Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 594. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1297  —  594. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni
um lánamál ríkissjóðs og vaxtagjöld.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á stefnu í lánamálum ríkissjóðs á næstu árum?
     2.      Hvaða þættir liggja til grundvallar skiptingu milli erlendrar og innlendrar lánsfjármögnunar?
     3.      Hver eru áætluð heildarvaxtagjöld af lánum ríkisins árin 2014–2017?
    Óskað er eftir sundurliðun á vaxtagjöldum ríkissjóðs fyrir árin 2010–2013, byggðri á ríkisreikningi og bráðabirgðauppgjöri 2013, þar sem fram komi sundurliðun eftir langtíma- og skammtímafjármögnun auk erlendrar og innlendrar fjármögnunar.


    Svar við 1. tölul.
    Stefna í lánamálum til næstu fjögurra ára er endurskoðuð og birt árlega. Stefna í lánamálum 2013–2016 var birt á fyrsta ársfjórðungi 2013, unnið er að uppfærslu fyrir stefnu 2014–2017. Síðustu árin hafa ekki verið gerðar grundvallarbreytingar á stefnunni, helstu viðmið eins og um samsetningu lánasafns, endurgreiðslur, uppbyggingu markflokka og þróun skuldahlutfalls hafa haldist nær óbreytt. Meginmarkmið við stýringu á lánum ríkissjóðs eru:
     a.      Að tryggja að lánsfjárþörf og fjárhagslegum skuldbindingum ríkissjóðs sé mætt með lágmarkskostnaði til lengri tíma litið, að teknu tilliti til varfærinnar áhættustefnu.
     b.      Að tryggja að endurgreiðsluferill lána sé í samræmi við greiðslugetu ríkisins til lengri tíma litið og lágmarki endurfjármögnunaráhættu.
     c.      Að viðhalda og stuðla að frekari uppbyggingu á skilvirkum frum- og eftirmarkaði með innlend ríkisverðbréf.
     d.      Að höfða til breiðs hóps fjárfesta í ríkisverðbréfum og nýta fjölbreytta fjármögnunarmöguleika.

    Svar við 2. tölul.
    Í árslok 2014 er gert ráð fyrir því að innlendar skuldir verði um 75% af lánasafni og erlendar skuldir 25%. Lán ríkissjóðs í erlendum gjaldmiðlum eru tekin til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands en ekki til að fjármagna rekstur ríkissjóðs.
    Stefna varðandi lánsfjármögnun í erlendum gjaldmiðlum miðast við að viðhalda reglubundnum aðgangi að alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum og stuðla að aðgengi að fjölbreyttum hópi fjárfesta. Í því skyni er stefnt að reglubundinni útgáfu markaðsskuldabréfa ríkissjóðs á erlendum mörkuðum. Megintilgangur þessara áforma er að endurfjármagna útistandandi markaðsskuldabréf og lán sem tengjast efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Reglubundinni útgáfu skuldabréfa á alþjóðlegum mörkuðum er enn fremur ætlað að auka vitund fjárfesta um ríkissjóð Íslands sem útgefanda.

    Svar við 3. tölul.
    Í fjárlögum er birt áætlun um vaxtagjöld komandi árs. Helstu forsendur áætlana um vaxtagjöld á næstu árum byggjast á þjóðhagsspá Hagstofunnar. Það á m.a. við um spár um stýrivexti, verðbólgu og gengi. Áætlanir um þróun erlendra vaxta byggjast á spám Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um vexti í evrum og Bandaríkjadollar. Ekki er gert ráð fyrir aukningu skulda á næstu árum. Vaxtakostnaður mun þó að óbreyttu aukast, einkum vegna spár um hækkandi vexti bæði innan lands og erlendis. Í ríkisfjármálaáætlun sem birt er samhliða fjárlögum kemur fram áætlun vaxtagjalda til næstu fjögurra ára.
    Samkvæmt þeirri áætlun sem birt var með fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2014 sl. haust voru áætluð vaxtagjöld eftirfarandi:
          2014 76,0 ma.kr.
          2015 80,2 ma.kr.
          2016 86,1 ma.kr.
          2017 89,3 ma.kr.
    Sundurliðun á vaxtagjöldum ríkissjóðs fyrir árin 2010–2013 er eftirfarandi:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Nú er unnið að endurmati á vaxtagjöldum ríkissjóðs fyrir árin 2015–2016 í tengslum við gerð frumvarps til fjárlaga fyrir 2015. Meðal þess sem áhrif hefur á vaxtagjöld komandi ára er þróun á skuldum ríkissjóðs, sem ræðst ekki síst af afkomunni á komandi árum, erlendar skuldir, sem m.a. eru ákvarðaðar með tilliti til stöðu þjóðarbúsins og framgangi vinnu við afnám fjármagnshafta, ásamt almennu vaxtastigi hérlendis og erlendis.