Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 571. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 1295  —  571. mál.
Leiðréttur texti.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Júlíusdóttur
um lokun Kristínarhúss og úrræði fyrir einstaklinga í vændi.


     1.      Hverjar telur ráðherra vera afleiðingarnar af lokun Kristínarhúss?
    Lögregla og félagsþjónusta virðast ekki finna fyrir lokun Kristínarhúss vegna brotaþola í vændiskaupamálum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var sjaldan með mál þar sem Kristínarhús var notað. Félagsþjónusturnar í Reykjanesbæ, Kópavogi, Hafnarfirði og á Akureyri fundu ekki fyrir lokun hússins en Reykjavíkurborg taldi missi að úrræðinu. Ekki er þó vitað til þess að félagsþjónustan hafi komið fórnarlömbum vændis í Kristínarhús. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum kom nokkrum meintum fórnarlömbum mansals fyrir í Kristínarhúsi meðan á meðferð mála stóð hjá embættinu. Kvennaathvarfið fann ekki fyrir lokun Kristínarhúss og ekki varð fjölgun í athvarfinu í kjölfarið.
    Rétt er að taka fram að í ársskýrslum Stígamóta er ekki skilgreint hvort konurnar sem dvöldu í Kristínarhúsi hafi verið fórnarlömb mansals eða vændis, enda oft óljós mörk þar á milli. Lokun Kristínarhúss hefur líklega einkum haft áhrif á vinnslu mansalsmála. Þegar ekki er lengur fyrir hendi öruggt skjól fyrir mansalsfórnarlömb er erfitt fyrir lögreglu og félagsþjónustu að vinna traust fórnarlambanna sem getur bæði haft skaðleg áhrif á rannsókn máls og bata fórnarlambs.
    Unnið er að því á vegum ráðuneytisins að tryggja að samstarfsaðilar ráðuneytisins í mansalsmálum geti boðið fórnarlömbum mansals örugga neyðarvistun, ráðgjöf og stuðning auk meira varanlegra úrræða svo ljúka megi rannsókn mála og tryggja velferð fórnarlamba. Mikilvægt er að huga þar að báðum kynjum.

     2.      Hvaða úrræði hafa einstaklingar sem vilja losna úr vændi?
    Þeim sem vilja losna úr vændi stendur til boða félagsleg ráðgjöf, sérstök ráðgjöf hjá Stígamótum, vímuefnameðferð og athvarf.
    Félagsþjónusta sveitarfélaga býður upp á félagslega ráðgjöf sem hefur það að markmiði að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar. Félagsráðgjafar og aðrir sérfræðingar hjá sveitarfélögum geta veitt brotaþolum í vændiskaupamálum og öðrum sem stunda vændi félagslega ráðgjöf, beint einstaklingum til annarra eftir þjónustu og verið í samstarfi við aðra þjónustuaðila. Ef í ljós kemur að brotaþoli hefur barn eða börn í umsjá sinni eru aðstæður barns ævinlega kannaðar og málum vísað, eftir atvikum, til barnaverndaryfirvalda.
    Stígamót veita hér eftir sem hingað til ráðgjöf og bjóða upp á sjálfshjálparhópa fyrir einstaklinga sem vilja losna úr vændi. Þá hafa samtökin boðist til að hafa samræmingarhlutverk í málum einstaklinga sem vilja losna úr vændi.
    Svo virðist sem vændi á Íslandi sé töluvert tengt fíkniefnaviðskiptum. Þjónusta meðferðarstofnana ríkisins, svo sem á vegum Landspítala og SÁÁ, stendur fíkniefnaneytendum til boða. Innlögn og eftirmeðferð getur því verið fyrsta skrefið til að komast úr vændi.
    Kvennaathvarfið stendur öllum konum opið og brotaþolar vændis eru velkomnir í húsið.

