Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 427. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1185  —  427. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um greiðslu opinberra gjalda á starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf .


     1.      Af hversu háum fjárhæðum verður Reykjanesbær árlega vegna þess að ekki eru greidd fasteignagjöld af ónýttum fasteignum í umsjá Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. (KADECO)?
    Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, eða Kadeco, er þróunarfélag sem sérhæfir sig í fasteignaþróun, verkefnum sem hafa það markmið að auka samkeppnishæfni fyrirtækja á Reykjanesi og verkefnum sem efla eiga frumkvöðlamenningu á Reykjanesi. Þróunarfélagið var stofnað árið 2006 í kjölfar þess að bandaríski herinn yfirgaf varnarsvæði sitt eftir 60 ára veru. Félagið var stofnað til að koma varnarsvæðinu, sem nú heitir Ásbrú, í arðbær borgaraleg not og fer fjármála- og efnahagsráðsráðherra með hlutabréf í félaginu. Í samræmi við 4. gr. laga nr. 176/2006 hefur þróunarfélaginu verið falið á grundvelli þjónustusamnings að annast í umboði ríkisins umsýslu fasteigna á umræddu varnarsvæði.
    Það eru sameiginlegir hagsmunir sveitarfélags og ríkis að varnarsvæðið sé byggt upp með ábyrgum hætti og að eignum svæðisins sé komið í not í samræmi við framboð og eftirspurn. Megintilgangur með stofnun þróunarfélagsins var sá að félagið leiddi þróun og umbreytingu á varnarsvæðinu og að það yrði gert með það að markmiði að jákvæð samfélagsleg áhrif yrðu sem mest og neikvæðum áhrifum á nærsamfélagið yrði haldið í lágmarki. Talið var að það hefði mjög neikvæð áhrif á Suðurnesin ef fasteignir á varnarsvæðinu kæmu allar inn á markað á sama tíma með tilheyrandi lækkunum á fasteignaverði vegna offramboðs. Þróunarfélaginu er þar af leiðandi ætlað að efla atvinnumöguleika og búsetuþróun á Suðurnesjum án þess að valda verulegri skekkju á fasteignamarkaði. Það lá fyrir að einhvern tíma tæki að ná fram þeirri uppbyggingu og umbreytingu sem stefnt var að á varnarsvæðinu. Af þeim sökum var talið eðlilegt að ónýttar fasteignir á varnarsvæðinu yrðu undanþegnar opinberum gjöldum þangað til þeim hefur verið ráðstafað í arðbær not með leigu eða sölu. Fasteignirnar á varnarsvæðinu voru þar að auki í misgóðu ástandi þegar ríkið fékk eignirnar afhentar árið 2006 og hefur þróunarfélagið þurft að standa fyrir kostnaðarsamri uppbyggingu á svæðinu og eftir atvikum niðurrifi mannvirkja og hreinsun. Það hefði mjög neikvæð áhrif á rekstur þróunarfélagsins að þurfa að standa undir greiðslu opinberra gjalda af eignum sem ekki hefur verið ráðstafað með leigu eða sölu.
    Í 5. gr. laga nr. 176/2006 kemur eftirfarandi fram um opinber gjöld:
              Fasteignir ríkisins og mannvirki sem Bandaríkin eða Atlantshafsbandalagið hafa skilað til eignar, á svæðum sem tilgreind eru í 2. gr. og 1. mgr. 4. gr., eru undanþegin öllum opinberum gjöldum og skyldutryggingu fasteigna. Sú undanþága fellur niður er þeim hefur verið ráðstafað með leigu eða sölu enda sé ekki sérstaklega mælt fyrir um undanþágu frá slíkum gjöldum í öðrum lögum. Undanþágan gildir einnig þótt gefin sé út auglýsing um svæðin skv. 2. mgr. 1. gr.
    Samkvæmt ákvæðinu ber að greiða opinber gjöld af þeim eignum sem hefur verið ráðstafað til ákveðinna verkefni enda er þá byrjað að nýta eignirnar. Reykjanesbær er þar af leiðandi ekki að verða af opinberum gjöldum sem lagðar eru á fasteignir á varnarsvæðinu sem hefur verið komið í nýtingu. Hins vegar er, eins og fram kemur í ákvæðinu, ekki verið að greiða gjöld af eignum sem standa tómar og hefur ekki verið ráðstafað með leigu eða sölu.

     2.      Hyggst ráðherra leggja til breytingu á 5. gr. laga nr. 176/2006 er snýr að undanþágu frá greiðslu opinberra gjalda?
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki verið með það til skoðunar að fella brott eða breyta ákvæði 5. gr. laga nr. 176/2006 er snýr að undanþágu frá greiðslu opinberra gjalda. Þær forsendur sem liggja að baki lagaákvæðinu eru taldar vera óbreyttar og er að öðru leyti vísað til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.