Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 600. máls.

Þingskjal 1149  —  600. mál.



Frumvarp til laga

um frestun verkfallsaðgerða
Félags íslenskra atvinnuflugmanna
gegn Icelandair.

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    Verkfallsaðgerðir þær sem Félag íslenskra atvinnuflugmanna hóf gegn Icelandair 9. maí 2014 eru óheimilar frá gildistöku laga þessara og á gildistíma ákvarðana gerðardóms, sbr. 2. og 3. gr. Aðilum er heimilt að semja um fyrirkomulag kjaramála en eigi má knýja þær fram með vinnustöðvun á gildistímanum, sbr. 1. mgr. 2. gr.
    Með verkfallsaðgerðum er átt við vinnustöðvanir, verkbönn, verkföll og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða.

2. gr.

    Hafi aðilar skv. 1. gr. ekki náð samkomulagi 15. júlí 2014 skal gerðardómur fyrir 15. september ákveða kaup og kjör. Ákvarðanir gerðardóms skulu vera bindandi sem kjarasamningur á milli aðila frá og með gildistöku laga þessara og gilda þann tíma sem gerðardómur ákveður. Endanlegt uppgjör launa skal fara fram eigi síðar en fjórum vikum eftir að niðurstaða gerðardóms liggur fyrir.
    Í gerðardómnum skulu eiga sæti þrír dómendur og skal einn tilnefndur af Hæstarétti Íslands, einn af Félagi íslenskra atvinnuflugmanna og einn af Samtökum atvinnulífsins. Dómendur skulu hafa hæfni til starfans í ljósi starfsferils og þekkingar á kjarasamningum og vinnudeilum. Að auki skulu þeir vera óháðir aðilum skv. 1. gr. og ekki hafa sérstakra hagsmuna að gæta af málinu. Fulltrúi Hæstaréttar skal vera formaður dómsins og kallar hann dóminn saman.
    Gerðardómurinn setur sér starfsreglur, aflar nauðsynlegra gagna og getur krafist skýrslna, munnlegra og skriflegra, af þeim aðilum sem gerðardómurinn telur nauðsynlegt. Aðilar skulu eiga rétt á að gera gerðardómnum grein fyrir sjónarmiðum sínum. Skal gerðardómurinn ætla þeim hæfilegan tíma í því skyni.
    Gerðardómnum skal séð fyrir viðunandi starfsaðstöðu. Gerðardómurinn getur kvatt sérfróða einstaklinga til starfa í þágu dómsins og til ráðuneytis um úrlausn mála.
    Kostnaður af starfi gerðardómsins greiðist úr ríkissjóði.

3. gr.

    Gerðardómurinn skal, við ákvarðanir um laun aðila skv. 1. gr. og önnur starfskjör, hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð. Jafnframt skal hafa til hliðsjónar, eftir því sem við á, kjarasamninga sem gerðir hafa verið á undanförnum mánuðum og almenna þróun kjaramála hér á landi.
    Komi aðilar skv. 1. gr. sér saman um einhver efnisatriði í deilunni, án þess að vilja gera um það dómsátt, skal gerðardómurinn taka mið af því við ákvörðun sína en hefur þó frjálsar hendur um tilhögun mála.
    Heimilt er gerðardómnum að beita sér fyrir samkomulagi eða dómsátt á milli aðila skv. 1. gr. sem hafi sömu réttaráhrif og ákvarðanir gerðardómsins, hvort sem er um einstök ákvæði eða heildarsamning þeirra í milli, og tekur þá gerðardómurinn ekki ákvörðun um þau atriði sem svo háttar til um.

4. gr.

