Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 481. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1160  —  481. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um örnefni.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Margréti Magnúsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hallgrím J. Ámundason frá Stofnun Árna Magnússonar og Magnús Guðmundsson og Gunnar Hauk Kristinsson frá Landmælingum Íslands. Umsagnir bárust frá íslenskri málnefnd, Landmælingum Íslands, Landssambandi sumarhúsaeigenda, nafnfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samsýn ehf.
    Markmið frumvarpsins er að stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefða sem hluta af íslenskum menningararfi. Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi lög um bæjanöfn o.fl., nr. 35/1953, og aðlaga þau að nútímabúsetuháttum og skipulagsmálum í landinu. Þá er mælt fyrir um að skýra skuli og samræma stjórnsýslu við skráningu örnefna og ákvörðunarvaldið flutt nær almenningi með því að færa ábyrgð á nafngiftum og skráningu þeirra til sveitarfélaga í samræmi við nútímalegri stjórnunarhætti.
    Þeir aðilar sem skiluðu inn umsögn um málið voru allir jákvæðir í garð þess. Nefndin vill árétta sérstaklega eftirfarandi atriði:
    Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um skipun og hlutverk örnefnanefndar. Sú leið var farin við gerð frumvarpsins að örnefnanefnd er falið að sinna tilteknu eftirlitshlutverki og að faglegum þætti starfseminnar sé sinnt af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þá er lagt til að örnefnanefnd sé ráðgefandi, m.a. gagnvart sveitarfélögunum. Nefndin telur að þessi leið sé vænleg til árangurs og leggur áherslu á að hlutverk örnefnanefndar sé skýrt og verkefni hennar vel skilgreind.
    Í 7. gr. frumvarpsins er fjallað um nafngiftir nýrra náttúrufyrirbæra en ákvæðið er nýmæli. Þar segir að ef nýtt náttúrufyrirbæri þarfnist nafns beri viðkomandi sveitarstjórn að hafa frumkvæði að nafngift að fenginni umsögn örnefnanefndar. Nefndin bendir á að hér er sveitarfélögum falin ábyrgð á nafngiftum staðfanga en það samræmist vel hlutverki sveitarfélaga sem staðbundin stjórnvöld.
    Fjallað er um örnefnagrunn í 9. gr. frumvarpsins. Þar segir að Landmælingar Íslands skuli í samráði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skrá örnefni í miðlægan gagnagrunn og viðhalda honum. Fram kom í umsögn Landmælinga Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar að ekki væri gert ráð fyrir sérstakri fjárveitingu til stofnananna í þetta verkefni í kostnaðarmati frumvarpsins. Nefndin ræddi þetta nokkuð og telur rétt að árétta að það sé hennar skilningur að það krefjist tíma, fjármagns og skipulags að safna örnefnum. Telur nefndin rétt að hugað verði að þessum atriðum við fjárveitingar til handa þessum stofnunum.
    Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um breytingar á öðrum lögum. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram athugasemdir um að við breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, væri mikilvægt að við gerð reglugerðar um skráningu staðfanga væri haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga. Líta bæri til þess að sveitarfélögin gegndu veigamiklu hlutverki í öllu verklagi og því væri nauðsynlegt að tryggja samráð milli stjórnsýslustiga við allar stærri ákvarðanir og útfærslu þeirra. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til breytingatillögu þess efnis. Einnig leggur nefndin til eina breytingartillögu við 11. gr. frumvarpsins lagatæknilegs eðlis.
    Nefndin vill árétta að það er mjög mikilvægt út frá menningarlegu og sögulegu gildi að varðveita örnefni, sem og út frá lagalegum og réttarfarslegum sjónarmiðum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 11. gr.
     a.      Við 1. málsl. 2. mgr. a-liðar 2. tölul. bætist: að höfðu samráði við Samband íslenskra
sveitarfélaga.
     b.      Í stað orðsins „Lögheimili“ í 3. tölul. komi: sveitabæ.

    Páll Valur Björnsson og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. maí 2014.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Elsa Lára Arnardóttir.
Guðbjartur Hannesson. Helgi Hrafn Gunnarsson. Jóhanna María Sigmundsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir.