Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 529. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1188  —  529. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Bjarnasyni
um framkvæmd á úrskurðum kjararáðs vegna laga nr. 87/2009.    Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki upplýsingar um framkvæmd á úrskurðum kjararáðs hjá þeim aðilum sem spurt er um. Ráðuneytið óskaði því eftir upplýsingum frá þeim og er svar við fyrirspurn byggt á upplýsingum frá viðkomandi aðilum og birt hér undir einstökum liðum fyrirspurnarinnar.
    Hvað varðar forstjóra Landsvirkjunar og Landsvirkjunar Power ehf. þá telja fyrirtækin sér ekki skylt að veita umbeðnar upplýsingar um einstaklingsbundna ráðningarsamninga og launakjör einstakra starfsmanna þar sem fyrirtækin eru undanþegin ákvæðum upplýsingalaga, nr. 140/2012. Um upplýsingar um launakjör forstjóra Landsvirkjunar og Landsvirkjunar Power ehf. vísa fyrirtækin til úrskurða kjararáðs þar að lútandi. Varðandi undanþágu þessara fyrirtækja má vísa til ákvarðana forsætisráðuneytisins, sem birtar eru á heimasíðu ráðuneytisins, frá 28. júní 2013 vegna Landsvirkjunar og frá 20. desember 2013 vegna Landsvirkjunar Power ehf.
    Ráðuneytinu hafa ekki borist svör frá Landsbanka vegna bankastjóra Landsbankans en samkvæmt ákvörðun forsætisráðuneytisins frá 28. júní 2013, sem birt er á heimasíðu ráðuneytisins, er bankinn undanþeginn ákvæðum upplýsingalaga, nr. 140/2012.
    Í svari Orkubús Vestfjarða ohf. kemur m.a eftirfarandi fram: „Rétt er að vekja athygli á því að stjórn Orkubús Vestfjarða hefur mótmælt því við Kjararáð að launaviðmið Orkubússtjóra, framkvæmdastjóra hlutafélags sem nýtur réttinda skv. lögum nr. 2/1995 um hlutafélög og stýrir fyrirtæki sem starfar á almennum samkeppnismarkaði að hluta, sé tengt við launakjör embættismanna hjá ríkinu. Embættismenn þeir sem launakjör miðast við stýra ríkisstofnunum sem fá rekstrarfé til starfseminnar með fjárheimildum sem veittar eru af Alþingi á fjárlögum og njóta réttinda samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Sá eðlismunur er á þessum störfum að ekki sé hægt að jafna þar saman beinni og óbeinni ábyrgð og starfsskyldum auk þess sem embættismaðurinn nýtur mun meiri réttinda lögum samkvæmt.“
    Í svari RARIK kemur fram að framkvæmdin hafi verið í samræmi við úrskurð kjararáðs hinn 23. febrúar 2010. Laun forstjóra RARIK, sem samkvæmt ráðningarsamningi voru samsett úr föstum launum og bifreiðahlunnindum, voru felld niður og í stað þess greitt samkvæmt úrskurði kjararáðs. Jafnframt varð óheimilt fyrir forstjóra að þiggja laun sem stjórnarmaður í Samorku, dótturfélögum eða öðrum félögum sem tengjast RARIK, eða þiggja nokkrar aðrar launagreiðslur frá fyrirtækinu.

     1.      Hver var framkvæmd á úrskurðum kjararáðs dagsettum 23. febrúar 2010 vegna laga nr. 87/2009, um breytingu á lögum um kjararáð og fleiri lögum, varðandi laun og önnur starfskjör eftirtalinna forstjóra (sjá kjararáð 2010.4.001):
              a.      forstjóra Fjármálaeftirlitsins (kjararáð 2010.4.003),
              b.      bankastjóra Landsbankans (kjararáð 2010.4.008),
              c.      forstjóra Landsvirkjunar (kjararáð 2010.4.011),
              d.      seðlabankastjóra (kjararáð 2010.4.019),
              e.      forstjóra Landsvirkjunar Power ehf. (kjararáð 2010.4.028),
              f.      forstjóra Landsnets hf. (kjararáð 2010.4.029),
              g.      framkvæmdastjóra Orkubús Vestfjarða ohf. (kjararáð 2010.4.015),
              h.      forstjóra RARIK ohf. (kjararáð 2010.4.017)?

