Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 616. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 1293  —  616. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um frestun verkfallsaðgerða
Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair ehf.

Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Óumdeilt er að verkfallsaðgerðir Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair ehf. hafa mikil og víðtæk samfélagsleg áhrif, ekki síst á ferðaþjónustu og fyrirtæki sem tengjast henni, en líka á inn- og útflutning og ferðir almennings til og frá landinu. Verkföll hafa yfirleitt áhrif á þriðja aðila og á það við um verkfallsaðgerðir flugvirkja hjá Icelandair ehf. eins og aðrar verkfallsaðgerðir. Víðtæk neikvæð áhrif á mannlíf og atvinnulíf eru óhjákvæmileg afleiðing verkfalla og verkföllum er beinlínis ætlað að hafa áhrif á samfélagið í því skyni. Slík áhrif þurfa því að vera mjög alvarleg og ógna ótvíræðum almannahagsmunum til að unnt sé að réttlæta lagasetningu.
    Minni hlutinn leggur ríka áherslu á að samningsréttur launamanna er varinn í 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og telur ótvírætt að mjög þung rök þurfi fyrir því að grípa inn í hann með lagasetningu. Það er á ábyrgð samningsaðila að ná samningum. Ef þeir bregðast því hlutverki hefur ríkissáttasemjari samkvæmt lögum ýmsar leiðir til að knýja á um niðurstöðu. Æskilegt væri að slíkar leiðir væru fullnýttar áður en kæmi til inngripa löggjafans. Í þessu máli er þó ljóst að mikið ber á milli og ekki hefur því verið unnt að leggja fram sáttatillögu.
    Við sérstakar aðstæður, þegar um einstaka kjaradeilu er að ræða sem hefur mjög víðtæk áhrif og bil milli aðila er óbrúanlegt, geta inngrip löggjafans komið til álita. Slík réttlæting hefur í ýmsum tilvikum verið talin vera fyrir hendi, en þá hefur ávallt verið um að ræða einstakar deilur sem hafa ekki verið í samhengi við heildstæða kjaramálastefnu á vinnumarkaði. Hér er hins vegar um þriðju lagasetninguna á þremur mánuðum á verkfallsaðgerðir í samgöngum þannig að lagasetning er hætt að heyra til undantekninga.
    Dómstólar hafa ekki hafnað því að löggjafinn grípi inn í kjaradeilu, svo fremi sem ríkir almannahagsmunir eru í húfi eða efnahagsleg vá vofir yfir. Í því sambandi er rétt að vísa til dóms Hæstaréttar í máli ASÍ gegn ríkinu nr. 167/2002 þar sem fram kemur að dómstólar gera ríkar kröfur um skilgreiningu almannahagsmuna og afgerandi rökstuðning til að slík inngrip geti talist réttlætanleg og m.a. er þar vísað ítarlega til lögskýringargagna. Vissulega er erfitt að bera saman sjómannaverkfallið 2001 og þær verkfallsaðgerðir sem nú hafa verið boðaðar en í samtali fulltrúa ASÍ við minni hluta nefndarinnar frammi á gangi kom þó fram að fulltrúi sambandsins taldi ólíklegt að þetta frumvarp stæðist þá sáttmála sem íslenska ríkið er aðili að, m.a. reglur Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, og að frumvarpið væri því líklega brot á 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
    Minni hlutinn lýsir áhyggjum af því að hér sé um endurtekna lagasetningu að ræða án stefnu af hálfu ríkisstjórnar sem mun veikja verkfallsréttinn til frambúðar og rjúfa frið á vinnumarkaði. Ef viðsemjendur eru farnir að líta á setningu laga á verkfallsaðgerðir sem eðlileg inngrip er hætt við því að litlir hvatar séu til að ná samningum með hefðbundnum hætti. Það er hið alvarlega í málinu nú. Það er ekki hægt að láta lagasetningu á verkföll, trekk í trekk, koma í stað kjaramálastefnu af hálfu stjórnvalda. Óvíst er hvaða afleiðingar það kann að hafa á almennt ástand á vinnumarkaði.

Alþingi, 18. júní 2014.

Katrín Júlíusdóttir,
frsm.
Katrín Jakobsdóttir. Páll Valur Björnsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson.