Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 535. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1199  —  535. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn Vilhjálms Bjarnasonar um framkvæmd á úrskurðum kjararáðs vegna laga nr. 87/2009.


     1.      Hver var framkvæmd á úrskurðum kjararáðs dagsettum 23. febrúar 2010 vegna laga nr. 87/2009, um breytingu á lögum um kjararáð og fleiri lögum, varðandi laun og önnur starfskjör framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs (sjá kjararáð 2010.4.001 og kjararáð 2010.4.005)?
    Heildarmánaðarlaun framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs voru 1.739.519 kr. í febrúar 2009. Eftir það áttu sér stað tvær launalækkanir, sú fyrri vegna tilmæla stjórnvalda og hin síðari vegna úrskurðar kjararáðs. Samkvæmt úrskurði kjararáðs 23. febrúar 2010 voru laun framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs lækkuð frá 1. mars 2010, úr 1.516.091 kr. í 982.062 kr.

     2.      Fól úrskurður í sér lækkun á launum viðkomandi og þá hve mikla í krónum og prósentum talið?
    Þó að fyrirspurn Alþingis snúi einvörðungu að starfskjörum samkvæmt úrskurðum kjararáðs er mikilvægt að fram komi að í raun er um að ræða tvær launalækkanir sem áttu sér stað hjá þáverandi framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs sem báðar tóku samstundis gildi og hafa ekki verið leiðréttar miðað við uppsagnarfrest. Í mars 2009 voru heildarmánaðarlaun framkvæmdastjóra lækkuð úr 1.739.519 kr. í 1.516.091 kr. Þessi fyrri launalækkun var framkvæmd í kjölfar laga nr. 148/2008, um breytingu á lögum nr. 47/2006, um kjararáð, en eftir samþykkt þeirra sendu stjórnvöld bréf til stjórnar Íbúðalánasjóðs um að framkvæma þessa lækkun og kom hún strax til framkvæmda. Á þessum tíma féll forstjóri Íbúðalánasjóðs ekki undir ákvörðunarvald kjararáðs og því voru laun lækkuð á grundvelli framangreinds bréfs en þeir forstöðumenn ríkisstofnana sem féllu undir kjararáð lækkuðu samkvæmt úrskurði kjararáðs 2009.001, dags. 23. febrúar 2009, sem kveðinn var upp á grundvelli laga nr. 148/ 2008.
    Eins og fyrr segir var seinni launalækkunin á grundvelli úrskurðar kjararáðs 23. febrúar 2010, en þá voru laun framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs lækkuð frá 1. mars 2010, úr 1.516.091 kr. í 982.062 kr. Launabreytingarnar má sjá í eftirfarandi töflu:

Dags. Laun Bifreiðagreiðslur Auka í lífeyrissjóð Alls Breyting
Febrúar 2009 1.489.519 kr. 200.000 kr. 50.000 kr. 1.739.519 kr.
Mars 2009 1.299.091 kr. 200.000 kr. 50.000 kr. 1.516.091 kr. 17,65%
Mars 2010 982.062 kr. 982.062 kr. 28,92%

    Rétt er að geta þess að þrátt fyrir að laun forstjóra Íbúðalánasjóðs hafi verið lækkuð umtalsvert eru nú gerðar ríkari kröfur til hæfni forstjóra, sbr. lög nr. 84/2012, um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál. Skal hann hafa háskólamenntun, þekkingu og reynslu sem nýtist í starfi, auk þess að hafa ekki verið úrskurðaður gjaldþrota sl. fimm ár eða fengið dóm sl. 10 ár fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, svo og sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Þá skal hann vera fjárhagslega sjálfstæður og má ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni hans til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri eða að hann muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða sjóðinn.

     3.      Aflaði stjórn lögfræðiálits um framkvæmd úrskurðarins og ef svo var, hver var niðurstaða álitsins?
    Stjórn Íbúðalánasjóðs leitaði álits hjá Mörkinni lögmannsstofu 8. mars 2010 og var niðurstaðan, dags. 14. mars 2010, að þrátt fyrir úrskurð kjararáðs hefði stjórn Íbúðalánasjóðs rétt á að greiða framkvæmdastjóra sjóðsins laun samkvæmt samningi hans við sjóðinn út ráðningartímann, sem var til starfsloka hans 30. júní 2010. Sú niðurstaða var byggð á reglum vinnuréttarins um að annar aðili gæti ekki einhliða gert breytingar á samningssambandinu án þess að virða samningsákvæði um uppsagnarfrest. Stjórn Íbúðalánasjóðs gerði ráðningarsamning við framkvæmdastjóra 30. desember 2003. Gerðir voru viðaukar við þann samning árin 2005, 2006 og 2007. Í desember 2008 var gerður nýr ráðningarsamningur við framkvæmdastjóra þar sem ráðningartími var fimm ár frá 1. janúar 2009 og gagnkvæmur umsaminn uppsagnarfrestur var 12 mánuðir.

     4.      Fór viðkomandi stjórn eftir niðurstöðu álitsins? Ef ekki, hvaða ástæður lágu að baki þeirri afgreiðslu?
    Stjórnin taldi sig bundna af ákvörðun kjararáðs og fór því ekki eftir niðurstöðu álitsins.

     5.      Kom úrskurður kjararáðs til framkvæmda strax gagnvart viðkomandi í framhaldi af efnislegri umfjöllun stjórnar um hvernig hann skyldi framkvæmdur eða var framkvæmd frestað, t.d. vegna uppsagnarfrests eða annarra sjónarmiða, og þá í hvað langan tíma?
    Framkvæmd var ekki frestað.

     6.      Ef framkvæmd var ekki frestað, kom til leiðréttinga á framkvæmdinni síðar, t.d. vegna uppsagnarfrests eða annarra sjónarmiða?
    Nei.

     7.      Ef framkvæmd var frestað eða framkvæmd leiðrétt eftir á, hvað munar miklu á heildarlaunagreiðslum á frestunartímabili miðað við að úrskurður hefði komið til framkvæmda strax?
    Launalækkunin var framkvæmd strax.

     8.      Var viðkomandi bættur sá munur að hluta eða öllu leyti sem var á upphaflegum kjörum og þeim sem kjararáð ákvarðaði með úrskurði sínum, t.d. með eingreiðslu, hlunnindum, launuðum aukastörfum eða með öðrum hætti? Hver var sú fjárhæð eða hlunnindi?
    Nei.