    Svör um framkvæmd á úrskurðum kjararáðs vegna a. forstjóra Fjármálaeftirlitsins, d. seðlabankastjóra, f. forstjóra Landsnets hf., g. framkvæmdastjóra Orkubús Vestfjarða ohf. og h. forstjóra RARIK ohf. eru rakin í 2.–8. tölul. fyrirspurnarinnar.

     2.      Fól úrskurður í sér lækkun á launum viðkomandi og þá hve mikla í krónum og prósentum talið?
    a. forstjóra Fjármálaeftirlitsins:
             „Já, laun viðkomandi lækkuðu úr 1.250.000 í 1.083.133 eða um 13,3%.“
    d. seðlabankastjóra:
             „Já, úrskurður Kjararáðs fól í sér lækkun á launum seðlabankastjóra. Annars vegar var um að ræða beina lækkun á launum og hins vegar að bifreiðahlunnindi voru ekki lengur til viðbótar við greidd laun. Samtals nam lækkunin 415.296 kr., eða 23,8% frá þeim launakjörum sem giltu um störf hans þegar hann var ráðinn í bankann.“
    f. forstjóra Landsnets hf.:
             „Úrskurður kjararáðs fól í sér að laun forstjóra Landsnets lækkuðu um 604.726 kr., sem var lækkun upp á 37,52% frá ráðningarsamningi.“
    g. framkvæmdastjóra Orkubús Vestfjarða ohf.:
             „Heildarlaun (dagvinnulaun og yfirvinna) lækkuðu um 418.706 kr. á mánuði eða um 30,4% frá ráðningarkjörum miðað við úrskurð Kjararáðs. Þar sem iðgjald launagreiðanda er greitt í almennan lífeyrissjóð voru laun hækkuð frá úrskurðuðum launum um þá tölu sem vantaði upp á að iðgjald næmi 20% af úrskurðuðum launum. Að teknu tilliti til þess er meðallækkun launatekna 322.897 kr. á mánuði eða 23,5% Þá ber þess að geta að kjararáð felldi niður fastar mánaðarlegar akstursgreiðslur til orkubússtjóra í úrskurði sínum. Orkubússtjóra var skv. ráðningarsamningi greitt mánaðarlega fyrir 1500 km akstur í þágu OV skv. taxta ríkisins. Eftir að úrskurður kjararáðs tók gildi 1/3 2011 hefur orkubússtjóra verið greitt fyrir ekna km skv. akstursdagbók.“
    h. forstjóra RARIK ohf.:
             „Úrskurðurinn fól í sér 33% lækkun frá ráðningasamningi, en 21% lækkun frá virkum samningi, þar sem forstjóri RARIK og stjórn höfðu áður samið í tvígang um tímabundna lækkun til forstjóra vegna stöðu fyrirtækisins og ástands í efnahagsmálum. Forstjóri og stjórn höfðu gert samkomulag um lækkun launa forstjóra í október 2008 og síðan voru laun forstjóra einnig lækkuð í febrúar 2009 vegna samninga við alla starfsmenn fyrirtækisins um tímabundna lækkun launa. Lækkun launa vegna úrskurðar kjararáðs var því um 311 þúsund á mánuði eða 21% frá virkum samningi. Til viðbótar fól úrskurðurinn í sér lækkun tekna vegna þess að forstjóra var í kjölfarið ekki heimilt að þiggja stjórnarlaun frá öðrum félögum, sem áður höfðu verið heimiluð.“