    Þar til ákvörðun gerðardóms skv. 2. og 3. gr. liggur fyrir eða kjaradeilan leysist með öðrum hætti skulu allir síðast gildandi kjarasamningar þeirra aðila sem lög þessi taka til gilda þeirra í milli, nema þeir semji um annað.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og falla úr gildi 1. október 2014.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið vegna verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gagnvart Icelandair Group hf./Icelandair ehf. sem hófust 9. maí 2014. Aðgerðirnar fela í sér ótímabundið yfirvinnubann og tímabundna vinnustöðvun sem samtals mun vara í níu daga á tímabilinu 9. maí til 3. júní 2014. Kjaradeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna við Samtök atvinnulífsins, sem fara með samningsumboð f.h. Icelandair, var vísað til ríkissáttasemjara 25. febrúar sl. Lítið sem ekkert var áunnið í þeim samningaviðræðum og var þeim slitið 14. maí.
    Verkfallsaðgerðir Félags íslenskra atvinnuflugmanna ná til þrjú hundruð flugmanna Icelandair og hafa áhrif á um sex hundruð flug, til og frá landinu, og hundrað þúsund farþega félagsins þá níu daga sem tímabundin vinnustöðvun nær til. Að auki falla niður um sex flug á degi hverjum þann tíma sem ótímabundið yfirvinnubann stendur yfir. Þegar hefur Icelandair þurft að aflýsa tugum flugferða með tilheyrandi kostnaði og óhagræði fyrir farþega. Það er því ljóst og ótvírætt að gríðarlegir samfélagslegir og efnahagslegir hagsmunir eru í húfi.
Réttur til aðildar að stéttarfélögum er tryggður í 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 12. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 97/1995, auk þess sem Ísland er aðili að ýmsum þjóðréttarsamningum sem ætlað er að tryggja sömu réttindi. Ber þar helst að nefna mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur hefur verið hér á landi með lögum nr. 62/1994, en 74. gr. stjórnarskrárinnar tekur mið af 11. gr. sáttmálans. Litið hefur verið svo á að verkfallsrétturinn sé hluti af réttinum til aðildar að stéttarfélögum. Framangreind ákvæði setja því löggjafanum ákveðin takmörk þegar kemur að inngripum í verkfallsaðgerðir. Þannig er einungis heimilt að takmarka réttinn með lögum ef nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum og til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi.
    Það er sameiginlegt inngripum Alþingis í kjaradeilur að forða hefur þurft efnahagslegu tjóni eða lögbundnum verkefnum hins opinbera hefur verið stefnt í hættu. Eins og áður greinir verða slík inngrip að samræmast ákvæðum stjórnarskrárinnar og þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands.
    Sú lagasetning sem hér er lögð til felur í sér frestun verkfallsaðgerða sem hafa mjög alvarlegar afleiðingar hér á landi.
    Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu aflaði ferðaþjónustan á síðasta ári um 274 milljarða kr. í gjaldeyristekjur en það er nokkru meira en sem nam gjaldeyristekjum af sjávarútvegi. Ferðamönnum hefur haldið áfram að fjölga það sem af er þessu ári og er það mat Ferðamálastofu að fjölgunin sé um 35% miðað við sama tímabil 2013. Áætlað tekjutap á hverjum degi verkfallsaðgerða (gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar + beinar skatttekjur hennar), miðað við maí og júní (tölur frá 2013 uppreiknaðar miðað við áætlaðan vöxt 2014 og markaðshlutdeild Icelandair), er um 900 millj. kr. Ferðaþjónustan og afleiddar atvinnugreinar eiga því hér mikið undir. Á þessu tímabili er hlutdeild Icelandair í flugi til og frá landinu rúmlega 70%.
    Þá á eftir að taka tillit til tekjutaps sjávarútvegsins en langstærstur hluti ferskfisks er fluttur með flugvélum Icelandair, bæði farþega- og fraktflugvélum. Ferskfiskur er viðkvæm vara og samningsstaða íslenskra fyrirtækja byggist á afhendingaröryggi. Áhrif þess að sjávarútvegsfyrirtækin geti ekki staðið við gerða samninga um afhendingu valda miklu tjóni og markaðir tapast.
    Verkfallsaðgerðirnar hafa þegar skapað mikla óvissu í ferðaþjónustunni. Um er að ræða viðkvæma atvinnugrein sem má við litlum áföllum. Eftir því sem röskun á fluginu eykst verður greinin fyrir meiri skaða. Söluaðilar erlendis fylgjast grannt með stöðu mála þar sem þeir íhuga að aflýsa ferðum til landsins vegna þessarar óvissu. Áhrifa þessara verkfallsaðgerða kann því að gæta langt fram í tímann.
    Af öllu framangreindu er ljóst að ríkir almannahagsmunir eru til staðar fyrir því að fresta verkfallsaðgerðunum. Inngrip Alþingis eru því nauðsynleg til að tryggja þá hagsmuni sem hér eru undir.
    Íslenskir dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að útiloka að efnahagsleg áhrif verkfalla og verkbanna gætu verið svo alvarleg að ríkir almannahagsmunir réttlættu tímabundið bann við þeim. Slíkar aðgerðir mættu þó ekki ganga lengra en þörf krefði, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 167/2002, sem finna má í dómasafni Hæstaréttar 2002, bls. 3686.
    Í þessu frumvarpi er farin sú leið að gefa viðsemjendum færi á að leysa úr ágreiningi sínum fyrir 1. júlí næstkomandi ella verði kjaradeilan lögð fyrir gerðardóm. Sú leið var t.d. farin með lögum nr. 34/2001, um kjaramál fiskimanna og fleira. Gerðardómurinn skal skipaður þremur fulltrúum, einum tilnefndum af Hæstarétti Íslands, einum af Félagi íslenskra atvinnuflugmanna og einum af Samtökum atvinnulífsins. Fulltrúi Hæstaréttar skal vera formaður dómsins.
    Gerðardómur skal í ákvörðun sinni hafa til hliðsjónar kjarasamninga sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði á undanförnum mánuðum, að því leyti sem við á, af almennri þróun kjaramála auk þess að taka mið af sérstöðu þess stéttarfélags sem tilgreint er í 1. gr.
    Til að stuðla að aukinni sátt um ákvörðun gerðardóms er í frumvarpi þessu farin sú leið að fulltrúar launþega og vinnuveitenda tilnefni sinn fulltrúa hvor í gerðardóminn. Jafnframt er gerð rík krafa til hlutleysis þeirra og sérþekkingar.
    Viðsemjendum er þó falið að reyna að ná samningum fram til þess tíma er gerðardómur skal skipaður, sbr. 2. gr. frumvarpsins.