Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 593. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 1113  —  593. mál.
Leiðréttur texti.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992,
með síðari breytingum (arður, viðurlagaákvæði).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. j laganna:
     a.      6. mgr. orðast svo:
                  Með arði skv. 1. mgr. er aðeins átt við arðgreiðslur á grundvelli hagnaðar vegna reglulegrar starfsemi félags, þó ekki vegna sölu eigna. Greiðslur til hluthafa sem falla til við lækkun hlutafjár, í tengslum við slit á félagi eða til hluthafa sem hafa fengið fullnaðargreiðslu krafna sinna, að hluta eða að öllu leyti með útgáfu hlutafjár í hinu áður skuldsetta félagi, t.d. í samræmi við ákvæði nauðasamnings, teljast ekki arður í skilningi 1. mgr.
     b.      Á eftir orðinu „gjaldfellinga“ í 8. mgr. kemur: samkvæmt ákvæðum nauðasamnings.

2. gr.

    Við 16. gr. a laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Gera má lögaðila fésekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður hans eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra má auk refsingar, sem hann sætir, gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvær breytingar á ákvæðum laga um gjaldeyrismál, nr. 87/1992. Fyrri breytingin varðar annars vegar skýringu á hugtakinu arður samkvæmt lögunum og hins vegar er nánari tilvísun til þess hvað fellur undir hugtakið samningsbundin afborgun í skilningi ákvæðisins. Seinni breytingin varðar heimild laganna til þess að refsa lögaðilum fyrir brot gegn lögunum. Markmiðið með breytingunni er að taka af öll tvímæli um að heimilt sé að gera lögaðila refsingu fyrir brot á lögunum eða reglum settum með stoð í þeim. Með frumvarpinu er ætlunin að breyta skilgreiningu hugtaksins arður í skilningi laga um gjaldeyrismál.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í a-lið er lögð til breyting til áréttingar á túlkun ákvæðisins sem lýtur að skýringum á hugtakinu arður, m.a. til skýringar á því að arðgreiðsla úr frjálsum sjóðum sem eru til komnir vegna eftirgjafar skulda eða vegna jöfnunar taps með færslu af hlutafé eða yfirverðsreikningi teljist ekki arður í skilningi ákvæðisins.
    Breytingar í b-lið greinarinnar lúta að því hvað fellur undir samningsbundna afborgun í skilningi ákvæðisins en reynt hefur á skýringu ákvæðisins í framkvæmd. Gerð nauðasamnings skuldara sem er innlendur aðili og staðfesting þess nauðasamnings, sem felur í sér skuldbindingu um greiðslur við lánardrottna sem eru erlendir aðilar, er takmörkuð af lögum um gjaldeyrismál, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 13. gr. b laganna. Hefur ákvæði 13. gr. j laganna því ávallt verið skýrt svo að greiðslur samkvæmt þeim nauðasamningum sem fela í sér fjármagnshreyfingu á milli landa falli ekki undir hugtakið samningsbundin afborgun. Mikilvægt er að taka af allan vafa um þetta.

Um 2. gr.


    Með lögum nr. 140/1998, um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, voru lögfest ákvæði um skilyrði refsiábyrgðar lögaðila. Ákvæðin koma fram í II. kafla A almennra hegningarlaga, sbr. 19. gr. a – 19. gr. d. Birtist þar sú meginregla að lögaðila verði gerð fésekt og, eftir atvikum, svipting starfsréttinda þegar lög mæla svo fyrir. Með lögaðila er almennt átt við sérhvern ópersónulegan aðila sem getur átt réttindi og borið skyldur að íslenskum rétti.
    Að baki þeim ákvæðum laga um gjaldeyrismál sem takmarka fjármagnshreyfingar á milli landa og gjaldeyrisviðskipti búa mikilsverðir almannahagsmunir og geta brot gegn tilgreindum ákvæðum laganna varðað annars vegar stjórnsýsluviðurlögum, sbr. 15. gr. a, og hins vegar refsiviðurlögum, sbr. 16. gr. laganna. Skv. 15. gr. a er Seðlabanka Íslands heimilt að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæðum laganna en fjárhæðarmörk slíkra sekta eru mismunandi í tilviki einstaklinga annars vegar og lögaðila hins vegar. Með lögum nr. 35/2013, sem samþykkt voru vorið 2013 á 141. löggjafarþingi, voru fjárhæðarviðmiðin hækkuð úr 20 millj. kr. í 65 millj. kr. fyrir einstaklinga og úr 75 millj. kr. í 250 millj. kr. fyrir lögaðila. Í athugasemdum frumvarps er varð að lögunum kemur fram sá skilningur að breytingin gerði Seðlabankanum kleift að ljúka fleiri málum á stjórnsýslustigi.
    Samkvæmt 16. gr. b laga um gjaldeyrismál ber Seðlabanka Íslands að vísa málum til lögreglu ef um er að ræða meiri háttar brot á lögunum. Við mat á því hvað telst meiri háttar brot er m.a. litið til þess hvort brot varðar verulegum fjárhæðum og því má ætla að ef brotafjárhæðir eru umfram fjárhæðarviðmið stjórnvaldssekta séu líkur á að brot teljist meiri háttar. Meiri háttar brot sem vísað er til lögreglu geta samkvæmt því varðað refsiviðurlögum á grundvelli 16. gr. laganna. Þar kemur fram að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn tilgreindum ákvæðum laganna og reglum settum samkvæmt þeim.

Um 3. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.