     3.      Aflaði viðkomandi stjórn eða ráð lögfræðiálits um framkvæmd úrskurðarins og ef svo var, hver var niðurstaða álitsins?
    a. forstjóra Fjármálaeftirlitsins:
             „Nei, ekki finnast nein merki um það.“
    d. seðlabankastjóra:
             „Formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, Lára V. Júlíusdóttir hrl., óskaði eftir lögfræðilegu áliti frá Andra Árnasyni hrl. þann 26. maí 2010.“ Fram kemur í svari Seðlabanka Íslands að niðurstaða lögfræðiálits Andra Árnasonar hafi verið sem hér segir: „Samkvæmt framangreindu er komist að þeirri niðurstöðu að lög nr. 47/2006 um kjararáð, sbr. lög nr. 87/2009, verði ekki túlkuð svo að þau feli í sér heimild til að breyta launum núverandi seðlabankastjóra til lækkunar á meðan fimm ára skipunartími hans varir. Því verði að telja að slík skerðing geti fyrst tekið gildi eftir lok skipunartíma í samræmi við meginsjónarmið starfsmannalaga um vernd embættismanna í starfi. Jafnframt er um það vísað til meginreglna vinnuréttar um breytingar á launum á uppsagnarfresti, sjónarmiða um vernd eignaréttar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar svo að sjónarmiða í tengslum við afturvirkni laga.“
    f. forstjóra Landsnets hf.:
             „Stjórn Landsnets óskaði eftir lögfræðiáliti um launamál forstjóra í tilefni af úrskurði kjararáðs um launakjör sem ekki voru í samræmi við ráðningarsamning forstjórans. Í álitinu kemur fram að stjórn sé skylt að sjá til þess að félagið fari að ákvörðun kjararáðs við greiðslur launa til forstjórans. Ákvörðun kjararáðs haggi hins vegar ekki við öðrum þáttum ráðningarsamningsins, þ.m.t. ekki við lengd uppsagnarfrests. Lagt til að launaþætti ráðningarsamningsins verði formlega sagt upp, og að forstjórinn eigi að öllum líkindum skaðabótakröfu á hendur félaginu sem svarar til launamunar á uppsagnarfresti.“
    g. framkvæmdastjóra Orkubús Vestfjarða ohf.:
             „Stjórn Orkubús Vestfjarða fékk lögmenn til að fara yfir hverjar skuldbindingar félagsins væru gagnvart Orkubússtjóra m.t.t. lagasetningarinnar. Sérstaklega var þar horft til ákvæðis um gildistöku miðað við uppsagnarákvæði áður gildandi ráðningarsamnings.“
    h. forstjóra RARIK ohf.:
             „Stjórn aflaði sér lögfræðiálits vegna framkvæmdar úrskurðarins. Niðurstaðan var sú að fyrirtækinu bæri að fara eftir úrskurðinum, en þó skyldi virða uppsagnarfrest skv. ráðningarsamningi.“

     4.      Fór viðkomandi stjórn eða ráð eftir niðurstöðu álitsins? Ef ekki, hvaða ástæður lágu að baki þeirri afgreiðslu?
    a. forstjóra Fjármálaeftirlitsins:
             „Á ekki við.“
    d. seðlabankastjóra:
             „Bankaráð Seðlabanka Íslands fór ekki eftir niðurstöðu ofangreinds lögfræðiálits Andra Árnasonar hrl.“ Í svari Seðlabanka Íslands kemur fram þessi skýring á því hvers vegna bankaráðið fór ekki eftir lögfræðiáliti Andra Árnasonar hrl.: „Í fundargerðum bankaráðs Seðlabanka Íslands kemur ekki fram bókun um beina afstöðu bankaráðsins til lögfræðiálits Andra Árnasonar. Í fundargerð bankaráðs 29. apríl 2010 þar sem rætt var um launamál bankastjóra lagði bankaráðsformaður fram tillögu um að tryggja seðlabankastjóra þau launakjör sem giltu um störf hans þegar hann var ráðinn. Ákvörðun um tillöguna var frestað. Á næsta fundi bankaráðs 27. maí 2010 dró bankaráðsformaður tillögu sína til baka með tilvísun til afstöðu stjórnvalda í kjölfar umræðu í fjölmiðlum. Á þeim fundi greindi formaður frá því að óskað hefði verið eftir lögfræðiáliti um málið hjá Andra Árnasyni hrl. Á fundi bankaráðsins 10. júní 2010 var umrætt álit lagt fram, en í fundargerð kemur ekki fram afstaða til lögfræðiálitsins. Á þeim fundi var jafnframt ákveðið að fela bankaráðsformanni að ræða við efnahags- og viðskiptaráðherra. Á fundi bankaráðs 28. júní gerði formaður grein fyrir því að efnahags- og viðskiptaráðherra hefði vísað málinu til fjármálaráðuneytis. Á fundinum lagði formaður bankaráðs fram bréf frá fjármálaráðuneytinu dagsett 23. júní 2010, en í bréfinu kom fram sá skilningur ráðuneytis að bankaráði beri að framfylgja úrskurði kjararáðs.“
    f. forstjóra Landsnets hf.:
             „Stjórn Landsnets fór eftir niðurstöðu álitsins með þeim hætti sem fram kemur í svörum við liðum 5 og 6.“
    g. framkvæmdastjóra Orkubús Vestfjarða ohf.:
             „Farið var eftir niðurstöðu lögmanna um framkvæmd áhrifa lagasetningarinnar.“
    h. forstjóra RARIK ohf.:
        „Stjórn RARIK fór alfarið eftir niðurstöðu lögfræðiálitsins.“

