Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 251. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1085  —  251. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum
(fækkun lögregluumdæma, aðskilnaður embætta
lögreglustjóra og sýslumanna, hæfiskröfur).

(Eftir 2. umræðu, 12. maí.)


1. gr.


    Í stað orðanna „3. mgr.“ og „4. mgr.“ í 3. gr. laganna kemur: 4. mgr.; og: 5. mgr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      F-liður 2. mgr. orðast svo: að starfrækja hæfnisnefnd sem veitir lögreglustjórum ráðgefandi álit um hæfni umsækjanda við skipun í störf lögreglumanna skv. 28. gr. Niðurstaða hæfnisnefndar er ráðgefandi við skipun í embætti. Ráðherra setur reglur um skipan og störf hæfnisnefndarinnar þar sem m.a. er fjallað um skipun nefndar, hæfi nefndarmanna, verkefni og málsmeðferð.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                  Heimilt er að skipa aðstoðarríkislögreglustjóra sem er staðgengill ríkislögreglustjóra.

3. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Landið skiptist í níu lögregluumdæmi. Með lögreglustjórn fara lögreglustjórar sem hér segir:
     1.      Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.
     2.      Lögreglustjórinn á Vesturlandi.
     3.      Lögreglustjórinn á Vestfjörðum.
     4.      Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra.
     5.      Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra.
     6.      Lögreglustjórinn á Austurlandi.
     7.      Lögreglustjórinn á Suðurlandi.
     8.      Lögreglustjórinn á Suðurnesjum.
     9.      Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum.
    Umdæmamörk lögregluembætta skulu ákveðin í reglugerð sem ráðherra setur með hliðsjón af skipulagi annarrar opinberrar þjónustu í umdæmum og að höfðu samráði við lögreglustjóra, Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga.
    Ráðherra ákveður í reglugerð hvar aðalstöð lögreglustjóra skal staðsett og hvar lögreglustöðvar verða starfræktar, að höfðu samráði við lögreglustjóra.
    Lögreglustjóri ákveður hvaða starfsfólk hefur aðsetur á aðalstöð lögreglu annars vegar og á lögreglustöðvum hins vegar.
    Við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum er heimilt að skipa aðstoðarlögreglustjóra. Aðstoðarlögreglustjóri er staðgengill lögreglustjóra, sbr. þó 3. mgr. 28. gr. Öðrum lögreglustjórum er heimilt að ákveða að starfsmaður embættisins sé staðgengill lögreglustjóra enda fullnægi hann skilyrðum 2. mgr. 28. gr.
    Lögreglustjórar fara með stjórn lögregluliðs, hver í sínu umdæmi. Þeir annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæminu og bera ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess.
    Störf lögreglu skulu samhæfð og samræmd eftir því sem við verður komið. Ráðherra setur nánari reglur um fyrirkomulag samvinnu lögregluembætta, að fengnum tillögum ríkislögreglustjóra.
    Lögreglustjórar fara með yfirstjórn leitar- og björgunaraðgerða á landi. Um björgun sem heyrir undir skipulag almannavarna gilda sérstök lög. Ráðherra setur reglur um samstarf lögreglu og björgunarsveita.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Lögreglan annast rannsókn brota í samráði við ákærendur. Brot skal rannsaka í því umdæmi þar sem þau eru framin, sbr. þó ákvæði b-liðar 2. mgr. 5. gr. Ráðherra setur nánari reglur samkvæmt tillögu ríkissaksóknara um hvernig stjórn rannsóknar skuli háttað, hvenær brot skuli rannsakað undir stjórn ríkislögreglustjóra skv. b-lið 2. mgr. 5. gr. og um rannsóknaraðstoð. Ráðherra setur samkvæmt tillögu ríkissaksóknara nánari reglur um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn sakamála. Mæli sérstakar ástæður með því er ráðherra heimilt að tillögu ríkissaksóknara að kveða á um að rannsókn tiltekinna brotaflokka í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra og í Vestmannaeyjum verði rannsökuð í öðru umdæmi.
     b.      2.–5. mgr. falla brott.

5. gr.

    Í stað orðsins „aðstoðarríkislögreglustjórar“ í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: aðstoðarríkislögreglustjóri.

6. gr.

    1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Í hverju lögregluumdæmi skulu starfa ein eða fleiri samstarfsnefndir um málefni lögreglunnar. Í samstarfsnefnd skulu sitja lögreglustjóri viðkomandi lögregluumdæmis, sem jafnframt er formaður hennar, og sveitarstjórar þeirra sveitarfélaga sem eru í lögregluumdæminu eða eru á því svæði þar sem nefndin starfar. Fundi skal halda eigi sjaldnar en tvisvar á ári.

7. gr.

