Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 484. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1159  —  484. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans
til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Á fundi nefndarinnar eftir 2. umræðu kom fram að aukið umfang úrræða frumvarpsins, vegna hækkunar hámarksfjárhæða sem samþykkt var samkvæmt tillögu meiri hluta nefndarinnar við afgreiðslu frumvarpsins til 2. umræðu, yki neikvæðar afleiðingar samþykktar frumvarpsins. Þannig mundi hið aukna umfang stuðla enn frekar að hækkun verðbólgu, auka líkur á hækkun stýrivaxta, hafa slæm áhrif á viðskiptajöfnuð og draga úr fjárfestingu. Fram kom að aukning umfangsins mundi óhjákvæmilega leiða af sér hækkun vaxta nema stjórnvöld gripu til sérstakra mótvægisaðgerða. Þá kom það mat fram að mikilvægt væri að ríkisstjórnin greindi frá því hvaða mótvægisaðgerðir hún sæi fyrir sér að ráðast í svo að draga mætti úr líkum á því að Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti.
    Stjórnvöld hljóta annaðhvort að þurfa að hækka skatta eða skera niður fjárframlög til opinberrar þjónustu í mótvægisaðgerðum sínum.
    Fyrir nefndinni var gagnrýnt að engin umfjöllun hefði komið fram um þann aukna kostnað sem aukið umfang úrræða frumvarpsins hefði í för með sér fyrir ríkissjóð og sveitarfélög. Enga slíka umfjöllun er að finna í nefndaráliti meiri hlutans. Kom sú skoðun fram að það væri hlutverk stjórnvalda að ástunda hagstjórn og að ekki væri skynsamlegt af þeirra hálfu að auka umfang úrræða frumvarpsins þegar spenna væri til staðar í hagkerfinu heldur bæri þeim að draga úr því á slíkum tímum.
    Fulltrúar lánastofnana upplýstu fyrir nefndinni að viðskiptavinir þeirra þrýstu um þessar mundir á um aukið svigrúm til lántöku.
    Ummæli gesta á fundi nefndarinnar staðfestu þau áhrif sem aðgerðin hefði sýnilega á einkaneyslu. Þau áhrif væru einkar óheppileg við núverandi aðstæður.

Alþingi, 15. maí 2014.

Árni Páll Árnason,
frsm.
Steingrímur J. Sigfússon. Guðmundur Steingrímsson.