     5.      Kom úrskurður kjararáðs til framkvæmda strax gagnvart viðkomandi í framhaldi af efnislegri umfjöllun stjórnar eða ráðs um hvernig hann skyldi framkvæmdur eða var framkvæmd frestað, t.d. vegna uppsagnarfrests eða annarra sjónarmiða, og þá í hvað langan tíma?
    a. forstjóra Fjármálaeftirlitsins:
             „Launum viðkomandi var strax breytt í samræmi við úrskurð kjararáðs og breytt laun greidd 1.3. 2010.“
    d. seðlabankastjóra:
             „Úrskurður kjararáðs kom til framkvæmda með því að mánaðarleg laun bankastjóra voru lækkuð frá og með 1. júlí 2010 í framhaldi af því að efnislegri umfjöllun bankaráðs var lokið á bankaráðsfundi 28. júní 2010.“
    f. forstjóra Landsnets hf.:
        „     Úrskurður kjararáðs gilti frá og með 1. maí 2010 en kom til framkvæmda gagnvart forstjóra Landsnets frá og með 1. júní 2010. Launalið ráðningarsamnings forstjóra var formlega sagt upp í júlí 2010 til að taka gildi frá og með 1. ágúst 2011.“
    g. framkvæmdastjóra Orkubús Vestfjarða ohf.:
             „Í samræmi við álit lögmanna þeirra sem leitað var til var framkvæmdin sú að gildandi ráðningarsamningi væri sagt upp frá næstu mánaðarmótum eftir að kjararáð hafði úrskurðað um laun Orkubússtjóra.“
    h. forstjóra RARIK ohf.:
             „Úrskurðurinn kom til framkvæmda strax, en að fengnu lögfræðiáliti var launalið breytt til baka þann 1. júlí 2010 og framkvæmdinni frestað út 12 mánaða uppsagnarfrest sem kveðið er á um í ráðningasamningi. Skerðing á öðrum launum, þar á meðal stjórnarlaunum frá Samorku, og öðrum félögum tók gildi strax við úrskurðinn.“

     6.      Ef framkvæmd var ekki frestað, kom til leiðréttinga á framkvæmdinni síðar, t.d. vegna uppsagnarfrests eða annarra sjónarmiða?
    a. forstjóra Fjármálaeftirlitsins:
             „Á ekki við.“
    d. seðlabankastjóra:
         „Það kom ekki til leiðréttingar á framkvæmdinni síðar.“
    f. forstjóra Landsnets hf.:
             „Með samkomulagi stjórnar Landsnets og forstjóra félagsins um uppgjör á launum í uppsagnarfresti launaliðs ráðningarsamnings kom til leiðréttinga á framkvæmd úrskurðar kjararáðs með hliðsjón af uppsagnarfresti skv. ráðningarsamningi forstjóra.“
    g. framkvæmdastjóra Orkubús Vestfjarða ohf.:
             „Launagreiðslur í samræmi við úrskurð Kjararáðs hófust að afloknum uppsagnarfresti skv. ákvæðum gildandi ráðningarsamnings Orkubússtóra þegar úrskurðurinn var kveðinn upp.“
    h. forstjóra RARIK ohf.:
             „Á ekki við.“

