Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 586. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1220  —  586. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur
um þriðja mál í framhaldsskólum.


     1.      Hve mörgum einingum í þriðja erlenda máli þarf nemandi í framhaldsskóla að ljúka að lágmarki fyrir stúdentspróf?
    Til haustsins 2015 starfa framhaldsskólar landsins ýmist eftir nýrri eða eldri aðalnámskrá framhaldsskóla. Ný aðalnámskrá framhaldsskóla sem gefin var út 2011 boðar ekki miklar breytingar frá fyrri námskrá hvað varðar þriðja mál á bóknámsbrautum til stúdentsprófs. Í eldri aðalnámskrá frá 1999 er gert ráð fyrir að nemendur ljúki a.m.k. 12 einingum í þriðja máli (þýsku, frönsku eða spænsku) til að ljúka félagsfræða- eða náttúrufræðibraut. Á málabraut eru hins vegar gerð krafa um a.m.k. 15 einingar í þriðja máli og 9 einingar í fjórða máli.
    Framsetning á kröfum í nýrri aðalnámskrá er öðruvísi. Þar er vísað í þá hæfni sem nemandi skuli búa yfir en ekki fjölda eininga. Hæfnin er tengd við hæfniþrep þar sem mest hæfni er á þriðja hæfniþrepi. Þar segir að bóknámsbrautir til stúdentsprófs skuli gera lágmarkskröfu um norrænt tungumál að hæfniþrepi þrjú og lágmarkskröfu um þriðja tungumál að hæfniþrepi tvö.
    Sama krafa gildir um norrænt tungumál á öðrum brautum til stúdentsprófs en á þeim brautum skal að auki valið um kröfur að hæfniþrepi tvö í þriðja tungumáli, samfélagsgreinum eða raungreinum. Þessi síðasta setning þýðir að ef stúdentspróf er tekið af til dæmis starfsnámsbraut þarf ekki endilega að taka þriðja tungumálið heldur má velja milli þess, samfélagsgreina og raungreina.

     2.      Hver eru rökin fyrir því að leggja þurfi stund á þriðja mál til að öðlast stúdentspróf?
    Í aðalnámskrá í erlendum tungumálum fyrir framhaldsskóla frá 1999 kemur fram eftirfarandi rökstuðningur fyrir að gera kröfu um þriðja tungumál í framhaldsskólum. Áhersla er nú lögð á hinn menningarlega þátt tungumálakunnáttu sem veita á innsýn í menningu annarra þjóða til að einstaklingurinn geti átt farsæl samskipti og samvinnu við fólk af öðru þjóðerni. Samhliða því að nemendur eiga að öðlast þekkingu á margþættum reglum tungumála er náminu ætlað að auka alhliða færni þeirra í erlendum tungumálum. Í námskránum er notagildi tungumálanáms svo til dæmis tengt við aukin ferðalög milli landa, vaxandi hlut ferðaþjónustu í atvinnulífinu, við möguleika á framhaldsmenntun erlendis, samskiptaleiðir á netinu og þróun margmiðlunartækni ýmiss konar í daglegu lífi og viðskiptum. Bylting á sviði ljósvakafjölmiðlunar hafi haft það í för með sér að Íslendingar hafi nú aðgang að alls kyns ótextuðu eða ótalsettu efni sem krefst skilnings á erlendum tungumálum.
    Með framhaldsskólalögunum 2008 og nýrri aðalnámskrá frá 2011 er mótun inntaks námskrár að stórum hluta fært til skólanna sjálfra. Í nýrri aðalnámskrá kemur ekki fram sérstakur rökstuðningur um þriðja tungumál þó svo að gerð sé krafa um tiltekna hæfni eins og að framan greinir.

     3.      Hefur komið til umræðu að nemendur megi taka tvöfalt fleiri einingar í Norðurlandamáli (t.d. í dönsku) heldur en námskrá segir til um í stað þess að taka þriðja mál til stúdentsprófs?
    Það hefur ekki komið til umræðu að Norðurlandamál komi í stað þriðja tungumáls til stúdentsprófs.

     4.      Má nemandi í framhaldsskóla taka tvö Norðurlandamál (t.d. dönsku og norsku) til stúdentsprófs og fá annað þeirra metið sem þriðja mál?
    Fyrri aðalnámskrá skilgreindi þriðja tungumálið sem þýsku, frönsku eða spænsku. Sumir skólar hafa boðið upp á ítölsku eða önnur tungumál sem þriðja mál en ekki annað Norðurlandamál. Ef einstakir nemendur biðja um framangreint atriði er það í höndum viðkomandi skólameistara að ákveða hvort verði orðið við þeirri bón.

     5.      Hver eru rökin fyrir því að nemendur, sem stunda iðnnám á framhaldsskólastigi, sleppi þriðja máli eða ljúki færri einingum í því heldur en nemendur á bóknámsbraut?
    Á starfsnámsbrautum hefur ekki verið gerð krafa til að læra þrjú erlend tungumál heldur einungis dönsku og ensku. Ástæðan er sú að ekki talin þörf á hæfni í þriðja tungumáli í viðkomandi störfum. Einungis lítill hluti námsáfanga á starfsnámsbrautum eru almennar námsgreinar þar sem rúm þarf að vera fyrir faglegt og verklegt nám.