Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 380. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1195  —  380. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008
(rafræn námsgögn o.fl.).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson og Þóri Ólafsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Í frumvarpinu er kveðið á um breytingar á ákvæðum gildandi laga að því er varðar rétt náms- og starfsráðgjafa til að sækja launuð námsorlof, viðurkenningu á húsnæði einkarekinna framhaldsskóla, gjaldtökuheimild vegna rafrænna námsgagna, afhendingu byggingarlóða undir framhaldsskólabyggingar án kvaða eða gjalda og tímabundna heimild framhaldsskóla til innheimtu efnisgjalda af nemendum auk innheimtu gjalda í kvöldskóla og fjarnámi.
    Í frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaákvæði V og VI um gjaldtökuheimild framhaldsskóla verði framlengd til skólaársins 2015–2016.
    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði til bráðabirgða V í lögunum um heimildir framhaldsskóla til innheimtu efnisgjalda af nemendum gildi áfram tímabundið, eða út skólaárið 2015–2016. Nefndin bendir á að í fjárlögum fyrir árið 2014 er ekki gert ráð fyrir auknum framlögum til efniskaupa sem óhjákvæmilega leiðir af gildistöku b-liðar 45. gr. laganna.
    Í 6. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ákvæði til bráðabirgða VI, sem heimilar framhaldsskólum innheimtu gjalda í kvöldskóla og fjarnámi að hámarki 7.500 kr. fyrir hverja námseiningu, verði framlengt tímabundið og gildi út skólaárið 2015–2016. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2014 er ekki reiknað með hækkun framlaga til kennslu í kvöldskóla og fjarnámi umfram 2/3. Nefndin bendir á að einsýnt er að kennslukostnaði framhaldsskóla, sem bjóða upp á framangreint nám, verður ekki mætt nema heimild fáist til að halda áfram innheimtu hærri nemendagjalda en lög um framhaldsskóla gera ráð fyrir.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram þau sjónarmið að ekki væri fyrir hendi svigrúm til að auka framlög til skólanna í ljósi erfiðrar stöðu ríkissjóðs. Einnig þyrfti að líta til réttmætra væntinga bæði framhaldsskólanna og nemenda í þessu sambandi. Það er álit nefndarinnar að fjármögnun framhaldsskólastigsins þurfi að vera gagnsæ og viðvarandi. Nefndin áréttar mikilvægi þess að fundin verði ásættanleg lausn og varanleg niðurstaða varðandi gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla.
    Í ljósi þess hve stuttan tíma nefndin hefur fengið til að kynna sér frumvarpið til hlítar leggur hún til að ákvæði 1.–4. gr. frumvarpsins verði felld brott.
    Nefndin leggur að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    1.–4. gr. falli brott.

    Páll Valur Björnsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Helgi Hrafn Gunnarsson ritar undir álitið með þeim fyrirvara að hafa ekki getað kynnt sér það til hlítar þar sem stutt er síðan því var vísað til nefndar.

Alþingi, 16. maí 2014.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Elsa Lára Arnardóttir.
Guðbjartur Hannesson. Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
Jóhanna María Sigmundsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.