    1.–4. mgr. 28. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skipar ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra til fimm ára í senn. Ráðherra er heimilt að skipa aðstoðarríkislögreglustjóra, sbr. 4. mgr. 5. gr., og aðstoðarlögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum til fimm ára í senn, sbr. 5. mgr. 6. gr.
    Ríkislögreglustjóri, aðstoðarríkislögreglustjóri, lögreglustjórar, aðstoðarlögreglustjórar sem eru staðgenglar lögreglustjóra og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins skulu auk almennra hæfisskilyrða til þess að hljóta skipun í embætti á vegum ríkisins jafnframt fullnægja eftirtöldum skilyrðum:
     a.      hafa náð 30 ára aldri,
     b.      hafa íslenskan ríkisborgararétt,
     c.      vera svo á sig komnir andlega og líkamlega að þeir geti gegnt embættinu,
     d.      vera lögráða og hafa aldrei misst forræði á búi sínu,
     e.      hafa hvorki gerst sekir um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglustjórar verða almennt að njóta,
     f.      hafa lokið fullnaðarprófi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður jafngilt.
    Nú eru fleiri en einn aðstoðarlögreglustjóri við embætti og skal þá einn þeirra vera staðgengill lögreglustjóra. Þeir aðstoðarlögreglustjórar sem ekki eru staðgenglar lögreglustjóra skulu fullnægja skilyrðum a–e-liða 2. mgr. til skipunar í embætti, auk eftirtalinna skilyrða um menntun og starfsreynslu:
     a.      hafa lokið fullnaðarprófi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi, eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður jafngilt, eða lokið námi frá Lögregluskóla ríkisins svo og stjórnunarnámi eða öðru sambærilegu námi,
     b.      hafa í þrjú ár gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi eða verið stjórnandi innan lögreglunnar, en leggja má saman starfstíma í þessum greinum.
    Lögreglustjóri skipar yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna til fimm ára í senn og aðra lögreglumenn til starfa innan embættis síns með sama hætti til fimm ára í senn að fenginni umsögn hæfnisnefndar, sbr. f-lið 2. mgr. 5. gr. Hver sá sem er skipaður lögreglumaður skal hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins. Til að staðreyna hvort viðkomandi uppfyllir skilyrði e-liðar 2. mgr. er lögreglu heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu. Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsstig innan lögreglunnar.

8. gr.

    Á eftir 28. gr. laganna kemur ný grein, 28. gr. a, ásamt fyrirsögn, sem orðast svo:

Heimild til að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu.


    Engan má skipa, setja eða ráða til starfa hjá lögreglu sem hefur gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta. Til þess að staðreyna þetta er lögreglu heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu.

9. gr.

    Í stað orðsins „ráðherra“ í 2. mgr. 37. gr. laganna kemur: ríkislögreglustjóri.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
     a.      Við b-lið 2. mgr. bætist: né hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta.
     b.      D-liður 2. mgr. orðast svo: samkvæmt kröfum sem ráðherra setur með reglugerð varðandi menntun, starfsþjálfun, tungumálakunnáttu, líkamlega færni, áskilnað um réttindi o.fl.
     c.      Í stað orðanna „Sýslumannafélagi Íslands“ í 3. mgr. kemur: Lögreglustjórafélagi Íslands.
     d.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Til að staðreyna hvort viðkomandi uppfyllir skilyrði b-liðar 2. mgr. er valnefnd heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. 3. og 4. gr. öðlast þó gildi 1. janúar 2015.

12. gr.

Breytingar á öðrum lögum.


