Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 570. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1196  —  570. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur
um bílaleigur.


     1.      Hvaða ívilnanir standa bílaleigum til boða og hver hefur þróun þeirra verið síðustu tíu ár á verðlagi ársins 2013, þ.e. aðflutningsgjöld, skattaívilnanir, afsláttur á vörugjöldum og aðrar ívilnanir?
    Bílaleigur hafa notið afsláttar af vörugjöldum á fólksbifreiðar frá árinu 2000. Nýtt kerfi í skattlagningu slíkra bifreiða tók gildi 1. janúar 2011. Vörugjald tekur nú mið af koltvísýringslosun (CO 2) viðkomandi ökutækis og nemur almennt 0–65% (aðalflokkur). Vörugjald af bílaleigubifreið er hins vegar lagt á samkvæmt undanþáguflokki samkvæmt eftirfarandi töflu. Þar fer vörugjaldið hæst í 30%. Þá er ákveðið þak á þann afslátt sem bílaleigur fá af vörugjaldi eða 1 millj. kr. Þær bílaleigur sem njóta lækkaðra vörugjalda greiða á móti árlegt leyfisgjald, 1,8–6,8 millj. kr. eftir fjölda innfluttra bifreiða.

Gjald %
Gjaldbil Skráð losun CO2 Aðalflokkur Undanþáguflokkur
A 0–80 0 0
B 81– 100 10 0
C 101– 120 15 0
D 121– 140 20 0
E 141– 160 25 5
F 161– 180 35 10
G 181– 200 45 15
H 201– 225 55 20
I 226– 250 60 25
J yfir 250 65 30

    Bifreið sem fengið hefur eftirgjöf á vörugjöldum er háð skilyrðum um nýtingu hennar í starfsemi bílaleigunnar á næstu 15 mánuðum eftir nýskráningu hennar. Að þeim tíma liðnum er bílaleigu heimilt að selja bifreiðar sínar á frjálsum markaði án viðbótarvörugjalds.
    Aðflutningsgjöld eru samsett af vörugjaldi, úrvinnslugjaldi á rafgeyma og hjólbarða sem fylgja ökutækinu og 25,5% virðisaukaskatti. Bílaleigur njóta einungis afsláttar af vörugjöldum af fólksbifreiðum umfram það sem almennt gildir.

     2.      Hver hefur fjöldi bílaleiga verið árlega síðustu tíu ár og hvernig hefur framboð bílaleigubíla verið?
    Ekki fengust upplýsingar um fjölda bílaleigubíla eða fjölda bílaleiga yfir tímabilið sem óskað var eftir en til eru upplýsingar frá árinu 2006 eins og sjá má í eftirfarandi töflu.

Ár Fjöldi bílaleiga Fjöldi bílaleigubíla
2006 58 4.756
2007 61 4.843
2008 64 5.649
2009 81 5.736
2010 93 6.572
2011 112 7.888
2012 127 9.641
2013 143 11.418

Heimild: Samgöngustofa og Samtök ferðaþjónustunnar.


     3.      Hverjar hafa verið tekjur ríkissjóðs af bílaleigum árlega síðustu tíu ár á verðlagi ársins 2013, sundurliðaðar eftir helstu tekjuflokkum?
    Sjá upplýsingar í eftirfarandi töflu (fjárhæðir í milljónum króna). Tölurnar um virðisaukaskatt eru mismunur útskatts og innskatts hjá bílaleigum. Athygli er vakin á mikilli aukningu á tekjum af vörugjöldum árið 2012 en mikil fjölgun bílaleigubíla varð það ár sem skýrir einnig neikvæða niðurstöðu virðisaukaskatts fyrir sama ár. Tölur fyrir vörugjöld fyrir árin 2004–2009 eru áætlaðar sem fast hlutfall af virðisaukaskatti þar sem ekki reyndist unnt að afla upplýsinga um það tímabil. Ekki eru meðtaldar skatttekjur af eldsneyti við notkun bílaleigubíla. Leyfisgjald á bílaleigur var fyrst lagt á árið 2013.

Ár Virðisaukaskattur Tekjuskattur1 Tryggingagjald Vörugjöld2 Leyfisgjald Alls
2004 332,6 23,3 30,1 357,0 743,0
2005 369,7 16,8 35,6 396,9 819,1
2006 259,8 3,1 44,1 278,8 585,8
2007 278,8 2,8 49,7 299,3 630,6
2008 191,6 7,2 76,8 205,7 481,3
2009 329,1 17,1 73,9 353,3 773,3
2010 353,2 21,5 77,5 379,1 831,2
2011 475,2 13,8 118,3 455,3 1.062,7
2012 -292,2 11,2 132,2 826,4 677,5
2013 172,0 14,9 140,4 767,0 65,8 1.160,1
    1. Miðað við álagningarár.
    2. Vantar tölur fyrir nóvember og desember fyrir 2013.
    Heimild: tollstjóri, ríkisskattstjóri.