Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 295. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1232  —  295. mál.
Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Valgerði Bjarnadóttur og Merði Árnasyni
um gögn um hælisleitanda.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Er til í ráðuneytinu minnisblað „varðandi Tony Omos“ og ef svo er, hverjir fengu það? Var því dreift til undirstofnana eða félagasamtaka, svo sem Útlendingastofnunar, ríkislögreglustjóra og Rauða krossins, og til lögmanna þeirra sem eru nafngreindir í minnisblaðinu?
     2.      Ef framangreint minnisblað er ekki til í ráðuneytinu, hvaða gögn eru þá til um mál Tony Omos í ráðuneytinu? Var þeim gögnum dreift til undirstofnana eða félagasamtaka, svo sem Útlendingastofnunar, ríkislögreglustjóra og Rauða krossins, og til lögmanna þeirra sem eru nafngreindir í minnisblaðinu?
     3.      Hvað var til skoðunar í rannsókn ráðuneytisins á meintum leka á umræddu minnisblaði? Hver hafði forstöðu í þeirri rannsókn? Hverjar voru niðurstöðurnar?
     4.      Hvað var til skoðunar í rannsókn rekstrarfélags Stjórnarráðsins á meintum leka á umræddu minnisblaði? Hverjar voru niðurstöðurnar?
     5.      Hefur komið til álita að óska eftir óháðri rannsókn á því hvernig persónuupplýsingar um Tony Omos og tvær nafngreindar konur komust úr trúnaðargögnum í hendur almennings?


    Líkt og ítrekað hefur komið fram er til samantekt, en ekki formlegt minnisblað, um mál viðkomandi einstaklings í ráðuneytinu. Slíkar samantektir um feril mála eru alvanalegar í stjórnsýslunni og sú samantekt sem í umræðunni hefur verið er í engu frábrugðin þessari almennu vinnureglu. Umrædd samantekt var unnin upp úr upplýsingum sem þegar er að finna hjá undirstofnunum ráðuneytisins og öðrum aðilum sem hafa með málefni hælisleitenda að gera og fól í sér hefðbundna lýsingu á staðreyndum máls, röð afgreiðslna undirstofnana ráðuneytisins og rök lögmanna. Engin meiðandi ummæli voru í umræddri samantekt. Þá er rétt að taka fram að samantektin var hvorki unnin með vitund né að ósk ráðherra eða skrifstofu ráðherra. Hins vegar hefur það lengi tíðkast í ráðuneytinu að taka saman slíkar samantektir til upplýsinga um feril mála.
    Vegna þeirrar fyrirspurnar sem hér er lögð fram er rétt að ítreka þær upplýsingar sem þegar hafa verið birtar á vefsíðu innanríkisráðuneytisins, þar sem fram kemur að sérstök skoðun ráðuneytisins og rekstrarfélags Stjórnarráðsins, sem hefur umsjón með tölvukerfi ráðuneytisins, hafi ekki gefið tilefni til að ætla að trúnaðargögn hafi verið send óviðkomandi aðilum frá ráðuneytinu. Athugað var hvort upplýsingar hefðu verið sendar úr málaskrá ráðuneytisins eða með tölvupósti til óviðkomandi aðila. Hefur rekstrarfélagið staðfest að svo var ekki.
    Málið er nú til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Á meðan rannsókn málsins stendur getur hvorki ráðherra né aðrir starfsmenn ráðuneytisins tjáð sig frekar um það efnislega. Þegar rannsókn málsins lýkur mun þessari fyrirspurn verða svarað með ítarlegri hætti.