Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 587. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 1290  —  587. mál.
Málsnúmer.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um upplýsingagjöf og reglugerð samkvæmt upplýsingalögum.


     1.      Hvenær hyggst ráðherra gefa Alþingi skýrslu um framkvæmd upplýsingalaga og hvað hafi áunnist varðandi aukið aðgengi almennings að upplýsingum sem hann skal gera reglulega skv. 3. mgr. 13. gr. upplýsingalaga?
    Ákveðið hefur verið að fyrsta skýrslan um þetta efni verði tekin saman eigi síðar en í ársbyrjun 2015 og lögð fram á Alþingi á vorþingi það ár. Hún mun þá gefa yfirlit yfir þau tvö ár sem liðið hafa frá gildistöku nýrra upplýsingalaga en þau tóku gildi 1. janúar 2013. Miðað er við að skýrslan muni innihalda sundurliðaðar upplýsingar um starf úrskurðarnefndar um upplýsingamál á árunum 2013 og 2014 og að þar komi fram hvaða hópar kæri helst til nefndarinnar, hver sé málshraði hjá nefndinni og hvert sé efni og umfang þeirra mála sem hún leysir úr.
    Þá verður gefið yfirlit yfir veitingu undanþága á grundvelli 3. mgr. 2. gr. laganna. Þar er ráðherra falið að leggja mat á undanþágubeiðnir vegna lögaðila í meirihlutaeigu opinberra aðila að fenginni umsögn Samkeppniseftirlitsins.
    Jafnframt er áformað að í skýrslunni verði gefið yfirlit yfir starf ráðuneytisins er miðar að því að framfylgja 13. gr. laganna er fjallar að meginstefnu um birtingu upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda. Annars vegar snýr þetta að því hvernig megi birta upplýsingar beint úr málaskrám stjórnvalda til að auðvelda almenningi leit að gögnum. Sjá nánar svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar. Hins vegar lýtur starf stjórnvalda í þessu efni að svokölluðum opnum gögnum og endurnotum þeirra, sbr. VII. kafla laganna. Hvort tveggja tengist vinnu innanríkisráðuneytisins á grundvelli stefnu um upplýsingasamfélagið, sbr. skýrsluna Vöxtur í krafti netsins – byggjum, tengjum og tökum þátt. Stefna ríkis og sveitarfélaga um upplýsingasamfélagið 2013–2016. Þannig er hafin úttekt á um 270 opinberum vefjum ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga í því skyni að fylgjast með þróun með tilliti til innihalds þeirra, nytsemi og möguleika almennings til lýðræðislegrar þátttöku gegnum netið. Þá starfrækir Þjóðskrá Íslands vefinn island.is og þar er undirvefsíða sem heitir „Opin gögn“. Innanríkisráðuneytið hefur ákveðið að setja á fót sérstakan starfshóp til að fylgja því eftir að gögn og skrár verði í vaxandi mæli gerð aðgengileg almenningi til endurnota. Einnig má geta þess að Stjórnarráðið hefur hafið undirbúning að því að sameina vefþjónustu ráðuneytanna sem mundi m.a. stuðla að bættu aðgengi að upplýsingum um starf þeirra.

     2.      Hvenær er von á reglugerð ráðherra skv. 4. mgr. 13. gr. laganna, m.a. um hvernig birtingu upplýsinga til almennings um starfsemi stjórnvalda skuli hagað og hvernig unnið skuli að því að gera málaskrár, lista yfir málsgögn og gögnin sjálf aðgengileg á vef?

    Unnið hefur verið að því í ráðuneytinu að kanna hvernig framfylgja megi 13. gr. laganna að þessu leyti. Fjölmargar spurningar hafa vaknað um hvort lagarammi birtingar upplýsinga, sem yrðu að einhverju marki persónugreinanlegar, sé nógu skýr eða hvort nauðsynlegt kunni að vera að skýra lagarammann frekar, um fjármögnun verkefnisins og nánari útfærslu. Rekstrarfélag Stjórnarráðsins hefur gert lauslega athugun á kostnaði við að hanna forrit sem mundi spegla málaskrár ráðuneytanna á vefinn. Sá kostnaður er talinn nema 10 millj. kr. en ljóst er að umtalsverður viðbótarkostnaður mundi bætast við vegna vinnu við að afmá persónuupplýsingar sem leynt eiga að fara.
    Þá hefur ráðuneytið kynnt sér starf Norðmanna á þessu sviði, en vefurinn oep.no þykir hvað fremstur í heiminum að þessu leyti.
    Í skoðun er að fara af stað með tilraunaverkefni á þessu sviði. Er það þó háð því að fjármögnun sé tryggð. Ramminn yrði mótaður í umræddri reglugerð. Ekki liggur því fyrir á þessu stigi hvenær reglugerð verður gefin út.