Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 608. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1176  —  608. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum
(undanþága vegna vaxtagreiðslna af skuldabréfum ríkissjóðs).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



1. gr.

    Á eftir orðunum „í eigin nafni“ í 2. málsl. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: eða fyrir hönd ríkissjóðs.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í 3. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er fjallað um þá aðila sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi. Í 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. kemur fram að allir aðilar sem hafa vaxtatekjur hér á landi af bankainnstæðum, verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum, skuldabréfum eða öðrum kröfum og fjármálagerningum skv. 3. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga skuli greiða tekjuskatt af þeim tekjum. Það gildir þó hvorki um vexti sem greiddir eru af Seðlabanka Íslands í eigin nafni né þá vexti sem greiðast erlendum ríkjum, alþjóðastofnunum eða öðrum opinberum aðilum sem undanþegnir eru skattskyldu í heimilisfestarríki sínu, sbr. 2. málsl. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr.
    Í frumvarpinu er lögð til breyting á ákvæði 2. málsl. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. tekjuskattslaga. Komið hefur í ljós að nauðsynlegt er að ákvæðið taki jafnt til þeirra vaxta sem Seðlabanki Íslands greiðir í eigin nafni af sínum eigin skuldbindingum sem og þegar hann hefur milligöngu um greiðslu vaxta fyrir hönd ríkissjóðs en bankinn annast skuldabréfaútgáfur ríkissjóðs, bæði innan lands og erlendis, samkvæmt samningi við fjármála- og efnahagsráðuneytið.
    Erlend greiðslumiðlunarfyrirtæki hafa í einhverjum tilvikum hafnað skráningu og miðlun með skuldabréfaútgáfur ríkissjóðs og borið því við að það skapi flækjur að framangreint ákvæði taki ekki til útgáfu bankans fyrir hönd ríkissjóðs, þó svo að undanþágur fáist vegna tvísköttunarsamninga. Því er áðurnefnd breyting lögð til. Breytingin er talin auka til muna möguleika ríkissjóðs á að nýta tækifæri til útgáfu skuldabréfa á erlendum mörkuðum þegar hagstæðar aðstæður skapast og með því lækka vaxtakostnað ríkisins.
    Áhrif breytingarinnar á afkomu ríkissjóðs eru talin verða jákvæð fremur en hitt vegna þess að hún auðveldar framkvæmd skuldabréfaútgáfu.