     3.      Telur ráðherra að tryggja þurfi stuðning hins opinbera til að hjálpa einstaklingum að losna úr vændi og ef svo er, hver ætti sá stuðningur að vera?
    Vændi er flókið viðfangsefni. Góð og öflug velferðarþjónusta, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga, er ein af mikilvægustu forsendum þess að koma megi í veg fyrir vændi. Fíkniefnasala og önnur afbrot tengjast vændi. Einnig neysla fíkniefna. Fátækt kann einnig að liggja að baki því að fólk leiðist út í vændi. Svarið við því hver stuðningurinn ætti að vera er ekki einfalt en forvarnir skipta miklu.
    Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóranum hefur orðið umtalsverð aukning á fjölda skráðra brota gegn 206. gr. almennra hegningarlaga, eins og sést í töflu 1, en greinin fjallar um kaup á vændi. Tölurnar sýna fjölda brota sem komið hafa á borð embættisins vegna refsiverðs athæfis; brotaþolar vændiskaupamála eru ekki meðtaldir. Hér er um að ræða öll brot sem skráð voru hjá embættinu á tilteknu tímabili. Athygli vekur mikil fjölgun mála 2013 en það ár var gert átak í að upplýsa vændiskaup á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.

Tafla 1. Fjöldi skráðra brota gegn 206. gr.
almennra hegningarlaga.

Ár Fjöldi mála
2010 37
2011 13
2012 24
2013 175*
Samtals 249
*Bráðabirgðatölur

    Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur komið að málum 30 einstaklinga sem hafa verið skilgreindir sem brotaþolar í vændiskaupamálum á tímabilinu 2011 til apríl 2014. Í töflum 2 og 3 má sjá fjölda og kyn brotaþola en þeir eru greindir út frá ríkisfangi í töflu 2 og aldursdreifingu í töflu 3, á fjögurra ára tímabili.

Tafla 2. Fjöldi brotaþola í vændiskaupamálum
hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.

Íslendingar Erlendir ríkisborgarar Fjöldi
Konur 11 12 23
Karlar 7 0 7
Samtals 18 12 30


Tafla 3. Aldur brotaþola í vændiskaupamálum
hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.

20 ára og yngri 21–29 ára 30 ára og eldri Fjöldi
Konur 4 7 10 21
Karlar 3 2 2 7
Samtals 7 9 12 28
    Til að koma megi í veg fyrir vændi þurfa fjölþætt úrræði að vera í boði og þverfaglegt samstarf félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, meðferðarstofnana, lögreglu, frjálsra félagasamtaka og annarra sem koma að málum. Í svörum Reykjavíkurborgar telja félagsráðgjafar sig skorta sérfræðiþekkingu á málefninu og gætu sveitarfélög beitt sér fyrir því að efla þekkingu starfsmanna á þessu sviði. Sama gæti átt við um heilbrigðisþjónustuna. Einnig kemur til greina að efla samstarf opinberrar velferðarþjónustu við frjáls félagasamtök.
    Í ljósi fjölda skráðra brota gegn 206. gr. hegningarlaga er mikilvægt að allir sem veita félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu, þar með taldir starfsmenn meðferðarstofnana, hafi augun opin gagnvart því að þjónustuþegi geti verið brotaþoli. Ríkt samstarf milli félags- og heilbrigðisþjónustu er grundvöllur þess að árangur náist í vinnu með einstaklinga sem eiga við þennan sértæka og viðkvæma vanda að etja. Auk þess þarf samstarf við félagasamtök eins og Stígamót, Kvennaathvarf, SÁÁ og fleiri að vera til staðar svo að hægt sé að vinna málin áfram. Löggæslan leikur hér stórt hlutverk og mikilvægt að efla samstarf velferðarþjónustu og löggæslu. Samstarf innan stjórnsýslunnar á sviði mansalsmála hefur reynst vel og fjalla fjölmörg ákvæði í aðgerðaáætlun ríkisstjórnar Íslands um aðgerðir gegn mansali um það.
    Að lokum er rétt að nefna að félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra munu á næstu dögum undirrita sameiginlega yfirlýsingu um samstarf gegn hvers konar ofbeldi og felur samstarfið meðal annars í sér bætt vinnubrögð við rannsókn ofbeldismála.