Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 376. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1215  —  376. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lagaákvæðum er varða losun og móttöku
úrgangs frá skipum (EES-reglur, innleiðing).

(Eftir 2. umræðu, 16. maí.)


I. KAFLI

Breyting á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Við bætist nýr töluliður sem verður 1. tölul., svohljóðandi: Aðstaða í höfnum fyrir úr- gang frá skipum og farmleifar: Hvers konar aðstaða eða þjónusta, hvort sem hún er föst eða hreyfanleg, sem nota má til að taka á móti úrgangi frá skipum og farmleifum.
     b.      Á eftir 2. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Farmleifar: Leifar hvers konar farms um borð, í lestum eða tönkum, sem eftir verða að lokinni affermingu og hreinsun, þar á meðal umframmagn og leki í tengslum við fermingu eða affermingu.
     c.      Á eftir orðinu „efnasambönd“ í 9. tölul. kemur: þ.m.t. efni sem falla undir I. og II. viðauka við MARPOL-samninginn.
     d.      Á eftir 23. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Úrgangur frá skipum: Allur úrgang- ur, þ.m.t. skolp og leifar aðrar en farmleifar, sem verður til við störf um borð í skipi og fellur undir gildissvið I., IV. og V. viðauka við MARPOL-samninginn, svo og farmtengdur úrgangur eins og hann er skilgreindur í viðmiðunarreglum um framkvæmd V. viðauka við MARPOL-samninginn.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      4. og 5. mgr. orðast svo:
                  Óheimilt er að losa sorp og farmleifar frá skipum á hafsvæði innan tólf sjómílna frá grunnlínu landhelginnar. Óheimilt er að losa í hafið þrávirk gerviefni sem fljóta eða mara í hafinu. Heimilt er að losa kvarnaðan matarúrgang utan þriggja sjómílna frá landi samkvæmt nánara ákvæði í reglugerð, sbr. k-lið 1. mgr. 6. gr.
                  Óheimilt er að losa skolp frá skipum og óvinnsluhæfan rekstrarúrgang innan tólf sjómílna frá landi. Heimilt er að losa skolp, sem hefur verið meðhöndlað í hreinsikerfi samþykktu af Samgöngustofu eða sambærilegu stjórnvaldi annars ríkis, utan fjögurra sjómílna frá landi.
     b.      Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Losun mengandi efna, sbr. 9. tölul. 3. gr., frá skipum í mengunarlögsögu Íslands er óheimil. Þó er losun mengandi efna heimil að uppfylltum skilyrðum um notkun bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir og bestu umhverfisvenjur þar sem slíkt hefur verið skilgreint eða að uppfylltum skilyrðum um flokkun fljótandi efna sem flutt eru í fargeymum skipa til eða frá íslenskum höfnum svo og ákvæðum um takmörkun á losun þeirra efna, sem hættuleg eru talin, í hafið samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerðum, sbr. c- og g-lið 1. mgr. 6. gr. Ekki skal litið á losun mengandi efna frá skipum í mengunarlögsögu Íslands utan landhelginnar sem brot af hálfu eiganda, skipstjóra eða áhafnar ef losunin er afleiðing af skemmdum á skipi eða búnaði þess, fer fram undir stjórn skipstjóra og leiðir af losun á olíu, olíukenndum blöndum eða eitruðum efnum í fljótandi formi í sjóinn.

3. gr.

    11. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Móttaka úrgangs og farmleifa frá skipum í höfnum.

    Hafnarstjórn skal koma upp viðunandi aðstöðu fyrir móttöku úrgangs og farmleifa frá skipum í öllum höfnum. Aðstaðan skal miðast við þarfir skipa er jafnan koma í viðkomandi höfn.
    Hafnarstjórn er heimilt að fela þjónustuaðila með samningi umsjón með móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleifa frá skipum.

4. gr.

    Á eftir 11. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, 11. gr. a – 11. gr. d, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (11. gr. a.)

Afhending úrgangs frá skipum.

