítrekar þann skilning sinn að samkomulagið hafi átt að efla og jafna aðstöðu til tónlistarnáms og áréttar mikilvægi þess að fundin verði ásættanleg lausn og varanleg niðurstaða varðandi fjármögnun tónlistarnáms í stað tímabundinna lausna þar sem skýrt verður hvar ábyrgðin liggur.
    Á fundum nefndarinnar komu fram þær upplýsingar að yfir standi vinna við heildarendurskoðun málaflokksins. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að við þá endurskoðun verði sjónum sérstaklega beint að þessum ágreiningi og gætt verði að því að slík álitamál verði ekki uppi að heildarendurskoðun lokinni. Það er einnig mikilvægt að mati nefndarinnar að þeirri vinnu verði hraðað svo að fram komi ný heildstæð löggjöf sem marki skýran lagaramma um starfsemi tónlistarskóla.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 6. maí 2014.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Páll Valur Björnsson,
frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir.
Elsa Lára Arnardóttir. Guðbjartur Hannesson. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Svandís Svavarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.