Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 338. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1109  —  338. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Brynhildi Pálmarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Bergþóru Halldórsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Björgu Ástu Þórðardóttur frá Félagi atvinnurekenda, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands og Þóru Björgu Jónsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Samtökum atvinnulífsins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambandi Íslands og Félagi atvinnurekenda.
    Í frumvarpinu er lagt til að innleidd verði með sérstökum lögum ákvæði tilskipunar 2011/ 7/EB frá 16. febrúar 2011 um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum, auk þess sem samhliða eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
    Megintilgangur frumvarpsins er að setja fram almennar reglur um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum, bæði hvað varðar viðskipti milli fyrirtækja og viðskipti milli fyrirtækja og opinberra aðila. Nefndin vekur athygli á að ákvæði frumvarpsins eiga ekki við um neytendur heldur einskorðast við greiðslur sem eru þóknun fyrir verslunarviðskipti. Sérstaklega er tiltekið að frumvarpið gildir ekki um kröfur sem nauðasamningur tekur til, kröfur sem falla undir greiðslustöðvun eða kröfur sem mál hefur verið höfðað um á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti. Tilgreint er í frumvarpinu að þegar samið er um greiðslufrest í verslunarviðskiptum á milli fyrirtækja skuli almennt ekki semja um lengri frest en 60 almanaksdaga og þegar um er að ræða verslunarviðskipti opinberra aðila skuli greiðsla innt af hendi eftir mest 30 almanaksdaga.
    Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins en gerðar voru athugasemdir við nokkrar greinar.

Við 4. gr.
    Gerð var athugasemd við skýrleika 2. mgr. 4. gr. þar sem kveðið er á um að mögulegt sé að framlengja greiðslufrest. Bent var á að ákveðin hætta væri á að 2. málsl. 2. mgr. „Slík framlenging má þó ekki verða lengri en 60 almanaksdagar“ verði misskilinn á þann veg að um sé að ræða framlengingu um 60 daga frá 30 daga frestinum. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að hætta sé á mistúlkun 2. málsl. 2. mgr. og leggur til að orðalagi greinarinnar verði breytt á þann veg að ljóst sé að greiðslufrestur geti ekki orðið lengri en 60 dagar.
    Gerð var athugasemd við heimild opinberra aðila á heilbrigðissviði í 3. mgr. 4. gr. til að fá 60 daga greiðslufrest. Um er að ræða heimildarákvæði í innleiðingartilskipuninni sem heimilar aðildarríkjum að lengja lögboðinn greiðslufrest við sérstakar aðstæður í allt að 60 daga. Færð hafa verið rök fyrir því að hafa greiðslufrest opinberra aðila á heilbrigðissviði lengri þar sem talin er rík þörf fyrir sveigjanleika á því sviði, enda nauðsynlegt að forgangsraða heilsugæslu þannig að jafnvægi ríki á milli þarfa sjúklinga og þess fjármagns sem er til ráðstöfunar. Nefndin tekur því undir þau sjónarmið að heimilt skuli að lengja greiðslufrest innan heilbrigðisgeirans svo hægt sé að tryggja að þörfum sjúklinga sé mætt.

Við 5. gr.
    Fram komu athugasemdir við 5. gr. frumvarpsins þess efnis að ekki væri nægilega skýrt hvernig skýra ætti greinina með hliðsjón af meginreglum um greiðslufrest í 3. og 4. gr. frumvarpsins. Í athugasemdum við frumvarpið er rakið að þrátt fyrir ákvæði um greiðslufrest sé ekki ætlunin að koma í veg fyrir að samningsaðilar geti samið um afborganir á grundvelli greiðsluáætlunar eða um greiðslu í áföngum. Nefndin leggur áherslu á þann skilning að hér sé verið að vísa greiðsluferli í farveg greiðsluáætlana fremur en greiðsludráttar. Með þessum breytingum er verið að búa til hvata fyrir menn til að greiða á réttum tíma en einnig er mönnum gert kleift að gera áætlun um greiðslur og þá fer um hverja slíka greiðslu eftir ákvæðum frumvarpsins þannig að hver einstök greiðsla samkvæmt greiðsluáætlun skuli uppfylla kröfur um greiðslufrest, sbr. 3. og 4. gr. frumvarpsins. Hafi afborgun ekki verið greidd á þeim degi sem um var samið þá skuli reikna dráttarvexti aðeins frá þeim degi sem hin gjaldfallna afborgun átti að greiðast.
    Athugasemdir bárust nefndinni þess efnis að ekki væri ljóst af orðalagi 2. mgr. 5. gr. að lánastofnun væri heimilt að gjaldfella lán og taka dráttarvexti af eftirstöðvum lána ef gjalddagar eru ekki greiddir. Nefndin telur að ákvæði 2. mgr. komi ekki í veg fyrir slíka gjaldfellingu eða töku dráttarvaxta, enda sé gert ráð fyrir því í samningi, og telur hún rétt að gera breytingartillögu við niðurlag 2. mgr. til að taka af öll tvímæli um þetta.