    Skipstjóri ber ábyrgð á því að úrgangi frá skipi sé skilað til hafnar eða viðurkennds þjónustuaðila áður en látið er úr höfn.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er skipi heimilt að halda til næstu viðkomuhafnar án þess að afhenda úrgang ef ráða má af þeim upplýsingum sem gefnar eru í tilkynningu skv. II. viðauka við reglugerð nr. 792/2004 um móttöku á úrgangi frá skipum, sbr. 3.–5. mgr. 12. gr., að nægilegt sérhæft geymslurými sé um borð fyrir þann úrgang sem safnast hefur fyrir og mun safnast fyrir meðan á fyrirhugaðri ferð til afhendingarhafnar stendur.
    Umhverfisstofnun getur veitt undanþágu frá ákvæði 1. mgr. fyrir skip í áætlunarsiglingum sem hafa reglulega viðkomu í höfnum og sýna fram á trygga afhendingu úrgangs og greiðslu gjalda í einhverri höfn á siglingaleiðinni.

    b. (11. gr. b.)

Afhending farmleifa.

    Skipstjóri skips sem hefur viðkomu í höfn skal tryggja að farmleifar séu afhentar í þar til gerðri aðstöðu hafnarinnar fyrir móttöku úrgangs og farmleifa.
    Notandi hafnaraðstöðu skal greiða gjald fyrir afhendingu farmleifa. Eingöngu skal greiða gjald þegar farmleifar eru að sönnu afhentar og skal gjaldið standa undir kostnaði við móttöku, meðhöndlun og förgun farmleifa. Við ákvörðun fjárhæðar gjalda skal tekið mið af tegund og magni þeirra farmleifa sem afhentar eru.

    c. (11. gr. c.)

Úrgangsgjald.

    Öll skip, að undanskildum fiskiskipum, skemmtibátum sem ekki mega flytja fleiri en 12 farþega, herskipum, hjálparskipum í flota, skipum sem þjónusta fiskeldi og skipum í ríkiseign eða ríkisrekstri sem nýtt eru í þágu hins opinbera, sem koma til hafnar skulu greiða gjald fyrir móttöku og meðhöndlun á úrgangi frá skipum, sbr. f-lið 1. tölul. 2. mgr. 17. gr. hafnalaga, nr. 61/2003.
    Gjaldið skal standa undir kostnaði við aðstöðu fyrir móttöku úrgangs frá skipum, kostnaði við meðhöndlun og förgun úrgangs frá skipum sem og kostnaði við eftirlit Umhverfisstofnunar. Við ákvörðun fjárhæðar gjalds skal tekið mið, eftir því sem við á, af fjölda skipverja og farþega um borð, lengd sjóferðar og stærð skips.
    Gjald skv. 1. mgr. má lækka ef umhverfisstjórnun, hönnun, búnaður og starfræksla skips er með þeim hætti að skipstjóri geti sýnt fram á að minni úrgangur verði til um borð. Veita má undanþágu frá greiðslu gjalda skv. 1. mgr. fyrir skip í áætlunarsiglingum sem hafa tíða og reglulega viðkomu í höfnum og sýna fram á trygga afhendingu úrgangs og greiðslu gjalda í einhverri höfn á siglingaleiðinni.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um útfærslu og uppbyggingu gjalds skv. 1. og 2. mgr.

    d. (11. gr. d.)

Eftirlit.

    Umhverfisstofnun hefur eftirlit með móttöku úrgangs og farmleifa frá skipum í höfnum, tilkynningum um úrgang, áætlunum hafna og að til staðar sé aðstaða fyrir móttöku úrgangs. Um meðhöndlun úrgangs, útgáfu starfsleyfa fyrir meðhöndlun hans og eftirlit fer samkvæmt ákvæðum laga um meðhöndlun úrgangs.
    Umhverfisstofnun gerir úttekt á a.m.k. fimm ára fresti á því hvort aðstaða í höfnum fyrir móttöku úrgangs og farmleifa frá skipum sé í samræmi við samþykkta áætlun hafnar. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með losun úrgangs frá skipum á grundvelli upplýsinga frá höfnunum. Umhverfisstofnun gerir eftirlitsáætlun þar sem eftirlitið er útfært nánar.
    Ráðherra setur, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir reglulegt eftirlit stofnunarinnar með aðstöðu í höfnum fyrir úrgang og farmleifar og meðhöndlun og losun úrgangs og farmleifa frá skipum. Í gjaldskrá skal tekið mið af kostnaði sem eftirlit Umhverfisstofnunar hefur í för með sér.

5. gr.