    Við gildistöku laga þessara breytast eftirfarandi ákvæði laga sem hér segir:
     1.      Lög um opinberar fjársafnanir, nr. 5/1977: Í stað orðsins „lögreglustjóra“ tvívegis í 1. mgr. og 2. mgr. 3. gr. og 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: sýslumaður.
     2.      Lög um verslunaratvinnu, nr. 28/1998, með síðari breytingum: Í stað orðsins „lögreglustjóra“ í 1. mgr. 19. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í greininni kemur, í viðeigandi beygingarfalli: sýslumaður.
     3.      Áfengislög, nr. 75/1998, með síðari breytingum:
                  a.      Í stað embættisheitisins „lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu“ í 1. mgr. 6. gr., 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. og „lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu“ í 1. mgr. 25. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: sýslumaður.
                  b.      Í stað orðsins „lögreglustjóra“ í 3. mgr. 11. gr. og „lögreglustjóri“ í 2. mgr. 25. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: sýslumaður.
     4.      Lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007: 3. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
                  Leyfisveitendur samkvæmt lögum þessum eru sýslumenn.
     5.      Lög um almannavarnir, nr. 82/2008, með síðari breytingum: Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðsins „sýslumanni“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: lögreglustjóra.
                  b.      Lokamálsliður 1. mgr. fellur brott.
                  c.      3. málsl. 3. mgr. orðast svo: Ráðherra ákveður hvaða lögreglustjóri skuli sitja í almannavarnanefnd ef fleiri en eitt lögregluumdæmi falla undir nefndina.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Ráðherra skal skipa verkefnisstjórn sem hefur með höndum undirbúning þeirra breytinga sem lög þessi mæla fyrir um samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.
    Við gildistöku laga þessara og fram til 1. janúar 2015 er ráðherra heimilt að undirbúa stofnun nýrra lögregluembætta, sbr. 2.–7. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga þessara, m.a. með setningu reglugerða um skipulag allra lögregluembætta sem kveðið er á um í 3. gr. Við gerð þeirra reglugerða þarf ekki að gæta að ákvæðum 6. gr. gildandi lögreglulaga, sbr. 2. gr. laga nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Þegar lög þessi öðlast gildi skal sú reglugerð sem hér er kveðið á um eiga stoð í 3. gr. laga þessara. Þá skal ráðherra einnig heimilt að taka ákvörðun um skipun eða flutning sýslumanna sem fara með lögreglustjórn samkvæmt lögum í ný lögregluembætti samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem hafi heimild til þess að undirbúa starfsemi hinna nýju embætta, þ.m.t. starfsmannahald. Við ráðstöfun starfa eða embætta samkvæmt þessu ákvæði þarf ekki að gæta að skyldu til þess að auglýsa laus störf til umsóknar, sbr. 7. gr. laga nr. 70/1996. Skulu ný embætti taka við þeim réttindum og skyldum sem einstakir embættismenn hafa áunnið sér, þ.m.t. samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996.
    Skipun lögreglustjóra í hin nýju embætti tekur formlega gildi 1. janúar 2015. Þeir aðilar sem fara með lögreglustjórn skv. 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. gildandi lögreglulaga, nr. 90/1996, sbr. ákvæði laga um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989, og kjósa að sækjast eftir nýju embætti skulu njóta forgangs til skipunar í hin nýju embætti lögreglustjóra skv. 3. gr. laga þessara en embætti skv. 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. gildandi lögreglulaga, nr. 90/1996, verða lögð niður. Í þeim tilvikum þar sem viðkomandi hljóta ekki skipun í ný embætti lögreglustjóra skal leitast við að bjóða þeim störf hjá embættum lögreglu eða sýslumanna eða að öðrum kosti störf annars staðar á umsýslusviði þess ráðuneytis sem fer með lögreglu- og löggæslumálefni. Þeir sem skipaðir eru sýslumenn og fara með lögreglustjórn skulu eiga þess kost að lýsa því yfir að þeir muni ekki sækjast eftir nýjum embættum lögreglustjóra samkvæmt lögum þessum og hefja þeir þá töku biðlauna samkvæmt ákvæði 34. gr. laga nr. 70/ 1996 þegar embætti þeirra hefur verið lagt niður samkvæmt ákvæðum þessara laga.
    

II.


    Ný embætti lögreglustjóra samkvæmt lögum þessum taka við öllum réttindum, eignum og skyldum þeirra sýslumannsembætta sem hafa farið með lögreglustjórn samkvæmt núgildandi lögum, þó ekki hvað varðar þjónustu sýslumanna, sbr. lög um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Eftir að skipulag embætta hefur verið ákveðið, sbr. ákvæði til bráðabirgða I, skulu lögreglumenn sem skipaðir eru hjá embættum sem taka breytingum hljóta skipun hjá nýjum lögregluembættum. Þá skal bjóða öllum starfsmönnum þeirra embætta sem taka breytingum störf ýmist hjá hinum nýju embættum lögreglustjóra eða sýslumannsembættum, sbr. lög um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Ef ekki er unnt að bjóða núverandi starfsmanni starf hjá nýjum embættum lögreglustjóra eða sýslumanna skal leitast við að bjóða þeim starf annars staðar á umsýslusviði þess ráðuneytis sem fer með lögreglu- og löggæslumálefni. Viðkomandi embættismaður eða starfsmaður kann þó að þurfa að hlíta breytingum á embætti eða starfi eða starfsstigi vegna skipulagsbreytinga eða sem leiðir af stofnun nýrra lögregluembætta og sameiningu sýslumannsembætta í hverju umdæmi og með hliðsjón af nýju skipuriti.
    Ný embætti skulu taka yfir þau réttindi og skyldur sem starfsmenn hafa áunnið sér en um réttindi og skyldur lögreglu eða annarra starfsmanna vegna skipulagsbreytinganna fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um skyldu til þess að auglýsa laus störf til umsóknar, eiga hins vegar ekki við um ráðstöfun starfa eða embætta samkvæmt þessu ákvæði.

III.


    Ráðherra skal í samráði við hlutaðeigandi aðila setja á laggirnar starfshóp til að endurskoða skipulag og starfsemi Lögregluskóla ríkisins og gera tillögu að framtíðarskipan lögreglumenntunar þannig að tryggt sé að menntun lögreglumanna svari ávallt kröfum samtímans um almannaöryggi og sé sambærileg stöðu menntunarmála lögreglunnar í Evrópu, einkum annars staðar á Norðurlöndum. Við tillögugerðina verði hugað að því að skipulag þessara mála sé skilvirkt og markvisst og tryggi sem besta nýtingu fjármuna sem ætlaðir eru til verkefnisins í þessu skyni. Starfshópurinn skal skila tillögum ásamt greinargerð til ráðherra ekki síðar en 1. ágúst 2014.