Við 6. gr.
    Í 6. gr. frumvarpsins er heimild til þess að fara fram á sérstakar innheimtubætur að fjárhæð 6.700 kr. eða fjárhæð sem ekki er lægri en sem svarar 40 evrum miðað við opinbert viðmiðunargengi evru á hverjum tíma. Nefndin tekur undir þá gagnrýni sem fram kom á 6. gr. frumvarpsins og telur ekki rétta þróun að hafa viðmiðunarfjárhæð innheimtubóta í erlendum gjaldmiðli eins og lagt er til í frumvarpinu. Nefndin telur rétt að notast sé við lögbundinn gjaldmiðil Íslands sem er króna í tilfellum sem þessum og leggur til breytingartillögu þess efnis að viðmiðunarfjárhæðin sé í íslenskum krónum.
    Einnig vekur nefndin athygli á því sjónarmiði sem fram kom við vinnslu málsins að umrædd upphæð innheimtubóta væri í hærra lagi í ljósi þess að þeim er ætlað að koma til móts við innri kostnað kröfuhafa af vinnu og óhagræði sem felst í því að reikningar eru ekki greiddir tímanlega. Slíkur innri kostnaður getur verið mjög mismunandi allt eftir því hvernig innheimtumálum og innri ferlum fyrirtækja er stillt upp, auk þess sem dráttarvextir hér á landi eru mun hærri en gengur og gerist víða erlendis og eiga að gera kröfuhafa jafnsettan og ef ekki hefði komið til vanskila.
    Fram kom á fundum nefndarinnar að óskýrleiki væri í samspili innheimtubóta og annars innheimtukostnaðar í 6. gr. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að kveða skuli sérstaklega á í reglugerð um tengsl og samspil innheimtubóta við ákvæði innheimtulaga og laga um lögmenn. Í reglugerðinni er gert ráð fyrir að taka á því hvernig greiddar innheimtubætur geta komið til frádráttar innheimtukostnaði á grundvelli innheimtulaga eða kostnaði við löginnheimtu samkvæmt lögum um lögmenn. Fram kom í umfjöllun að sambærileg leið hefði verið farin við innleiðingu tilskipunar 2011/7/EB í Noregi. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og áréttar að skýrt verði í reglugerð hvernig fari með samspil 6. gr. frumvarpsins við ákvæði innheimtulaga og laga um lögmenn með hliðsjón af markmiðum og tilgangi tilskipunarinnar sem lagasetningin byggist á og leggur áherslu á að ráðuneyti hraði vinnu við umrædda reglugerð.
    Loks telur nefndin mikilvægt að skýrt komi fram í 6. gr. frumvarpsins að innheimtubætur skuli ávallt koma til frádráttar innheimtukostnaði en ekki að þær geti komið til frádráttar eins og skilja má af núverandi orðalagi 2. mgr. 6. gr. og gerir nefndin tillögu að breytingu í þá veru.
    Fyrir nefndinni var vísað til þess að í 9. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2011/7/ EB væri að finna ákvæði um gildi svokallaðra eignarréttarfyrirvara í verslunarviðskiptum og sú skoðun látin í ljós að þarft væri að innleiða hana í íslenskan rétt. Skilningur nefndarinnar er að fjallað sé um slíka fyrirvara í 36. gr. laga um samningsveð. Frumvarpið felur hins vegar í sér tillögu um fyrirkomulag heildarlaga um greiðsludrátt á tilteknu sviði. Var það mat nefndarinnar að taka þyrfti athugasemdina til nánari skoðunar í samhengi við endurskoðun ákvæða laga um samningsveð.
    Nefndin telur frumvarpið til þess fallið að styrkja verslunarviðskipti milli fyrirtækja með því að reglur um greiðslufresti verði skýrari og úrræði kröfuhafa til þess að fá greiðslu aukin. Í ljósi þessa leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      2. málsl. 2. mgr. 4. gr. orðist svo: Greiðslufrestur getur þó ekki orðið lengri en 60 dagar.
     2.      Við 5. gr. bætist: nema annað sé sérstaklega samþykkt í samningi.
     3.      Við 6. gr.
              a.      Orðin „þó aldrei lægri en sem samsvarar 40 evrum miðað við opinbert viðmiðunargengi evru á hverjum tíma“ í 1. mgr. falli brott.
              b.      Í stað orðanna „innheimtubætur geti komið“ í 2. mgr. komi: innheimtubætur komi.

    Vilhjálmur Bjarnason og Guðmundur Steingrímsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. maí 2014.

Frosti Sigurjónsson,
form., með fyrirvara.
Willum Þór Þórsson,
frsm.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Árni Páll Árnason,
með fyrirvara.
Steingrímur J. Sigfússon,
með fyrirvara.
Pétur H. Blöndal.