    Á eftir 2. mgr. 12. gr. laganna koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Skipstjóri skips, sem er á leið til hafnar en er hvorki fiskiskip né skemmtibátur sem ekki má flytja fleiri en 12 farþega, ber ábyrgð á að tilkynning um úrgang og farmleifar í skipum,
sbr. viðauka II við reglugerð nr. 792/2004 um móttöku á úrgangi frá skipum, sé fyllt út með réttum upplýsingum og komið til viðkomandi hafnaryfirvalda:
     a.      með 24 klukkustunda fyrirvara áður en komið er til hafnar ef viðkomuhöfn er þekkt; eða
     b.      um leið og viðkomuhöfn er ákveðin ef 24 klukkustunda fyrirvari næst ekki; eða
     c.      áður en lagt er úr fyrri höfn ef sjóferðin er skemmri en 24 klukkustundir.
    Útfyllt tilkynning um úrgang og farmleifar í skipum skv. 3. mgr. skal geymd um borð í skipi þar til komið er til næstu viðkomuhafnar.
    Hafnaryfirvöld skulu sjá til þess að viðeigandi upplýsingar berist Umhverfisstofnun, svo sem samantekt á tilkynningum um úrgang og farmleifar auk yfirlits yfir magn og tegund þess úrgangs sem skilað hefur verið. Samantekt á framangreindum upplýsingum skal skilað til Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda viðkomandi sveitarfélaga fyrir 1. mars ár hvert.
    Umhverfisstofnun er heimilt að veita undanþágu frá skilum tilkynningar fyrir skip í áætlunarsiglingum sem hafa tíða og reglulega viðkomu í höfnum og geta sýnt fram á trygga afhendingu úrgangs og greiðslu gjalda í einhverri höfn á siglingaleiðinni. Skylda til að skila tilkynningu skv. 1. mgr. á ekki við um herskip, hjálparskip í flota eða önnur skip í ríkiseign eða ríkisrekstri sem um stundarsakir eru nýtt í þágu hins opinbera til annars en viðskipta.

6. gr.

    Við 1. mgr. 25. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Brot gegn 6. mgr. 8. gr. varða viðurlögum samkvæmt ákvæði þessu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.

7. gr.

    Á eftir 28. gr. laganna kemur ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Innleiðing.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu ákvæða 4. gr. og 7.–10. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og
ráðsins 2000/59/EB, um aðstöðu í höfnum til að taka á móti úrgangi skipa og farmleifum, sem vísað er til í tölul. 56i í V. kafla XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 77/2001 frá 19. júní 2001 auk innleiðingar tilskipunar 2005/35/EB um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga við brotum sem vísað er til í tölul. 56v í V. kafla XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 65/2009 frá 29. maí 2009.

II. KAFLI
Breyting á hafnalögum, nr. 61/2003, með síðari breytingum.
8. gr.

    Við 1. tölul. 2. mgr. 17. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Gjald fyrir móttöku, meðhöndlun og förgun úrgangs og farmleifa frá skipum. Gjaldtakan tekur til allra skipa sem koma til hafnar, að undanskildum fiskiskipum, skemmtibátum sem ekki mega flytja fleiri en 12 farþega, herskipum, hjálparskipum í flota, skipum sem þjónusta fiskeldi og skipum í ríkisrekstri sem nýtt eru í þágu hins opinbera, sbr. 11. gr. og 11. gr. a – 11. gr. d laga um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004. Skylt er að innheimta gjald samkvæmt þessum tölulið. Gjald fyrir móttöku, meðhöndlun og förgun úrgangs skal standa undir kostnaði við aðstöðu fyrir móttöku úrgangs frá skipum, kostnaði við meðhöndlun og förgun úrgangs frá skipum sem og kostnaði við eftirlit Umhverfisstofnunar. Við ákvörðun fjárhæðar gjalds skal tekið mið, eftir því sem við á, af fjölda skipverja og farþega um borð, lengd sjóferðar og stærð skips.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 2. mgr. er höfnum skylt að innheimta gjöld sem skulu standa undir kostnaði við móttöku, meðhöndlun og förgun úrgangs og farmleifa frá skipum sem og eftirliti Umhverfisstofnunar með aðstöðunni, sbr. 11. gr. og 11. gr. a – 11. gr. d laga um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004.

9. gr.

    Á eftir 29. gr. laganna kemur ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Innleiðing.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu ákvæða 4. gr. og 7.–10. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og
ráðsins 2000/59/EB, um aðstöðu í höfnum til að taka á móti úrgangi skipa og farmleifum, sem vísað er til í tölul. 56i í V. kafla XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 77/2001 frá 19. júní 2001.

10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 31. desember 2014.