Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 153. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 1181  —  153. mál.
Viðbót.

3. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum (hlutdeildarsetning úthafsrækju og rækju á miðunum við Snæfellsnes, afli til strandveiða og bóta- og byggðaráðstafana, flutningur í aflamark).


Frá Jóni Gunnarssyni.


     1.      Við 13. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
                      Árið 2014 er ráðherra heimilt, í milliríkjasamningi, að semja um skipti á tilgreindum aflaheimildum sem úthlutað hefur verið á skip fyrir aðrar aflaheimildir, enda meti ráðherra að slík skipti séu hagstæð. Handhafar aflamarks sem taka vilja þátt í slíkum skiptum skila þá þeim aflaheimildum sem um ræðir gegn úthlutun á aflaheimildum sem fást í skiptunum. Ráðherra setur reglur um þessi aflaskipti sem tryggja gagnsæi og jafnræði meðal útgerðaraðila. Útgerðaraðili sem skiptir á aflaheimildum samkvæmt þessu ákvæði skal standa skil á veiðigjaldi vegna upphaflegrar úthlutunar.
     2.      Í stað orðanna „og 7.–13. gr.“ í 14. gr. komi: 7.–12. gr. og a-liður 13. gr.

Greinargerð.


    Hagkvæmt getur þótt að íslenskar útgerðir skipti á aflaheimildum í íslenskri lögsögu og heimildum til veiða hjá öðru ríki en slíkt er ekki heimilt samkvæmt gildandi lögum. Fyrir liggur að færeysk útgerðarfélög hafa óskað eftir því við íslensk útgerðarfélög að þau skipti á tilteknu magni af makríl í sinni lögsögu fyrir veiðar á meiri þorski í lögsögu Íslands en samningur milli aðilanna kveður á um. Áhugi er á að kanna hvort þessi skipti geti verið Íslendingum hagfelld. Þetta mun ekki gerast með þeim hætti að einstakar útgerðir semji beint við útgerðir í öðrum löndum heldur eiga skiptin á tilgreindu aflamagni að fara fram milli stjórnvalda sem síðan deila út nýjum aflaheimildum til einstakra útgerðaraðila í skiptum fyrir þegar úthlutaðar heimildir eftir reglum sem tryggja skulu gagnsæi og jafnræði meðal útgerða.