Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 494. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1287  —  494. mál.




Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Júlíusdóttur
um Vegagerðina og verkefnið Ísland allt árið.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Kemur til greina að mati ráðherra að Vegagerðin komi formlega að samráði um uppbyggingu heilsársferðaþjónustu til að tryggja samspil áherslna Vegagerðarinnar og verkefnisins Ísland allt árið?

    Ljóst er að Vegagerðin gegnir veigamiklu hlutverki fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. Er það ekki síst sökum þess að markmiðið undanfarin ár hefur verið að kynna Ísland sem áfangastað allt árið og dreifa ferðamönnum betur um allt land.
    Til þess að það markmið náist þarf að vera aðgengi að helstu ferðamannastöðum landsins allt árið og þar reynir á hlutverk Vegagerðarinnar, bæði þegar kemur að uppbyggingu vegakerfisins, viðhaldi vega og snjómokstri.
    Það er því ljóst að nauðsynlegt er að Vegagerðin sé í auknum mæli þátttakandi í hvers konar vinnu er varðar uppbyggingu ferðaþjónustu um landið allt og hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því að Vegagerðin sé hugsuð sem hluti af því stoðkerfi sem ferðaþjónustunni er nauðsynlegt til að geta dafnað allt árið um allt land. Hvort að því markmiði verði best náð með því að Vegagerðin verði formlega hluti af Ísland allt árið eða með öðrum hætti er úrlausnarefni sem þarf að skoða. Hefur ráðuneytið því falið Ferðamálastofu, í samvinnu við Íslandsstofu, að taka upp viðræður við Vegagerðina um þessi mál.
    Starfsemi Vegagerðarinnar er bundin af samgönguáætlun og þeim fjárveitingum sem stofnuninni eru ákvarðaðar af Alþingi til að fylgja eftir þeim áherslum sem þar eru lagðar. Það er því mikilvægt að við vinnslu samgönguáætlunar sé tekið tillit til sjónarmiða ferðaþjónustunnar og þarfa hennar. Mun ráðuneytið beita sér fyrir að það verði gert.