Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 485. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1189  —  485. mál.

3. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.


Frá Steingrími J. Sigfússyni.     1.      3. mgr. 3. gr. orðist svo:
                  Leiðrétting tekur ekki til lögaðila, nema að til láns hafi verið stofnað með beinum eða óbeinum hætti í þágu einstaklinga, svo sem samkvæmt lögum um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003.
     2.      Við 1. mgr. 8. gr.
              a.      Á eftir orðunum „Hið sama á við um“ í 2. málsl. komi: hreina eign umfram eignamörk.
              b.      Við bætist nýr stafliður sem orðist svo: Hrein eign einstaklings umfram 35 millj. kr. samkvæmt skattframtali næstliðins árs og með sama hætti hrein eign umfram 50 millj. kr. ef um hjón eða samskattaða aðila er að ræða.
     3.      Á eftir 17. gr. komi nýr kafli, Lækkun lánsveðslána lífeyrissjóða, hækkun húsaleigubóta og hækkun vaxtabóta, með þremur greinum, svohljóðandi:
         a.     (18. gr.)
                     Ríkissjóði Íslands er heimilt að stuðla að lækkun eftirstöðva lánsveðslána lífeyrissjóða, sem tekin voru fyrir 1. janúar 2009, með því að greiða til hlutaðeigandi lífeyrissjóðs sem svarar allt að 90% af kostnaði við niðurfærslu á eftirstöðvum slíkra lána. Hlut ríkisins í kostnaði vegna niðurfærslu lánsveðslána lífeyrissjóða skal greiða með þremur jöfnum greiðslum í janúar árin 2015, 2016 og 2017. Greiðslur tveggja síðari áranna skulu bera 3,25% vexti.
                     Samráð skal haft við Fjármálaeftirlitið, Eftirlitsstofnun EFTA og Samkeppniseftirlitið um framkvæmd niðurfærslu.
                     Niðurfærsla er háð því skilyrði að stjórnir lífeyrissjóðanna sem í hlut eiga hafi staðfest samkomulag um efnið að fengnu áliti um lögmæti skuldbindinga samkvæmt samkomulaginu. Kostnaður sem leiðir af lækkun eftirstöðva lánsveðslána dregst frá þeirri fjárhæð sem ætluð er til niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána áður en til útreiknings leiðréttingarvísitölu kemur.
        b.     (19. gr.)
                     Ríkissjóði er heimilt að verja allt að 3 milljörðum kr. til hækkunar húsaleigubóta á síðari helmingi ársins 2014 og skal ráðherra gera samkomulag þar að lútandi við sveitarfélögin. Kostnaður sem af þessu hlýst dregst frá þeirri fjárhæð sem ætluð er til niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána áður en til útreiknings leiðréttingarvísitölu kemur.
        c.     (20. gr.)
                     Ríkissjóði er heimilt að verja allt að 1,5 milljörðum kr. til hækkunar vaxtabóta á síðari helmingi ársins 2014 og skal ráðherra leggja tillögur um útfærslu hækkunarinnar fyrir Alþingi í byrjun næsta þings í september 2014. Skal miðað við að álag á vaxtabætur komi til greiðslu 1. október. Kostnaður sem af þessu hlýst dregst frá þeirri fjárhæð sem ætluð er til niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána áður en til útreiknings leiðréttingarvísitölu kemur.
     4.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra fasteignaveðlána tiltekinna heimila með skattfé.

Greinargerð.

    Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til á frumvarpi til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána er þess freistað að bæta úr einum helsta ágalla þess sem felst í því að frumvarpið mismunar fólki freklega. Í þeim breytingartillögum sem hér eru lagðar fram er lagt til að brugðist verði við vanda þeirra sem tekið hafa lífeyrissjóðslán út á svokölluð lánsveð en þessi hópur skuldara hefur ekki notið sömu aðstoðar og aðrir veðlánaskuldarar (sbr. 11. mál á yfirstandandi löggjafarþingi).
    Lögð er til hækkun húsaleigubóta enda engin rök fyrir því að leigjendur – sá hópur fer sífellt stækkandi – eigi ekki rétt til sambærilegs liðsinnis hins opinbera vegna húsnæðiskostnaðar og fólk sem tekið hefur veðlán til kaupa á íbúðarhúsnæði. Heimili þeirra sem leigja húsnæði eru þeim alveg jafnverðmæt og hinum sem fest hafa kaup í fasteign til íbúðar og fjárhagur leigjenda skiptir engu minna máli fyrir þjóðarhag en fjárhagur veðlánaskuldara.
    Lagt er til að hluta fjárins verði varið til vaxtabóta á síðari helmingi þessa árs enda er sú aðferð markviss og skilvirk til að létta skuldabyrði vegna veðlána og með eðlilegri tekju- og eignatengingu koma slíkar ráðstafanir þeim að gagni sem mesta þörf hafa fyrir stuðning.
    Lagt er til að lögaðilar sem stofnað hafa til láns með beinum eða óbeinum hætti í þágu einstaklinga, svo sem húsnæðissamvinnufélög, búseturéttarhafar og aðrir rekstraraðilar félagslegs húsnæðis, eigi rétt á hlutdeild í leiðréttingunni.