Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 538. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1285  —  538. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um samningshagsmuni Finna og Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu.


     1.      Hversu stór hluti af landsframleiðslu Íslendinga á rætur að rekja til sjávarútvegs?
    Framlag fiskveiða og vinnslu til vergrar landsframleiðslu var 11% árið 2013.
    Eftirfarandi tafla sýnir framlag fiskveiða og vinnslu sem hlutfall af vergri landsframleiðslu 2009–2013:

2009 2010 2011 2012 2013
Fiskveiðar, % af vergri landsframleiðslu 5,8 6,5 6,6 6,7 7,1
Fiskvinnsla, % af vergri landsframleiðslu 4,4 3,4 4,0 4,1 3,9
Samtals 10,2 9,9 10,6 10,8 11,0
Heimild: Hagstofa Íslands.
              
    Vægi sjávarafurða í heildarútflutningi landsins var 26,5% árið 2013 og 44,6% í vöruútflutningi.
    Eftirfarandi tafla sýnir útflutningsverðmæti sjávarafurða, annars vegar sem hlutfall af útflutningsverðmæti vara og þjónustu 2009–2013 og hins vegar sem hlutfall af vöruútflutningi:

2009 2010 2011 2012 2013
Útflutningur sjávarafurða, % af heildarútflutningi 26,4 25,5 26,2 26,6 26,5
Útflutningur sjávarafurða, % af vöruútflutningi 41,7 39,3 40,6 42,4 44,6
Heimild: Hagstofa Íslands.
                   
    Í upplýsingaskyni er vakin athygli á því að samkvæmt skýrslu Íslenska sjávarklasans 1 er hlutfallslegt mikilvægi sjávarútvegs í landsframleiðslu vanmetið sé aðeins horft til veiða og vinnslu. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að heildarframlag sjávarútvegs til landsframleiðslu árið 2012 hafi verið 26,7% en það samanstendur af beinu framlagi greinarinnar, óbeinu framlagi sem er sá virðisauki sem verður til vegna viðskipta við sjávarútveginn og eftirspurnaráhrifum sem skapast vegna launa og hagnaðar sem myndast beint og óbeint vegna sjávarútvegsins. Meginniðurstöður skýrslunnar um beint og óbeint framlag sjávarútvegs til landsframleiðslu árin 2010–2012 má sjá í eftirfarandi töflu:
Sjávarútvegur, % af vergri landsframleiðslu 2010 2011 2012
Beint framlag 9,9 11,0 11,3
Óbeint framlag 7,3 7,7 7,8
Eftirspurnaráhrif 6,9 7,5 7,6
Samtals framlag sjávarútvegs 24,1 26,2 26,7
Önnur útflutningsstarfsemi sjávarklasans 1,5 1,5 1,7
Samtals framlag sjávarklasans 25,6 27,7 28,4
Heimild: Íslenski sjávarklasinn (2013). 2
    
     2.      Hversu stór hluti af landsframleiðslu Finna á rætur að rekja til landbúnaðar í nyrstu héruðum Finnlands sem njóta sérlausnar hvað landbúnað varðar samkvæmt aðildarsamningi Finnlands við Evrópusambandið?
    Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneyti Finnlands er hlutur framleiðenda norðan 62. breiddargráðu um 57–58% af framlagi finnska landbúnaðarins til vergrar landsframleiðslu. Framleiðendur á því svæði njóta sérlausna vegna norðlægrar legu svæðisins og náttúrulegrar sérstöðu.
    Eftirfarandi tafla sýnir hversu stór hluti vergrar landsframleiðslu á rætur sínar að rekja til landbúnaðarframleiðslu í norðurhluta Finnlands:

Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (%) 3 2009 2010 2011 2012
Landbúnaður, skógrækt og veiðar 1,63 1,66 1,67 1,56
Landbúnaður 0,53 0,56 0,57 0,57
Skógrækt 1,03 1,02 1,02 0,93
Veiðar 0,07 0,08 0,07 0,07
Heimild: Hagstofa Finnlands, www.stat.fi.
Neðanmálsgrein: 1
1     Íslenski sjávarklasinn er samstarfsvettvangur fyrirtækja í haftengdri starfsemi á Íslandi sem hefur það að markmiði að auka virði þeirra fyrirtækja sem starfa í sjávarklasanum, það er hinn hefðbundni sjávarútvegur auk þeirrar atvinnustarfsemi sem hann stendur fyrir beint og óbeint.
Neðanmálsgrein: 2
2     Heimild: Íslenski sjávarklasinn (2013). Sjávarklasinn á Íslandi: Efnahagsleg umsvif og afkoma 2012. Reykjavík: Íslenski sjávarklasinn.
Neðanmálsgrein: 3
3     Útreikningar eru miðaðir við að hlutur framleiðenda í norðurhluta Finnlands sé 57,5% af heildarframlagi landbúnaðar til vergrar landsframleiðslu.