     7.      Ef framkvæmd var frestað eða framkvæmd leiðrétt eftir á, hvað munar miklu á heildarlaunagreiðslum á frestunartímabili miðað við að úrskurðurinn hefði komið til framkvæmda strax?
    a. forstjóra Fjármálaeftirlitsins:
             „Á ekki við.“
    d. seðlabankastjóra:
             „Framkvæmd var ekki frestað samanber það sem segir að ofan varðandi ákvörðun bankaráðs. Ekki kom til leiðréttingar eftir á.“
    f. forstjóra Landsnets hf.:
             „Mismunur heildarlaunagreiðslna samkvæmt úrskurði kjararáðs og leiðréttingar samkvæmt uppgjöri á launum í uppsagnarfresti launaliðs ráðningarsamnings er 9.111.301 kr.“
    g. framkvæmdastjóra Orkubús Vestfjarða ohf.:
             „Ef litið er til þess hver laun Orkubússtjóra voru þegar úrskurður kjararáðs var kveðinn upp og launakjara samkvæmt úrskurðinum námu launagreiðslur á uppsagnartíma ráðningarsamnings tæpum 3,9 millj. kr. umfram þau launakjör sem Orkubússtjóri átti að njóta skv. úrskurðinum. Þá er litið framhjá mögulegum hækkunum samkvæmt kjarasamningi þeim sem launakjör höfðu viðmið við eða mögulegum breytingum á úrskurði á uppsagnarfresti og mögulegum stjórnarlaunum sem varamaður í stjórn Samorku á þeim tíma.“
    h. forstjóra RARIK ohf.:
             „Munur á heildarlaunagreiðslum sem greidd voru á uppsagnartímanum og því sem verið hefði skv. úrskurði kjararáðs er 3.730 þúsund kr. Munurinn hefði verið meiri ef greitt hefði verið skv. ráðningasamningi.“

     8.      Var viðkomandi bættur sá munur að hluta eða öllu leyti sem var á upphaflegum kjörum og þeim sem kjararáð ákvarðaði með úrskurði sínum, t.d. með eingreiðslu, hlunnindum, launuðum aukastörfum eða með öðrum hætti? Hver var sú fjárhæð eða hlunnindi?
    a. forstjóra Fjármálaeftirlitsins:
             „Ekki verður séð að það hafi verið gert, en það lítur út fyrir að allar breytingar á launum forstjóra séu í samræmi við úrskurði Kjararáðs.“
    d. seðlabankastjóra:
             „Viðkomandi var ekki bættur sá munur að hluta til eða að öllu leyti sem var í upphaflegum kjörum og þeim sem kjararáð ákvarðaði með úrskurði sínum.“
    f. forstjóra Landsnets hf.:
             „Ekki hefur verið um að ræða neinar sérstakar greiðslur til forstjóra vegna rýrnunar á starfskjörum hans samkvæmt úrskurði kjararáðs.“ Jafnframt kemur farm í svari Landsnets við þessum lið að: „Í samræmi við það álit að segja þyrfti upp launalið ráðningarsamnings til þess að úrskurður kjararáðs kæmi til framkvæmda, voru laun forstjóra aftur á móti leiðrétt á árinu 2011. Fjárhæð þeirra greiðslna nam 8.506.575 kr.“
    g. framkvæmdastjóra Orkubús Vestfjarða ohf.:
             „Frá því að uppsögn áður gildandi ráðningarsamnings Orkubússtjóra tók gildi hefur hann ekki notið greiðslna frá Orkubúi Vestfjarða sem ekki samræmast úrskurði kjararáðs.“
    h. forstjóra RARIK ohf.:
             „Engar greiðslur hafa verið inntar af hendi til að leiðrétta mun á upphaflegum kjörum og þeim sem ákvarðaðar voru af kjararáði, hvorki með aukastörfum, eingreiðslum eða hlunnindum.“